Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2002 Hólmaslóð

Ár 2004, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2002, kæra leigutaka húsnæðis að Hólmaslóð 4, Reykjavík vegna höfnunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur á að taka til afgreiðslu kæru á hendur arkitekt. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 8. ágúst 2002, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir G, f.h. Nuddskóla G ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. júlí 2002 þess efnis að hafna kröfu hans um að taka til afgreiðslu kæru á hendur Þormóði Sveinssyni arkitekt. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 16. júlí 2002.

Kærandi krefst þess að ákvörðun skipulags- og bygginganefndar verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndin óskaði hinn 15. september 2003 eftir því við skipulags- og byggingarnefnd að nefndin lýsti viðhorfum sínum til kærunnar og léti úrskurðarnefndinni í té gögn er verið gætu til upplýsingar við úrlausn málsins.  Engin gögn bárust og því var hinn 22. júlí 2004 óskað eftir því að afhent yrði hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar ásamt kæru til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 12. apríl 2002, bréfi arkitekts til nefndarinnar, dags. 2. júlí 2002, og bréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. júlí 2002.  Telur úrskurðarnefndin sjónarmið skipulags- og byggingarnefndar nægilega reifuð í framangreindum gögnum og málið í heild sinni því tækt til úrskurðar. 

Málavextir:  Í maí árið 2000 tók Þormóður Sveinsson arkitekt að sér gerð aðaluppdrátta vegna breytinga á húsnæði sem kærandi hafði tekið á leigu vegna starfsemi sinnar að Hólmaslóð 4 í Reykjavík. 

Framkvæmdir hófust vegna innréttingabreytinga í júlímánuði árið 2000 og hinn 29. ágúst sama ár var fyrirspurn arkitektsins til byggingaryfirvalda vegna breytinga á húsnæðinu tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd.  Húsnæði það sem hér um ræðir er á hafnarsvæði og því þurfti að liggja fyrir samþykki hafnarstjórnar svo unnt væri að samþykkja aðra starfsemi í húsinu en þá sem hafnsækin væri, svo sem við á í þessu tilviki.  Hafnarstjórn lagðist gegn breytingunum og var fyrirspurninni því hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. september 2000.  Ný umsögn hafnarstjóra barst byggingarfulltrúa hinn 23. nóvember 2000 þar sem fram kom að hafnarstjórn gerði ekki athugasemdir við starfsemi kæranda í húsnæðinu til bráðabirgða eða fram til 31. maí 2001. 

Með bréfi, dags. 2. apríl 2002, kærði kærandi máls þessa arkitektinn til skipulags- og byggingarnefndar með vísan til 58. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 211. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, vegna starfa hans í þágu kæranda. 

Skipulags- og byggingarnefnd tók kæruna til afgreiðslu hinn 10. júlí 2002 og hafnaði kröfum hans um að nefndin beitti fyrrgreindum heimildum.

Framangreinda afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sætti kærandi sig ekki við og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kæru sína á því að ráðgjöf og vinnubrögð arkitektsins honum til handa hafi verið ófagleg og því hafi skipulags- og byggingarnefnd borið að fallast á kröfu hans um að úrræðum 58. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 211. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 yrði beitt gagnvart arkitektinum.  Fyrir liggi m.a. að arkitektinn hafi ekki kannað afstöðu hafnaryfirvalda til fyrirætlana kæranda og að hann hafi tekið ákvörðun um að iðnaðarmenn mættu hefja störf í húsnæðinu án þess að heimildir byggingaryfirvalda stæðu til þess.  Þá hafi og arkitektinn lagt fram fyrirspurnarblað í stað fullgildrar byggingarleyfisumsóknar og þar að auki hafi verið gerðar veigamiklar athugasemdir við teiknivinnu hans. 

Á grundvelli þess sem hér að ofan er rakið telur kærandi að arkitektinn hafi gerst svo brotlegur í starfi að tilefni hafi verið til að beita úrræði 58. gr. skipulag- og byggingarlaga, sbr. 211. gr. byggingarreglugerðar.  Samkvæmt þeim ákvæðum getur byggingarnefnd veitt hönnuði áminningu leggi hann fram hönnunargögn sem brjóti gegn ákvæðum laganna, reglugerð eða skipulagsáætlunum. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Byggingarfulltrúi bendir á að hinn 28. nóvember 2000 hafi fyrirspyrjanda verið veitt jákvætt svar vegna fyrirspurnarinnar en henni hafi ekki verið fylgt eftir með byggingarleyfisumsókn.  Þá hafi komið fram í kæru kæranda til skipulags- og byggingarnefndar að honum hafi við undirritun leigusamnings vegna húsnæðisins verið fullkunnugt um að afla þyrfti samþykkis hafnarstjórnar. 

Þá telur byggingarfulltrúi að fyrirspurn arkitektsins til skipulags- og byggingarnefndar hafi verið varfærin og til þess fallin að lágmarka kostnað kæranda.  Með framlagningu fyrirspurnarinnar hafi á engan hátt verið brotið gegn ákvæðum 58. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Önnur atriði er fram komi í kæru varði einkaréttarlegan ágreining og sé skipulags- og byggingarnefnd óviðkomandi. 

Mótmæli kæranda við sjónarmiðum byggingarfulltrúa og frekari rök hans:  Kærandi mótmælir í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar rökum byggingarfulltrúa sem lögð voru til grundvallar ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar og færir í kærunni fram frekari rök til stuðnings kröfu sinni.  Verða þau ekki frekar rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um hvort fella beri úr gildi synjun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur á erindi um að nefndin beiti arkitekt, er tók að sér að vinna verk fyrir kæranda, viðurlögum samkvæmt 58. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 211. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Samkvæmt 58. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur byggingarnefnd veitt hönnuði, sem fengið hefur löggildingu skv. 48. eða 49. gr. laganna, áminningu leggi hann fram hönnunargögn sem brjóta gegn ákvæðum laganna, byggingarreglugerð eða skipulagsáætlunum.  Séu brot alvarleg eða ítrekuð getur nefndin óskað eftir því að ráðherra svipti hlutaðeigandi hönnuð löggildingu.  Ákvæðið veitir tilgreindu stjórnvaldi heimild til þess að beita viðurlögum og er það alfarið á valdi stjórnvaldsins að meta, á málefnalegan hátt, hvort beita eigi þeim samkvæmt ákvæðinu í tilteknu tilviki.  Eiga einstakir borgarar eða lögaðilar ekki aðild að ákvörðun um beitingu þessara viðurlaga og er skipulags- og byggingarnefnd ekki skylt að verða við kröfu um beitingu viðurlaga jafnvel þótt slík krafa sé sett fram af aðila, sem tengist máli á þann hátt sem um er að ræða í hinu kærða tilviki.  Var skipulags- og byggingarnefnd ekki skylt að verða við kröfu kæranda og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar sem og dráttar vegna gagnaöflunar.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. júlí 2002 um að hafna kröfu kæranda um að taka til afgreiðslu kæru á hendur Þormóði Sveinssyni arkitekt. 
 

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________         _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ingibjörg Ingvadóttir