Árið 2014, mánudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 41/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja leyfi til að reisa fimm kvisti og fjölga herbergjum í þakrými um fjögur í húsinu nr. 17 við Bakkaveg í Reykjanesbæ.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra vegna, ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa fimm kvisti á þak og innrétta fjögur herbergi í þakrými í húsinu að Bakkavegi 17 í Reykjanesbæ. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. janúar 2014, sem barst sama dag, kæra sömu aðilar jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 23. janúar 2014 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta bílskúr að Bakkavegi 17 í eitt lagnaherbergi og eitt gistiherbergi og setja tvo glugga í stað bílskúrshurðar. Jafnframt að færa móttöku og stækka anddyri og að breyta herbergi við núverandi anddyri í setustofu.
Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málin séu til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þá er gerð krafa um að notkun gistirýmis í þeim hluta hússins sem ekki hafi fengið samþykki byggingarfulltrúa verði stöðvuð. Verður síðara kærumálið, sem er númer 6/2014, sameinað máli nr. 41/2013 enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 14. og 21. maí 2013, og 19. mars, 2. apríl og 24. júní 2014. Þá liggja fyrir í málinu gögn, er borist höfðu 15. febrúar 2013, vegna kæru til nefndarinnar frá sömu aðilum sem síðar var afturkölluð.
Málavextir: Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár voru árið 1999 reist einbýlishús og bílskúr á lóðinni nr. 17 við Bakkaveg. Liggur umrædd lóð fremst við austurenda lokaðrar götu og eru þar fjögur önnur hús. Árið 2010 samþykkti Reykjanesbær, að lokinni grenndarkynningu, stækkun umræddrar lóðar sem og byggingarreits á lóðinni. Í nóvember það ár sóttu lóðarhafar að Bakkavegi 17 um leyfi til að reisa 294,6 m² viðbyggingu undir atvinnustarfsemi við hús sitt og hinn 25. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi leyfi til að reisa nýtt gistiheimili á umræddri lóð. Kærði lóðarhafi að Bakkavegi 20 þá afgreiðslu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Hinn 10. maí 2011 gerðu kærendur, Reykjanesbær og lóðarhafar að Bakkavegi 17 með sér samkomulag vegna hins útgefna leyfis fyrir gistiheimili er fól m.a. í sér að gerðar yrðu nánar tilgreindar ráðstafanir til að draga úr umferð í götunni vegna þessara breytinga. Þá var tekið fram að kæra vegna málsins yrði afturkölluð. Í júní 2011 samþykkti byggingarfulltrúi leyfi fyrir tveimur herbergjum á millipalli í þakrými og stiga upp í herbergin. Með umsókn, dags. 25. nóvember 2011, fór lóðarhafi Bakkavegar 17 fram á stækkun viðbyggingar um 172,4 m², þannig að stærð hennar yrði eftir breytinguna 467,0 m². Var á fundi samráðsnefndar byggingarfulltrúa hinn 29. s.m. samþykkt að grenndarkynna umsóknina. Fram kemur í fundargerð nefndarinnar að sótt sé um leyfi til að breyta innra skipulagi á heimagistingu að Bakkavegi 17. Um sé að ræða breytingu á þaki þar sem settir séu fimm kvistir og fjórum herbergjum bætt við í risi. Komu kærendur á framfæri athugasemdum við grenndarkynningu og á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 15. febrúar 2012 var framkvæmdastjóra falið að skoða málið frekar með tilliti til áhrifa á næsta nágrenni. Var samþykkt að málið yrði tekið aftur upp á haustmánuðum. Í framhaldi af því var settur upp umferðargreinir ofan Bakkavegar í um mánaðartíma um sumarið svo og í vikutíma í september s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 21. nóvember 2012 og fært til bókar að tekið væri vel í erindið en að nauðsynlegt væri að skoða breytingar á skipulagi áður en endanleg afgreiðsla færi fram. Jafnframt var framkvæmdastjóra sviðsins falið að skoða hvort atriði þau er tiltekin hefðu verið í samkomulagi frá maí 2011 við íbúa götunnar hefðu ekki verið uppfyllt.
Umsóknin var tekin fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 9. janúar 2013. Lágu fyrir fundinum gögn vegna áðurnefndrar umferðarmælingar og minnisblað frá verkfræðistofu um skipulag svæðisins. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð umsótta breytingu en bókaði jafnframt að frekari framkvæmdir yrðu ekki leyfðar án undangenginna skipulagsbreytinga. Fundargerð ráðsins var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar hinn 15. janúar s.á. og samþykkt. Hinn 1. febrúar 2013 samþykkti byggingarfulltrúi téða umsókn og var byggingarleyfi gefið út 5. s.m. Skutu kærendur ákvörðun umhverfis- og skipulagslagsráðs til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með bréfi, dags. 5. febrúar 2013. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 15. febrúar s.á. var samþykkt að fella úr gildi fyrrgreint byggingarleyfi og grenndarkynna málið að nýju og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. Umsóknin var kynnt nágrönnum með bréfi, dags. 27. febrúar 2013, og veittur frestur til 2. apríl s.á. til að gera athugasemdir. Var tekið fram við kynningu að um væri að ræða endurtekningu á grenndarkynningu í ljósi þeirra athugasemda sem fram hefðu komið við meðferð málsins og þar sem borist hefðu viðbótargögn um umfang starfseminnar, þ.e. greining á umferð og minnisblað verkfræðistofu um skipulag svæðisins, sem og upplýsingar um sorphirðu og skipulag ferða flugrútu. Einnig var tilgreint að þegar hefðu verið settir kvistir á þak viðbyggingar en að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar þar til bæjarstjórn tæki málið til endanlegrar afgreiðslu. Kærendur afturkölluðu kæru sína til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. mars 2013. Með bréfi, dags, 31. s.m., komu kærendur á framfæri athugasemdum sínum við kynntar framkvæmdir og töldu m.a. að í gögnum er fylgdu grenndarkynningu væru settar fram ýmsar rangfærslur.
Erindið var tekið fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 10. apríl 2013 og samþykkt. Þá var jafnframt fært til bókar að tryggja yrði, með samráði við alla íbúa Bakkavegar, að ónæði yrði sem minnst við þessar breytingar. Einnig skyldi stuðlað að því að umferð stórra ökutækja yrði í lágmarki upp Bakkaveginn, t.d. með merkingum, og einnig væri möguleiki á að gatan yrði gerð að vistgötu. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi hinn 16. s.m. Hinn 17. apríl 2013 gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi að nýju á grundvelli fyrri ákvörðunar hinn 1. febrúar 2013 um samþykki byggingarleyfisumsóknar vegna Bakkavegar 17, matshluta 02.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 23. janúar 2014 var lögð fram umsókn um breytingar á bílskúr Bakkavegar 17. Var um að ræða að bílskúr yrði innréttaður sem lagnaherbergi og eitt gistiherbergi og bílskúrshurð tekin burt og tveir gluggar settir í staðinn. Þá var óskað heimildar til að færa móttöku, að anddyri yrði stækkað og að einu herbergi í núverandi anddyri yrði breytt í setustofu. Var umsóknin afgreidd með eftirfarandi bókun: „Einu herbergi er bætt við og öðru breytt í setustofu þannig er engin aukning á gistiherbergjum. Að mati byggingarfulltrúa er þetta minniháttar breyting sem hefur engin áhrif á nánasta umhverfi. Samþykkt“. Fundargerð byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 12. febrúar 2014 og samþykkti bæjarstjórn þá fundargerð á fundi hinn 18. s.m.
Hafa kærendur kært ofangreindar afgreiðslur byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að þegar viðbygging að Bakkavegi 17 hafi verið grenndarkynnt hafi ekki komið fram að til stæði að starfrækja þar gistiheimili. Hafi starfsmaður Reykjanesbæjar staðfest skriflega að slíkt stæði ekki til, þrátt fyrir teikningar er sýnt hafi annað, en þær teikningar hafi ekki fylgt með grenndarkynningu. Vegna þessa hafi málið tafist úr hófi og að lokum hafi aðilar málsins gert með sér samkomulag, enda ljóst að of seint væri að stöðva framkvæmdirnar án þess að götumyndin hlyti af því verulegan skaða. Hafi íbúar götunnar aldrei fallist á að reist yrði gistiheimili að Bakkavegi 17, enda hafi það aldrei verið grenndarkynnt.
Við grenndarkynningu hafi kærendur bent á að um talsvert umfangsmikinn rekstur væri að ræða sem samkvæmt aðalskipulagi væri á íbúðarsvæði. Yrði með breytingunni 36% aukning á gistirýmum í húsinu. Með heimilaðri stækkun muni umferð í götunni enn aukast, m.a. vegna hópferðabifreiða, vöruflutninga og aukinnar sorphirðu, sem hafi verulegt ónæði í för með sér fyrir íbúa götunnar og skerði umferðaröryggi í götunni. Verulegur skortur sé á bílastæðum við húsið. Einnig sé ónæði frá gangandi ferðamönnum.
Kærendur hafi jafnframt bent á að ýmsar rangfærslur væru í þeim gögnum er fylgt hefðu grenndarkynningu, svo sem upplýsingar um sorphirðu og fólksflutninga. Umferðarmæling hafi sýnt fram á aukningu umferðar stórra bíla um götuna en ábendingum kærenda um það hafi verið hafnað á þeim forsendum að eigandi gistiheimilisins segði það ekki vandamál. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa götunnar vegna mælinganna eða tekið tillit til athugasemda þeirra um umferð. Ekki sé ljóst hvernig taka eigi upplýsta ákvörðun á grundvelli mælinganna en ekki hafi legið fyrir mælingar um umferðarþunga áður en starfsemi hafi hafist í gistiheimilinu.
Í minnisblaði frá verkfræðistofu er liggi fyrir í málinu hafi m.a. verið talið að umrætt gistiheimili væri í samræmi við byggðamynstur og að fjölbreytt íbúðarbyggð væri á svæðinu. Bendi kærendur á að gistiheimilið sé langtum stærsta húsið í hverfinu. Rangt sé að lóðin sé mjög stór og nýtingarhlutfall því ekki umfram það sem sé á öðrum lóðum. Viðbyggingin standi út fyrir merktan byggingarreit lóðarinnar og séu allar hliðar hússins nærri lóðarmörkum. Vísi kærendur til skipulagsreglugerðar um íbúðarsvæði en þar segi að þar skuli fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði og sé vikið frá þeirri meginreglu sé það vegna starfsemi sem eðlileg sé til þjónustu við íbúa hverfisins. Svo sé alls ekki í máli þessu.
Ekki hafi verið staðið við samkomulag er aðilar hafi gert árið 2011. Málið hafi ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt eða gætt að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Hafi kærendur ekki fengið réttláta málsmeðferð hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar. Settar hafi verið fram rangfærslur, látið hjá líða að svara erindum kærenda eða þeim svarað með órökstuddum hætti og skort hafi á samráð. Framkvæmd grenndarkynningar hafi verið andstæð lögum, teikningar ekki verið í samræmi við núverandi útlit hússins og ósamræmi verið milli texta grenndarkynningar og teikninga. Með réttu hafi átt að rífa umrædda kvisti þegar byggingarleyfið hafi verið afturkallað og hefja málið frá grunni.
Þá sé bent á vegna breytinga á bílskúr að kærendur hafi á árinu 2013 kvartað við umhverfis- og skipulagsráð yfir framkvæmdum í bílskúrnum. Hafi svo virst sem bæta ætti við gistirými þar en kærendur hafi margsinnis bent á að þau væru því algerlega mótfallin. Hafi því verið svarað að svo stæði ekki til en síðar hafi verið haldinn fundur með aðilum málsins þar sem komið hefði fram að rangt hefði verið með farið og að ætlunin væri að breyta bílskúrnum í geymslu, en því hefðu kærendur alfarið hafnað.
Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið bendir á að hinar kærðu ákvarðanir byggi á afgreiðslu tveggja stjórnsýslustiga. Byggi umsýsla og afgreiðsla erinda vegna Bakkavegar 17 á hlutleysi og bestu vitund, með tilliti til þeirra gagna sem fram hafa komið í málinu og þeirrar reynslu sem nú sé komin á starfsemina frá því að hún hafi hafist á vordögum 2012. Hafi umhverfis- og skipulagsráð fjallað um og tekið tillit til framkominna athugasemda, en málinu hafi verið frestað á árinu 2012 til nánari eftirgrennslunar og til að fá reynslu af starfseminni. Ljóst sé að tafir á framkvæmdum vegna vinnslu málsins hafi komið eigendum gistiheimilisins illa. Ekki verði séð að neitt hafi komið fram sem kalli á endurskoðun eða upptöku málsins eða afturköllun á útgefnu byggingarleyfi 17. apríl 2013. Þá sé bent á að á öllum teikningum sem kærendur hafi fengið til umfjöllunar sé notkun mannvirkisins skilgreind sem gistiheimili, líkt og í samkomulagi frá árinu 2011.
Vegna framkvæmda við bílskúr sé tekið fram að um minniháttar framkvæmd sé að ræða sem feli ekki í sér aukin umsvif í starfsemi Hótel Bergs. Breytingin feli eingöngu í sér tilfærslu rýma og breytingu á notkun þeirra en ekki fjölgun gistirýma og aukin umsvif. Færist bílastæði sem verið hafi framan við svonefnda bílgeymslu á stæðið vestan við húsið og þannig fjær nágrönnum og skapi því síður ónæði.
Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi tekur fram að í málsrökum kærenda séu settar fram fjölmargar rangfærslur. Bent sé á að reynt hafi verið að breyta tilhögun sorphirðu en samkomulag við Gámafélagið sé þannig að reynt sé að haga losun hjá byggingarleyfishafa miðað við dagatal sorphirðu annarra húsa í götunni. Þá hafi verið samið um að ekki yrðu notaðir eins stórir bílar við sorphirðu. Hafi í athugasemdum nágranna verið notast við almennt dagatal fyrir sorphirðu fyrirtækja og ekki tekið tillit til sérsamnings við losunaraðila.
Samkomulag hafi verið gert við fyrirtækið Kynnisferðir um að taka tillit til annarra íbúa götunnar og að rúturnar yrðu stöðvaðar niður við smábátahöfn. Þá hafi bílstjórum þeirra verið gert að aka ekki upp götuna en mistök geti orðið, einkum þegar byggingarleyfishafar séu ekki meðvitaðir um að von sé á rútu. Rútuferðir um götuna séu mjög sjaldgæfar. Í flestum tilfellum séu vörur sóttar og sé sá háttur hafður á af tillitssemi við nágranna. Flutningabílar frá Mjólkursamsölunni komi u.þ.b. tvisvar í mánuði og frá Vífilfelli einu sinni í mánuði.
Umferðarmælingar árið 2012 hafi verið framkvæmdar á háannatíma til að fá rétta mynd af því hvernig umferðin væri þá. Umferð um götuna sé hins vegar lítil. Tvö bílastæði séu fyrir framan viðbygginguna og stundum sé of mörgum bílum lagt þar.
Því sé mótmælt að mikil umferðahljóð eða ónæði frá gangandi vegfarendum séu vegna reksturs gistiheimilisins en einnig sé þarna gata og vinsæl gönguleið. Hafi umferð minnkað vegna þeirra lagfæringa sem gerðar hafi verið í kjölfar samkomulags sem gert hafi verið milli aðila málsins.
Þá sé tekið fram að fjölskylda lóðarhafa sé stór og ekki sé óalgengt að 5-7 bifreiðar séu á Bakkaveginum á vegum fjölskyldunnar. Loks sé bent á að lóðin að Bakkavegi 20 sé ógirt og því ekkert sem komi í veg fyrir að fólk geti gengið upp að húsinu. Varla sé að sakast við lóðarhafa Bakkavegar 17 vegna þessa.
Athugasemdir kærenda við málsrökum Reykjanesbæjar: Því er mótmælt að málið hafi fengið hlutlausa umfjöllun. Hafi kærendur verið leyndir sannleikanum þar til of seint hafi verið að snúa ferlinu við án fjárhagslegs skaða fyrir eigendur Bakkavegar 17. Þá sé vísað til þess að kærendur hafi ítrekað bent á óleyfisframkvæmdir í öðrum hlutum hússins. Sé gistireksturinn nú í einnig í þeim hluta hússins sem ætlað sé sem íbúðarhúsnæði. Aldrei hafi verið sótt um leyfi fyrir því, það ekki kynnt fyrir íbúum og því staðfastlega neitað af bænum, en á fundi sem kærendur hafi átt nýlega með lóðarhafa Bakkavegar 17 og starfsmanni umhverfis- og skipulagssviðs hafi verið staðfest að íbúðarhlutinn sé nú notaður sem gistiheimili. Lítið hafi verið gert úr athugasemdum kærenda og þær taldar snúast aðallega um umferð. Þá hafi ákvörðunin ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti þrátt fyrir fjölmargar athugasemdir kærenda. Hvorki umhverfis- og skipulagsráð né bæjarráð hafi veitt formlegt leyfi fyrir notkun Bakkavegar 17 sem gistiheimili og því telji kærendur allan slíkan rekstur í húsinu ólöglegan.
——
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á tveimur ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ. Annars vegar um að veita leyfi til að reisa fimm kvisti og innrétta fjögur herbergi í þakrými viðbyggingar hússins að Bakkavegi 17 og hins vegar um að heimila m.a. breytta notkun og breytt útlit bílskúrs á lóðinni.
Í gildi er Aðalskipulag Reykjanesbæjar 2008-2024 og er lóðin að Bakkavegi 17 á íbúðar-svæði, nánar tiltekið á svonefndu þéttingarsvæði fyrir Grófina-Berg. Við töku hinna kærðu ákvarðana var ekki í gildi deiliskipulag fyrir það svæði.
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segir hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd, sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.
Bakkavegur er nokkur hundruð metra löng botngata. Byggt er við austurenda götunnar og er lóðin að Bakkavegi 17 þar fremst. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár var reist einbýlishús með bílskúr á lóðinni árið 1999, alls 267,9 m². Að auki er skráð á lóðinni 312,8 m² gistihús. Einnig standa innar í götunni fjögur íbúðarhús og eru kærendur búsettir í þremur þeirra. Á svæðinu er einnig byggt við hluta Bergvegar sem liggur í um 150 m fjarlægð norðan við Bakkaveg. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá eru þar 16 íbúðarhúsalóðir, 14 þeirra eru byggðar einbýlishúsum, ein er óbyggð og ein byggð tvíbýlis-húsi. Þá er þar að finna eina iðnaðar- og athafnalóð sem byggð er einbýlishúsi. Smábátahöfn liggur sunnan byggðarinnar við Bakkaveg og er þar að finna safnhús, kaffihús og ferða-þjónustu.
Líkt og rakið hefur verið var árið 2010 heimilað að reisa viðbyggingu við húsið að Bakkavegi 17 fyrir nýtt gistiheimili, alls 294,6 m². Samþykkt var fjölgun gistirýma um tvö í júní 2011 og í ágúst sama ár gaf Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja út starfsleyfi fyrir heimagistingu með allt að 16 rúmum að Bakkavegi 17. Fram kemur á samþykktum teikningum byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2013, að um sé að ræða gistirými með alls 15 herbergjum við einbýlishúsið að Bakkavegi 17 og að sótt sé um leyfi til að fjölga herbergjum í þakrými um fjögur og reisa kvisti. Samkvæmt skráningartöflu, samþykktri af byggingarfulltrúa sama dag, er flatarmál gistirýmis hússins 458 m². Við stækkunina fer nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,44 í 0,55, miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá og skráningartöflu hins samþykkta byggingarleyfis. Nýtingarhlutfall annarra lóða við Bakkaveg er hæst 0,39 miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá. Nýtt starfsleyfi til að „starfrækja Hótel Berg“ var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hinn 6. maí 2013.
Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarbyggð skilgreint sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu, eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins, sbr. a.-lið gr. 6.2. Samkvæmt gr. 5.3.2.8. í reglugerðinni skal gæta þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis. Rekstur gisti-heimila hefur verið talinn rúmast innan heimilda nefndra reglugerðarákvæða, með þeim takmörkunum sem þar eru greind, en ætla má að með auknu umfangi umræddrar starfsemi fylgi aukin umferð, umgangur og hávaði, sem og aukið álag á bílastæði í götunni.
Þegar litið er til umfangs umrædds gistirekstrar, staðhátta eins og þeim er áður lýst, þess að gert er ráð fyrir því í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 að byggingu hverfisins Bergsins verði lokið með einnar til tveggja hæða sérbýlishúsum á um fimmtán lóðum, sem og til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bakkavegi 17 er farið að skera sig töluvert úr því sem gerist á næstu lóðum og er orðið um 40% umfram það sem hæst er annars staðar, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undanþáguákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.
Þá telur úrskurðarnefndin að eins og á stóð hafi ekki verið heimild til að beita ákvæði 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga og falla frá grenndarkynningu við veitingu leyfis fyrir breyttri notkun bílskúrs. Slík breyting getur snert hagsmuni annarra en umsækjanda leyfis, enda í raun um að ræða fækkun bílastæða á lóð. Af gögnum málsins verður og ráðið að fyrir lá afstaða kærenda um að breytingar á bílskúr gætu varðað hagsmuni þeirra.
Samkvæmt framansögðu skorti lagaskilyrði fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna umsókn byggingarleyfishafa um gerð fimm kvista og fjölgun herbergja um fjögur í þakrými,
sem og fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna ekki breytingar á bílskúr. Leiða þessir ágallar til þess að ógilda ber hinar kærðu ákvarðanir.
Vegna kröfu kærenda er lýtur að stöðvun notkunar á gistirými, er ekki hafi hlotið samþykki byggingarfulltrúa, skal á það bent að hún er háð eftirliti byggingarfulltrúa og fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjaness frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja leyfi til að reisa fimm kvisti og fjölga herbergjum í þakrými um fjögur í húsinu nr. 17 við Bakkaveg í Reykjanesbæ.
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjaness frá 23. janúar 2014 um að heimila breytingar á notkun og útliti bílskúrs að Bakkavegi 17.
____________________________
Nanna Magnadóttir
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson