Ár 2006, miðvikudaginn 23. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 38/2005, kæra á ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 3. júní 2004 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7, í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. maí 2005, er barst nefndinni hinn sama dag, kærir K, Hrauntungu 117, Kópavogi, eigandi lóðarinnar að Réttarhálsi 8, í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 3. júní 2004 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7 í landi Nesja. Var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 16. júní 2004.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 4. desember 2003 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja frístundahús á lóðinni nr. 7 við Réttarháls í landi Nesja og var vísað í gildandi skipulagsuppdrátt. Einnig var óskað eftir því að lóðin yrði stækkuð úr 2.400 í 5.000 m². Sveitarstjórn samþykkti að heimila grenndarkynningu vegna umsóknarinnar og vísaði til 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Hinn 14. febrúar 2003 ritaði sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps hagsmunaaðilum bréf þar sem sagði svo: „Efni: Grenndarkynning vegna skipulagsbreytinga á einni frístundahúsalóð í landi Nesja í Grafningi.“ Áfram sagði svo: „Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 4. desember 2002 var samþykkt að heimila grenndarkynningu af breytingartillögu á einni frístundalóð (sumarhúsalóð) við Réttarháls 7 í landi Nesja í Grafningi skv. 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Breytingin felst í að skv. eldri samningi, sem nú er fallinn úr gildi, var lóðin 2.400 fm en verður 5.000 fm að stærð.“ Bréfi þessu fylgdi teikning af Nesjaskógum þar sem lóðin að Réttarhálsi 7 var merkt með hring ásamt ljósmynd þar sem staðsetning lóðarinnar var sýnd í samræmi við tillöguna. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 18. mars 2003 og bárust nokkrar athugasemdir, þar á meðal frá kæranda. Á fundi sveitarstjórnar hinn 2. apríl 2003 voru athugasemdir teknar fyrir og þeim svarað. Í kjölfarið var eftirfarandi fært til bókar: „Skv. ofangreindu samþykkir sveitarstjórn fyrirliggjandi skipulag við Réttarháls 7 í landi Nesja í Grafningi, skv. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.“
Hinn 7. apríl 2003 ritaði sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps Skipulagsstofnun bréf þar sem sagði svo: „Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 2. apríl sl. var samþykkt að óska eftir umsögn Skipulagstofnunar, skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 vegna skipulags einnar lóðar undir frístundahús í landi Nesja í Grafningi, Réttarháls 7.“ Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 22. apríl 2003, til sveitarstjórnar segir m.a. eftirfarandi: „Á svæðinu er í gildi deiliskipulag sumarbústaðalands í Nesjaskógi sem samþykkt var 24. nóvember 1993 af skipulagsstjórn ríkisins skv. 2. mgr. 5. gr. skipulagslaga nr. 19/1963 og hefur því verið breytt tvívegis, 1996 og 1999. Skipulagsstofnun fellst ekki á birtingu deiliskipulagsbreytinganna í B-deild Stjórnartíðinda þar sem byggingarskilmálar varðandi fyrirhugað frístundahús á lóðinni voru ekki kynntir og skipulagsgögn uppfylla ekki kröfur um framsetningu deiliskipulagsbreytinga. Endurtaka þarf grenndarkynningu óverulegrar deiliskipulagsbreytingar sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða auglýsa verulega breytingu á deiliskipulaginu sbr. 1. mgr. 21. gr. sömu laga.“
Í kjölfar þessa ritaði sveitarstjóri Skipulagsstofnun bréf, dags. 23. maí 2003, þar sem sagði m.a: „Sveitarstjórn leitar hér með eftir meðmælum Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, af skipulagi undir eitt frístundahús að Réttarhálsi 7 í landi Nesja í Grafningi. … Meðfylgjandi byggingarskilmálar gilda fyrir Réttarháls 7 en þeir hafa nú þegar verið sendir til kynningar, sömu aðilum og skipulagið var grenndarkynnt.“
Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra hinn 27. maí 2003 segir m.a: „Ég var að renna yfir nýja bréfið frá þér varðandi Réttarháls 7 dags. 23. maí sl. Þar hefði þurft að koma fram vegna forsögu málsins að sveitarstjórn fallist ekki á þá túlkun Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2003, að deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái til þessa svæðis og að þess vegna sé farið fram á meðmæli stofnunarinnar skv. 3. tl. til að leyfa þessa einstöku framkvæmd þ.e. byggingu eins frístundahúss.“
Sveitarstjóri sendi á ný bréf til Skipulagsstofnunar, dags. 23. maí 2003, þar sem leitað var eftir meðmælum stofnunarinnar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, með skipulagi undir eitt frístundahús að Réttarhálsi 7. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20. júní 2003, segir m.a: „Fram hefur komið í símtali við Margréti Sigurðardóttur oddvita og sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps að hreppsnefnd ályktaði á fundi sínum 5. júní 2003 að ofangreint deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái ekki til svæðisins við Réttarháls 7. Því er ekki um að ræða breytingu á deiliskipulagi en vilji sveitarstjórnar er að veita leyfi fyrir byggingu eins frístundahúss í þegar byggðu hverfi. Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga er landið allt skipulagsskylt og skulu byggingarleyfi vera í samræmi við aðal- og deiliskipulag. Sveitarstjórn getur þó að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða heimilað einstakar framkvæmdir án þess að fyrir liggi aðal-, svæðis- eða deiliskipulag. Sveitarstjórn þarf hins vegar ekki meðmæli Skipulagsstofnunar vegna veitingar byggingarleyfis í þegar byggðum hverfum þar sem fyrir liggur aðal- og/eða svæðisskipulag en ekkert deiliskipulag enda hafi sveitarstjórn grenndarkynnt byggingarleyfisumsókn. Umsóknin þarf að vera í samræmi við byggðamynstur hverfisins en að öðrum kosti krefst byggingarleyfisumsókn deiliskipulagsgerðar. Með kynningarbréfi grenndarkynningar skulu fylgja öll byggingarleyfisgögn. Í grenndarkynningu sem send var öllum nágrönnum 14. febrúar sl. var einungis kynnt stækkun lóðarinnar og stærð byggingarreits án þess að byggingarskilmálar, byggingarleyfisumsókn eða aðaluppdrættir fylgdu með. Þess vegna var ekki um að ræða grenndarkynnta byggingarleyfisumsókn sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Skipulagsstofnun getur fallist á rök sveitarstjórnar um að gildandi deiliskipulag frístundabyggðar í Nesjaskógi nái ekki til umrædds svæðis. Þá kemur upp sú staða að um er að ræða framkvæmd í þegar byggðu hverfi og á þá ekki við að afgreiða erindið samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða. Þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir í þegar byggðum hverfum getur sveitarstjórn í samræmi við 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Slík mál koma ekki til afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Að öðrum kosti getur sveitarstjórn auglýst deiliskipulag af umræddu hverfi sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“
Á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 27. janúar 2004 voru lagðar fram byggingarnefndarteikningar að 90,6 m² frístundahúsi sem til stóð að reisa á lóðinni að Réttarhálsi 7. Voru teikningarnar samþykktar með fyrirvara um samþykkt deiliskipulags. Skipulagsfulltrúi tók við málinu og með bréfi, dags. 6. febrúar 2004, var framkvæmdin grenndarkynnt hagsmunaaðilum. Í bréfinu sagði m.a. eftirfarandi: „Samkvæmt 2. mgr. 26. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 vil ég fyrir hönd Grímsnes- og Grafningshrepps kynna byggingarnefndarteikningar af sumarhúsi að Réttarhálsi 7 í landi Nesja. Húsið er einnar hæðar, úr timbri á steyptri plötu, 91 m² að flatarmáli með lágu risþaki. Mænishæð frá plötu er 4,1 m². Sólpallur er 130 m². … Meðfylgjandi er ljósrit af útlitsteikningum og grunnmynd bústaðarins sem sýna umfang og útlit sumarhússins. Einnig fylgir ljósmynd og ljósrit úr gömlum skipulagsuppdrætti sem sýnir staðsetningu hússins.“ Frestur til að skila inn athugasemdum var til 8. mars 2004 og bárust nokkrar, þar á meðal frá kæranda.
Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 9. mars 2004 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað: „Nesjar í Grafningi. Grenndarkynning frístundahúss að Réttarhálsi 7. Grenndarkynningu skv. 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga vegna fyrirhugaðrar byggingar frístundahúss á lóðinni Réttarháls 7 er lokið. Eigendum lóða við Réttarháls nr. 1, 2, 3, 5, 6, 8 og 9 var kynnt framkvæmdin. Athugasemdir hafa borist frá eiganda Réttarháls nr. 8 og nr. 3. Lögð fram drög skipulagsfulltrúa af svari til þeirra sem senda athugasemdir. Samþykkt.“
Hinn 27. maí 2004 ritaði byggingarleyfishafi bréf til byggingarfulltrúa þar sem hann lagði fram nýjar teikningar að frístundahúsinu. Í bréfinu segir m.a. eftirfarandi: „Breyting á þessari teikningu frá fyrri teikningu er að undir húsið er kominn kjallari þar og verða settir á hann gluggar og hurðir. Ástæða þessarar breytingar er sú að þegar grafið var fyrir húsinu kom í ljós að það var allt að sex metrar niður á fast. Í stað þess að fylla það allt upp ákvað ég að setja kjallara undir húsið. Húsið hækkar ekki í landinu við þessa breytingu þar sem kjallarinn er niðurgrafinn að stórum hluta.“
Á fundi byggingarnefndar hinn 3. júní 2004 var samþykkt ný teikning af frístundahúsi á lóðinni að Réttarhálsi 7 er sýndi kjallara undir húsinu. Skaut kærandi þeirri ákvörðun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að bygging hússins að Réttarhálsi 7 í landi Nesja sé mikið umhverfisslys. Telur hann að húsið passi ekki inn í sumarhúsahverfið sem byggt sé 35 – 40 ára gömlum sumarbústöðum.
Kærandi heldur því fram að húsið hindri útsýni úr húsi hans, m.a. út á Þingvallavatn. Af hálfu skipulagsyfirvalda hafi því verið heitið að húsið að Réttarhálsi 7 yrði staðsett þannig að sem minnst sjónmengun yrði af því en við það hafi ekki verið staðið. Þá virðist kæranda sem húsið sé allt annað en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir.
Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Bent er á að með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 6. febrúar 2004, hafi framkvæmdin verið grenndarkynnt. Þar hafi komið fram að húsið væri 91 m², mænishæð frá plötu væri 4,1 metri og sólpallur væri 130 m². Á grunnmynd hafi einnig sést að hæð plötu væri 139,0 metra yfir sjávarmáli.
Hinn 3. júní 2004 hafi verið samþykkt í byggingarnefnd ný teikning af frístundahúsi á lóðinni er sýnt hafi kjallara undir húsinu. Lagt hafi verið fram erindi lóðarhafa, dags. 27. maí 2004, þar sem fram komi að allt að sex metrar hafi verið niður á fast þegar grafið hafi verið fyrir húsinu og hafi lóðarhafi viljað fá að nýta það rými í stað þess að fylla það upp. Hæðarkótar á teikningunni hafi verið þeir sömu og á fyrri teikningum sem grenndarkynntar hafi verið.
Hinn 2. maí 2005 hafi skipulagsfulltrúi farið í vettvangsskoðun og þá hafi verið búið að steypa upp kjallara og plötu. Það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að ekki væri að sjá að platan lægi ofar en teikningar hafi gefið til kynna.
Það sé því mat skipulagsfulltrúa að hæðarlega hússins sé sú sama og grenndarkynnt hafi verið þó svo að kjallari hafi verið samþykktur. Við grenndarkynningu hafi verið reynt eftir fremsta megni að útskýra gerð hússins og legu í hæð og landi. Í því ljósi hafi ekki verið talin ástæða til þess að vísa byggingarnefndarteikningum til grenndarkynningar þegar sótt hafi verið um að fá að nýta rýmið undir plötu og gera úr því kjallara.
Málsrök byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að ljóst sé, sbr. málavaxtalýsingu hér að ofan, að einhvers misskilnings hafi gætt í byggingar¬leyfisumsóknarferlinu hvort umrædd lóð, Réttarháls 7, sé deiliskipulögð eða ekki. Byggingarleyfishafi hafi í umsókn sinni farið eftir öllum þeim tilmælum sem hann hafi fengið og að hann geti í engu tilfelli borið ábyrgð á þeim mistökum eða misskilningi sem kunni að hafa verið uppi milli yfirvalda í Grímsnes- og Grafningshreppi annars vegar og Skipulagsstofnunar hins vegar. Ljóst sé að engu skipti hvort umrædd lóð hafi verið deiliskipulögð áður eða ekki. Framkvæmd grenndarkynningar hafi í báðum tilfellum farið eftir ákvæðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, hvort sem lóðin hafi verið talin ódeiliskipulögð í þegar byggðu hverfi eða óverulega breyting hafi verið gerð á gildandi skipulagi.
Í kæru sé því haldið fram að húsið passi ekki inn í hverfi 35-40 ára sumarhúsa. Byggingarleyfishafi telur óumdeilt að hann hafi í öllum atriðum farið eftir þeim tilmælum sem til hans hafi verið beint í öllu byggingarleyfisumsóknarferlinu af hálfu yfirvalda í Grímsnes- og Grafningshreppi. Sérstaklega sé tekið fram að staðsetning þess húss sem byggt hafi verið á lóðinni hafi verið ákveðin af byggingarfulltrúa og byggingarleyfishafa að teknu tilliti til ýmissa þátta svo sem legu landsins, gróðurfars o.fl. Sumarhúsið falli vel að þeirri sumarhúsabyggð sem fyrir sé, þótt alltaf sé hægt að sjá mun á yngri og eldri húsum. Því telur byggingarleyfishafi að hann hafi uppfyllt ákvæði 1. mgr. 115. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um að hús skuli falla sem best að umhverfi sínu hvað varði útlit, efnisval, litaval o.fl. Sérstaklega sé mótmælt þeirri málsástæðu kæranda að sumarhúsið sé umhverfisslys eins og fram komi í kæru.
Varðandi hæð mænis á sumarhúsinu sé tekið fram að hæð gólfplötu hafi ekki að neinu leyti breyst þó teikningum hússins hafi verið breytt þannig að flatarmál kjalla undir húsinu hafi verið aukið. Staðsetningu hafi í engu verið breytt.
Vísað sé til bréfs skipulagsfulltrúa til kæranda, dags. 25. mars 2004. Kannist byggingarleyfishafi ekki við að sér hafi verið sérstaklega greint frá athugasemdum kæranda. Þá hafi hann og ekki haft vitneskju um að útsýnisherbergi væri í risi sumarbústaðar kæranda fyrr en sl. sumar, eftir að framkvæmdir við sumarhúsið hafið verið langt á veg komnar. Byggingarleyfishafi hafi ekki vitað af kærunni fyrr en hinn 25. maí 2005 þegar skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu hafi látið hann vita af henni með tölvupósti.
Byggingarleyfishafi kannist við að hafa látið í ljós vilja til þess að taka tillit til hagsmuna allra nágranna þegar hann hafi byggt húsið og hafi hann talið sig hafa gert það við val á staðsetningu þess. Að sjálfsögðu hafi ekki verið hjá því komist að með byggingunni myndi útsýni kæranda til Þingvallavatns skerðast, en umdeilanlegt sé aftur á móti hversu mikil sú skerðing þyrfti að verða og hvaða áhrif það hefði haft að byggja annars staðar í landinu. Megi nefna að staðsetning neðar í landinu hefði eftir atvikum getað valdið ónæði gagnvart þeim sem eigi bústaði neðan og til hliðar við land byggingarleyfishafa.
Hvað sem þessu líði þá liggi sú staðreynd fyrir að byggingarleyfishafi hafi farið í einu og öllu eftir heimildum og fyrirmælum byggingaryfirvalda og hafi byggt bústað sinn samkvæmt teikningum samþykktum af yfirvöldum.
Kvartanir sínar beri kærandi fram á síðari stigum og hafi byggingarleyfishafi aldrei orðið var við neina tilburði kæranda til þess að hindra framkvæmdir hans. Þá hafi hann ekki komið athugasemdum fram gagnvart byggingarleyfishafa á þeim tíma sem svigrúm hafi verið til þess að breyta staðsetningu hússins.
Niðurfelling byggingarleyfis yrði allsendis óásættanleg fyrir byggingarleyfishafa og til þess fallin að valda ómældu tjóni.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 22. september 2005 og hitti þar fyrir málsaðila og skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 3. júní 2004 að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni nr. 7 við Réttarháls í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Ráða má af málsgögnum að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um efni hins kærða byggingarleyfis í lok apríl 2005 og að skipulagsfulltrúi hafi þá bent honum á þann möguleika að kæra málið til úrskurðarnefndarinnar. Verður því lagt til grundvallar að kæran hafi borist innan kærufrests, enda miðaðist upphaf kærufrests samkvæmt þágildandi 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við vitneskju kæranda um þá ákvörðun sem kæra skyldi. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.
Í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Í máli þessu liggur fyrir að hinn 24. nóvember 1993 var samþykkt af Skipulagsstjórn ríkisins deiliskipulag fyrir sumarhúsabyggð í landi Nesja í Grafningshreppi og tekur skipulagið til þess svæðis er hér um ræðir. Þar er gert ráð fyrir all mörgum sumarhúsalóðum, þar á meðal lóð kæranda, en svæðið þar sem hús byggingarleyfishafa stendur er óbyggt samkvæmt deiliskipulaginu. Er lóðin að Réttarhálsi 7 því ekki sýnd á skipulagsuppdrættinum þótt hún sé án nokkurs vafa innan þess svæðis sem skipulagið tekur til.
Þegar sveitarstjórn barst erindi um heimild til byggingar sumarhúss á hinu óbyggða svæði samkvæmt deiliskipulaginu frá árinu 1993 bar henni að auglýsa breytingu á skipulaginu, skv. 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða að lágmarki að grenndarkynna breytinguna fyrir hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 26. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna, þar sem gert væri ráð fyrir lóðinni nr. 7 við Réttarháls og byggingarreit innan hennar, sbr. 26. gr. sömu laga. Bar og að auglýsa gildistöku skipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.
Í stað þess að gera þær breytingar á gildandi skipulagi svæðisins sem voru nauðsynlegur undanfari þess að unnt væri að veita hið umdeilda byggingarleyfi lét sveitarstjórn kynna nágrönnum byggingarnefndarteikningar að sumarhúsi að Réttarhálsi 7 og virðist hafa verið lagt til grundvallar við meðferð málsins að ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Var þó ekkert svigrúm til þeirrar túlkunar.
Samkvæmt því sem að framan er rakið var byggingarleyfi fyrir umræddu sumarhúsi veitt án þess að það ætti sér nokkar stoð í gildandi skipulagi svæðisins. Er í skipulaginu ekki einu sinni gert ráð fyrir byggingarlóð á þeim stað þar sem húsið var reist. Fór veiting leyfisins því í bága við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulag- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 3. júní 2004 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss að Réttarhálsi 7, í landi Nesja, sem staðfest var af sveitarstjórn 16. júní 2004, er felld úr gildi.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson.