Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2016 Brekkuhvarf

Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Brekkuhvarfs 20 og ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Brekkuhvarfi 22, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Brekkuhvarfs 20, þar sem lóðinni var skipt upp í tvær lóðir, nr. 20 og 20a. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, er barst úrskurðarnefndinni 28. s.m., kæra fyrrgreindir kærendur ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Er gerð krafa um að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður það mál, sem er nr. 128/2016, sameinað máli þessu þar sem þau eru samofin og sömu kærendur standa að báðum málunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 29. apríl, 30. september og 7. nóvember 2016.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 5. október 2015 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Brekkuhvarfs 20 um breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins sem er frá árinu 1992. Í breytingunni fólst að greindri lóði yrði skipt upp í tvær lóðir, Brekkuhvarf 20 og Brekkuhvarf 20a, og að á lóðinni nr. 20a yrði heimiluð bygging einbýlishúss á einni til tveimur hæðum og hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,3. Samþykkti nefndin að grenndarkynna breytingartillöguna.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fyrir skipulagsnefnd að nýju hinn 30. nóvember 2015. Athugasemdir höfðu borist frá kærendum og var þeim vísað til skipulags- og byggingardeildar bæjarins. Málið var á dagskrá skipulagsnefndar 18. janúar 2016 og var þar lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar við fram komnum athugasemdum ásamt tillögu að breytingum á hinni kynntu tillögu. Var hin breytta tillaga samþykkt og þeirri afgreiðslu vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Fólu breytingarnar í sér að hús á hinni nýju lóð yrði lækkað og að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,3 í 0,23. Á fundi bæjarstjórnar 26. janúar 2016 var málinu vísað til skipulagsnefndar að nýju og 15. febrúar s.á. samþykkti nefndin tillöguna frá 18. janúar s.á. Hinn 23. febrúar 2016 samþykkti bæjarstjórn deiliskipulagsbreytinguna og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. mars 2016.

Hinn 26. júlí 2016 samþykkti byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar byggingarleyfi fyrir 190,2 m2 einbýlishúsi ásamt bílskúr á einni hæð að Brekkuhvarfi 20a með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að val þeirra við kaup á fasteign þeirra við Brekkuhvarf árið 2004 hafi tekið mið af deiliskipulagi svæðisins, sem kallað hafi verið „sveit í borg“. Svæðið einkennist af afar stórum lóðum með mjög lágu nýtingarhlutfalli og miklu rými milli sérbýla.

Lóðin að Brekkuhvarfi 20 sé mjög stór, eða 2.346 m2. Íbúðarhúsið á þeirri lóð hafi áður verið gamall sumarbústaður, sem síðar hafi verið byggt við og standi húsið skáhallt á miðri lóðinni. Hindri það að hægt sé að framkvæma eitthvað vitrænt skipulag á lóðinni. Núverandi eigendur, sem hafi keypt eignina árið 2005, hafi ráðist í talsverðar endurbætur á íbúðarhúsinu. Húsið hafi verið í slæmu ásigkomulagi og í raun hefði verið eðlilegast að rífa það og byggja heildstæða einingu í samræmi við skipulagningu annarra lóða í hverfinu. Þegar eigendur Brekkuhvarfs 20 hafi sótt um byggingu hesthúss á lóðinni hafi þeir fundið því stað í norðausturhluta lóðarinnar en áætlað hafi verið að það leysti af hólmi gamalt hesthús sem standi utan byggingarreits við götu. Svo hafi farið að nýja hesthúsið hafi orðið að íbúð en gamla hesthúsið standi enn utan byggingarreits og sé í fullri notkun. Nú bregði eigendur Brekkuhvarfs 20 á það ráð að fá leyfi fyrir skiptingu lóðarinnar og byggja þar hús á 1-2 hæðum. Telji kærendur það vera algjörlega í ósamræmi við núverandi skipulag og sama eigi við um húsagerðina. Þetta hafi áhrif á hús kærenda og umhverfi.

Ekki verði séð að meðalhófs hafi verið gætt við vinnslu og samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða að vinnsla hennar hafi verið í samræmi við gott og faglegt verklag við gerð deiliskipulags.

Málsrök Kópavogsbæjar:
Af hálfu Kópavogsbæjar kemur fram að hin kærða ákvörðun feli í sér breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 20 við Brekkuhvarf og feli breytingin í sér að umræddri lóð sé skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 20 og 20a. Nýja lóðin verði 937,7 m2 að stærð með byggingarreit fyrir 220 m2 einbýlishús. Nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,23. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir 280 m2 húsi á lóðinni, með nýtingarhlutfalli 0,29, en fallið hafi verið frá því til að koma til móts við athugasemdir kærenda. Hafi það verið gert með því að minnka byggingarreit um 5 m og minnka byggingarmagn um 60 m2. Hin kærða deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir byggingu sem sé í samræmi við götumynd viðkomandi svæðis, nýtingarhlutfall og útlit. Ásýnd hverfisins muni því ekki breytast. Að auki sé að finna mörg fordæmi fyrir svipaðri uppskiptingu á lóðum á umræddu skipulagssvæði. Hafi verið ákveðið að grenndarkynna tillöguna fyrir lóðarhöfum í næsta nágrenni en aðeins hafi borist athugasemdir frá kærendum á kynningartíma.

Því sé hafnað að hin kærða ákvörðun breyti forsendum gildandi deiliskipulags. Eftir breytingu verði umræddar lóðir 937,7 m2 og 1.406 m2 að stærð. Lóðirnar verði því þrátt fyrir breytinguna stórar. Einnig sé bent á að minni lóðir finnist á umræddu skipulagssvæði. Breytingin sé auk þess í fullu samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024. Umrætt svæði sé í aðalskipulaginu skilgreint sem ÍB-5 Vatnsendi (Kórar, Hvörf, Þing) og segi um það svæði að þar sé blönduð byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa, sem að mestu hafi verið byggð á árunum 1990-2012, en uppbyggingu sé enn ekki lokið þar sem helsta uppbyggingarsvæðið sé á Vatnsenda.

Verði ekki séð að deiliskipulagsbreytingin muni hafa veruleg grenndaráhrif fyrir kærendur. Vakin sé athygli á því að nýbyggingin muni að öllu leyti verða innan heimilaðs byggingarreits lóðar nr. 20 fyrir umdeilda breytingu og sé því ekki verið að búa til nýja byggingarlínu. Því hafi mátt búast við að reiturinn yrði nýttur með einhverjum hætti. Auk þess sé röng sú staðhæfing kærenda að lágmarksfjarlægð sé ekki virt. Fjarlægðin frá nýbyggingunni að lóðarmörkum sé 5 m og frá nýbyggingu að húsi kærenda séu 11 m. Séu því skilyrði um lágmarksfjarlægð uppfyllt.

Niðurstaða: Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var lóðinni Brekkuhvarfi 20 skipt upp í tvær lóðir, nr. 20 og 20a, og heimiluð bygging einnar hæðar einbýlishúss á síðargreindu lóðinni með nýtingarhlutfalli allt að 0,23. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einnar hæðar einbýlishúsi á sömu lóð með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar segir að breytingar á deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis, megi grenndarkynna. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist vera óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Nýtingarhlutfall umræddra lóða eftir breytingu er sambærilegt við aðrar lóðir í götunni og fordæmi eru fyrir því á skipulagssvæðinu að stærri lóðum hafi verið skipt í tvær eða fleiri lóðir. Þá er fyrirhugað einbýlishús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a einnig í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins, sem samþykktir voru 1992.  Jafnframt er húsið innan þess byggingarreits sem fyrir var áður en ráðist var í umrædda deiliskipulagsbreytingu. Hins vegar verður að líta til þess að með hinni kærðu breytingu er heimiluð bygging nýs íbúðarhúss og getur slík breyting ekki talist óveruleg í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu deiliskipulagsbreytingu úr gildi.

Hin kærðu byggingaráform voru samþykkt 26. júlí 2016 og barst kæran til úrskurðarnefndarinnar 28. september s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að kæranda hafi verið tilkynnt um samþykki byggingaráformanna, en byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum hefur ekki verið gefið út og framkvæmdir því ekki hafist. Verður því við það miðað að kæra vegna byggingarleyfisins hafi borist innan kærufrests.

Hin kærðu byggingaráform voru samþykkt með stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Eins og að framan er rakið hefur úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að fella beri þá deiliskipulagsbreytingu úr gildi. Af þeim sökum eiga byggingaráformin ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 10. gr. laga um mannvirki og verður samþykkt byggingaráformanna af þeim sökum felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Brekkuhvarf 20 og ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson