Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2007 Heimsendi

Ár 2007, þriðjudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2007, kæra vegna gatnagerðarframkvæmda Kópavogsbæjar við Vatnsenda – Heimsenda í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. maí 2007, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Daníel Isebarn Ágústsson hdl., f.h. hestamannafélaganna Gusts og Andvara, gatnagerðarframkvæmdir Kópavogsbæjar við Vatnsenda – Heimsenda í Kópavogi.

Krefjast kærendur þess að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar og er jafnframt höfð uppi krafa um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Gögn og greinargerð vegna málsins hafa borist frá Kópavogsbæ auk þess sem kærendur hafa komið að athugasemdum við þá greinargerð.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2003 tók gildi deiliskipulag fyrir hesthúsasvæði við Vatnsenda – Heimsenda í Kópavogi.  Í skilmálum deiliskipulagsins er gert ráð fyrir að Kópavogs¬bær annist gerð og viðhald húsa- og þjónustugatna á svæðinu utan lóða og að veitulagnir verði lagðar í götur.  Nú er tillaga að breytingu á þessu skipulagi til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum Kópavogs.  Á haustdögum 2006 hófust framkvæmdir á svæðinu við gerð húsa- og þjónustugatna ásamt vinnu við veitulagnir.  Hafa kærendur nú kært greindar framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar. 

Benda kærendur á að auglýst hafi verið tillaga að breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Heimsenda við Kjóavelli í landi Kópavogs, þar sem fyrirhugað sé að hafa hesthúsasvæði kærenda í samræmi við samkomulag þar um.  Kærendur hafi mikla hagsmuni af því að svæðið í heild verði skipulagt í samráði við þá en svo hafi ekki verið gert.  Umdeildar framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og þar með háðar framkvæmdaleyfi samkvæmt þeim lögum.  Slíkt leyfi hafi ekki verið veitt og eigi framkvæmdirnar ekki stoð í samþykktu deiliskipulagi og séu því ólögmætar.  Sú ákvörðun að hefja framkvæmdir hljóti að teljast stjórnvaldsákvörðun, hvað sem líði veitingu framkvæmdaleyfis, sem sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar, en kærendum hafi ekki verið tilkynnt um framkvæmdirnar og ekki vitað um þær fyrr en nokkrum dögum áður en málinu hafi verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.  Krafa Kópavogs¬bæjar um frávísun málsins eigi ekki við rök að styðjast enda hefjist kærufrestur ekki fyrr en við útgáfu framkvæmdaleyfis því ella töpuðu borgarar kærurétti við það að hjá yrði látið líða að gefa út leyfi til framkvæmda. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er krafist frávísunar málsins þar sem kærufrestur vegna umræddra framkvæmda hafi verið liðinn er kæra barst en ella að kröfum kærenda verði hafnað.  Hinar kærðu framkvæmdir, sem hafnar hafi verið á haustdögum 2006 samkvæmt fyrirliggjandi verkskýrslum verktaka, eigi stoð í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði er tekið hafi gildi á árinu 2003.  Hafi kærendum sem hafi athafnasvæði sitt á umræddu svæði því átt að vera löngu kunnugt um þær.  Framkvæmdirnar séu á vegum opinberra aðila og því undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Ekki sé um að ræða meiri háttar framkvæmdir sem áhrif hafi á umhverfið og séu þær ekki háðar mati á umhverfisáhrifum og falli þær því ekki undir ákvæði 27. gr. laganna um framkvæmdaleyfi. 

Niðurstaða:  Í máli þessu eru kærðar framkvæmdir við gatnagerð við Vatnsenda – Heimsenda í Kópavogi.  Byggja kærendur á því að framkvæmdirnar eigi ekki stoð í skipulagi og jafnframt að framkvæmdaleyfi hefði þurft fyrir þeim samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Sú ákvörðun að hefja framkvæmdir hljóti þó að teljast stjórnvaldsákvörðun sem sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar, hvað sem líði veitingu framkvæmdaleyfis.

Hinar kærðu gatnaframkvæmdir styðjast við deiliskipulag sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. apríl 2003.  Þá liggja fyrir í málinu gögn er benda til þess að vinna við gatnagerðina hafi hafist síðastliðið haust. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun.  Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kærendum hafi fljótlega eftir að framkvæmdir hófust mátt vera kunnugt um að heimild hafi verið veitt fyrir þeim og að þeim hafi þá borið að kynna sér hvernig staðið hefði verið að veitingu leyfisins og skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 9. maí 2007 og var kærufrestur þá liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. greinar.

Miðað við þessa niðurstöðu kemur ekki til álita að skera úr um það í þessu máli hvort umræddar framkvæmdir hafi verið háðar framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson