Árið 2025, þriðjudaginn 18. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 35/2025, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um aflífun hundsins Bonzo.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. mars 2025, kærir eigandi hundsins Bonzo, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 að aflífa skuli Bonzo. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um frestun réttaráhrifa á meðan kæran er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Í úrskurði þessum er tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kærenda.
Leitað var umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um kæruna í máli þessu og barst hún nefndinni 17. mars 2025.
Málavextir og rök: Hinn 27. október 2024 beit hundurinn Bonzo, sem er í eigu kæranda, einstakling sem var á heimili hans. Bitið var alvarlegt og hinn 13. febrúar 2025 tók heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ákvörðun um að aflífa hundinn. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu sem jafnframt er óskað frestunar réttaráhrifa á.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mótmælir ekki kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa, en krefst þess að málið verði tekið til flýtimeðferðar skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, enda um mikilvæga öryggis- og almannahagsmuni að ræða.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um aflífun hunds. Framfylgd ákvörðunar um að aflífa hundinn er eðli máls samkvæmt varanleg og óafturkræf. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2010 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellst nefndin á að fresta réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um aflífun hundsins Bonzo meðan kæra þeirrar ákvörðunar er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um aflífun hundsins Bonzo meðan kæra þeirrar ákvörðunar er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.