Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2016 Starfsleyfi byggingarstjóra

Árið 2016, fimmtudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2016, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 9. mars 2016 um að synja umsókn um starfsleyfi byggingarstjóra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. mars 2016, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 9. mars 2016 að synja umsókn hans um starfsleyfi byggingarstjóra. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt gerir kærandi þá kröfu að hann fái útgefið starfsleyfi sem byggingarstjóri I.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mannvirkjastofnun 12. maí 2016.

Málavextir: Kærandi fékk leyfi til að nota starfsheitið tæknifræðingur 26. október 2012 og hlaut hann meistararéttindi í húsasmíði 4. ágúst 2015. Hinn 2. september s.á. sótti hann um starfsleyfi til Mannvirkjastofnunar sem byggingarstjóri I skv. 28. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Með bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 9. september 2015, var vakin athygli á því að gögn málsins bæru ekki með sér að kærandi hefði starfað í a.m.k. tvö ár sem löggiltur húsasmíðameistari svo sem áskilið væri samkvæmt 28. gr. mannvirkjalaga. Var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum og frekari gögnum áður en ákvörðun yrði tekin. Svör munu ekki hafa borist Mannvirkjastofnun og 9. mars 2016 lá ákvörðun hennar fyrir. Þar kom fram að ekki yrði séð af gögnum að kærandi uppfyllti skilyrði um starfsreynslu sem löggiltur húsasmíðameistari. Með vísan til þess teldust skilyrði 28. gr. laga um mannvirki ekki uppfyllt og væri umsókninni því synjað.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er tekið fram að hann hafi lokið námi sem húsasmíðameistari árið 2012 en hafi ekki hlotið löggildingu fyrr en árið 2015. Hann hafi hlotið löggildingu sem byggingatæknifræðingur árið 2012 og sé með um þriggja ára starfsreynslu í eftirliti með framkvæmdum. Hafi kærandi sótt um réttindi sem byggingarstjóri I með tilvísun í starfsheitið byggingatæknifræðingur, en ekki sem iðnmeistari. Ekki hafi verið horft til þess í úrskurði Mannvirkjastofnunar. Byggingariðnfræðingur með 90 eininga nám geti sótt um starfsleyfi byggingarstjóra en ekki byggingatæknifræðingur sem lokið hafi 210 eininga námi og feli það í sér mismunun.

Málsrök Mannvirkjastofnunar: Mannvirkjastofnun skírskotar til þess að skilyrði til útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra séu tilgreint í 28. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og sé stofnunin bundin af þeim við veitingu leyfisins. Hafi kærandi hvorki uppfyllt starfsreynsluskilyrði 2. né 3. mgr. 28. gr. laganna og því hafi umsókn hans verið synjað.

Niðurstaða: Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis byggingarstjóra er að umsækjandi uppfylli viðeigandi hæfniskröfur 2.-4. mgr. 28. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, hafi sótt sérstakt námskeið sem Mannvirkjastofnun stendur fyrir og hafi gæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari fyrirmælum í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Húsasmíðameistarar skulu hafa hlotið löggildingu Mannvirkjastofnunar og hafa a.m.k. tveggja ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir eða byggingareftirlit, sem viðurkennd sé af stofnuninni, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Þá kemur fram í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að tæknifræðingar skuli hafa a.m.k. fimm ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir, hönnun bygginga, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir. Mannvirkjastofnun sér um útgáfu starfsleyfa byggingarstjóra samkvæmt lögum um mannvirki og hefur stofnunin útbúið umsóknareyðublað þar sem sótt skal um slík starfsleyfi.
Kærandi skilaði inn fyrrnefndu umsóknareyðublaði til Mannvirkjastofnunar og tilgreindi þar að hann væri húsasmíðameistari og byggingatæknifræðingur að mennt. Með umsókninni fylgdu ýmis gögn, svo sem bréf frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, dags. 26. október 2012, um að kærandi hefði leyfi til að nota starfsheitið tæknifræðingur og staðfesting vinnuveitanda á starfsreynslu hans, m.a. á sviði eftirlits og eftirfylgni með framkvæmdum.
Synjun Mannvirkjastofnunar á umsókn kæranda var á því reist að gögn bæru ekki með sér að hann uppfyllti skilyrði 2. mgr. 28. gr. mannvirkjalaga um starfsreynslu sem húsasmíðameistari. Í engu var hins vegar að því vikið hvort hann uppfyllti skilyrði 28. gr. laganna sem tæknifræðingur. Gáfu upplýsingar í umsókn og gögn er henni fylgdu þó tilefni til þess að afla frekari upplýsinga um það á hvaða forsendum sótt væri um starfsleyfi byggingarstjóra og afgreiða málið í samræmi við þær upplýsingar. Hins vegar var það á færi kæranda að koma að athugasemdum þegar honum var gefinn kostur á því með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 9. september 2015, þar sem tekið var fram að kærandi uppfyllti ekki skilyrði mannvirkjalaga um tveggja ára starfsreynslu sem löggiltur húsasmíðameistari, en ekki kemur fram í gögnum málsins að það hafi verið gert.
Eins og fyrr greinir er það gert að skilyrði fyrir starfsleyfi byggingarstjóra skv. 28. gr. mannvirkjalaga að þeir hafi reynslu af störfum við byggingarframkvæmdir, en samkvæmt athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um mannvirki er slíkt talið nauðsynlegt miðað við þá ábyrgð sem byggingarstjóra er ætlað að bera. Veita lögin ekki heimild til undanþágu frá ofangreindum starfsleyfisskilyrðum. Ekki liggur annað fyrir en að við ákvörðun Mannvirkjastofnunar hafi kærandi haft minna en árs starfsreynslu sem löggiltur húsasmíðameistari og verið með tæplega þriggja ára starfreynslu á sviði eftirlits og eftirfylgni með framkvæmdum. Verður því ekki annað ráðið en að kærandi hafi ekki haft tilskilda starfsreynslu er Mannvirkjastofnun tók málið til afgreiðslu, hvorki hvað varðar kröfu um tveggja ára starfsreynslu eftir löggildingu iðnmeistara né fimm ára starfsreynslu tæknifræðings.
Að framangreindu virtu verður að telja að sá annmarki á afgreiðslu málsins hjá Mannvirkjastofnun að taka ekki afstöðu til þess hvort kærandi uppfyllti skilyrði mannvirkjalaga um starfsreynslu sem tæknifræðingur leiði ekki til þess, eins og hér stendur á, að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 9. mars 2016 varðandi umsókn hans um starfsleyfi byggingarstjóra.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson