Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2006 Vesturgata

Ár 2007, fimmtudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2006, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 vegna framkvæmda við húsið að Vesturgötu 3 í Reykjavík. 

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. maí 2006, er barst nefndinni hinn 1. júní sama ár, kærir S, Fischersundi 3, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 vegna framkvæmda við húsið að Vesturgötu 3 í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 22. mars 2006 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 10. mars 2006, og bréf Steins Öfjörðs, dags. 15. mars 2006, vegna hæðarmælinga hússins að Vesturgötu 3.  Jafnframt var lagt fram minnisblað byggingarfulltrúa, dags. 22. mars 2006.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Frestað.  Skipulagsráð fer fram á að aðalhönnuður afhendi skriflegar útskýringar á rangri hæðarmælingu hússins innan 10 daga frá móttöku bréfs þar um.“  Á fundi skipulagsráðs hinn 12. apríl 2006 var málið tekið fyrir að nýju og var þá eftirfarfandi fært til bókar:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 10. mars s.l., og bréf Steins Öfjörðs dags. 15. mars s.l., vegna hæðarmælinga í húsinu.  Jafnframt lagt fram minnisblað byggingarfulltrúa dags. 22. mars 2006 og minnisblað skipulags- og byggingarsviðs dags. 7. apríl 2006.

Skipulagsráð samþykkti minnisblað skipulags- og byggingarsviðs og bókaði:  Fyrir liggur að þak hússins nr. 3 við Vesturgötu er um það bil 30 cm. hærra en deiliskipulagsáætlun gerði ráð fyrir. Fram kemur í minnisblaði skipulags- og byggingarsviðs frá 7. apríl s.l., að aukin skuggi vegna hækkunarinnar er óverulegur og nánast ómælanlegur. Sama á við um yfirbragð hússins á nágrennið. Í því ljósi og með vísan til meginreglna meðalhófsreglu stjórnsýslulaga gerir skipulagsráð Reykjavíkur ekki kröfu til þess á þessari stundu að þak hússins skuli lækkað. Jafnframt felur ráðið byggingarfulltrúa að leggja fram greinargerð um ábyrgð aðalhönnuðar og byggingarstjóra á þeim mistökum sem augljóslega eru á verkinu þannig að ráðið geti tekið ákvörðun um hvort beita eigi þá viðeigandi viðurlögum sbr. ákvæði í gr. 211 og 212 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.“  Var kæranda tilkynnt um bókun skipulagsráðs með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. maí 2006, ásamt uppplýsingum um kærustjórnvald og kærufrest.  Hefur kærandi kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hin raunverulega hækkun hússins að Vesturgötu 3 sé 60 cm en ekki 30 cm líkt og haldið sé fram af hálfu byggingarfulltrúa.  Þá skipti ekki máli hvort skuggavarp vegna hækkunarinnar sé verulegt eða óverulegt eins og haldið sé fram heldur það að um sé að ræða verulega hækkun á friðuðu húsi umfram heimildir.  Hið sama eigi við um fullyrðingar embættisins um að yfirbragð hússins.  Flokki byggingarfulltrúi það undir íþyngjandi aðgerðir að sjá til þess að byggt sé samkvæmt samþykktum teikningum og útgefnum leyfum sé vandséð að hann uppfylli þær skyldur sem á embætti hans hvíli.  Varðandi viðurlög vegna brota þeirra sem um sé að ræða sé vísað til ákvæða 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem og 60. gr. sömu laga. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð bókun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 í tilefni framkvæmda við húsið að Vestugötu 3, m.a. ranga þakhæð þess.  Umrædd bókun felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls, þvert á móti var tekið fram að  skipulagsráð gerði ekki kröfu til þess þá að þak hússins að Vesturgötu 3 skyldi lækkað og var byggingarfulltrúa falin áframhaldandi vinna vegna málsins.  Meint ákvörðun sem kærð er í máli þessu sætir því ekki kæru samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 _____________________________                   ______________________________
 Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson