Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2024 Brekadalur

Árið 2024, föstudaginn 3. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. apríl 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Brekadals 7, Reykjanesbæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að „byggingarlínu verði breytt að bindandi línu samkvæmt deiliskipulagi“. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar-nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 11. apríl 2024.

Málavextir: Lóðarhafi Brekadals 5 sendi fyrirspurn til Reykjanesbæjar 25. nóvember 2022 vegna lóðar sinnar. Kom þar fram að fyrirhuguð væri nýbygging fyrir einbýli og að fyrirspurnin gengi út á að kanna grundvöll fyrir 14,0 m breiðu húsi að hluta, en byggingarreiturinn væri 10,0 m á breidd og 24,0 m á lengd. Skyggni og svalir færu 1,5 m út fyrir 14,0 m breiddina. Tók lóðarhafi fram að fordæmi væru fyrir breiðari húsum við sömu götu og væri Brekadalur 9 t.a.m. einnig 14 m breitt hús fyrir utan svalir og skyggni sem færi 2,8 m út fyrir 14 m breiddina.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. desember s.á. var erindi kæranda um breikkun á byggingarreit um 4 m samþykkt og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 3. janúar 2023. Kom fram í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs að allir byggingarreitir þeirra húsa sem risið hafi við þessa röð hafi verið breikkaðir um 2–4 m og í ljósi þess fordæmis væri erindið samþykkt.

 Lóðarhafi sendi fyrirspurn til Reykjanesbæjar 30. júlí 2023 þar sem kannaður var grundvöllur fyrir útfærslu byggingar sem samkvæmt fyrirspurnarteikningu, dags. 25. s.m., átti að vera 15,5 m á breidd. Kom fram í fyrirspurn lóðarhafa að eldri fyrirspurn hefði þegar verið sam­þykkt, þar sem fjallað hafi verið um breiðara hús en byggingarreitur segði til um, vegna þess að önnur hús í götunni væru flest einnig breiðari en tilgreindur byggingarreitur. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 18. ágúst 2023 var erindi lóðarhafa um breikkun á byggingarreit úr 10 m í 15,5 m hafnað og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 22. ágúst 2023.

 Með bréfi dags. 28. ágúst 2023 var kærendum, með vísan til 5. mgr. 13. gr., 2. mgr. 43. gr. og 1.–2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, grenndarkynnt breyting á deiliskipulagi fyrir Brekadal 5 þar sem fram kom að óskað væri eftir stækkun á byggingarreit þannig að byggingar­reiturinn yrði 14 m að breidd í stað 10 m. Kærendur mótmæltu breytingunni með bréfi, dags. 1. september s.á., þar sem breytingin hefði áhrif á birtu á lóð þeirra.

Af tölvupóstsamskiptum milli  sveitarfélagsins og lóðarhafa í september 2023 virðist sem fallið hafi verið frá hinum grenndarkynntu áformum, en lóðarhafa bent á að „aðlaga bygginguna að því sem samþykkt var áður [og þá] væri hægt að afgreiða byggingarleyfisumsókn byggða á fyrri afgreiðslu.“

Ný umsókn lóðarhafa, dags. 5. janúar 2024, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. febrúar s.á. Kom þar fram að sótt hefði verið um byggingarleyfi í umfangsflokki II fyrir ein­býlis­húsi á tveimur hæðum með innbyggðri bílgeymslu á efri hæð. Stækkun byggingarreits hafi verið samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. desember 2022. Í fundargerð kom fram að erindinu væri vísað til skipulagsráðs þar sem grenndarkynning væri runnin úr gildi. Var lóðarhafa tilkynnt um það með bréfi, dags. 9. s.m. Jafnframt kom fram á fundinum að niðurstaða afgreiðslufundar byggingarfulltrúa fæli í sér samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Umsókn lóðarhafa var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. mars 2024 og segir í fundargerð þess fundar að byggingaráform séu samþykkt og að erindið uppfylli gildandi skipulagsskilmála. Var lóðarhafa tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi dags. sama dag og kom þar aftur fram að niðurstaða á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa fæli í sér samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2016.

Kærendum var tilkynnt með tölvubréfi 8. mars 2024 að erindi um breytingu á byggingarreit yrði tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. mars s.á. og yrði þar farið yfir þær athugasemdir sem borist hefðu við grenndarkynningu. Af fundargerð ráðsins verður ekki ráðið að málið hafi verið tekið fyrir á þeim fundi.

Byggingarleyfi vegna byggingar einbýlishúss að Brekadal nr. 5 samkvæmt aðaluppdráttum, dags. 11. janúar 2024, var gefið út 26. mars s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að Reykjanesbær hafi ekki gætt að lögum og reglum er ákvörðun hafi verið tekin um að víkja frá gildandi deiliskipulagi. Svo virðist sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt byggingaráform og vísað þar í ákvörðun sem tekin hafi verið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. mars. 2022. Á þeim fundi hafi komið fram að allir byggingarreitir húsa sem risið hafi við þessa röð hafi verið breikkaðir um 2–4 m og í ljósi þess fordæmis sé erindið um stækkun á byggingarreit samþykkt. Kærendur mótmæli þessu sem röngu, enda hafi allar lóðirnar við Brekadal, þ.e. nr. 1, 3, 7, 11 og 13, fylgt bindandi byggingarlínu í 15 m í austri, nema lóð nr. 9 þar sem hún nái einum metra austar. Breikkun lóða sé í flestum tilvikum til vesturs sem hafi ekki áhrif á skuggamyndun nærliggjandi húsa. Hér sé færsla um 2 m til austurs sem myndi skugga á lóð kærenda. Bókun fundarins um að byggingaráformin uppfylli gildandi skipulagsskilmála sé því röng.

Þá geti byggingarfulltrúi ekki vikið frá gildandi deiliskipulagi nema að gættu ákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Svo virðist ekki hafa verið hafa verið gert hér enda sé vísað í ákvörðun sem tekin hafi verið áður en grenndarkynning hafi farið fram 28. ágúst 2023. Þannig hafi verið litið fram hjá athugasemdum kærenda og þær ekki hafa fengið efnislega meðferð. Auk þess virðist málið ekki hafa fengið eðlilega málsmeðferð þar sem hvorki samþykki umhverfis- og skipulagsráðs né bæjarstjórnar liggi fyrir en byggingarleyfi hafi engu að síður verið gefið út og teikningar samþykktar.

Hin kærða ákvörðun brjóti gegn rétti kærenda. Ákvæði deiliskipulags um bindandi byggingar­línu í austri hafi verið sett til að tryggja birtuskilyrði við næstu lóð þar sem lóðirnar séu þröngar og byggingarreitur aðeins 10 m á breidd. Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga beri við útgáfu byggingarleyfis að tryggja að hagsmunir nágranna skerðist í engu m.a. varðandi skuggavarp.

Samkvæmt þeim teikningum af Brekadal 5 sem birtar hafi verið á vef Reykjanesbæjar 9. mars 2024 hefur línan verið færð um tvo metra austur fyrir bindandi byggingarlínu og valdi því verulega meiri skugga á verönd kærenda í vestur en útreikningar hafi sýnt við byggingu fasteignar kærenda, enda hafi þar verið hafðar til hliðsjónar þær reglur sem settar hafi verið í deiliskipulagi svæðisins og á lóðarblöðum. Samþykktar teikningar á vef Reykjanesbæjar séu einnig breyttar frá þeim teikningum er fylgt hafi í bréfi Reykjanesbæjar um grenndarkynningu 28. ágúst 2023. Búið sé að bæta skorsteinsvegg við sem sé hærri en leyfileg hámarkshæð byggingar skv. deiliskipulagi, þ.e. 4,3 m. Óásættanlegt sé að byggingarlína Brekadals 5 sé flutt um tvo metra að lóð kærenda til austurs með þeirri viðbótar skuggamyndun sem það valdi.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu Reykjanesbæjar er tekið fram að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið vönduð og vel rökstudd og byggi á ítarlegum gögnum. Við með­ferð og afgreiðslu málsins hafi sveitarfélagið farið eftir skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Að mati sveitarfélagsins hafi ekkert komið fram sem dragi lögmæti ákvörðunarinnar í efa og að fyrirliggjandi gögn séu gild og í samræmi við lög og faglega stjórn­sýslu. Sveitarstjórn sé bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem feli m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Ekkert sé fram komið í málinu sem bendi til þess að stefnt sé að öðru en lögmætum markmiðum. Því sé hafnað að ákvörðunin sé ekki í samræmi við deiliskipulag og önnur fordæmi í sömu götu, allir byggingarreitir sem skráðir séu á oddatölu hafi fengið sambærilega meðferð, þar sem ljóst hafi verið að byggingarreitir hafi verið áætlaðir litlir.

Ef kærendur vilji bera fyrir sig að skuggavarp hafi áhrif á aðliggjandi lóðir þurfi að sýna fram á það með þar til gerðum gögnum, en kærendur hafi ekki sýnt fram á að stækkunin hafi áhrif á lóð þeirra með öðru en orði á blaði. Því geti kærendur ekki byggt rökstuðning sinn á skugga­varpi, þar sem ekki séu til nein gögn um skuggavarp á lóð nr. 7. Sveitarfélagið telji ekki að slík gögn séu þörf vegna sinnar ákvörðunartöku þar sem málið sé afgreitt líkt og fordæmi eru um vegna annarra lóða í götunni og að kærendur hafi ekki sýnt fram á það að skuggavarp sé í raun og veru til staðar.

Samkvæmt samþykktu lóðar/mæliblaði ætti gólfkóti Brekadals 7 að vera +11,80 m en gólfkóti fasteignar kærenda sé hins vegar +11,40 m, sem sé 40 cm neðar en ætlað hafi verið, án þess að fyrir liggi að sveitarfélagið hafi sett þá kvöð á lóð þeirra. Þar af leiðandi sé lóðin neðar en húsið sem áætlað sé að byggt verði austan megin við lóð kærenda, þ.e. lóð nr. 5 við Brekadal.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að ekkert í kæru eigi við rök að styðjast og að öllum fullyrðingum sem þar komi fram sé hafnað sem röngum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi vegna einbýlishúss á tveimur hæðum með innbyggðri bílgeymslu á efri hæð að Brekadal 5, Reykjanesbæ. Eru kærendur eigendur næstu lóðar, Brekadals 7, og eiga kæruaðild að máli þessu vegna grenndar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Verður því einungis tekin afstaða til ógildingarkröfu kærenda, en ekki verður tekin afstaða til varakröfu kærenda að „byggingar­línu verði breytt að bindandi línu samkvæmt deiliskipulagi“.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Dalshverfis 1. áfanga frá árinu 2005. Hefur deiliskipulaginu verið breytt alloft, en engin breyting vegna Brekadals 5 hefur verið birt í B-deild Stjórnar­tíðinda. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins segir í kaflanum „Byggingar“ að byggingar­reitir séu sýndir á mæliblöðum og skilmálateikningum og skuli byggingar standa innan þeirra. Þó megi einstaka minniháttar byggingarhlutar, svo sem þakskegg, skyggni og gluggafrágangur skaga út fyrir byggingarreit samkvæmt sérákvæðum húsagerða. Byggingarreitir séu sýndir með brotnum línum og heilum þykkum línum, byggingarlínum. Byggingarlína, þ.e. heil og þykk lína, ákvarði staðsetningu húss á lóð og sé bindandi, þótt gera megi ráð fyrir minni háttar innskotum samkvæmt sérákvæðum skulu hús fylgja byggingarlínu.

Sérskilmálar um svokölluð „I einbýlishús“ eru í gildi samkvæmt deiliskipulaginu fyrir odda­tölur Brekadals, þ.e. lóðarnúmerin 1–13. Er þar fjallað um byggingarreiti og þau ákvæði sem fram koma í almennum skilmálum um að byggingar skuli standa innan byggingarreita, en að minniháttar byggingarhlutar megi skaga út fyrir reitinn. Þar kemur einnig fram að þess skuli gætt að byggingarhlutar utan byggingarreits séu sem fyrirferðarminnstir og rýri ekki heildar-yfirbragð. Á skipulagsuppdrætti má sjá að byggingarreitur og byggingarlínur falla saman þar sem þær er að finna.

Samkvæmt 11. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða hvorki byggingar­áform samþykkt né byggingarleyfi gefið út nema mannvirki sé í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði.

Áritaðir uppdrættir vegna Brekadals 5 sýna að byggingarreitur sé 14,0 m á breidd og fer húsið þar með bæði út fyrir byggingarreit og byggingarlínu deiliskipulags til austurs. Þá fara hlutar hússins einnig út fyrir byggingarreit til vesturs. Eru hin samþykktu byggingaráform ekki í samræmi við deiliskipulag hvað þetta varðar, sem telja verður til verulegs annmarka á hinni kærðu ákvörðun.

Hvað varðar sjónarmið leyfishafa um fordæmi má benda á að deiliskipulagi Dalshverfis 1. áfanga var breytt sérstaklega vegna Brekadals 9 með samþykkt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 20. september 2017 á þann veg að byggingarreitur stækkaði um 2 m. Birtist auglýsing þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 19. október s.á. Að öðru leyti þykir rétt að taka fram að tilvísun til jafnræðissjónarmiða geta ekki skapað réttmætar væntingar þess efnis að farið sé gegn lögum, óháð því hvort slíkt hafi viðgengist áður.

Verður í ljósi alls framangreinds að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ.