Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/1998 Holtasel

Ár 1999, miðvikudaginn 20. janúar kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/1998, kæra eigenda fasteignarinnar Hæðarsels 8, Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 1998 um að veita leyfi til að byggja garðstofu úr steinsteypu á 1. hæð og baðherbergi á 2. hæð við húsið á lóðinni nr. 39 við Holtasel í Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 16. nóvember 1998, sem barst nefndinni sama dag, kærir Sigurður Georgsson hrl. f.h. eigenda fasteignarinnar nr. 8 við Hæðarsel í Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 1998 um að  veita leyfi til að byggja garðstofu úr steinsteypu á 1 hæð og baðherbergi á 2. hæð við húsið á lóðinni nr. 39 við Holtasel í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 19. febrúar 1998.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.   Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Eftir að kæran var fram komin féll lögmaður kærenda frá því að fylgja eftir kröfu um stöðvun framkvæmda þar sem framkvæmdum við að reisa umræddra viðbyggingu var þá að mestu lokið.

Málavextir:  Hinn 27 nóvember 1997 samþykkti byggingarnefnd Reykjavíkur að heimila eigendum íbúðarhússins að Holtaseli 39 í Reykjavík að byggja til austurs við 1. hæð og þakhæð hússins.  Lá þá fyrir samþykki eiganda íbúðarhússins að Holtaseli 41 en það hús er næst viðbygginu þeirri sem áformað var að reisa.  Ekki hafði verið leitað álits eða samþykkis annarra nágranna.

Með umsókn dags. 5. febrúar 1998 sóttu eigendur Holtasels 39 um breytingu á áður samþykktri viðbyggingu og var umsókn þeirra þar um samþykkt á fundi byggingarnefndar hinn 11. febrúar 1998 en jafnframt var fyrri samþykkt um að veita byggingarleyfi felld úr gildi en ný samþykkt gerð um byggingarleyfi í hennar stað.  Breyting sú, sem fólst í hinni nýju samþykkt sýnist hafa verið óveruleg og virðist einkum hafa verið um að ræða breytingu á notkunarflokkun rýmis.  Að sögn byggingarleyfishafa var jafnframt um að ræða nokkra minnkun á viðbyggunni frá því sem samþykkt hafði verið hinn 27. nóvember 1997.

Ekki er fulljóst hvenær framkvæmdir við viðbygginguna hófust en að sögn eigenda Holtasels 39 var hafist handa við jarðvinnu strax að fenginni samþykkt byggingarnefndar frá 27. nóvember 1997 og  grafið fyrir undirstöðum fyrir árslok 1997.  Samkvæmt bókunum byggingarfulltrúans í Reykjavík um verkið fóru fram úttektir á veggjum 1. hæðar og plötu yfir 1. hæð viðbyggingarinnar hinn 2. júlí 1998 en teikningar lagna og burðarvirkis voru lagðar fram 22. janúar 1998 og 24. mars 1998.  Byggingarleyfisgjöld vegna framkvæmdanna voru greidd hinn 17. mars 1998.

Hinn 5. október 1998 ritaði lögmaður kærenda bréf til byggingarfulltrúans í Reykjavík.    Er rakið í umræddu bréfi að kærendur telji að byggin fyrirhugaðs garðskála við Holtasel 39 muni skerða mjög birtu í garði þeirra og auk þess virðist garðskálinn vera stærri en byggingarreitur heimili fyrir útbyggingu af þessu tagi og er vitnað í skilmála fyrir Seljahverfi v/Holtasels og Hæðarsels í þessu sambandi.  Þá segir í bréfinu að ætla verið að með viðbyggingunni sé einnig farið út fyrir reglur um hámarksgrunnflöt aðalhúss.  Er óskað svara um það hvort byggingarfulltrúi telji kvörtunina á rökum reista. 

Svar barst ekki við bréfi þessu og var það sent að nýju hinn 29. október 1998.  Var bréfinu þá svarað með bréfi byggingarfulltrúa dags. 2. nóvember 1998 þar sem fram kemur að viðbyggingin sé að hluta utan byggingarreits og að mænishæð sé nokkru hærri en skilmálar hafi gert ráð fyrir.  Er vísað til þess að slík frávik eigi sér fordæmi en takið fram að ekki hafi verið talin þörf á grenndarkynningu vegna viðbyggingarinnar.  Jafnframt er í bréfinu gerð grein fyrir skuggavarpskönnun sem gerð hafði verið til athugunar á málinu.

Í framhaldi af þessu svari óskuðu kærendur eftir fundi með byggingarfulltrúa og áttu þeir fund með honum hinn 11. nóvember 1998.    Að sögn kærenda kom þar fram sú afstaða byggingarfulltrúa að ekki væri unnt að afturkalla byggingarleyfið eða breyta því.  Ákveðið var á fundinum að ný sólfarsmæling færi fram en kærendur töldu fyrri mælingu hafa verið byggða á röngum forsendum.

Eftir þennan fund með byggingarfulltrúa vísuðu kærendur máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir. 

Umsagnir og andmæli:  Úrskurðarnefndin leitaði afstöðu byggingarnefndar Reykjavíkur til kærunnar og barst umsögn byggingarnefndar með bréfi dags. 15. desember 1998.  Fylgdi umsögninni nýr útreikningur skuggavarps ásamt uppdráttum og loftljósmynd af umræddu svæði. 

Þá hefur borist greinargerð eigenda Holtasels 39 dags. 12. desember 1998 þar sem reifuð eru sjónarmið þeirra varðandi kæruefnið.  Krefjast þau frávísunar málsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna er þess krafist að hafnað verið öllum kröfu kærenda í málinu. 

Loks hefur nefndinni borist umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Er það álit stofnunarinnar að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki hafi verið kært innan lögboðins kærufrests.

Lögmanni kæranda var gefinn kostur á að koma að andsvörum vegna framkominnar frávísunarkröfu og málsraka og hafa nefndinni borist athugasemdir hans þar að lútandi.  Telur lögmaðurinn að með tilliti til orðalags 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo og þess hversu stuttan kærufrest er um að tefla eigi í máli þessu að miða upphaf kærufrests við það tímamark þegar kærendum varð með vissu kunnugt um það hver afgreiðsla byggingarnefndar Reykjavíkur hafði verið en um það hafi þeim fyrst orðið kunnugt hinn 3. nóvember 1998.  Hafi kærufrestru því ekki verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.  Jafnframt áréttar lögmaðurinn fyrri málsástæður kærenda í málinu.

Niðurstaða:   Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til skoðunar hvort kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskuraðrnefndinni hinn 16. nóvember 1998.  Um kærufrest í málinu gildir ákvæði  4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 en samkvæmt ákvæðinu er kærufrestur einn mánuður frá því aðila er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á samþykkt, sem hann hyggst kæra til úrskuraðrnefndarinnar.

Í máli því sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að viðbygging sú, sem byggð var á grundvelli hins umdeilda  bygginarleyfis, var komin vel á veg í byrjun júlí 1998 en þá fór fram úttekt veggja 1. hæðar og plötu yfir 1. hæð.  Gátu þessar framkvæmdir ekki farið framhjá kærendum enda liggur fyrir að þeir öfluðu sér upplýsinga um málið og kynntu sér teikningar og byggingarskilmála á umræddu svæði.  Skilja verður málatilbúnað kærenda svo, að þau hafi verið búin að leita uppýsinga um málið hjá byggingaryfirvöldum áður en byggingarfulltrúanum í Reykjavík var sent símbréf um málið hinn 5. október 1998 og að þá hafi kærendum í síðasta lagi verið orðið ljóst að veitt hafi verið byggingarleyfi fyrir þeirri mannvirkjagerð, sem varð tilefni kæru þerra í málinu.

Þar sem fyrir liggur að kærendum var orðið kunnugt um tilvist byggingarleyfis þess, sem kæran tekur til, eigi síðar en hinn 5. október 1998, og að þau voru þá orðin þeirrar skoðunar að með leyfinu kynni rétti þeirra að hafa verið hallað, telur úrskurðarnefndin að kærufrestur hafi verið liðinn hinn 16. nóvember 1998 þegar kæra þeirra barst nefndinni.  Eins og vitneskju kærenda um bygginarleyfið var háttað verður ekki séð að það skipti máli þótt þau hafi beðið svars byggingarfulltrúa um álit hans á málinu fram til 4. nóvember 1998 og verður ekki fallist á það með kærendum að svar byggingarfulltrúa við fyrispurn þeirra eigi að marka upphaf kærufrests í máilinu.

Samkvæmt framansögðu ber með vísun til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um ógildingu leyfis fyrir viðbyggingu við Holtasel 39, Reykjavík samkvæmt ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá   11. febrúar 1998 er vísað frá úrskurðarnefndinni.