Ár 2010, fimmtudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 38/2010, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna þriggja matseininga á jörðinni Leirubakka, Rangárþingi ytra.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. júní 2010, framsendi Fasteignaskrá Íslands erindi eigenda jarðarinnar Leirubakka, Rangárþingi ytra, dags. 18. maí 2010, þar sem farið er fram á að álagning skipulagsgjalda vegna söngskála, hestaskýlis og snyrtingar tengdri söngskálanum verði felld niður.
Málsatvik og rök: Á jörðinni Leirubakka, Rangárþingi ytra, starfrækja eigendur ferðaþjónustu. Hinn 22. september 1998 samþykkti byggingarnefnd Holta og Landsveitar teikningar að söngskála og snyrtingu tengdri honum og hinn 10. október 2000 samþykkti nefndin teikningu að hestaskýli á nefndri jörð. Mannvirkin voru virt til brunabóta hinn 8. janúar 2010 og skipulagsgjald lagt á 20. janúar sama ár, með gjalddaga 1. febrúar 2010.
Kærendur segjast hafa leitað eftir leiðréttingum á skráningu bygginga á jörðinni Leirubakka vegna nokkurra gamalla húsa sem virtust ekki vera á skrá og bæru hvorki fasteignagjöld né væru tryggð. Hafi leiðrétting á skráningu gengið eftir. Hins vegar hafi komið þeim á óvart að sá böggull fylgdi skammrifi að greiða þyrfti skipulagsgjald af umræddum byggingum eins og um nýbyggingar væri að ræða. Kærendur sætti sig ekki við álagningu gjaldsins enda hafi ekki verið um að ræða skráningu nýrra bygginga. Um hafi verið að ræða gamlar byggingar og sumar raunar margra alda gamlar. Fyrir liggi að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi í tveimur úrskurðum komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé lagastoð fyrir innheimtu skipulagsgjalds vegna bygginga sem byggðar hafi verið mörgum árum eða áratugum áður.
Niðurstaða: Fyrir liggur að álagning umdeildra skipulagsgjalda átti sér stað í janúar, með gjalddaga 1. febrúar 2010. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulag- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kæra á. Samkvæmt því var kærufrestur vegna umdeildrar gjaldtöku liðinn þegar erindi kærenda vegna álagningarinnar barst Fasteignaskrá Íslands hinn 18. maí 2010.
Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru verður þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila skv. 2. mgr. ákvæðisins.
Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið leiðbeint um málskotsrétt sinn til úrskurðarnefndarinnar skv. 7. gr. reglugerðar um skipulagsgjald eða um kærufrest svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af þeim atvikum þykir afsakanlegt að kæran hafi borist svo seint sem raun ber vitni og verður málið því tekið til efnismeðferðar.
Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.
Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti dregist nokkuð eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á allnokkru eftir að byggingu mannvirkis var lokið. Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar og verður að gera þá kröfu að tilkynning til Fasteignaskrár, sem er forsenda álagningar skipulagsgjalds, eigi sér stað án ástæðulauss dráttar. Verður ekki á það fallist að umræddar byggingar, sem leggja verður til grundvallar að reistar hafi verið eða endurbyggðar fyrir 10-12 árum, verði taldar nýreist hús í skilningi 35. gr. skipulags- og byggingarlaga þegar umdeild álagning fór fram. Ekki liggur fyrir í málinu að atvik sem kærendur bera ábyrgð á hafi átt þátt í þeim drætti sem varð á umdeildri álagningu og engin lögskýringarsjónarmið eða gögn gefa tilefni til að beita rýmkandi lögskýringu gagnvart ótvíræðu orðalagi þess lagaákvæðis sem umdeild álagning styðst við.
Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi álagningu skipulagsgjalds á tilgreindar byggingar kærenda eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds hinn 20. janúar 2010, vegna söngskála og snyrtingar tengdri honum og hestaskýlis á jörðinni Leirubakka, Rangárþingi ytra, samtals að fjárhæð 59.289 krónur.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson