Ár 1999, miðvikudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 42/1999; kæra nágranna á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. júní 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar, hvað varðar Fjarðargötu 19, og byggingarnefndar Hafnarfjarðar og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 21. júlí og 6. ágúst 1999 um að veita leyfi til að byggja nýbyggingu á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. ágúst 1999, sem barst nefndinni 7. sama mánaðar, kæra 16 íbúar og eigendur fasteigna við Austurgötu, Fjarðargötu og Strandgötu í Hafnarfirði, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. júní 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar varðandi lóðina nr. 19 við Fjarðargötu í Hafnarfirði. Með bréfi til úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 1999, reifa kærendur kröfur sínar og málsástæður nánar og krefjast þess að hinar kærðu samþykktir, um breytingu á deiliskipulagi og útgáfu byggingarleyfis, verði felldar úr gildi. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 1. september 1999, gerir S, Austurgötu 42, Hafnarfirði þá kröfu f.h. kærenda að framkvæmdir við byggingu húss að Fjarðargötu 19 verði stöðvaðar. Um kæruheimild vísast til 8. gr. og 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.
Málavextir: Hinn 9. apríl 1999 birtist auglýsing í Lögbirtingablaðinu um tillögu að breytingu á deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær, hvað varðar Fjarðargötu 19. Vísað var til 26. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 37/1997 og tekið fram að breytingin fælist í því að grunnflötur (og lögun) fyrirhugaðrar byggingar á Fjarðargötu 19 stækkaði úr 420 fermetrum í 600 fermetra og húshæð væri breytt úr 2 hæðum og risi í 3 hæðir. Ekki verður annað ráðið en að tillaga þessi hafi hlotið lögboðna meðferð og var deiliskipulagsbreytingin samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 29. júní 1999 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 20. júlí 1999. Hinn 6. ágúst 1999 veitti byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði, í umboði byggingarnefndar, leyfi fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19 samkvæmt teikningum sem gerðar höfðu verið á grundvelli hins breytta deiliskipulags. Hófust framkvæmdir við jarðvinnu á lóðinni í framhaldi af útgáfu leyfisins. Hefur verið unnið að byggingu bílakjallara undir nýbyggingunni og frágangi á undirstöðum hússins og er þeim verkþáttum að mestu lokið. Þegar krafa kærenda um stöðvun framkvæmda kom fram, var leitað afstöðu byggingarnefndar til kröfunnar, en jafnframt var byggingarleyfishafa gefinn kostur á að koma að andmælum við kröfunni. Barst umsögn byggingarfulltrúa, f.h. byggingarnefndar, um kröfuna með bréfi, dags. 6. september 1999, og andmæli byggingarleyfishafa í bréfi hinn 14. sama mánaðar. Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.
Málsrök kærenda: Kærendur byggja kröfur sínar í málinu á eftirtöldum málsástæðum:
1. Að grenndarkynningu hafi verið áfátt.
2. Að ekki sé fullnægt kröfum um bílastæði fyrir nýbygginguna.
3. Að formaður skipulags- og umhverfisnefndar Hafnarfjarðar hafi verið vanhæfur við meðferð málsins í nefndinni, svo og að um vanhæfi nefndarmanns í byggingarnefnd hafi verið að ræða.
4. Varðandi kröfu um stöðvun framkvæmda vísa kærendur sérstaklega til greinar 209.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.
Allar framangreindar málsástæður eru reifaðar nánar í bréfum kærenda til nefndarinnar.
Málsrök byggingarnefndar: Af hálfu byggingarnefndar er vísað til þess að hin kærða ákvörðun nefndarinnar sé í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins svo sem því hafi verið breytt með ákvörðun bæjarstjórnar 29. júní 1999. Deiliskipulag svæðisins sé að stofni til frá 1983 og sé í skipulaginu gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja 60 fermetra í verslunar- og þjónustuhúsnæði, og einu stæði fyrir hverja íbúð. Vísar byggingarnefnd til greinar 64 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem segi að um fjölda bílastæða sé kveðið á í deiliskipulagi.
Málsrök byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að efnisatriði kærunnar beinist að skipulags- og byggingaryfirvöldum í Hafnarfirði og sé þeim svarað af þeirra hálfu. Hafi byggingarleyfishafi farið í öllu eftir gildandi skipulags- og byggingarreglugerðum við undirbúning og hönnun hússins að Fjarðargötu 19. Um meint vanhæfi annars byggingaraðila hússins, sem sæti á í byggingarnefnd Hafnarfjarðar, er tekið fram að hann hafi vikið sæti þegar fjallað hafi verið um umsókn um byggingarleyfi að Fjarðargötu 19 í nefndinni.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið var í apríl síðastliðnum auglýst breyting á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar og tók breytingin til lóðarinnar nr. 19 við Fjarðargötu. Breytingin var auglýst og kynnt í samræmi við ákvæði 1. mgr. 26. greinar laga nr. 73/1997, en sætti ekki meðferð samkvæmt 7. mgr. 43. gr. sbr. 2. mgr. 26. greinar sömu laga, sem fjalla um minniháttar breytingu á deiliskipulagi að undangenginni grenndarkynningu. Sú málsástæða kærenda að grenndarkynningu hafi verið áfátt á því ekki við í málinu en í kynningu á tillögunni, sem fram fór samkvæmt auglýsingu, voru m.a. sýndir deiliskipulagsuppdrættir svæðisins fyrir og eftir auglýsta breytingu. Kynningarfundur með nágrönnum var haldinn, umfram það sem lögskylt er, og hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins hvaða gögn voru kynnt sérstaklega á þeim fundi. Er það álit úrskurðarnefndarinnar að kynning umræddrar breytingar á deiliskipulagi hafi fullnægt ákvæðum greinar 5.5. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um form og efni. Þá liggur fyrir að Skipulagsstofnun yfirfór tillöguna og samþykkti að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda með tilteknum lagfæringum á uppdráttum, sem gerðar voru.
Við mat á því hverjar kröfur um bílastæði eigi að gera vegna hinnar umdeildu nýbyggingar verður að líta til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er almennt ekki gert ráð fyrir því að bílastæðum sé ætlaður staður á lóðum einstakra húsa á svæðinu norðan Lækjargötu og vestan Strandgötu heldur er þeim komið fyrir á opnum svæðum í eigu bæjarins. Slíkt fyrirkomulag er heimilt að ákveða í deiliskipulagi og verður ekki talið að með samþykkt umdeildrar nýbyggingar hafi, svo augljóst sé, verið gengið gegn ákvæðum skipulagsreglugerðar eða skilmálum gildandi deiliskipulags. Verður ákvörðun um stöðvun framkvæmda því ekki reist á þessum ástæðum, en úrskurðarnefndin mun við efnisúrskurð í málinu taka afstöðu til þess hvaða áhrif aukið byggingarmagn á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu kunni að hafa á kröfur um fjölda bílastæða miðbæjarsvæðisins og að hvaða marki líta beri til ákvæða skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 við ákvörðun um fjölda stæða á svæðinu.
Ekki verður heldur fallist á að vanhæfi nefndarmanns eða nefndarmanna leiði hér sjálfstætt til þess að fallast beri á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, en nánar verður fjallað um þá málsástæðu kærenda í efnisúrskurði.
Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu kærenda um að framkvæmdir við nýbyggingu að Fjarðargötu 19 í Hafnarfirði verði stöðvaðar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við nýbyggingu að Fjarðargötu 19 í Hafnarfirði verði stöðvaðar.