Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2004 Suðurgata

Ár 2005, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2004, kæra íbúa að Suðurgötu 37, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004 um að samþykkja breytingu á notkun hússins að Suðurgötu 35 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 15. júlí 2004, kæra J og S, eigendur hússins að Suðurgötu 37, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004 að samþykkja breytta notkun hússins að Suðurgötu 35 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 29. júní 2004.  Verður að skilja erindi kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsin að Suðurgötu 35 og 37 munu á sínum tíma hafa verið byggð sem tvö aðskilin hús en verið sambyggð á árinu 1938 yfir sund er var milli húsanna og voru húsin þá í eigu sama eiganda.  Ekki virðist hafa verið gengið frá breyttum lóðarmörkum milli húsanna af þessu tilefni.  Húsið að Suðurgötu 35 mun hafa verið nýtt sem geymsluhúsnæði og verslun um langt skeið en síðar verið starfrækt þar hárgreiðslustofa.  Frá árinu 1994 var húsnæðið nýtt til íbúðar.  Í fasteignaskrá var húsnæðið skráð sem vörugeymsla á árinu 1986 en á árinu 1994 var skráningunni breytt í íbúðarhúsnæði.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en í aðalskipulagi er svæðið merkt sem íbúðarsvæði.

Á árinu 2002 fóru kærendur fram á það við bæjaryfirvöld að húsið að Suðurgötu 35 yrði rifið en ella að umrædd hús yrðu aðskilin með sundi eins og hafi verið fyrir 1938.  Bentu þeir á að þeir væru að greiða lóðarleigu fyrir mun stærri lóð en þeir hefðu umráð yfir.  Var erindinu synjað en lagt til að að ofgreidd lóðarleiga yrði endurgreidd frá árinu 1993 og að lóðarmörkum fasteignanna yrði breytt og sú breyting grenndarkynnt.  Kærendur munu ekki hafa sæst á breytta lóðarskipan svo sem lagt var til.

Hinn 2. mars 2004 samþykki embætti byggingarfulltrúa umsókn frá eiganda hússins að Suðurgötu 35 um að breyta notkun hússins úr atvinnu- í íbúðarhúsnæði.  Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar felldi þá afgreiðslu úr gildi hinn 30. mars 2004 en samþykkti að senda erindið í grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fresti til að koma að athugasemdum lauk hinn 21. maí 2004 og bárust athugasemdir frá íbúum að Suðurgötu 37 og 37b.  Snérust þær um lóðarmörk, ónæði, skort á bílastæðum, ástand byggingar og leiksvæði á lóð.

Að lokinni grenndarkynningu tók skipulags- og byggingarráð málið til afgreiðslu hinn 22. júní og samþykkti fyrir sitt leyti breytta notkun hússins að Suðurgötu 35 með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins, þar sem á því var byggt að breytingin hefði ekki í för með sér hagsmunaröskun gangvart kærendum.  Var umhverfis- og tæknisviði bæjarins falið að afgreiða erindið til Skipulagsstofnunar og voru byggingarteikningar síðan samþykktar hinn 23. júlí 2004.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að er þeir eignuðust húsið að Suðurgötu 37 á árinu 1979 hafi húsið að Suðurgötu 35 verið nýtt undir lager og síðar undir hárgreiðslustofu.  Eftir að hún hætti rekstri hafi húsnæðið verið notað til íbúðar án heimildar og hafi kærendur gert athugasemdir af því tilefni við bæjaryfirvöld sem hafi ekkert aðhafst í málinu.  Benda kærendur á að stigagangur þeirra húss gangi inn í húsið að Suðurgötu 35, eftir að byggt var yfir sund milli húsanna á sínum tíma, en hvorki sé einangrun né milliveggur milli húsanna og brjóti sú tilhögun gegn ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir og hávaðamengun.

Húsið að Suðurgötu 37 hafi verið byggt á árinu 1907 og sé búið að leggja í mikinn kostnað við að gera húsið upp sem skráð hafi verið sem einbýli en ekki parhús.  Suðurgata 35 sé ferkantað steinhús sem passi engan veginn inn í umhverfið og standi húsið inn á lóð kærenda og á skorti nægjanleg bílastæði.  Munur sé á því hvort umrætt húsnæði sé aðeins notað til atvinnurekstrar á daginn eða til íbúðar allan sólarhringinn.

Kærendur hafi átt í viðræðum við bæjaryfirvöld um margra ára skeið vegna umdeilds húss og m.a. óskað eftir því að húsin yrðu skilin að eða húsið að Suðurgötu 35 yrði rifið en í engu hafi verið komið til móts við óskir kærenda og hagsmunir þeirra verið fyrir borð bornir.  Geti þeir ekki sætt sig við að húsið að Suðurgötu 35 verði nýtt til íbúðar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld benda á að umrædd hús hafi verið sambyggð er kærendur festu kaup á húsnæði sínu að Suðurgötu 37 á árinu 1979.  Aðeins sé gert ráð fyrir einni íbúð í húsinu að Suðurgötu 35 og muni bílastæðaþörf ekki aukast við þá breytingu.  Ekki verði séð að breytingin raski hagsmunum kærenda í ljósi þess að ekki sé tryggt að notkun hússins undir atvinnustarfsemi feli í sér minna ónæði eða röskun gagnvart kærendum en ef húsið væri notað til íbúðar.  Röksemdir kærenda um ástand hússins með tilliti til brunavarna og hávaðamengunar snerti ekki breytta notkun hússins heldur sé þar um tæknileg atriði að ræða.

Umrædd breyting hafi verið grenndarkynnt í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og samræmist breytingin gildandi aðalskipulagi.  Ekki séu rök til þess að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Vettvangsskoðun:  Nefndarmenn og starfsmenn úrskurðarnefndarinnar fóru á vettvang hinn 13. apríl 2005 og kynntu sér staðhætti.  Viðstaddur var annar kærenda en enginn var mættur af hálfu embættis byggingarfulltrúa, sem tilkynnt hafði verið um vettvangsskoðunina, en ekki tókst að hafa upp á núverandi eiganda hússins að Suðurgötu 35. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun heimilar að húsið að Suðurgötu 35, sem er sambyggt húsi kærenda, verði nýtt sem ein íbúð með þeim innréttingum og frágangi sem fram kemur á aðaluppdrætti sem samþykktur var hinn 23. júlí 2004.  Ákvörðunin breytir ekki lóðamörkum milli húsanna.

Heimiluð notkun er í samræmi við gildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Ekki liggur fyrir í málinu hvort og þá hvaða notkun bæjaryfirvöld hafa áður heimilað varðandi umdeilt hús en fyrir liggur að það hefur verið nýtt með ýmsum hætti á liðnum áratugum.

Kærendur styðja málskot sitt þeim rökum að hin kærða ákvörðun gangi á hagsmuni þeirra.  Nýting umrædds húss muni valda meira ónæði en fyrir hafi verið, frágangur milli umræddra húsa sé ekki í samræmi við reglur um brunavarnir og hljóðvist, skortur sé á bílastæðum og gangi húsið að Suðurgötu 35 inn á lóð húss kærenda.

Almennt verður að telja að samskonar notkun húsnæðis á sama svæði sé til þess fallin að draga úr hagsmunaröskun og árekstrum milli einstakra fasteignaeigenda.  Ekki verður því fallist á að notkun hússins að Suðurgötu 35 til íbúðar gangi fremur á grenndarrétt kærenda en ef húsið yrði nýtt undir atvinnu- eða þjónustustarfsemi sem oft fylgir mikil umferð viðskiptavina og getur slík starfsemi staðið langt fram á kvöld og um helgar.  Þá standa kröfur núgildandi byggingarreglugerðar um bílastæði ekki í vegi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. gr. 12.8 í nefndri reglugerð, enda var umrætt hús reist á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Samkvæmt samþykktum aðalteikningum hins kærða byggingarleyfis er gert ráð fyrir að veggur milli húss kærenda og Suðurgötu 35 sé með brunamótstöðu EI 90, sem uppfyllir kröfur byggingarreglugerðar þar að lútandi skv. gr. 103.3.  Ber byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með að kröfum að þessu leyti samkvæmt byggingarleyfinu og byggingarreglugerð sé fullnægt, sbr. 40. og 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öllu þessu virtu verða ekki taldir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði og er kröfu kærenda þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004, að samþykkja breytta notkun hússins að Suðurgötu 35, Hafnarfirði úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir