Árið 2012, fimmtudaginn 1. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 41/2011, kæra á samþykkt bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 1. júní 2011 um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 að Reykjamörk í Hveragerði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni 15. júní 2011, kærir J, Reykjamörk 14, Hveragerði, samþykkt bæjarráðs um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 við Reykjamörk sem samþykkt voru á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar 1. júní 2011.
Málsatvik og rök: Íbúðarlóðin Reykjamörk 11 er nú óbyggð, en íbúðarhús er þar stóð var rifið í kjölfar jarðskjálfta árið 2008. Í maímánuði 2011 sendi skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar íbúum í nágrenni nefndrar lóðar bréf þar sem kynnt voru áform bæjaryfirvalda um að nota lóðina til skamms tíma sem garð til almenningsnota. Í kjölfarið andmælti kærandi þessum áformum. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 1. júní 2011 og var þar samþykkt að vinna áfram að greindu verkefni. Skaut kærandi þeirri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Af hálfu kæranda er vísað til þess að umdeild breyting á notkun lóðarinnar Reykjamörk 11 sé ólögmæt. Lóðin standi andspænis lóð kæranda að Reykjamörk 14 og óttist hann grenndaráhrif sem breytingin muni hafa í för með sér. Vænta megi ónæðis vegna hópamyndana að kvöld- og næturlagi og þá sérstaklega um helgar með tilheyrandi háreysti. Þá séu einu bílastæðin næst lóðinni staðsett við lóð kæranda og lóðina nr. 16 við Reykjamörk.
Bæjaryfirvöld Hveragerðisbæjar benda á að kynningarbréf sem kærandi hafi fengið hafi ekki verið eiginleg grenndarkynning í skilningi skipulagslaga. Hins vegar hafi þótt rétt að fá fram athugasemdir nágranna við áformum um nýtingu umræddrar lóðar, sem einungis skyldi vera til bráðabirgða. Ef í ljós kæmi að áformum um nýtingu lóðarinnar fylgdi röskun eða truflanir á högum þeirra væri unnt að gera ráðstafanir til að koma til móts við þá. Vegna athugasemda kæranda hafi verið fallið frá fyrri hugmyndum um að nýta lóðina til útivistar fyrir aldraða og verði ekki séð að kærandi muni verða fyrir auknu ónæði vegna úrbóta á umræddri lóð. Ekki liggi fyrir hvort ráðist verði í umdeildar framkvæmdir sem hafi verið til þess fallnar að bæta útlit lóðarinnar þar til byggt yrði á henni að nýju.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, sættu stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds.
Í máli þessu eru kærð samþykkt bæjarráðs Hveragerðisbæjar um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 við Reykjamörk. Hins vegar liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun bæjaryfirvalda samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki nr. 160/2010 um framkvæmd verkefnisins. Telst hin kærða samþykkt því ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé úrskurðarnefndarinnar og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson