Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/1999 Langagerði

Ár 1999, miðvikudaginn 13. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/1999; kæra B og G, Langagerði 80, Reykjavík, á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júlí 1999, þar sem staðfest er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að hafna afskiptum embættis byggingarfulltrúa af trjágróðri á lóðamörkum Langagerðis 78 og 80. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags 13. júlí 1999, leita B og G, Langagerði 80, Reykjavík, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júlí 1999, þar sem staðfest er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að hafna afskiptum embættis byggingarfulltrúa af trjágróðri á lóðamörkum Langagerðis 78 og 80. Umrædd ákvörðun var staðfest í borgarráði 13. júlí 1999.  Skilja verður erindi kærenda sem kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Máli því, sem hér er til meðferðar, hefur áður verið skotið til úrskurðarnefndar.  Þykir rétt að rekja aðdraganda málsins og þá málsmeðferð sem það hefur áður sætt.  Er upphaf málsins það að þann 7. september 1998 rituðu kærendur bréf til byggingarfulltrúans í Reykjavík, þar sem farið var fram á að fjögur reynitré, sem standa á lóðamörkum Langagerðis 78 og 80, yrðu fjarlægð, þar sem þau yllu kærendum talsverðum óþægindum.  Kváðu kærendur trén slúta yfir innkeyrslu að bílskúr þeirra, auk þess sem þau skyggðu á þá glugga í húsi þeirra sem að þeim sneru, þannig að dagsbirta næði ekki inn í þau herbergi, nema í takmörkuðum mæli.  Samkvæmt bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 26. október 1998, fór hann og skoðaði aðstæður og taldi þær ekki gefa tilefni til afskipta af hálfu embættis síns.  Kærendur vildu ekki una þessari niðurstöðu og rituðu bréf til umhverfisráðuneytisins, dags. 14. desember 1998, og óskuðu liðsinnis þess í málinu.  Í svari ráðuneytisins, dags. 14. janúar 1999, var kærendum bent á að vísa ákvörðun byggingarfulltrúa til byggingarnefndar og að þeim væri heimilt að kæra ákvörðun byggingarnefndar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sættu þau sig ekki við hana.  Með bréfi, dags. 4. febrúar  1999, til byggingarnefndar Reykjavíkur, óskuðu kærendur þess að byggingarnefnd tæki málið til endurskoðunar og sjálfstæðrar umfjöllunar.  Vísuðu kærendur til greinar 8.6. í byggingarreglugerð nr. 441/1998 til stuðnings því málskoti.  Byggingarnefnd hafnaði erindi kærenda á fundi sínum hinn 25. febrúar 1999 og og kærðu þau þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 8. mars 1999. 

Úrskurðarnefndin tók málið til meðferðar og leitaði afstöðu byggingarnefndar Reykjavíkur og umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Einnig var eigendum hinna umdeildu trjáa gefinn kostur á að koma að andmælum í málinu.  Jafnframt ákvað úrskurðarnefndin að kynna sér aðstæður á vettvangi og var málinu frestað af því tilefni þar til hin umdeildu tré væru að fullu laufguð.  Vettvangsganga fór fram hinn 23. júní 1999.  Voru kærendur viðstaddir hana, svo og eigandi Langagerðis 78 og garðyrkjumaður á hans vegum.  Nefndin kynnti sér aðstæður utan dyra og inni í þeim herbergjum í húsi kærenda sem snúa að Langagerði 78.  Viðstaddir gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum og veittu umbeðnar upplýsingar. Upplýst var, og er það óumdeilt, að eitt af fjórum reynitrjám á mörkum lóðanna nr. 78-80 hafði verið fellt eftir að kærendur settu fram kröfur sína um afskipti byggingarfulltrúa af málinu.

Með úrskurði hinn 30. júní 1999 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar frá 25. febrúar 1999 um að samþykkja afstöðu byggingarfulltrúa til erindis kærenda þar sem málsmeðferð og rökstuðningi nefndarinnar hefði verið svo áfátt að varðaði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Var lagt fyrir byggingarnefnd að taka málið til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu þess með viðhlítandi rannsókn málsins og rökstuðningi

Málið var tekið til meðferðar að nýju á fundi byggingarnefndar hinn 8. júlí 1999.  Var erindi kæranda tekið fyrir að nýju og synjað með ítarlegum rökstuðningi.  Kemur og fram í bókun byggingarnefndar að nefndarmenn hafi kynnt sér aðstæður á vettvangi, en ekki mun þó hafa verið um formlega vettvangsgöngu með málsaðilum að ræða.  Ákvörðun byggingarnefndar var kunngerð kærendum með bréfi dags. 9. júlí 1999.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndar með bréfu dags. 13. júlí sl. eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur, sem eru eigendur fasteignarinnar nr. 80 við Langagerði í Reykjavík, kveða reynitré þau, sem enn standi nærri lóðamörkum á lóðinni nr. 78, valda sér ýmsum óþægindum og jafnvel tjóni.  Hafa kærendur áður haldið því fram að þar sem trén slúti yfir innkeyrslu að bílskúr þeirra geti þau valdið skemmdum á bifreiðum sem lagt sé í innkeyrslunni.  Þá skerði þau birtu í herbergjum sem að þeim snúi, svo verulega að óviðunandi sé.  Eigendur trjánna hafi ekki fallist á tilmæli kærenda um úrbætur og hafi þau því snúið sér til byggingarfulltrúa.  Telji þau honum skylt að hlutast til um úrbætur og vísa til greina 61.7. og 68.3. í byggingarreglugerð nr. 441/1998 máli sínu til stuðnings.  Í kæru sinni nú taka kærendur fram, auk þess sem að framan er rakið, að mikil óþrif stafi frá trjánum og berist frjóduft inn um dyr og glugga og hafi auk þess komið í veg fyrir að hægt væri að mála þakið á húsi þeirra.  Síðar komi rauð ber á trén og frá trjánum berist trjákvoða sem ómögulegt sé að þrífa.  Þá standi trén í vegi fyrir því að kærendur geti sett hitalögn í innkeyrslu að bílskúr við hús sitt eins og áformað hafi verið.  Kærendur taka fram að þau hafi snyrt limgerði milli lóðanna og sé snyrtimennska sú, sem byggingarfulltrúi tali um, því kærenda en ekki eigenda trjánna.

Málsrök byggingarnefndar Reykjavíkur:  Leitað var viðhorfa byggingarnefndar til kæruefnis máls þessa.  Er vísað til greinargerðar byggingarnefndar í fyrra máli kærenda málinu, dags. 28. apríl 1999, og bókunar byggingarnefndar við afgreiðslu málsins hinn 8. júlí 1999, þar sem fram komi að byggt hafi verið á lóðunum nr. 78 og 80 við Langagerði á árunum 1955 og 1956.  Engin ákvæði hafi þá verið um trjágróður í byggingarsamþykkt.  Slík ákvæði hafi fyrst komið til sögunnar með setningu byggingarreglugerðar nr. 292/1979.  Í þeirri reglugerð hafi verið ákvæði, sem heimilaði byggingarnefnd að krefjast þess að gróður væri fjarlægður ef af honum stöfuðu óþægindi eða hætta fyrir umferð eða veruleg skerðing á birtu í íbúð eða á lóð.  Það sé meginregla íslensks réttar að lög og reglugerðir hafi ekki afturvirk áhrif.  Í grein 12.8 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sé auk þess sérstaklega áréttað að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir, sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildistöku reglugerðarinnar, skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi hafi verið þegar þær hafi verið byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til öryggis- og heilbrigðismála.  Ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 varðandi trjágróður geti því ekki átt við í tilviki því sem hér um ræði enda sé ljóst að umrædd tré hafi verið gróðursett fyrir einhverjum áratugum.  Ekki hafi verið sýnt fram á það að trén, sem séu norðan lóðar kærenda, valdi hættu fyrir umferð né skerði birtu í íbúð kærenda svo verulega að gr. 5.12.4. í byggingarreglugerð nr. 292/1979 taki til þeirra.  Tekur byggingarnefnd fram að sjaldgæft sé að sjá jafn nærgætnislega hugsað um trjágróður, hvað viðkomi tilliti til nágranna, og hjá eigendum hússins nr. 78 við Langagerði.  Sé erindi kærenda því ekki á rökum reist.

Málsrök eigenda Langagerðis 78:  Af hálfu eigenda Langagerðis 78 er vísað til greinargerðar þeirra í fyrra máli kærenda.  Þar kemur fram að af sex trjám, sem staðið hafi milli húsanna nr. 78 og 80 við Langagerði, hafi þrjú verið felld á árunum 1997-1999, þar af eitt vorið 1999 eða eftir að kærendur settu fram kröfur sínar.  Umsjón með klippingum og grisjun trjágróðurs á lóðinni hafi árum saman verið í höndum útlærðra garðyrkjumanna og muni grisjun verða haldið áfram í samræmi við ráðgjöf þeirra.  Ekki sé hugað að frekari grisjun á þessu ári enda væri það ekki að ráði fagmanna.  Ekkert tilefni sé til þess að verða við kröfum kærenda í málinu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er til úrlausnar það álitaefni hvort byggingarfulltrúanum í Reykjavík hafi verið skylt að verða við beiðni kærenda um að hann hlutaðist til um að umrædd reynitré á lóðinni nr. 78 við Langagerði í Reykjavík yrðu fjarlægð.  Gögn málsins bera það með sér að reynitré þau, sem um er deilt í málinu, hafa lengi verið til staðar.  Verður ekki séð að staðsetning þeirra hafi farið í bága við byggingarsamþykkt Reykjavíkur á þeim tíma er telja verður líklegt að þau hafi verið gróðursett.  Reglur um gróður á lóðum munu fyrst hafa verið settar með byggingarreglugerð nr. 292/1979, en samkvæmt ákvæði greinar 5.12.4 í þeirri reglugerð gat byggingarnefnd krafist þess að gróður væri fjarlægður ef hann ylli óþægindum eða hættu fyrir umferð, svo og ef hann ylli óþægindum með því að skerða birtu verulega í íbúð eða á lóð.  Óheimilt var, samkvæmt sama ákvæði, að fella tré eldri en 40 ára eða fjögurra metra á hæð, eða hærri, nema með leyfi byggingarnefndar.  Samsvarandi ákvæði voru í byggingarreglugerð nr. 177/1992 sem í gildi var, með áorðnum breytingum, er núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 tók gildi, hinn 23. júlí 1998.

Í grein 61.7. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem kærendur vitna til, er orðuð almenn heimild byggingarnefndar og byggingarfulltrúa til að hlutast til um úrbætur ef telja verður útlit húss eða annars mannvirkis mjög ósnyrtilegt eða óviðunandi á annan hátt eða ef óþægindi eða óþrifnaður stafa af eigninni.  Í máli því, sem hér er til úrlausnar er gróður á lóð talinn valda óþægindum og óþrifnaði og eiga því við sérstök ákvæði 68. greinar reglugerðar nr. 441/1998 um gróður og frágang lóða, en um úrræði byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðinu er vísað til 5.-7. liðar 61. greinar byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um byggingareftirlit.

Samkvæmt lokamálslið greinar 68.3. er lóðarhafa skylt að halda vexti trjáa og runna innan lóðamarka.  Í grein 68.4. segir að þar sem vöxtur trjáa og runna fari út fyrir lóðamörk við götur, gangstíga og opin svæði sé veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði valdi, á kostnað lóðarhafa.  Í grein 68.5. segir að byggingarnefnd geti krafist þess að gróður sé fjarlægður, eftir því sem með þurfi, valdi hann truflun fyrir almenna umferð.  Í grein 68.6. er loks kveðið á um það að sé umhirðu, ásigkomulagi eða frágangi lóðar ábótavant eða stafi hætta af henni, að mati byggingarfulltrúa, eða ef ekki sé gengið frá umhverfi húss í samræmi við samþykkta uppdrætti, skuli byggingarfulltrúi gera eiganda eða umráðamanni lóðarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé.

Skilja verður ákvæði þessi svo að lóðarhafar geti þá og því aðeins krafist afskipta byggingarfulltrúa af gróðri á grannlóð að ákvæði greinar 68.6. eigi við og þurfi því umhirðu, ásigkomulagi eða frágangi lóðar að vera ábótavant að því er gróður varðar, eða hætta að stafa frá honum, til þess að afskipta byggingarfulltrúa verði krafist.  Getur þetta, að mati úrskurðarnefndarinnar, m.a. komið fram í því að gróður valdi óviðunandi skerðingu á birtu eða útsýni, en samkvæmt 4. mgr. greinar 4.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 eru birta og útsýni meðal þeirra gæða sem leitast skal við að séu fyrir hendi á lóðum í íbúðarhverfum, sbr. og grein 92.1. í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þar sem kveðið er á um að íbúðir skuli þannig hannaðar að þær njóti fullnægjandi dagsbirtu.  Ákvæðið í grein 68.6. gæti og, að mati úrskurðarnefndar, átt við ef lóðarhafi vanrækti skyldu sína til þess að halda vexti trjáa og runna innan lóðamarka skv. ákvæði lokamálsliðar greinar 68.3.  Það ákvæði verður hins vegar, eðli máls samkvæmt, ekki skilið svo bókstaflega að laufkrónur gamalla trjáa geti ekki átölulaust teygst að einhverju marki yfir lóðamörk, fylgi því ekki meiri óþægindi en almennt má búast við að stafi frá slíkum trjám í þéttbýli.  Er það álit úrskurðarnefndar að ákvæði þessu verði ekki fortakslaust beitt með afturvirkum hætti.  Styðst sú niðurstaða bæði við eðlisrök og vísun til þeirrar lagaskilareglu, sem orðuð er í grein 12.8. í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem segir að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir, sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildistöku byggingarreglugerðar nr. 441/1998, skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé, að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál.  Telur úrskurðarnefndin þó að meta verði í hverju tilviki hvort umfang trjágróðurs sé slíkt að ástæða sé til að byggingarfulltrúi láti það til sín taka.

Í máli því sem hér er til úrlausnar hefur byggingarfulltrúi metið það svo að ekki sé þannig ástatt um reynitré þau, sem kærendur krefjast afskipa hans af, að grípa eigi til úrræða í samræmi við ákvæði greinar 68.6., en samkvæmt ákvæðinu á byggingarfulltrúi mat um það álitaefni.  Er synjun byggingarfulltrúa á erindi kærenda studd áliti garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar og hefur ákvörðun byggingarfulltrúa nú að auki komið til endurskoðunar byggingarnefndar, sem staðfest hefur hana með rökstuddri ályktun að undangenginni sjálfstæðri rannsókn málsins. 

Með vísun til þess sem að framan er rakið, fyrirliggjandi málsgagna og á grundvelli vettvangsskoðunar úrskurðarnefndar hinn 23. júní 1999 fellst nefndin ekki á að umhirðu eða ásigkomulagi hinna umdeildu reynitrjáa sé áfátt eða af þeim stafi hætta, óþægindi eða óviðunandi birtuskerðing sem leiða eigi til afskipta byggingarfulltrúa með vísun til greinar 68.6. í byggingarreglugerð nr. 441/1999 eða annarra réttarheimilda. Sama niðurstaða yrði þótt beitt væri ákvæðum um gróður í reglugerð nr. 292/1979, sem byggingarnefnd telur eiga við í málinu.  Verður kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppsaga úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna sumarleyfa og anna í úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilt verði ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júlí 1999, sem staðfest var í borgarráði 13. júlí 1999, þar sem samþykkt var ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að synja erindi kærenda um afskipti embættis hans af trjágróðri á lóðamörkum Langagerðis 78 og 80.