Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2000 Hafnargata

Ár 2000, þriðjudaginn 11. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru; varaformaður nefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl. og Þorsteinn Þorsteinsson, byggingar-verkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur, aðalmenn í nefndinni.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2000; krafa 10 húseigenda við Austurgötu í Keflavík, Reykjanesbæ um stöðvun framkvæmda við nýbyggingu að Hafnargötu 51-55 í Keflavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni mánudaginn 26. júní 2000, kærir Ásgeir Jónsson hdl., fyrir hönd húseigenda að Austurgötu 17, 20, 22, 24 og 26, Keflavík, Reykjanesbæ ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 21. júní 2000 um að veita Húsanesi ehf. byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Hafnargötu 51-55 í Keflavík. Kærendur krefjast þess að framkvæmdir við nýbygginguna verði stöðvaðar þegar í stað. Jafnframt er þess krafist að skipulags- og byggingaryfirvöldum í Reykjanesbæ verði gert að vinna deiliskipulag fyrir téða lóð/lóðir og kynna það með lögformlegum hætti skv. lögum nr. 73/1997 með síðari breytingum, áður en frekari framkvæmdum verði fram haldið. Þá er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.
Til vara er þess krafist að byggingarframkvæmdum á téðri lóð verði hagað í samræmi við upphaflegar teikningar um tilhögun byggingar og bílastæða á lóðinni, sbr. teikningu, dags. 15. febrúar 2000, og samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar þann 23. mars 2000 og að framkvæmdir verði því stöðvaðar þegar í stað og útgefið byggingarleyfi fellt úr gildi.
Eftir að ofangreind kæra barst úrskurðarnefndinni var byggingarleyfishafa og byggingar-yfirvöldum í Reykjanesbæ þegar í stað gert viðvart um hana og kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Var þessum aðilum veittur stuttur frestur til þess að koma að andmælum og athugasemdum við þá kröfu sérstaklega. Andmæli bárust frá byggingarleyfishafa hinn 29. júní 2000 og frá Vilhjálmi Þórhallsyni hrl. f.h. Reykjanesbæjar með símbréfi eftir lokun skrifstofu hinn 30. júní 2000. Vegna fjarveru formanns nefndarinnar tók Gunnar Jóhann Birgisson hrl., varaformaður sæti formanns við úrlausn um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu með vísan til 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
 

Málavextir: Málvextir verða einungis raktir lauslega í þessum þætti málsins og aðeins að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Í málinu er kærð ákvörðun byggingaryfirvalda í Reykjanesbæ um að veita byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Hafnargötu 51-55 í Keflavík.  Mál vegna byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Hafnargötu 51-53 hefur fyrr á þessu ári sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þegar taka átti það mál fyrir þann 10. maí sl. barst nefndinni bréf byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar þess efnis að byggingarleyfi það sem veitt hefði verið fyrir byggingunni hefði verið afturkallað. Var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði dags. 17. maí 2000, enda ekki talið að kærendur ættu lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um gildi byggingarleyfis sem þegar hefði verið afturkallað.
Í fyrra máli byggðu kærendur á því að byggingaryfirvöld hefðu ekki látið fara fram grenndarkynningu lögum samkvæmt. Með afturköllun leyfisins féllst byggingarnefnd í raun á þau sjónarmið kærenda. Var fyrirhuguð nýbygging kynnt nágrönnum eftir að hið fyrra byggingarleyfi hafði verið fellt úr gildi og verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að fullnægt hafi verið skilyrðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um grenndarkynningu þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir. Að lokinni grenndarkynningu og umfjöllun um framkomnar athugasemdir veitti byggingarfulltrúi, hinn 21. júní 2000, leyfi það sem kært er í máli þessu en hann afgreiðir byggingarleyfi með heimild í Samþykkt um afgreiðslu byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, nr. 250 frá 5. apríl 2000. Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar hinn 26. júní 2000 eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að byggingarframkvæmdir samkvæmt byggingarleyfi sem gefið var út 21. júní sl., á lóðunum nr. 51 – 55 við Hafnargötu í Keflavík verði stöðvaðar þegar í stað. Þá kröfu rökstyðja þeir með því að ef framkvæmdir haldi áfram án þess að úr því hafi verið skorið hvort aðrar kröfur þeirra nái fram að ganga verði mjög erfitt og kostnaðarsamt að breyta fyrirhuguðum byggingarráformum, sem m.a. skerði umferðaröryggi. Byggingar-fulltrúi hafi áður, þann 27. apríl sl., án grenndarkynningar, gefið út byggingarleyfi á lóðunum. Byggingarrleyfishafi, Húsanes ehf., hafi þegar hafist handa við byggingu húss á grundvelli nýrra teikninga sem fólu í sér algjöran umsnúning byggingar og bifreiðasstæðis á byggingarreitnum m.v. teikningar sem áður höfðu verið kynntar þeim. Þær framkvæmdir hafi verið stöðvaðar þegar byggingarleyfið var afturkallað af Reykjanesbæ.
Kærendur telja að þótt grenndarkynning hafi farið fram áður en núgildandi byggingarleyfi frá 21. júní sl. var gefið út hafi hún ekki nægt til að veita byggingarleyfið enda liggi ekki fyrir að fyrirhugaðar framkvæmdir hafi verið kynntar öllum sem hagsmuni kunna að eiga í málinu, heldur þurfi að vinna deiliskipulag fyrir byggingarreitinn að Hafnargötu 51-55 áður en þar verði framkvæmt meira. Þá sé tryggt að öllum hagsmunaaðilum gefist kostur á að gera athugasemdir við byggingartillögur og að allir kostir á staðssetningu húss og bílastæða verði skoðaðir gaumgæfilega og einnig aðrir e.t.v. betri kostir en þegar hafi komið fram.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Talsmaður byggingarleyfishafa Húsaness ehf. telur að flest af þeim sjónarmiðum, sem fram komi í greinargerð lögmanns kærenda, tengist formreglum og samskiptum kærenda og bæjaryfirvalda og séu í raun Húsanesi óviðkomandi.
 

Málsrök Reykjanesbæjar:  Af hálfu Reykjanesbæjar er mótmælt kröfu um stöðvun framkvæmda og ekki talið að neitt komi fram í rökstuðningi kærenda sem réttlætt geti jafn viðurhlutamikla ákvörðun. Byggingarleyfið sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag og grenndarkynning hafi farið fram. Í grenndarkynningu hafi verið farið ekki síst fyrir ábendingar kærenda í þessu máli. Töldu bæjaryfirvöld rétt og væntanlega einnig skylt að viðhafa slíka grenndarkynningu. Vandað var til þeirrar kynningar enda í raun engar athugasemdir verið gerðar við framkvæmd hennar.
Allar aðliggjandi lóðir í hverfinu séu að fullu byggðar að undanskilinni lóðinni nr. 52 handan Hafnargötunnar. Deiliskipulag sé því með öllu óþarft, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga. Ekki verði séð að kærendur hafi rökstutt það með nokkrum hætti hvers vegna umrætt undanþáguákvæði eigi ekki við í máli þessu.

Grundvallaratriði í málinu sé að kærendur hafi um langt árabil mátt búast við byggingu af þessu tagi og raunar, miðað við nærliggjandi hús, við talsvert umfangsmeiri byggingu. Þess vegna verði kærendur líkt og aðrir íbúar í nágrenninu að sætta sig við það mat bæjaryfirvalda að byggingin fullnægji með ágætum hætti markmiðum aðalskipulags og staðsetning hennar sé sú heppilegasta sem völ er á.
Á lóðunum sem um ræðir voru þrjú gömul hús, um sjötíu ára gömul, tvö lítil íbúðarhús á nr. 51 og nr. 53, (kjallari, hæð og ris) og reiðhjólaverkstæði á nr. 55, lágreist á einni hæð og hrörlegt. Nr. 51 var flutt á brott árið 1995 en húsið nr. 53 rifið árið 1991, enda þá talið hættulegt börnum og öðrum vegfarendum. Húsið á nr. 55 var síðan rifið af byggingar-leyfishafanum Húsanesi ehf, í tilefni af fyrirhugaðri byggingu. 

Næstu nágrannar við svæðið eru kærendur við Austurgötu nr. 20-26. Einn kærenda býr þó fjær við Austurgötu 17, efri hæð, á horni Austurgötu og Skólavegs, að norð-austanverðu. Austurgatan er lokuð í báða enda og er húsið nr. 26 við suðurenda hennar. Næstu nágrannar aðrir eru Austurgata 18, handan Skólavegs, sem sker Hafnargötu. Sá nágranni hefur hins vegar engar athugasemdir gert í málinu. Enginn nágranna við Hafnargötu gerir athugasemdir við bygginguna nema nr. 50 vegna bifreiðastæða þeim megin götunnar sem hann vill halda óbreyttum. Önnur hús við vestanverða Hafnargötu frá Skólavegi að Vatnsnesvegi eru að langmestu leyti atvinnuhúsnæði þó búið sé í sumum tilvika á efri hæðum þeirra.

Um er að tefla tveggja hæða steinsteypt hús ætlað undir verslun og skrifstofur. Grunnflötur er 560 fermetrar og nýtingarhlutfall lóðar 0,69. Hæð aðalbyggingar er 7,60 m. Hafnargötu-megin eru á byggingunni tveir turnar, 10,35 og 12,40 m. mesta hæð. Umsnúningur hússins kemur við sögu. Hann er tvímælalaust til bóta, t.d. hefur með því fundist hagkvæm lausn á fyrirkomulagi bifreiðastæða.
Tíu viðbótarbílastæði fást með þessu við Hafnargötu, aðalgötu bæjarins, auk aðalstæðisins norðanvert við bygginguna. Staðsetning bílastæðanna að sunnanverðu hefði án tvímæla verið lakari kostur, en þar hefðu þau skarast við stór bifreiðastæði á lóðinni nr. 57 (Flughótel m.m.) með tvennum inn- og útkeyrslum. Með umsnúningnum minnkaði og skuggamyndun á Austurgötulóðunum.

Niðurstaða:  Ekki verður á það fallist með kærendum að nauðsynlegt sé að vinna deiliskipulag fyrir byggingarreitinn Hafnargötu 51-55 áður en þar verði leyfðar byggingarframkvæmdir. Samkvæmt 23. gr. 2. mgr. sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 er sveitarstjórn heimilt, að undangenginni grenndarkynningu, að leyfa framkvæmdir í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir. Umdeilt byggingarleyfi uppfyllir framangreind skilyrði og ekki verður annað séð en að grenndarkynningin hafi farið fram með formlega réttum hætti.
Með hliðsjón af því að fyrirhuguð nýbygging samrýmist aðalskipulagi og að úrskurðarnefndin telur ekki einsýnt að hún breyti umferðaröryggi til hins verra verður ekki fyrirfram séð að byggingarleyfið sé haldið þeim ógildingarannmörkum sem réttlætt gætu stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við nýbyggingu á lóðunum nr. 51-55 við Hafnargötu í Keflavík verði stöðvaðar meðan kærumál kærenda og krafa þeirra um að byggingarleyfi frá 21. júní sl. verði fellt úr gildi eru til meðferðar hjá nefndinni.