Fyrir var tekið mál nr. 35/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir varaaflstöð og kælibúnaði við norðurhlið húss á lóðinni nr. 16 við Neshaga í Reykjavík og samþykkja breytingar á innra fyrirkomulagi umrædds húss.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2015, er barst nefndinni 15. s.m., kæra eigendur, Neshaga 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir kælibúnaði og varaaflstöð að Neshaga 16 og breyta innra fyrirkomulagi húss á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar heimilaðan kælibúnað og varaaflstöð á fyrrgreindri lóð.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. júlí 2015 og í desember 2016.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. desember 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að koma fyrir rými fyrir kælibúnað og varaaflstöð á norðanverðri lóðinni Neshaga 16 og breyta innra skipulagi húss á lóðinni. Var afgreiðslu málsins frestað þar sem gera þyrfti betri grein fyrir erindinu. Hinn 16. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem vísaði því áfram til verkefnisstjóra. Skipulagsfulltrúi tók málið fyrir á ný á embættisafgreiðslufundi sínum 16. janúar 2015. Lét hann í ljós jákvæða afstöðu til umsóknarinnar með þeim skilyrðum og leiðbeiningum sem fram kæmu í umsögn embættisins, dags. sama dag.
Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi sínum 20. janúar 2015 og vísaði málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Samþykkti skipulagsfulltrúi 23. s.m. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Neshaga 14 og Hofsvallagötu 53 og komu kærendur að athugasemdum á kynningartíma. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf umsögn sína um fyrirhugaðar framkvæmdir við kæliver og vararafstöð með bréfi, dags. 24. mars 2015. Haldinn var fundur á vegum Reykjavíkurborgar vegna málsins 30. s.m. með nokkrum íbúum og eigendum Neshaga 14. Erindið var síðan tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. apríl s.á. Var fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. mars s.á., og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. apríl 2015 var umsóknin samþykkt og m.a. áskilið samþykki heilbrigðiseftirlitsins.
Málsrök kærenda: Kærendur telja að umrædd framkvæmd sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, en samkvæmt því sé miðað að því að styrkja umrædd svæði sem miðstöð þjónustu og mannlífs í Vesturbænum. Stafi bæði hljóð- og umhverfismengun af nefndum mannvirkjum, sem ekki eigi heima í íbúðarbyggð. Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sé óheimilt að gefa út byggingarleyfi sem ekki samrýmist stefnu aðalskipulags um landnotkun. Við meðferð málsins hafi ekki verið gætt ákvæða 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveði á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Enn sé ákveðnum spurningum ósvarað varðandi framkvæmdina, svo sem hvernig tryggt verði að eftirlit verði haft með mannvirkjunum og hvernig því verði háttað. Jafnframt sé óskað upplýsinga um hvort geislun frá mannvirkjunum geti snert heilsufar íbúa á svæðinu.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld taka fram að hið umdeilda byggingarleyfi sé í fullu samræmi við skipulagsáætlun og tekið hafi verið tillit til athugasemda sem kærendur hafi komið á framfæri við grenndarkynningu. Haldinn hafi verið fundur með íbúum og eigendum Neshaga 14 vegna málsins og á þann fund hafi m.a. mætt fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins. Á fundinum hafi verið kynntar breyttar teikningar sem sýnt hafi færslu varaaflstöðvar og kælis til vesturs á lóð Neshaga 16. Eftir að fundað hafi verið hafi umrædd mannvirki verið færð vestar og skermuð af. Umhverfis búnaðinn verði reist gerði og opið hálfþak sé yfir varaaflstöðinni. Komi í ljós að búnaður valdi ónæði þrátt fyrir ráðstafanir verði gerðar kröfur um frekari skermun. Hljóðvist muni uppfylla kröfur sem gerðar séu í reglugerð til atvinnurekstrar í íbúðabyggð. Gert verði skilyrði um að lekavörn rúmi allt innihald eldneytistanks ef óhapp verði. Lekavarnarbúnaður og ísogsefni þurfi að vera til taks við áfyllingar eldneytistanks og allt viðhald á varaaflstöðinni. Komið verði fyrir rafrænum viðvörunarbúnaði á tankinum sem gefi merki komi leki að honum, líkt og heilbrigðiseftirlitið hafi gert kröfu um. Útbúinn verði þjónustusamningur við umboðsaðila varaaflstöðvarinnar sem sjái um alla þjónustu og eftirlit með búnaðinum. Vökvi sem sé á kælibúnaði sé umhverfisvænn, lyktarlaus og í lokuðu kerfi.
——-
Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.
Niðurstaða: Á árinu 1955 var gerður uppdráttur af umræddu svæði en ekki liggur fyrir að honum hafi fylgt skilmálar um landnotkun. Var hið kærða byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu skv. heimild í þágildandi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Hinar kærðu breytingar eru tilkomnar vegna flutnings Reiknistofnunar Háskóla Íslands í húsakynni á lóðinni Neshaga 16. Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu er lóðin á miðsvæði M13 í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar er gert ráð fyrir fjölbreyttri verslun, þjónustu og félagsstarfsemi fyrir íbúa hverfisins auk íbúða. Í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, er landnotkun miðsvæðis lýst svo að um sé að ræða „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis“. Starfsemi á vegum Háskóla Íslands samræmist samkvæmt framangreindu gildandi landnotkun svæðisins.
Breytingarnar fela í sér að kælibúnaði fyrir tölvuherbergi er komið fyrir norðan við húsið ásamt varaaflstöð. Fram kemur í texta á samþykktum teikningum að kælibúnaðurinn samanstandi af kælipressu, dælu og tveimur kæliviftum. Kælibúnaðurinn sé í lokuðum hljóðeinangruðum kassa úr stáli sem gerður sé til að standa utandyra. Taki kælikerfið um 250 lítra af kælimiðli og sé hann lyktarlaus og umhverfisvænn. Stærð búnaðarins sé 4.612×1.151×2.215 mm, eða 5,3 m² að grunnflatarmáli. Þá er tekið fram að verði leki á kerfinu stöðvist hringrásardæling og einungis lítið magn geti lekið áður en dælan stoppi. Jafnframt er tilgreint að varaaflstöðin sé í hljóðeinangraðri skel úr stáli sem gerð sé til að standa utandyra. Botn hennar sé þannig útbúinn að hann geti tekið við því magni sem gæti smitað eða lekið út af olíu eða kælivökva. Öryggispanna verði undir varaaflsstöðinni sem taki við öllum vökva sem gæti lekið ef óhapp yrði. Lítill möguleiki sé á olíuleka við eldsneytisskipti þar sem takmarkað magn af olíu sé í síum. Prófun á stöðinni fari fram einu sinni í mánuði og standi í um 15 mínútur. Varaaflstöðin sé 4.300×1.400×2.156 mm að stærð, eða um 6,0 m² að flatarmáli. Þá er tekið fram að útbúið verði gerði utan um varaaflstöð og kælibúnað.
Verður að telja að hin umdeildu mannvirki séu eðlilegur og nauðsynlegur búnaður fyrir þá starfsemi sem fram fer á lóðinni og fari því ekki í bága við gildandi landnotkun. Staðsetning mannvirkjanna og umfang er ekki til þess fallin að valda merkjanlegum grenndaráhrifum gagnvart nágrönnum. Að lokinni grenndarkynningu var haldinn fundur með nokkrum eigendum og íbúum Neshaga 14 og voru umrædd mannvirki færð til vesturs í tilefni af athugasemdum sem fram komu.
Jafnframt bendir ekkert til þess að frá umræddum búnaði muni stafa óæskileg geislun. Þannig hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki talið efni til að víkja að því atriði í umsögn sinni, en þar kemur þó fram að farið hafi verið yfir erindið og meðfylgjandi gögn og nánar tilgreindar athugasemdir verið gerðar af því tilefni. Þá verður ekki annað af greinargerð sveitarfélagsins ráðið en að tekið hafi verið tillit til þeirra skilyrða og ábendinga sem þar komu fram.
Aðilum sem komið höfðu á framfæri athugasemdum á kynningartíma mun ekki hafa verið send umsögn um málið, svo sem áskilið er skv. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð. Eins og hér stendur á verður þó ekki talið að þeir ágallar hafi áhrif á gildi hins kærða byggingarleyfis.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir varaaflstöð og kælibúnaði við norðurhlið húss á lóðinni nr. 16 við Neshaga í Reykjavík.
Nanna Magnadóttir
______________________________ ____________________________
Ómar Stefánsson Geir Oddsson