Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2014 Lindargata

Árið 2014, mánudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Ingvar Sveinbjörnsson hrl., f.h. Þ og R, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 að breyta deiliskipulagi Skúlagötureits vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þá er gerð krafa um að fyrirhugaðar framkvæmdir á fyrrgreindum lóðum verði stöðvaðar til bráðabirgða með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Hinn 21. júní 2013 tók skipulagsfulltrúi Reykjavíkur fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireita 1.152.410-1.152.412, vegna lóðanna nr. 28, 30 og 32 við Lindargötu. Var farið fram á að nefndar lóðir yrðu sameinaðar, sex bílastæði á jarðhæð húsa samkvæmt gildandi skipulagi yrðu felld niður og byggingarreitir dýpkaðir inn í lóðir, ásamt breytingum á byggingum á suðurhluta lóðarinnar Lindargötu 32. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti á fundi sínum hinn 26. júní s.á. að auglýsa umsótta skipulagsbreytingu og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 4. júlí 2013. Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kærendum. Hin auglýsta tillaga var síðan samþykkt á fundi ráðsins 9. október 2013, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. september s.á. Borgarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 17. s.m. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2014.

Kærendur vísa til þess að fasteignir þeirra liggi að lóðunum Lindargötu 28-32. Á skýringaruppdráttum skipulagsins sé ekki gerð grein fyrir fasteigninni að Veghúsastíg 9a með nægjanlegum hætti. Sé lýsing skipulagsverksins ekki í samræmi við gr. 5.2.3. í gildandi skipulagsreglugerð og ekki hafi verið haft samráð við kærendur í samræmi við gr. 5.2.1. nefndrar reglugerðar. Þá verði að telja óheimilt, með hliðsjón af gr. 5.3.1. í reglugerðinni, að breyta einstökum reitum deiliskipulags án tillits til heildarhagsmuna. Með hinni kærðu ákvörðun sé farið á svig við tilgang skipulags og sé vísað til ógildingarúrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 105/2005, en flest þau rök sem þar sé byggt á eigi við í máli þessu. Skírskotun til almenningssamgangna og nálægðar við miðbæ séu ekki viðhlítandi rök fyrir því að slakað sé á kröfum um bílastæði við frekari uppbyggingu. Einnig megi draga í efa að fullnægt sé kröfum um greiðar aðkomuleiðir slökkviliðs. Hin kærða ákvörðun þrengi að kostum kærenda til frekari uppbyggingar á lóðum þeirra og geri fasteign annars kærenda í raun nær verðlausa. Heimiluðum byggingum fylgi skuggavarp og þá einkum gagnvart Lindargötu 34a.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að farið hafi verið eftir ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Eldra skipulag svæðisins frá árinu 2004 hafi gert ráð fyrir að eldri hús á umræddum lóðum myndu víkja og í þeirra stað mætti byggja þriggja hæða hús með risi og kjallara. Við skipulagsbreytingu sé ekki gerð grein fyrir byggingum utan þess svæðis sem breytingin taki til og skv. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð sé samráð við skipulagsgerð bundið við þá aðila sem skipulagið nái til en aðrir eigi þess kost að koma á framfæri athugasemdum við kynningu þess. Tilvitnun kærenda í gr. 5.2.3. í skipulagsreglugerð eigi ekki við um framsetningu deiliskipulagstillögu heldur lýsingu á deiliskipulagstillögu fyrir auglýsingu sem hér eigi ekki við. Deiliskipulagsbreyting geti eftir atvikum tekið til afmarkaðra reita eða lóða og sé afmörkun svæðis þess sem skipulagsbreytingin taki til ekki andstæð lögum. Ekki séu gerðar kröfur í skipulagsreglugerð um fjölda bílastæða og hafa verði í huga staðsetningu umrædds svæðis við miðborg og þá stefnu að auka veg almenningssamgangna og stuðla að því með skipulagi að menn gangi eða hjóli milli staða. Forsendur úrskurðar sem kærendur vísi til eigi ekki við í máli þessu og bent sé á að við veitingu byggingarleyfa séu uppdrættir yfirfarnir af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins með tilliti til brunavarna. Ekkert bendi til að hin kærða ákvörðun leiði til verðrýrnunar á fasteignum kærenda. Þvert á móti megi færa rök fyrir því að uppbygging óbyggðra lóða á svæðinu geti aukið verðmæti fasteignanna með styrkingu heildarmyndar götunnar. Tekið sé fram í skilmálum skipulagsbreytingarinnar að aðkoma að bakhúsi og garði sé tryggð og þak bakhússins megi ekki fara upp fyrir vegghæðir aðliggjandi húsa. Eigi því fullyrðingar kærenda um ótrygga aðkomu að bakhúsi og að þrengt sé að möguleikum til uppbyggingar á lóðum þeirra ekki við rök að styðjast. Komið hafi verið til móts við athugasemdir kærenda með því að byggingarreitur verði að lágmarki í fjögurra metra fjarlægð frá lóðinni að Lindargötu 34 og ekki megi byggja svalir á þeirri hlið er snúi að nefndri lóð vegna mögulega aukins skuggavarps.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hennar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því.

Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimildir til nýtingar einstakra lóða. Vegast því á hagsmunir þeirra einstaklinga sem leiða rétt af ákvörðuninni og þeirra nágranna sem telja á lögvarinn rétt sinn hallað með henni. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa á byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að ekki er að jafnaði tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, og einnig með hliðsjón af öðru því sem að framan hefur verið rakið, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013, um að breyta deiliskipulagi Skúlagötureits vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32, er hafnað.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson