Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2004 Skildinganess

Ár 2006, þriðjudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2004 kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. febrúar 2004 um breytt deiliskipulag Skildinganess.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. janúar 2004, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar kæra G og E Baugatanga 2, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. október 2001 um að breyta deiliskipulagi Skildinganess fyrir lóðina nr. 4 við Baugatanga.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 13. desember 2003.   

Hinn 25. júní 2004 barst úrskurðarnefndinni kæra H Bauganesi 16, Reykjavík, dags. 24. sama mánaðar, þar sem kærð er samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2004 um breytingu á deiliskipulagi Skildinganess.  Var sú samþykkt staðfest í borgarráði hinn 24. febrúar 2004.  Með þeirri samþykkt voru deiliskipulagsskilmálar vegna lóðarinnar að Baugatanga 4 felldir inn í síðarnefndu samþykktina.  Af þessum sökum ákvað úrskurðarnefndin að sameina kærumálin í eitt mál og var eldra kærumálið fellt inn í það mál er síðar barst, enda var hin kærða ákvörðun í fyrra málinu orðin hluti af sakarefni síðara málsins.

Skilja verður kærur kærenda svo að gerð sé krafa um að umdeild deiliskipulagsbreyting Skildinganess verði felld úr gildi.  Þá gerir annar kærenda þá kröfu að sömu skilmálar gildi fyrir öll hús við Bauganes, sunnan Baugatanga, einkum húsið nr. 24, og gildi fyrir húsið nr. 22, þ.e. að á lóðunum megi byggja hús á einni hæð en á helmingi grunnflatar megi byggja tvær hæðir innan hámarkshæðarinnar 4,4 m ásamt því að óheimilt verði að byggja stigahús 1,3 m yfir hámarkshæð þaks nema að hámarki 2 m².     

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 31. ágúst 2001 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 4 við Baugatanga.  Var tillagan grenndarkynnt í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fram komu athugasemdir og mótmæli við deiliskipulagstillöguna sem lutu að því að fyrirhugað hús yrði of hátt, stöllun þess félli ekki að landhalla lóðarinnar og með byggingu þess væri heildaryfirbragði götunnar raskað, auk þess sem skuggavarp ykist á nágrannalóðir.  Í umsögn borgarskipulags frá 23. október 2001 um framkomnar athugasemdir var tekið undir að fyrirhugað hús væri of hátt og stöllun þess félli ekki vel að umhverfinu.  Var lagt til að húsið yrði lækkað og stöllun þess yrði hagað með svipuðum hætti og á lóðinni nr. 6 við Baugatanga.

Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur tók deiliskipulagsbreytinguna fyrir á fundi sínum hinn 24. október 2001 og samþykkti hana á grundvelli 4. gr. þágildandi samþykktar fyrir skipulags- og byggingarnefnd, þar sem nefndinni var falið lokaákvörðunarvald um minni háttar deiliskipulagsbreytingar.  Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði hinn 18. desember 2003 vísaði kærunni frá nefndinni þar sem hin kærða ákvörðun fól ekki í sér fullnaðarákvörðun á sveitarstjórnarstigi.  Borgarráð staðfesti deiliskipulagsbreytinguna hinn 9. desember 2003 og var gildistakan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. mars 2004. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. maí 2003 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir Skildinganes, nánar tiltekið fyrir svæði sem markast af Einarsnesi, Skildinganesi, Skeljanesi og útivistarsvæði meðfram strandlengjunni í suðri og var samþykkt að auglýsa tillöguna.  Á þessu svæði er lóðin að Baugatanga 4.    Hinn 19. september 2003 var málið tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa að lokinni auglýsingu sem stóð frá 13. júní 2003 til 25. júlí sama ár en fjölmargar athugasemdir bárust skipulagsyfirvöldum.  Á fundinum var samþykkt að fela hverfisstjóra að vinna umsögn.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 18. febrúar 2004 var málið tekið fyrir á ný og auglýst tillaga samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. febrúar 2004, auk þess sem nýtingarhlutfall sjávarlóða sem var 0,5 er hækkað í 0,55.  Vísað til borgarráðs.“  Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 24. febrúar 2004 og send Skipulagsstofnun til meðferðar.  Tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 8. júlí 2004, að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar og var auglýsingin birt hinn 13. júlí 2004.

Með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun var deiliskipulag Skildinganess frá árinu 1959 fellt úr gildi.  Í almennum skilmálum hins kærða deiliskipulags segir m.a. eftirfarandi um stærðir húsa:  „Á lóðum við Gnitanes er gert ráð fyrir einlyftum húsum.  Raðhús við Einarsnes eru tvílyft, og verður heimilt að byggja ofan á tengibyggingar.  Á nýrri lóð að Skildinganesi 4A er heimilt að byggja tveggja hæða hús með einlyftri áfastri bílgeymslu, suðvestan  hússins.  Við Fáfnisnes 6 og 6A er heimilt að byggja tveggja hæða hús.  Við Bauganes 22 og Skildingatanga 1 er heimilt að byggja tvílyft á helmingi grunnflatar húss innan byggingarreits, þó ekki hærra en 4,4 m yfir kóta í N-A horni lóðar.  Að Baugatanga 4 gilda sérskilmálar samþykktir í borgarráði 9. desember 2003, sjá nánar í fylgiriti með deiliskipulagsuppdrætti.  Að Skildinganesi 20 má byggja einlyft hús, en á þeim hluta upphaflegs byggingarreits sem er fjær götu má það vera tvílyft, sjá kóta á uppdrætti.  Um önnur hús gildir að þau skuli vera einlyft, en á helmingi grunnflatar þeirra fjær götu mega þau þó vera tvílyft. Það gildir þó ekki á lóðum við Gnitanes.“  Í deiliskipulaginu segir einnig eftirfarandi um hæðir húsa:  „Mesta hæð einlyftra húsa er að hámarki 4,4 m yfir götukóta.  Hámarkshæð tveggja hæða húsa er 6,8 m yfir götukóta.  Hæð þeirra húsa sem heimilt er að byggja tvílyft á helmingi grunnflatar, má vera allt að 4,4 m yfir götukóta þar sem það er einlyft, en 5,7 m þar sem það er tvílyft (undantekning eru óbyggðar lóðir að Bauganesi 22 og Skildingatanga 1, en hámarkshæð húsanna er 4,4 m, þar sem miðað er við kóta á N-A horni lóða).  Almennt gildir um hús sem mega vera að hámarki 4,4 m að hæð, að stigahús, skorsteinar, loftræsibúnaður o.þ.h. sem staðsett er þannig að ekki valdi óþarfa skuggamyndun, megi vera 1,3 m yfir þakfleti, enda sé heildarflatarmál þessara byggingarhluta undir 10m².  Á lóðunum Bauganesi 22 og Skildingatanga 1, sem eru óbyggðar lóðir, er heimilt að byggja á tveimur hæðum á helmingi grunnflatar hússins innan byggingarreits, en þó ekki hærra en 4,4 m yfir kóta í N-A horni lóðar.  Heimilt er að stigahús, skorsteinar, loftræsibúnaður o.þ.h. sem staðsett er þannig að ekki valdi óþarfa skuggamyndun, sé 5,7 m yfir kóta í N-A horni lóðar, enda heildarflatarmál þessara byggingarhluta ekki yfir 10 m².  Að Baugatanga 4 er heimilt að byggja innan sérskilmála sem samþykktir voru í borgarráði 9. des 2003.  Stefna mænis skal vera hornrétt á götu og stöllun húss er á eystri hluta þess.  Mesta hæð langveggja er 4,23 m yfir hæsta kóta lóðar og mesta hæð þaks ekki meiri en 5,80 m yfir hæsta kóta lóðar sem liggur að götu (sjá nánar sérskilmála í fylgiriti með deiliskipulagsuppdrætti).  Við Skildinganes 4A er hámarkshæð húss 6,8 m og bílskúrs 3,3 m yfir götukóta.  Fyrir Skildinganes 20 gilda almennir skilmálar innan byggingarreits 13×20 m, en innan stækkaðs byggingarreits má byggja einlyft (sjá kóta á uppdrætti).  Að Fáfnisnesi 6 og 6A er heimilt að byggja tveggja hæða hús, allt að 6,8 m yfir götukóta.  Mesta hæð bílskúra við Gnitanes 1 er 3,3 m yfir götukóta.“

Hafa kærendur skotið framangreindum samþykktum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kæranda, búsetts að Bauganesi 16, er vísað til þess að í deiliskipulagi Skildinganess sé gert ráð fyrir því að almennir skilmálar gildi fyrir allar óbyggðar lóðir á skipulagssvæðinu.  Sé þá m.a. reiknað með að hæð húss á helmingi grunnflatar, fjær götu, geti farið upp í hæðina 5,70 m.  Að auki sé leyft að byggja stigahús, allt að 10 m² að stærð 1,3 m yfir hámarkshæð húss.  Telji kærandi að hámarkshæð húsa á óbyggðum lóðum við Bauganes eigi að vera 4,4 m yfir götukóta.  Þetta sé nauðsynlegt til að húsin skeri sig ekki, hæðar sinnar vegna, úr götumynd við sunnanvert Bauganes, austan Baugatanga.  Einnig verði að gæta þess að sömu reglur gildi fyrir lóðir er standi hlið við hlið.  Sérstaklega sé bent á hæð fyrirhugaðs hússins að Bauganesi 24, sem sé óbyggð lóð. 

Vakin sé athygli á að þegar kærandi, búsettur að Bauganesi 16, hafi byggt sitt hús árið 2002 hafi hann þurft að hlíta því að það yrði að hámarki 4,4 m yfir götukóta. 

Svar skipulagsfulltrúa við athugasemdum hagsmunaaðila á svæðinu sé ófullnægjandi.  Byggi svarið á athugun sem starfsmenn skipulagsfulltrúa hafi gert með teikningu af götumynd af hluta Bauganess.  Fram komi að hæsti punktur 10 húsa af 15 sé 4,4 m yfir götukóta.  Þess vegna sé ekki hætta á að ný hús sem byggð séu samkvæmt almennum skilmálum skipulagsins muni skera sig úr götumynd Bauganess.  Þar komi einnig fram að þeir sem byggt hafi hús nýlega hafi þurft að halda hæð húsa sinna innan við 4,4 m vegna óskýrra skilmála í gildandi eldra skipulagi.  Því sé haldið fram að fyrrgreind athugun skipulagsfulltrúa sé ófullnægjandi sökum þess að hún taki aðeins á litlum hluta þeirra atriða sem máli skipti við faglega ákvarðanatöku um leyfilegar hámarksstærðir húsa og skilmála til þess að skapa heildræna götumynd eftir því sem kostur sé.  Þannig taki athugunin ekki tillit til þess hvenær húsin séu byggð og hvaða skipulagsskilmálar hafi verið í gildi á þeim tíma en allmörg húsanna hafi verið byggð áður en nokkurt skipulag hafi verið gert fyrir hverfið.  Athugunin nái aðeins til hámarkshæða húsa en ekki vegghæða og mænishæða.  Í engu sé kannað rúmmál húsa, massauppbygging eða þakhalli.  Þá sýni athugunin ekki möguleika óbyggðra húsa og því sé ófært að meta hvort húsin skeri sig úr götumynd eða ekki.  Ljóst sé af deiliskipulagi Skildinganess að í flestum tilfellum þar sem hæð húsa sé 4,4 m yfir götukóta sé um að ræða lítin hluta mænis.  Af samtölum við fasteignaeigendur á svæðinu virðist sem hús hafi verið byggð eins há og mögulegt hafi verið og þeir þar með látnir sæta takmörkunum á hæð húsanna.  Götumynd sem sýni húsin norðan Baugatanga séu þessu máli óviðkomandi, sem og hæð húsa næst Einarsnesi. 

Götumyndin frá Skildinganesi til Skildingatanga sé nokkuð heildstæð.  Hús þar séu nokkurn veginn sömu hæðar að frátöldu húsinu nr. 10, sem skeri sig úr, en það sé hornhús byggt fyrir tíma nokkurs deiliskipulags og henti því illa til viðmiðunar.  Skilmálar fyrir húsið nr. 24 séu óskiljanlegir og til þess fallnir að brjóta jafnræðisreglu og skipulags- og byggingarlög um samræmi milli húsa og umhverfis þeirra.  Jafnræðisregla sé brotin þar sem húsin sem standi beggja vegna við hafi þurft að sæta mun takmarkaðri skilmálum, sbr. hús kæranda að Bauganesi 16.  Svipaða sögu sé að segja um næstu húsaröð austan Skildinganess þó þar séu líka fáeinar undantekningar eða litlir þakhlutar sem fari upp fyrir 4,4 m.

Ljóst sé að verði byggt hús á lóðinni nr. 24 við Bauganes samkvæmt heimildum skipulagsins verði helmingur þess fjær götu með vegghæðina 5,7 m og flatt þak, sem sé brot á skipulags- og byggingarlögum og öðrum reglum þess efnis að byggð skuli falla sem best að umhverfi sínu. 

Húsin um mitt Bauganesið sunnanvert séu byggð á mismunandi tíma, þau séu ein hæð en stölluð fjær götu innan rammans 4,4 m.  Húsin séu því niðurgrafin að hluta þar sem þau stallist. 

Hæð húsanna við Bauganes verði að skoða í sögulegu samhengi og með hliðsjón af eldri skipulagsskilmálum frá árinu 1966.  Þar komi fram að á lóðunum skuli reisa einnar hæðar íbúðarhús.  Frávik séu þó frá þeirri reglu varðandi nokkur hús við Skildinganesveg og eitt hús við Baugsveg.  Flest húsanna í Skildinganesi séu byggð 15-20 árum eftir að þessir skilmálar hafi tekið gildi.  Byggðamynstur í hverfinu sé eins og skilmálarnir gefi til kynna, þ.e. stærri hús á sjávarlóðum og minni innar í hverfinu.  Engin rök standi til þess að hús á sjávarlóðum eigi að gefa tóninn fyrir þær síðustu lóðir sem byggðar verði við Bauganes. 

Athugasemdir kærenda vegna lóðarinnar að Baugatanga 4 lúta að hæð hússins og legu þess í landinu.  Stöllun hússins sé ekki í samræmi við nánasta umhverfi þess, en ætlunin sé að það verði tvílyft á hæsta hluta lóðarinnar og varpi því meiri skugga inn á lóð kærenda heldur en ella.  

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið að öllu leyti í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.  Bent sé á að allir hagsmunaaðilar á reitnum hafi fengið senda tilkynningu um að deiliskipulagsgerð væri í vændum, auk þess sem viðhöfð hafi verið sérstök hagsmunaaðilakynning á tillögunni sjálfri áður en hún hafi verið auglýst á lögformlegan hátt.

Í deiliskipulagi, þ.m.t. deiliskipulagi þess sem deilt sé um í máli þessu, séu veittar heimildir til uppbyggingar sem séu í samræmi við stefnumörkun borgaryfirvalda sem birtist m.a. í aðalskipulagi borgarinnar.  Í forsögn skipulagsfulltrúa, dags. í janúar 2002, sé nánar greint frá hvaða sjónarmið skuli ráða við þéttingu byggðar á svæðum eins og því sem hér um ræði.  Deiliskipulagið skuli vera og sé í samræmi við stefnumörkun Reykjavíkurborgar eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Einnig hafi verið höfð til hliðsjónar, þar sem við eigi, stefnumörkun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins auk þess sem húsakönnun Árbæjarsafns á reitnum hafi verið höfð til hliðsjónar við þessa vinnu.

Eitt helsta viðfangsefni hins kærða deiliskipulags hafi verið að stuðla að uppbyggingu svæðisins þannig að hún gæti orðið í samræmi við þá byggð sem fyrir væri og að gerðir yrðu skilmálar sem enginn vafi væri um túlkun á.  Stefnt hafi verið að því að skilgreina stækkun húsa sem eldra skipulag hafi heimilað og gera grein fyrir mögulegri uppbyggingu á óbyggðum lóðum, en þó þannig að leitast væri við að ganga ekki á rétt annarra.

Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að hæð húsa meðfram Bauganesi sé mjög mismunandi.  Þar standi einlyft hús, stölluð hús og allt að þriggja hæða hús hlið við hlið.  Sett hafi verið upp götumynd Bauganess og hæð húsa athuguð miðað við götuhæð.  Sunnan Bauganess standi 15 hús, en auk þess séu þar fjórar óbyggðar lóðir. Hæsti punktur 10 húsa sé meira en 4,4 m yfir götukóta en fimm hús séu innan við 4,4 m að hæð.  Í húsaröðinni séu fimm eldri hús sem byggð hafi verið fyrir árið 1941, fyrir tíma deiliskipulags.  Þrjú húsanna séu tvær fullar hæðir eða meira, en sex þeirra séu á tveimur hæðum að hluta (stölluð) og sex hús séu einlyft, en þrjú þeirra séu með svo hátt þak að hæsti punktur þeirra fari meira en 4,4 m yfir götukóta.  Áhrif þessara húsa í umhverfi sínu séu mjög misjöfn, ekki síst vegna mismunandi  þakforms.  Af þessum 15 húsum séu þrjú meira en 5,70 m yfir götuhæð.  Ekki sé hægt að taka undir það að leyfi til að byggja helming grunnflatar húsanna upp í allt að 5,70 m muni falla illa að götumynd Bauganess.  Þeir sem hafi byggt áður en deiliskipulagið hafi tekið gildi hafi þurft að halda hæð húsa sinna innan við 4,4 m vegna óskýrra skilmála í þágildandi deiliskipulagi.  Húseigendur norðan við Bauganes telji æskilegra að hús sunnan götunnar verði ekki mjög há, en ekki sé tekið undir að hæðir húsa eins og deiliskipulagstillagan geri ráð fyrir hafi teljandi áhrif á útsýni eða skuggavarp.  Fjölbreytni húsa á skipulagssvæðinu sé það mikil að ekki hafi þótt ástæða til að takmarka hæðir allra húsa við 4,4 metra.  Mesta hæð einlyftra húsa samkvæmt deiliskipulaginu megi vera 4,4 metrar, hámarkshæð þeirra húsa sem megi stalla sé 5,7 m á hærri hluta þeirra sem fjær sé götu, en hámarkshæð tveggja hæða húsa sé 6,8 m yfir götukóta, en á þessu séu þó undantekningar á nokkrum lóðum, sbr. lóðirnar við Skildingatanga 1, Bauganes 22 og Baugatanga 4.

Lagt hafi verið upp með að nýtingarhlutfallið væri svipað á öllum lóðum, þ.e. 0,4 en ívið hærra á lóðum Skildingarness við sjávarsíðuna, eða 0,5.

Þeirri málsástæðu að Reykjavíkurborg hafi brotið skipulags- og byggingarlög og jafnræðisreglu sé mótmælt sem ósannri og ósannaðri.  Því sé hafnað að óheimilt hafi verið að heimila meiri hámarkshæð en 4,4 m á þeim lóðum sem því verði við komið, einungis vegna þess að kærandi hafi á sínum tíma verið bundin af hámarkshæð 4,4 m.  Ekki hafi heldur verið leitt í ljós að ákvæði skipulags- og byggingarlaga um samræmi milli húsa og umhverfis hafi verið brotin.  Farið sé fram á að stærð stigahúss verði minnkuð og að fallið verði frá því að byggja megi stigahús 1,3 m yfir hámarkshæð þaks nema að hámarki 2 m².  Við vinnslu deiliskipulagsins hafi verið talið að hæfilegt væri að takmarka stærð þess við 10 m², en í skilmálum sé tekið fram að stigahúsið skuli þannig staðsett að ekki valdi óþarfa skuggamyndun.

Í kæru felist krafa um að úrskurðarnefndin breyti gildandi deiliskipulagi og deiliskipuleggi upp á nýtt.  Nefndin sé ekki bær til að breyta skipulagi, hún geti einungis tekið á kröfu um lögmæti skipulagsákvarðana og þá eftir atvikum fellt skipulagsákvarðanir úr gildi.  Beri því að vísa þessari kröfu frá nefndinni.

Sérstaklega sé minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.
 
Sjónarmið borgaryfirvalda vegna lóðarinnar að Baugatanga 4 byggi á því að löggjafinn hafi ákveðið að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum.  Það hafi verið ákvörðun borgaryfirvalda að heimila umrædda deiliskipulagsbreytingu á lóðinni Baugatanga 4, og hafi kærendur ekki bent á neina formlega annmarka á ákvörðuninni sem valdið geti ógildi deiliskipulagsins.  Ljóst sé að meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.  Þrátt fyrir að athugasemdir hafi borist við grenndarkynningu sé á það bent að það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs eða í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja það að farið verði eftir öllum hugmyndum eða skoðunum sem íbúar hafi, enda væri slíkt ómögulegt.

Í greinargerð með deiliskipulagi svæðisins segi að heimilt sé að byggja einbýlishús í samræmi við eftirfarandi sérskilmála:  „Hús skal vera innan byggingarreits, en svalir, skorsteinn og þakkantur mega ná út fyrir reitinn að hluta til. Leyfilegt er að stalla húsið á helmingi grunnflatar þess þannig að aðkomuhæð sé á vestari hluta lóðar, en stöllun sé á eystri hluta lóðar. Stefna mænis skal vera hornrétt á götu og skal mesta hæð þaks ekki vera meiri en 5,80 m yfir hæsta kóta lóðar sem liggur að götu. Mesta hæð langveggja er 4,23 m yfir hæsta kóta lóðar sem liggur að götu.“  Hinir sérstöku skilmálar fyrir lóðina Baugatanga 4, eigi sér þannig stoð í heildardeiliskipulagi svæðisins og séu samþykktir uppdrættir innan þeirra marka er þar greini.  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi samþykkt umsókn um byggingarleyfi á grundvelli deiliskipulags lóðarinnar og hafi sú samþykkt ekki verið kærð.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi endurskoðaðs deiliskipulags fyrir Skildinganes í Reykjavík.  Er af hálfu kærenda krafist ógildingar ákvörðunarinnar með vísan til þess að svör skipulagsfulltrúa við innsendum athugasemdum á auglýsingartíma hafi verið ófullnægjandi og að í deiliskipulaginu felist mismunun.  Þá leiði neikvæð grenndaráhrif fyrirhugaðs húss að Baugatanga 4 einnig til þess að ógilda beri hina kærðu ákvörðun.  Á framangreint verður ekki fallist.  Undirbúningur og meðferð hinnar kærðu samþykktar var í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og með samþykkt hins breytta deiliskipulags fyrir Skildinganes hefur byggingarreitur hverrar lóðar verið ákvarðaður ásamt hámarks nýtingarhlutfalli og hámarks hæð húsa.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að með skipulaginu hafi ekki verið raskað jafnræði lóðarhafa á svæðinu með þeim hætti að ógildingu varði enda hafi tillit verið tekið til aðstæðna á hverri lóð.  Þá verður heldur ekki fallist á að grenndaráhrif fyrirhugaðra nýbygginga á svæðinu, þar á meðal húsa er skipulagið heimilar á lóðunum nr. 4 við Baugatanga og nr. 24 við Bauganes, séu svo neikvæð að fella verði deiliskipulagið úr gildi af þeim sökum.  Verður kröfum kærenda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. febrúar 2004 um breytt deiliskipulag Skildinganess, sem staðfest var í borgarráði hinn 24. febrúar 2004.   

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                  _______________________________
  Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson