Ár 1999, miðvikudaginn 17. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 36/1999; kæra V, Hörgsási 8, Egilsstöðum á ákvörðunum skipulags- og byggingaráðs Egilsstaðabæjar frá 28. nóvember 1996 og 11. desember 1997 um að veita eiganda hússins nr. 6 við Hörgsás á Egilsstöðum leyfi til viðbyggingar við hús sitt og til breytinga á áður veittu byggingarleyfi.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 1999, sem barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Hilmar Gunnlaugsson hdl., f.h. V, Hörgsási 8, Egilsstöðum, ákvörðun skipulags- og byggingaráðs Egilsstaða-bæjar frá 11. desember 1997 um að heimila húseiganda að Hörgsási 6, Egilsstöðum, framkvæmdir á lóð sinni. Sé litið svo á að ákvörðunin hafi verið tekin á fundi ráðsins þann 28. nóvember 1996 þá lýtur kæran að þeirri ákvörðun. Ákvörðun ráðsins frá 11. desember 1997 var staðfest í bæjarstjórn þann 16. desember 1997, en fyrri ákvörðun hafði verið staðfest í bæjarstjórn þann 3. desember 1996. Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðunin verði úrskurðuð ólögmæt og úr gildi felld, íbúa Hörgsáss 6 gert að fjarlægja þá byggingu sem ákvörðunin laut að og að kæranda verði bættur kostnaður hans af málinu.
Málavextir: Með bréfi dagsettu 5. desember 1996 var húseiganda að Hörgsási 6, Egilsstöðum, tilkynnt að skipulags- og byggingaráð Egilsstaðabæjar hefði samþykkt á fundi sínum þann 28. nóvember 1996 að heimila viðbyggingu sem sótt hafði verið um. Ákvörðun ráðsins hafði verið staðfest í bæjarstjórn þann 3. desember 1996. Ekki hafði farið fram grenndarkynning á erindinu og mun kæranda fyrst hafa orðið kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins er framkvæmdir hófust í nóvember 1997. Kærandi taldi að kynna hefði átt umrædda framkvæmd fyrir nágrönnum og sendi Sveinn Sveinsson hrl. bréf, dags. 1. desember 1997 til bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar f.h. kæranda, þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu málsins. Hinn 11. desember 1997 óskaði eigandi Hörgsáss 6 eftir breytingum á teikningum viðbyggingarinnar. Sama dag samþykkti skipulags- og byggingaráð Egilsstaðabæjar erindi hans með svofelldri bókun: „Inn á fundinn barst ósk húsbyggjanda að Hörgsási 6 um að breyta viðbyggingu þar sem þakhalli er lækkaður niður í 9 gráður. S.B.R. samþykkir framlagðar hugmyndir húseiganda um breytingu á viðbyggingu en leggja þarf fram málsettar teikningar.” Þessi ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn þann 16. desember 1997. Með bréfi, dags. 19. desember 1997, var lögmanni kæranda gerð grein fyrir því að skipulags- og byggingaráð hafi ekki talið ástæðu til grenndarkynningar í málinu þar sem ráðið hafi talið að hagsmunum næstu nágranna væri ekki ógnað enda byggingin þannig staðsett og hönnuð. Þá hafi byggingarleyfishafi fengið samþykkta breytingu á áður samþykktum teikningum til þess að koma til móts við framkomnar athugasemdir. Eftir þær breytingar nái viðbygging mest 50 cm yfir mæni bílskúrs á litlu svæði en annars 30 cm. Eftir þessar breytingar telji skipulags- og byggingarráð ekki ástæðu til að afturkalla byggingarleyfið. Með bréfi til bæjarstjórnar Egilsstaða, dags. 30. desember 1997, ítrekaði lögmaður kæranda kröfu hans um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar og grenndarkynning látin fara fram. Bréfi þessu mun ekki hafa verið svarað og skaut lögmaður kæranda málinu til félagsmálaráðuneytisins með bréfi, dags. 16. janúar 1998. Hinn 11. febrúar 1998 framsendi umhverfisráðuneytið erindið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en sama dag hafði því borist það frá félagsmálaráðuneytinu.
Eftir að umrætt erindi barst úrskurðarnefndinni hafði formaður hennar samband við þáverandi lögmann kæranda og benti á vankanta á erindinu. Leit formaður nefndarinnar svo á að eftir þetta símtal yrði endurbætt kæra send ásamt nauðsynlegum gögnum. Var málið því lagt til hliðar. Lögmaður kæranda virðist hins vegar hafa skilið erindi formannsins á þann veg að nægjanlegt væri að hann aflaði frekari gagna í málinu og kæmi þeim til nefndarinnar. Bárust gögn í málinu frá skrifstofu Egilsstaðabæjar nokkru síðar og var þeim komið fyrir með öðrum skjölum málsins en þess vænst að nýtt erindi bærist síðar frá lögmanni kæranda. Í apríl 1999 tók Hilmar Gunnlaugsson hdl. málið að sér f.h. kæranda. Leitaði hann upplýsinga um afdrif málsins hjá félagsmálaráðuneytinu og kom þá í ljós hver afdrif erindis kæranda höfðu orðið. Voru lögmanninum send afrit af gögnum málsins með bréfi úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. júní 1999. Sendi hann nokkru síðar nýja kæru í málinu eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að þar sem hin kærða ákvörðun var tekin fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hefði verið eðlilegra að málið sætti kærumeðferð á grundvelli laga nr. 54/1978 og að æðra stjórnvald hefði því átt að vera umhverfisráðherra en ekki úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Hann gerir þó ekki að ágreiningsefni að nefndin hafi tekið við málinu.
Hvað varðar kæruheimild og kærufrest byggir kærandi á lokamálsgrein 8. gr. laga nr. 54/1978, en samkvæmt því ákvæði hafi hver sá sem taldi rétti sínum hallað með ályktun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar haft þrjá mánuði frá því að honum var kunnugt um ályktunina til að skjóta máli sínu til úrskurðar umhverfisráðherra. Kærandi hafi ekki haft hugmynd um hina kærðu ályktun fyrr en framkvæmdir nágranna hans hafi gefið tilefni til að kanna málið. Hafi hann brugðist við án tafar og eins og gögn málsins beri með sér hafi þá enn verið tóm til að laga og breyta. Hafi því tvímælalaust verið unnt að stöðva framkvæmdir og hefja grenndarkynningu. Verði í fyrsta lagi að telja að miða beri upphaf kærufrests í málinu við 1. desember 1997 og að kæran hafi því komið fram löngu áður en sá þriggja mánaða frestur, sem þá gilti, var liðinn, en upphafleg kæra hafi verið send þann 16. janúar 1998. Kærandi telur þó eðlilegast að miða upphaf frestsins við 20. desember 1997, en þann dag hafi honum borist bréf frá sveitarfélaginu, dags. 19. desember 1997, þar sem honum hafi verið tilkynnt um endanlega ákvörðun sveitarfélagsins. Kæran hafi því verið sett fram innan kærufrests jafnvel þótt litið væri til ákvæða núgildandi skipulags- og byggingarlagalaga nr. 73/1997 um eins mánaðar kærufrest.
Kærandi bendir á að hann hafi frá upphafi krafist þess að umrædd framkvæmd yrði stöðvuð. Þar sem framkvæmdum sé nú lokið séu nú aðeins tvær leiðir færar, annað hvort að húseigandanum að Hörgsási 6 verði gert að breyta byggingunni eða að kæranda verði greiddar bætur. Báðar þessar leiðir byggi á þeirri grundvallarforsendu að brotið hafi verið á rétti kæranda. Verði að telja að það sé í valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka á því hvort sveitarfélagið hafi farið að lögum við veitingu leyfis til umræddrar viðbyggingar við húsið að Hörgsási 6.
Kærandi telur að það hafi verið ótvíræð lagaskylda skipulags- og byggingaráðs Egilsstaðabæjar að gefa honum kost á að tjá sig um framkomna umsókn um byggingarleyfi. Vísar hann í þessu efni til III. kafla byggingarreglugerðar nr. 177/1992, einkum ákvæði 3.1.1., en þar segi: „Áður en leyfi er veitt fyrir nýbyggingu, viðbyggingu eða breytingu á húsi í þegar byggðu hverfi, eða verulegri breytingu á notkun húss, skal nágrönnum, sem byggingarnefnd telur að hagsmuna eigi að gæta, gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd innan mánaðar. Byggingarnefnd getur þó veitt lengri frest ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.” Samkvæmt þessu telur kærandi ljóst að byggingarnefnd hafi ekki haft vald til að ákveða hvort grenndarkynning ætti að fara fram. Hins vegar skyldi nefndin meta hvaða nágrannar ættu hagsmuna að gæta. Eftir þessu ákvæði hafi einfaldlega ekki verið farið, hvorki áður en ákvörðun hafi verið tekin hjá nefndinni né eftir að kærandi hafi krafist þess.
Málsrök sveitarstjórnar: Af hálfu sveitarstjórnar er á því byggt að umdeild viðbygging hafi að mati skipulags- og byggingaráðs ekki verið talin skerða hagsmuni nágranna og hafi grenndarkynningar því ekki verið þörf. Þá hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda og hafi efri brún á þaki hinnar umdeildu viðbyggingar verið lækkuð í því skyni. Hús kæranda sé við enda íbúðargötu og vel sett hvað varði rými og útsýni. Að öðru leyti vísar sveitarstjórn til fyrirliggjandi gagna, m.a. afstöðumyndar, grunnmynda húsanna nr. 6 og 8 við Hörgsás og ljósmynda af hinni umdeildu viðbyggingu.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið var fyrra erindi kæranda, sem úrskurðarnefndinni barst framsent frá umhverfisráðuneytinu, ekki talið í því horfi að unnt væri að taka málið til meðferðar. Þótti kröfugerð kæranda í því erindi óljós enda var því beint til félagsmálráðuneytisins og fól m.a. í sér tilmæli um að ráðuneytið hlutaðist til um að bæjarfélagið á Egilsstöðum fylgdi þeim reglum sem giltu um samskipti þess við íbúana. Var af þessu sökum þeim tilmælum beint til þáverandi lögmanns kæranda að hann reifaði málið frekar og aflaði nauðsynlegra gagna. Var málið við svo búið fellt niður en búist við nýrri kæru sem nefndin hafði fallist á að taka við án tillits til kærufrests með heimild í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir einhvern misskilning voru nefndinni einungis send nokkur viðbótargögn í málinu en ný kæra kom fyrst fram hinn 12. júlí síðastliðinn. Var þá tekið til sérstakrar athugunar í úrskurðarnefndinni hvort fallast ætti á að taka málið til meðferðar með tilliti til þess hve langt var þá liðið frá því að hið umdeilda byggingarleyfi hafði verið veitt. Varð það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fallast mætti á að erindi kæranda yrði tekið til efnisúrlausnar eins og atvikum væri háttað.
Byggingarleyfi það, sem um er deilt í málinu, var gefið út fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Giltu því um útgáfu þess ákvæði byggingarlaga nr. 54/1978 með síðari breytingum og byggingarreglugerðar nr. 177/1992 með áorðnum breytingum. Kæra vegna málsins kom hins vegar fyrst fram eftir gildistöku laga nr. 73/1997 og átti kærumálið því undir úrskurðarnefnd samkvæmt ákvæði 8. greinar þeirra laga enda fór umhverfisráðherra ekki með úrskurðarvald um ágreining um lögmæti ákvarðana um útgáfu byggingarleyfa eftir 31. desember 1997.
Af hálfu kæranda er á því byggt að lögskylt hafi verið að viðhafa grenndarkynningu við undirbúning ákvörðunar um það hvort veita bæri hið umdeilda byggingarleyfi. Ekki voru í þágildandi byggingarlögum ákvæði um grenndarkynningu en í 2. mgr. greinar 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992, sem í gildi var við útgáfu leyfisins, var kveðið á um það að áður en veitt væri leyfi fyrir nýbyggingu, viðbyggingu eða breytingu á húsi í þegar byggðu hverfi, eða verulegri breytingu á notkun húss, skyldi nágrönnum, sem byggingarnefnd teldi eiga hagsmuna að gæta, gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaðar framkvæmdir innan mánaðar.
Skilja verður ákvæði þetta svo að grenndarkynning hafi því aðeins verið áskilin að nágrannar ættu hagsmuna að gæta að mati byggingarnefndar. Hefði verið óeðlilegt að túlka ákvæði þetta svo að ekki væri unnt að veita byggingarleyfi fyrir tilgreindum framkvæmdum í þegar byggðum hverfum í þeim tilvikum þegar engin röskun var fyrirsjánleg á hagsmunum nágranna eða engum nágrönnum til að dreifa, enda hefðu heimildir byggingarnefnda og sveitarstjórna þá verið þrengri í þeim tilvikum en ella, sem augljóslega hefði verið andstætt eðli máls og tilgangi ákvæðisins. Úrskurðarnefndin telur því að heimilt hafi verið, samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, að veita leyfi til bygginga viðbygginga og breytinga á húsum í þegar byggðum hverfum án undangenginnar grenndarkynningar í þeim tilvikum þegar ekki var sjáanlegt að lögvörðum hagsmunum annarra væri raskað með veitingu leyfisins. Átti byggingarnefnd, samkvæmt ákvæðinu, mat um það hvort gengið væri gegn lögvörðum hagsmunum nágranna með veitingu byggingarleyfis í tilteknu tilviki.
Í tilviki því sem hér um ræðir var það mat skipulags- og byggingaráðs, sem fer með verkefni byggingarnefndar, að ekki væri raskað hagsmunum nágranna með útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis. Frá húsi kæranda séð er hin umdeilda viðbygging að mestu í hvarfi við bílskúr hússins nr. 6 við Hörgsás. Enda þótt þakbrún hennar nái lítið eitt upp fyrir mæni bílskúrsins má fallast á það mat skipulags- og byggingarráðs að byggingin raski ekki lögvörðum hagsmunum kæranda þegar litið er til afstöðu húss hans til viðbyggingarinnar og umhverfisins í heild. Var því ekki skylt að lögum að viðhafa grenndarkynningu vegna umsóknar eiganda Hörgsáss 6 um byggingarleyfi fyrir umræddri viðbyggingu. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana því hafnað.
Lagaheimild skortir til þess að úrskurða um kostnað í úrskurðarmálum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni. Er það því ekki á valdsviði nefndarinnar að úrskurða um slíkan kostnað og ber því að vísa kröfu kæranda um kærumálskostnað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðunum skipulags- og byggingaráðs Egilsstaðabæjar frá 28. nóvember 1996 og 11. desember 1997 um að veita eiganda hússins nr. 6 við Hörgsás á Egilsstöðum leyfi til viðbyggingar við hús sitt og til breytinga á áður veittu byggingarleyfi. Kröfu kæranda um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni.