Árið 2013, þriðjudaginn 31. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 36/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2012, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kærir S Óðinsgötu 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 að synja umsókn um að gert yrði ráð fyrir þremur bílastæðum á lóð nefndrar fasteignar. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Hinn 7. febrúar 2012 tók byggingarfulltrúinn í Reykjavík fyrir umsókn um „leyfi til að bæta við þriðja bílastæðinu á baklóð fjölbýlishúss á lóð nr. 15 við Óðinsgötu.“ Var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 1. febrúar s.á. Sú niðurstaða var tilkynnt með bréfi dags. 8. febrúar 2012 og hefur kærandi borið þá synjun undir úrskurðarnefndin eins og að framan greinir.
Kærandi vísar til þess að mál þetta hafi upphaflega lotið að því að leggja fyrir byggingarfulltrúa teikningar að húsinu að Óðinsgötu 15 vegna breytinga innanhúss í tilefni af breyttu eignarhaldi. Láðst hafi að teikna bíl í einu þriggja bílastæða sem fyrir séu á lóðinni á nefndum teikningum. Umsókn kæranda, sem synjað hafi verið, hafi aðeins falið í sér leiðréttingu á innsendri teikningu til samræmis við byggingarleyfisteikningar fasteignarinnar og gildandi eignaskiptayfirlýsingu hvað umrætt bílastæði varði. Verði ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun byggist í besta falli á misskilningi.
Reykjavíkurborg krefst frávísunar málsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæranda hafi í síðasta lagi mátt vera ljóst um málalyktir og kæruúrræði hinn 1. mars 2012 svo sem fyrirliggjandi tölvupóstar embættisins og kæranda beri með sér.
Niðurstaða: Upplýst hefur verið af hálfu borgaryfirvalda að umsókn kæranda, sem synjað hafi verið í máli þessu, hafi verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. desember 2012 með svofelldri bókun: „Sótt er um samþykki fyrir núverandi fyrirkomulagi bílastæða á lóð fjölbýlishúss nr. 15 við Óðinsgötu. Útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsstjóra frá 7. desember 2012 fylgir erindinu ásamt umsögn skipulagsstjóra dags. 6. desember 2012. Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“
Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að umsókn kæranda sem synjað var með hinni kærðu ákvörðun hefur nú verið samþykkt. Hefur kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi fyrri afgreiðslu borgaryfirvalda á nefndri umsókn hans og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________________________
Ómar Stefánsson