Árið 2014, mánudaginn 1. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 37/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.
Í málinu er nú kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2014, sem barst nefndinni 30. s.m., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113426, 113410, 113422 og 113443 í Reynisvatnslandi, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. mars 2014 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Hólmsheiði.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en einnig er gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða með vísan til 5. gr. l. nr. 130/2011.
Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Málsatvik og rök: Hinn 19. mars 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar lögð fram umsókn Fisfélags Reykjavíkur, dags. 13. mars 2014, vegna breytinga á deiliskipulagi Hólmsheiðar. Í breytingunni fólst að skilgreina tvær lóðir innan svæðis A og falla frá byggingareit á svæði C. Samkvæmt uppdrætti færðist heimild til að reisa hús undir félagsaðstöðu á svæði C yfir á svæði A. Umsóknin var samþykkt og jafnframt var bókað að samþykkt væri að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðaði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2014.
Kærendur skírskota til þess að Reykjavíkurborg sé fullkunnugt um baráttu landeigenda frístundalóða í Reynisvatnslandi gegn öllum áformum um skipulagningu flugvallar og aðra aðstöðu í landi jarðarinnar. Hafi sú barátta staðið allt frá árinu 2006 þegar tillaga um afmörkun svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur hafi fyrst verið kynnt. Telji kærendur að brotið hafi verið gegn skipulagslögum, skipulagsreglugerð og stjórnsýslulögum þegar samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 19. mars 2014 að falla frá grenndarkynningu, enda skerði flugvöllur og aðstaða Fisfélagsins rétt allra þeirra sem eigi lönd og lóðir á þessu svæði.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en Fisfélagsins og því hafi Reykjavíkurborg verið heimilt að samþykkja umsóknina með þeim hætti sem gert var. Hin umþrætta breyting hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni kærenda og eigi því kærendur enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið sbr. 3. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011. Af þeim sökum beri að vísa málinu frá.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalda frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða vegamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.
Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimildir til nýtingar tiltekins svæðis. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.
Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.
______________________________
Nanna Magnadóttir