Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2021 Hofakur

Árið 2021, þriðjudaginn 25. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2021, kæra vegna álagningar gjalds fyrir árið 2021 á fasteignina Hofakur samkvæmt gjaldskrá fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa í Dalabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. mars 2021, er barst nefndinni 19. s.m., kærir eigandi, Hofakri, Dalabyggð, álagningu gjalds á fasteignina Hofakur skv. 3. gr. gjaldskrár nr. 1595/2020 fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa í Dalabyggð. Krefst hann þess að álagning á fasteignina fari fram skv. 2. gr. gjaldskrárinnar. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða álagning verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalabyggð 15. apríl 2021.

Málavextir: Gjaldskrá fyrir árið 2021 fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa í Dalabyggð var samþykkt af sveitarstjórn á fundi hennar 10. desember 2020 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. mars 2021. Álagningarseðill vegna fasteignagjalda 2021, dags. 3. febrúar 2021, var sendur til kæranda en í gjaldskránni kemur fram að gjöld lögð á samkvæmt henni verði innheimt með fasteignagjöldum. Með bréfi til sveitarstjórnar Dalabyggðar, dags. 17. febrúar 2021, lýsti kærandi óánægju sinni með gjaldskrána og taldi að með henni væri búfjáreigendum í Dalabyggð mismunað. Óásættanlegt væri að búfjáreigendur með tiltölulega fátt búfé greiddu sama gjald og þeir sem ættu fjölda búfjár. Hlyti að vera einfalt að reikna gjaldið eftir búfjáreign hvers og eins, enda notaði sveitarfélagið tölur um fjölda búfjár frá Matvælastofnun til að skipa í gjaldflokka. Sveitastjórn Dalabyggðar fjallaði um erindi kæranda á  fundi sínum 1. mars 2021 og bókaði eftirfarandi: „Fyrirliggjandi gjaldskrá verður ekki breytt á þessu ári. Horft verður til athugasemdanna við gerð gjaldskrár vegna fjárhagsáætlunar 2022. Við vinnslu gjaldskrár vegna ársins í ár leitaðist Dalabyggð við að mæta ábendingum sem málsaðili lagði fram á síðasta ári.“

Á fundi sínum 15. apríl 2021 bókaði sveitastjórn Dalabyggðar um að láðst hefði að auglýsa gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda og að úr því hefði verið bætt. Var gjaldskráin birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. mars 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi telur 3. gr. gjaldskrár nr. 1595/2020 fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa í Dalabyggð íþyngjandi fyrir búfjáreigendur með fáa gripi, þar sem aðeins þurfi að eiga ígildi 80 kinda til að lenda í hæsta gjaldflokki. Ákvæði 3. gr. gjaldskrárinnar stangist á við 2. gr. hennar. Fyrirkomulag 3. gr. um skiptingu skráðs bústofns í gjaldflokka mismuni búfjáreigendum. Fara eigi eftir 2. gr. gjaldskrárinnar sem segi að förgunargjaldið byggi á fjölda búfjár á lögbýlum í sveitarfélaginu miðað við búfjárskýrslur Matvælastofnunar. Eðlilegt sé að gjaldskránni verði breytt á þann veg að hver og einn búfjáreigandi greiði í samræmi við búfjáreign sína.

Málsrök Dalabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Hin kærða álagning hafi farið fram á grundvelli gjaldskrár fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa, sem samþykkt hafi verið á fundi sveitastjórnar Dalabyggðar 10. desember 2020. Gjaldskráin hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda 29. mars 2021. Hin kærða álagning eigi að standa óröskuð enda hafi formlega verið rétt að henni staðið. Því sé hafnað að um misræmi sé að ræða á milli 2. og 3. gr. gjaldskrárinnar. Í 2. gr. hennar sé því í stórum dráttum lýst hvernig gjaldið skuli ákveðið en í 3. gr. séu settir fram fjórir gjaldflokkar sem byggist á þeirri reglu um ákvörðun gjaldsins sem sett sé fram í 2. gr. Sú framsetning rúmist innan þeirra heimilda sem stjórnvöld hafi við ákvörðun þjónustugjalda, enda leiði af eðli máls að slík gjöld byggi á meðaltali kostnaðar af mismunandi umfangi veittrar þjónustu sem reiknaður sé út eftir málefnalegum mælikvarða. Gjaldskráin falli í flokk svonefndra stjórnvaldsfyrirmæla, sem ekki sæti kæru og geti því ekki komið til endurskoðunar í málinu. Af því leiði að ekki komi til skoðunar í máli þessu annað en það hvort hin kærða álagning sé í lögmætu horfi og í samræmi við umrædda gjaldskrá.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að gjaldskráin hafi ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda við álagningu og því umdeilanlegt hvort hún hafi tekið gildi. Jafnframt hafi gjaldskráin ekki verið staðfest endanlega af sveitarstjórn fyrr en 15. apríl 2021. Í 2. gr. gjaldskrárinnar komi skýrt fram að miða skuli við fjölda búfjár samkvæmt tölum Matvælastofnunar. Kærandi mótmæli því að gjaldflokkar skv. 3. gr. byggi á málefnalegum mælikvarða. Ljóst sé að gjaldskráin mismuni búfjáreigendum gróflega, þ.e. þeir minni greiði fyrir þá stóru. Kærandi velti fyrir sér hæfi sveitastjórnarmanna í Dalabyggð við ákvörðun gjaldskrár þar sem þeir annað hvort reki stór bú eða eigi ættingja sem reki stór bú og því sé hagur þeirra sá að hæsti gjaldflokkur sé sem lægstur.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindmála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Hið kærða gjald fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa var lagt á kæranda með álagningarseðli vegna fasteignagjalda 2021, sem sendur var kæranda rafrænt 3. febrúar 2021. Þegar kæra, dags. 10. mars s.á., barst úrskurðarnefndinni 19. s.m. var  kærufrestur því liðinn. Er enda ekki hægt að líta svo á að erindi kæranda til sveitastjórnar Dalabyggðar, dags. 17. febrúar 2021, þar sem hann lýsti óánægju sinni með fyrrgreinda gjaldskrá hafi haft áhrif á upphaf kærufrests eða rofið hann, sbr. 3. og 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Kærandi hefur áður kært til úrskurðarnefndarinnar álagningu Dalabyggðar vegna hirðingar dýrahræja, en þá á grundvelli 3. gr. þágildandi gjaldskrár nr. 1372/2019 fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð. Með úrskurði uppkveðnum 20. nóvember 2020, í kærumáli nr. 64/2020, var þeirri kæru vísað frá á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún  barst að liðnum kærufresti. Voru kæranda því kunnar þær almennu reglur sem um kærufresti gilda, auk þess sem á álagningarseðlinum er að finna kæruleiðbeiningar í samræmi við 2. tl. 2. mgr. 20. gr. nefndra laga. Verður því ekki talið afsakanlegt að kæra hafi borist svo seint sem raun ber vitni.

Kemur þá til skoðunar hvort veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar. Í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tiltekið að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum, en sé einn aðili yrði mál frekar tekið til meðferðar. Ástæður kærufresta eru m.a. þær að hæfilegri festu verði viðhaldið í stjórnsýsluframkvæmd. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður séu fyrir hendi ber því að líta til þeirra sjónarmiða, en einnig til málsatvika allra og eðlis málsins hverju sinni, t.a.m. þess hvort málið geti talist fordæmisgefandi.

Í máli þessu er einungis einn aðili, kærandi, sem borið hefur undir úrskurðarnefndina álitamál um álagningu gjalds af hálfu Dalabyggðar. Svo sem áður er rakið liggur fyrir að sveitarstjórn láðist að birta þá gjaldskrá sem hin kærða álagning byggir á, en skv. 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal láta birta í B-deild Stjórnartíðinda gjaldskrár vegna gjalds fyrir veitta þjónustu, s.s. förgunargjald. Var umrædd gjaldskrá nr. 1595/2020 fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa í Dalabyggð ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda fyrr en 29. mars 2021 og hafði því ekki tekið gildi þegar hið kærða gjald var lagt á 3. febrúar s.á. Nefnd 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 endurspeglar þá fortakslausu reglu að álagning gjalda skuli eiga sér stoð í gildum réttarheimildum sem birtar hafi verið. Að teknu tilliti til þeirra réttaröryggissjónarmiða sem liggja að baki kæruheimildum þykja því veigamiklar ástæður vera fyrir hendi sem leiða til þess að kæra þessi verður tekin til efnislegrar meðferðar. Af sömu sökum, þ.e. þar sem gjaldskrá sú sem hin kærða álagning studdist við hafði ekki tekið gildi með lögformlega réttum hætti í samræmi við áðurnefnda lagagrein þegar álagning átti sér stað, verður álagningin óhjákvæmilega felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning gjalds fyrir árið 2021 á fasteignina Hofakur fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa vegna lögbýlisins að Hofakri, Dalabyggð.