Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2010 Skipulagsgjald

Ár 2010, fimmtudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 4/2010, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna fasteigna á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. janúar 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Þórunn Guðmundsdóttir hrl., f.h. Keflavíkurflugvallar ohf., álagningu skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2009 að upphæð kr. 1.685.976 vegna fasteignanna Háaleitishlaðs 13, 15 og 17 og Haraldsvallar 10 ásamt álagningu skipulagsgjalds með gjalddaga 1. janúar 2010 að upphæð kr. 10.408.326 vegna fasteignanna Háaleitishlaðs 4, 8, 20, 22 og 24-26 og Grænavallar 4, öllum á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kærandi bendir á að hann hafi tekið yfir greindar fasteignir hinn 1. janúar 2009, en um hafi verið að ræða fasteignir sem hafi verið á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers í áratugi.  Kærandi hafi nú þegar greitt álagt skipulagsgjald með gjalddaga 1. september 2009.  Hins vegar sé skipulagsgjald með gjalddaga 1. janúar 2010 ógreitt en kæranda hafi borist innheimtuseðlar vegna þeirrar álagningar hinn 29. desember 2009.

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli skipulagsgjald lagt á nýreist hús eða viðbyggingar við eldri hús, en umræddar fasteignir í eigu kæranda hafi varnarliðið reist á síðustu áratugum liðinnar aldar.  Geti þær því ekki talist vera nýreist hús í skilningi fyrrgreinds ákvæðis.  Til stuðnings þeirri ályktun vísi kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 72/2009 frá 14. janúar 2010, en þar sé um að ræða sambærileg atvik og hér séu til umfjöllunar.  Í því kærumáli hafi verið felld úr gildi  álagning skipulagsgjalds á fasteignir á umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli sem þar hafi staðið um árabil og síðar komist í eigu kæranda í tilvitnuðu máli. 

Kæranda hafi ekki verið leiðbeint um málskotsrétt sinn til úrskurðarnefndarinnar vegna álagningar umdeilds skipulagsgjalds eða um kærufrest svo sem kveðið sé á um í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verði því að telja afsakanlegt í skilningi 1. mgr. 28. gr. laganna að kæra vegna álagðs skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2009 hafi borist að liðnum kærufresti.  Kæra vegna álagningar skipulagsgjalds með gjalddaga 1. janúar 2010 sé hins vegar innan kærufrests. 

Í bréfi Fasteignarskrár Íslands til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins er tekið fram að kærandi hafi ekki beint kvörtun um álagningu og innheimtu skipulagsgjaldsins vegna umræddra fasteigna til stofnunarinnar.  Af þeim sökum sé ekki tilefni til athugasemda vegna málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kæra á.  Samkvæmt því var kærufrestur vegna álagningar skipulagsgjaldsins með gjalddaga 1. september 2009 liðinn þegar kæra barst í máli þessu hinn 27. janúar 2010. 

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. 

Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið leiðbeint um málskotsrétt sinn til úrskurðarnefndarinnar skv. 7. gr. reglugerðar um skipulagsgjald eða um kærufrest svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Með hliðsjón af þessum atvikum þykir afsakanlegt að kæra vegna umdeildrar álagningar með gjalddaga 1. september 2009 hafi borist svo seint sem raun ber vitni.  Verður því ágreiningur um þá álagningu tekinn til efnismeðferðar ásamt álagningu skipulagsgjaldsins með gjalddaga 1. janúar 2010, sem kærð var innan kærufrests. 

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs, en sú stofnun gefur fyrirmæli um álagningu og innheimtu skipulagsgjalds skv. 3. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Gjaldinu fylgir lögveð í þeirri fasteign sem það er lagt á. 

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti farið fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið.  Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar.  Verður ekki á það fallist að umræddar fasteignir, sem ekki liggur annað fyrir um en að reistar hafa verið fyrir áratugum, verði talin nýreist hús í skilningi 35. gr. skipulags- og byggingarlaga er umdeild álagning fór fram.  Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þess lagaákvæðis, sem umdeild álagning styðst við, þegar litið er til orðalags þess.  Verður og að líta til þess að um er að ræða eldri fasteignir á svæði sem löngu hafði verið byggt upp og skipulagt á kostnað framkvæmdaaðila er skipulagsgjaldið var lagt á. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi álagningu skipulagsgjalds á tilgreindar fasteignir kæranda eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2009 að upphæð kr. 1.685.976 vegna fasteignanna Háaleitishlaðs 13, 15 og 17 og Haraldsvallar 10 og álagning skipulagsgjalds með gjalddaga 1. janúar 2010 að upphæð kr. 10.408.326 vegna fasteignanna Háaleitishlaðs 4, 8, 20, 22 og 24-26 og Grænavallar 4, öllum á Keflavíkurflugvelli. 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson