Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2010 Laufásvegur

Ár 2011, þriðjudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 35/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2010 um að fella úr gildi að hluta byggingarleyfi frá 21. mars 2007 vegna Laufásvegar 68 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. júní 2010, er barst nefndinni 3. s.m., kærir Gunnar Ingi Jóhannsson hdl., f.h. V ehf., eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2010 að fella úr gildi að hluta byggingarleyfi frá 21. mars 2007 vegna Laufásvegar 68.   

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 12. apríl 2010 ritaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík bréf til kæranda þar sem rakið var að samþykkt hefði verið í borgarráði 18. febrúar 2010 að veita honum 70 daga frest til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðar hans að Laufásvegi 68 til þess horfs sem sýnt væri á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007 og jafnframt að fjarlægja útigeymslu sem staðsett væri utan byggingarreits samþykkts deiliskipulags.  Síðan sagði orðrétt:  „En við afgreiðslu byggingar¬leyfis nr. BN035330 yfirsást embætti byggingarfulltrúa það atriði að útigeymslan var öll staðsett utan byggingarreits, enda ekki vakin athygli á því af hönnuði verksins.  Með vísan til þess að borgaryfirvöld hafa gert kröfu til þess að geymslan verði fjarlægð áformar embætti byggingarfulltrúa að ógilda m.v.t. ákvæða 56. gr. laga nr. 73/1997 þann hluta byggingarleyfis BN035330 sem tekur til útigeymslunnar þ.e. matshluta 0002, sem er 32,3 m² og 77,3 m³ að stærð.  Er yður hér með gefinn 14 daga frestur, frá móttöku bréfs þessa, til þess að tjá yður um málið.  Að þeim fresti liðnum verður málið lagt fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa til ákvörðunar.“ 

Framangreindum áformum mótmælti kærandi með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 28. apríl 2010, þar sem m.a. var vísað til þess að úrskurðarnefndin hefði til meðferðar ágreining aðila og lægi niðurstaða nefndarinnar ekki fyrir. 

Í kjölfar þessa var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. maí 2010 eftirfarandi fært til bókar:  „Byggingarfulltrúi leggur til að sá hluti byggingarleyfis nr. BN035330 sem sýnir rýmisnúmer 0002, útigeymslu, verði fellt úr gildi. Útigeymslan er öll staðsett utan byggingarreits og var samþykkt fyrir mistök. Hún er sýnd á aðaluppdráttum samþykktum 21. mars 2007. Málið var kynnt umsækjanda með bréfi dags. 12. apríl 2010. Andmælabréf lögmanns umsækjanda dags. 28. apríl 2010, fylgir málinu ásamt bréfi lögfræði- og stjórnsýslu dags. 3. maí 2010. Stærðir: 32,3 m² og 77,3 m³. Samþykkt. Með vísan til 56. gr. laga nr. 73/1997.“  Var fundargerð afgreiðslufundarins  lögð fram á fundi skipulagsráðs 12. maí 2010 og staðfest í borgarráði 20. s.m.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann telji í fyrsta lagi að ákvörðun borgarráðs byggi á röngum forsendum en borgaryfirvöld fullyrði að svonefnd útigeymsla sé staðsett að öllu leyti utan byggingarreits hússins.  Þessi fullyrðing muni vera forsenda þess að byggingarleyfi hússins hafi verið fellt úr gildi að hluta.  Hún sé hins vegar röng.

Kærandi hafi ítrekað gert byggingarfulltrúa grein fyrir því að lokað rými undir svölum hússins sé ekki sérstök útigeymsla sem nauðsynlegt sé að sækja um byggingarleyfi fyrir.  Svalirnar séu samþykktar og ágreiningslausar.  Þess utan sé það alrangt að holrýmið, sem sé undir samþykktum svölum hússins, sé allt utan byggingarreits.  Kærandi geti ómögulega áttað sig á því hvaðan sú fullyrðing sé komin, en þetta hafi aldrei áður í allri málsmeðferðinni verið sett fram.  Þetta sé röng fullyrðing og telji kærandi ólögmætt að byggja ógildingu byggingarleyfis á slíkri fullyrðingu.  Engin gögn liggi fyrir um að byggingarfulltrúi hafi framkvæmt mælingar eða athuganir sem hljóti þó að vera nauðsynlegt til að taka megi ákvörðun sem byggi á fullyrðingum sem þessum.  Embætti byggingarfulltrúa hafi því í engu sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni við meðferð málsins.

Þá veki furðu sú málsmeðferð að fella hluta byggingarleyfisins úr gildi mörgum árum eftir að sama embætti hafi veitt sama byggingarleyfi án skilyrða.  Kærandi fallist ekki á þau rök sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa að samþykki embættisins á sínum tíma hafi verið mistök.  Í það minnsta sé ekki fallist á að kærandi eigi mörgum árum síðar að bera alla ábyrgð á þessum meintu mistökum embættisins.  Hafi samþykki byggingarleyfisins verið mistök byggingarfulltrúa geti embættið ekki leiðrétt þau mörgum árum síðar á kostnað kæranda.  Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til þess að afgreiðsla byggingarleyfisumsóknar hans og útgáfa byggingarleyfis uppfyllti þau skilyrði sem gera megi til slíkrar málsmeðferðar.  Það sé ekki við kæranda að sakast, sem ávallt hafi komið fram með heiðarlegum hætti í málinu, en eigi nú að gjalda dýru verði fyrir meint mistök embættis byggingarfulltrúa.  Því sé mótmælt.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að það sé mat borgarinnar að um ógildanlega ákvörðun hafi verið að ræða og skilyrði ógildingar hafi verið fyrir hendi þar sem framkvæmdin hafi verið andstæð skipulagi þrátt fyrir að byggingaleyfi hefði verið veitt.

Það sé álit Reykjavíkurborgar að geymslurýmið sé utan ramma deiliskipulags og hafi verið samþykkt fyrir vangá.  Aðalhönnuður hafi ekki vakið athygli á því þrátt fyrir reit þar að lútandi á umsóknareyðublaði og leiðbeiningar byggingarfulltrúa frá júní 2004, en skv. 58. gr. skipulags- og byggingarlaga beri hönnuður fulla ábyrgð á að hönnunargögn séu í samræmi við deiliskipulag.  Í ljósi þessarar forsögu málsins, og þeirrar staðreyndar að kærendur í málinu hafi ekki brugðist við þeim tilmælum sem borgaryfirvöld hafi haft uppi í málinu, hafi þótt nauðsynlegt að fella byggingarleyfið úr gildi að hluta, þ.e. þann hluta er lúti að geymslurýminu.  Hafi ógilding  byggingarleyfisins m.a. verið byggð á 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. júlí 2011 að viðstöddum fulltrúum kæranda og byggingaryfirvalda í Reykjavík. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu, sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að fella úr gildi að hluta byggingarleyfi frá 21. mars 2007 vegna Laufásvegar 68 í Reykjavík.  Tekur ákvörðunin til útigeymslu sem sögð er öll staðsett utan byggingarreits samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi sótt um leyfi til að stækka áður samþykktar svalir við suðurhlið hússins að Laufásvegi 68, en jafnframt að fá að nýta rými sem myndaðist undir svölunum sem útigeymslu.  Kemur greinilega fram á aðaluppdrætti, er sýnir grunnmynd 1. hæðar, samþykktum af byggingarfulltrúa 21. mars 2010, að umræddur byggingarhluti er utan byggingarreits og samkvæmt  byggingarlýsingu á sama skjali eru steyptar svalir stækkaðar á 1. hæð (með geymslurými undir).  Verður ekki fallist á að umrædd útigeymsla hafi verið samþykkt fyrir mistök, eins og borgaryfirvöld hafa haldið fram, þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir lágu við afgreiðslu umsóknarinnar.  

Eftir að fram komu athugasemdir um að umrædd útigeymsla væri utan byggingarreits lagði kærandi fram umsókn, BN039686, þar sem hann sótti m.a. um að loka útigeymslurými og hætta við að nýta það sem geymslu.  Þessi umsókn hefur ekki verið afgreidd og hefur því ekki verið úr því skorið hvort skilyrði séu til að heimila svalir á steyptum sökkli á þeim stað þar sem útigeymslan var.  Leiðir af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins að byggingaryfirvöldum bar að kanna hvort slíkt vægara úrræði væri tækt áður en ákvörðun var tekin um afturköllun hluta ívilnandi leyfis.

Loks er ekki ljóst hvað nákvæmlega átti að felast í hinni kærðu ákvörðun.  Er til þess að líta að kæranda var, með ákvörðun borgarráðs hinn 18. febrúar 2010, gert að færa tröppuvirki til þess horfs sem sýnt var á samþykktum uppdráttum en tröppuvirki þetta tengist þeim svölum sem jafnframt eru loftplata umdeildrar útigeymslu.  Hefði þurft að koma fram í hinni kærðu ákvörðun hvernig kærandi ætti að bregðast við í tilefni af henni.

Loks er aðfinnsluvert að er hin kærða ákvörðun var tekin hafði kæranda þegar verið gert að fjarlægja umrædda útigeymslu og lá ákvörðun borgaryfirvalda því í raun fyrir áður en honum var gefinn kostur á að andmæla áformum þeirra um afturköllun leyfisins.  Er vandséð að slík málsmeðferð geti talist málefnaleg.  

Að því virtu sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið verulega áfátt og að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði hafi verið til að beita heimild 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til afturköllunar þess hluta byggingarleyfisins er tók til umræddrar útigeymslu.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2010 um að fella úr gildi að hluta byggingarleyfi frá 21. mars 2007 vegna Laufásvegar 68 í Reykjavík. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________  ___________________________
Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson