Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2012 Bankastræti

Árið 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 um að veita leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins á lóð nr. 12 við Bankastræti í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. maí 2012, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir B, Skólavörðustíg 4C, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 að veita leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins á lóð nr. 12 við Bankastræti. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að fjarlægja óleyfisbyggingarnar.  Til vara krefst kærandi þess að umsóknin verði tekin til afgreiðslu á nýjan leik.  Að auki krefst kærandi greiðslu málskostnaðar. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 14. ágúst 2012. 

Málavextir:  Í byrjun ágúst 2011 sendi kærandi byggingarfulltrúa fyrirspurn þess efnis hvort veitt hefði verið byggingarleyfi fyrir stórum viðarstrúktúrum, svölum, tröppum o.fl. sem byggðir hefðu verið í porti sunnan við veitingastaðinn Prikið að Bankastræti 12, og þá til hvaða starfsemi það leyfi næði, en eins og sæist af myndum neyttu gestir staðarins áfengis á svölunum og í portinu eftir klukkan 22 á kvöldin.  Svar byggingarfulltrúa barst hinn 9. s.m. þar sem fram kom að málið hefði verið skoðað og að greinilegt væri að byggt hefði verið út fyrir heimildir.  Aðspurður staðfesti kærandi við byggingarfulltrúa að óleyfisframkvæmdin ylli ónæði í nágrenninu. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð umrædds húss.  Var umsóknin tekin fyrir á ný á fundi hinn 22. s.m og er í fundargerð vísað til athugasemda eldvarnaeftirlits á umsóknarblaði.  Umsóknin var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. desember s.á. 

Kærandi ítrekaði erindi sitt til byggingarfulltrúa 30. nóvember 2011, sem og 3. janúar 2012.  Svar byggingarfulltrúa barst honum hinn 3. febrúar s.á. þar sem fram kom að leyfi fyrir framkvæmdinni hefði verið veitt hinn 6. desember 2011. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að þrátt fyrir að hann hafi gert alvarlegar athugasemdir við byggingar þær sem málið snúist um hafi byggingarfulltrúi ekki hirt um að upplýsa hann um gang málsins eða veita honum tækifæri til að tjá sig um framkvæmdirnar áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Þá sé það kyndug stjórnsýsla að blessa, að því er virðist án athugasemda, slíkar óleyfisframkvæmdir með því að veita leyfi fyrir áður gerðum framkvæmdum. 

Byggðar hafi verið svalir og tröppur út í port sunnan við húsið án heimildar byggingarfulltrúa og hafi þetta port þjónað sem viðbót við skemmtistaðinn og aukið hávaða og ónæði frá staðnum.  Notkun svalanna að nóttu hafi falist í að þar megi reykja utandyra en auk þess sé þar leyfð neysla áfengra drykkja sem sé skýlaust brot á lögum, reglugerðum og samþykktum um áfengisveitingar.  Með tilkomu svalanna hafi hávaðinn og ónæðið aukist enn frekar enda átt greiðari leið að húsi kæranda. 

Framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt þótt hún hafi í för með sér mikla breytingu á hljóðvist og lífsgæðum nágranna og feli í sér breytingu á notkun, þ.e. breytingu á porti í útiveitingastað.  Íbúar hafi ítrekað kvartað vegna hávaða sem leiði af fyrrgreindri notkun svalanna.  Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi ekki látið fara fram könnun eða mælingu á hljóðvist í nágrenni Bankastrætis 12 né látið skoða hvaða breytingar hafi orðið á henni.  Telja verði að samræmi eigi að vera í stjórnkerfinu hvað þetta varði en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, sem sé skylt að fjalla um mál tengd hljóðvist, hafi enga aðkomu átt að afgreiðslu málsins. 

Í deiliskipulagi svæðisins sé ekki að finna heimild fyrir viðbyggingu við Bankastræti 12 heldur einungis fyrir gerð stakrar byggingar fyrir aftan húsið.  Geti umræddar framkvæmdir ekki talist falla innan þeirrar heimildar.  Í deiliskipulaginu komi jafnframt fram að húsið sé byggt árið 1868 og að það sé háð þjóðminjalögum um allar breytingar á núverandi ástandi þess sökum aldurs.  Ekki hafi verið leitað álits Húsafriðunarnefndar á framkvæmdunum, hvorki áður en framkvæmdir hófust né áður en hið kærða leyfi var gefið út, og hafi því verið brotið gegn 6. gr. húsafriðunarlaga nr. 104/2001.  Þá segi í skipulaginu að lagt sé til í Húsverndarskrá Reykjavíkur að húsið njóti verndar vegna mikilvægis þess í götumynd Bankastrætis og Ingólfsstrætis.  Þeir viðarstrúktúrar sem reistir hafi verið stingi mjög í stúf við hið gamla hús og breyti götumynd, bæði frá Bankastræti og Ingólfsstræti. 

Þá bendi kærandi á þá miklu fjölgun skemmtistaða og bara í miðborginni sem orðið hafi á síðustu árum en sú þróun hafi óneitanlega skert lífsgæði íbúa svæðisins.  Með stefnu sinni í málefnum miðborgarinnar hafi borgaryfirvöld rýrt verðmæti fasteigna á svæðinu auk þess sem grenndarkynning hafi aðeins farið fram vegna örfárra fyrrnefndra staða og réttur íbúa til að tjá sig um nærumhverfi sitt því verið að engu hafður. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis enda séu umrædd mannvirki í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Í deiliskipulagi fyrir Laugavegs- og Skólavörðustígsreiti, reitur 1.171.2, sem samþykkt hafi verið hinn 10. ágúst 2002, sé gert ráð fyrir 400 m2 nýbyggingu, sem sé fjórar hæðir og kjallari, á baklóð Bankastrætis 12.  Rúmist hinar kærðu framkvæmdir vel innan þeirra heimilda og hafi því ekki borið að grenndarkynna umrædda byggingarleyfisumsókn. 

Hvað varði þá málsástæðu að leita hefði þurft álits húsafriðunarnefndar skuli á það bent að ekki hafi verið gerðar neinar breytingar á húsinu, heldur hafi aðeins verið um að ræða viðbyggingu, þ.e. svalir, sorpgerði og geymslu, í portinu.  Loks sé á það bent að engin leyfi hafi verið veitt fyrir útiveitingum á staðnum og því sé neysla áfengra drykkja óheimil utandyra.  Allar kvartanir vegna slíks heyri undir lögreglustjóra en ekki byggingarfulltrúa. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum  sínum  í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 8. ágúst 2013. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 8. maí 2012, eða rúmum þremur mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um útgáfu byggingarleyfisins.  Verður því að líta svo á að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.2, sem afmarkast af Bankastræti, Skólavörðustíg, Bergstaðastræti, Hallveigarstíg og Ingólfsstræti.  Samkvæmt deiliskipulaginu er heimilt að byggja fjögurra hæða hús með kjallara syðst á lóð nr. 12 við Bankastræti, á bak við núverandi hús.  Efsta hæð hússins skal vera inndregin frá Bankastræti.  Hið kærða byggingarleyfi veitir hins vegar leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og útisvölum úr timbri á baklóð hússins, með aðgengi út á svalirnar frá vínveitingastað í núverandi húsnæði á lóðinni.  Leyfi til byggingar svala, sem eru í beinum tengslum við og með aðgengi frá veitingastað, er til þess fallið að valda nágrönnum ónæði umfram það sem búast hefði mátt við samkvæmt gildandi deiliskipulagi, en ekki er að finna heimild fyrir slíkum mannvirkjum innan umrædds byggingarreits. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.  Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að hið kærða byggingarleyfi er í andstöðu við gildandi deiliskipulag og ber því að fella það úr gildi. 

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kæranda um málskostnað því ekki til álita. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins að Bankastræti 12. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson