Árið 2019, fimmtudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 39/2019, beiðni um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. maí 2019, er barst nefndinni 3. júní s.á., fór skipulags- og byggingarfulltrúi Seyðisfjarðar, f.h. bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, fram á, með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, að úrskurðað verði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.
Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 3. júní 2019.
Málsatvik: Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum 16. apríl 2019 að óska eftir ofangreindri málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar með vísan til 4. mgr. 9. gr. mannvirkja-laga nr. 160/2010, þar sem uppi væri verulegt álitamál um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Fram kemur í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sú undantekning er gerð í 4. mgr. 9. gr. laganna að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. ákvæðisins skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndar skv. 59. gr. laganna. Er í slíkum málum því tekin afstaða til þess hvort gerð tiltekins mannvirkis eða breyting á því sé háð byggingarleyfi.
Í máli þessu er ekki leitað niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um byggingarleyfisskyldu vegna gerðar tiltekins mannvirkis eða breytinga á því heldur er leitað álits nefndarinnar á því hvort samþykkt tiltekinnar reyndarteikningar af innra skipulagi Strandarvegar 21 feli í sér ákvörðun um byggingarleyfi. Slík lögspurning verður ekki borin undir úrskurðarnefndina á grundvelli 4. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga heldur verður einungis tekin afstaða til þess álitaefnis í kærumáli þar sem ágreiningur er uppi um gildi eða þýðingu áritunar svonefndrar reyndarteikningar.
Af framangreindum ástæðum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Beiðni bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, um að úrskurðarnefndin úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi, er vísað frá úrskurðarnefndinni.