Ár 2000, fimmtudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 34/2000; kæra á samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir opnu bílskýli að Skildinganesi 10 í Reykjavík.
Í málinu er nú upp kveðinn svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. föstudaginn 23. júní 2000, er barst í póstkassa nefndarinnar eftir lokun skrifstofu þann sama dag, kærir Stefán Þór Ingimarsson hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar nr. 12 við Skildinganes í Reykjavík, samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir opnu bílskýli að Skildinganesi 10 í Reykjavík. Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 15. júní 2000.
Kærendur gera kröfu um ógildingu á byggingarleyfi sem veitt var eigendum fasteignarinnar nr. 10 við Skildinganes í Reykjavík, af byggingarnefnd og staðfest með ákvörðun borgarstjórnar 15. júní 2000. Jafnframt gera kærendur kröfu um stöðvun framkvæmda sem hafnar eru við gerð opins bílskýlis við fasteignina nr. 10 við Skildinganes í Reykjavik, á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. ákvæði II. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum ákvæði 5. mgr. 8. gr. laganna.
Með vísun til 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var krafa kærenda um stöðvun framkvæmda þegar tekin til meðferðar og var byggingarleyfishafa og byggingarnefnd veittur frestur til andmæla og athugasemda um þá kröfu til þriðjudagsins 27. júní 2000. Hafa nefndinni borist andmæli og athugasemdir greindra aðila og er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Málavextir: Aðeins verður stuttlega gerð grein fyrir málavöxtum og einungis að því marki sem þurfa þykir við úrlausn þess þáttar málsins, sem nú er til úrlausnar. Hefur kærumál er varðar hið umdeilda bílskýli að Skildinganesi 10 áður komið til úrlausnar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fyrr á þessu ári. Var í því máli felld úr gildi synjun byggingarnefndar á umsókn um byggingarleyfi fyrir hinu umdeilda bílskýli þar sem á þótti skorta að rannsókn af hálfu byggingarnefndar hafi verið fullnægjandi. Jafnframt komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að opið bílskýli við Skildinganes 10 samrýmdist skipulagsskilmálum svæðisins og að byggingarnefnd hefði því verið óheimilt að synja umsókn eigenda að Skildinganesi 10 með þeim rökum sem gert hafði verið. Var ákvörðun byggingarnefndar felld úr gildi og lagt fyrir hana að taka málið til meðferðar að nýju í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og meginreglur stjórnsýsluréttarins. Í framhaldi af nefndum úrskurði leitaði byggingarnefnd umsagnar skipulags- og umferðarnefndar um álitaefni málsins og veitti síðan eigendum Skildinganess 10 byggingarleyfi fyrir bílskýlinu ásamt skábraut til aðkomu að því. Þegar kærendur urðu þess varir að framkvæmdir voru að hefjast við bílskýlið leituðu þeir upplýsinga um afgreiðslu byggingarnefndar á málinu, að því er virðist hinn 15. júní 2000, og vísuðu því síðan til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dagsettri 23. júní 2000, svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Eftir heildarskoðun á gögnum þeim, sem lögð hafa verið fram við nýja afgreiðslu málsins, segjast kærendur vera þess fullvissir að hvorki hafi verið farið að ákvæðum byggingar- og skipulagslaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 né ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að almennt hafi verið brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum. Beri því að ógilda hina kærðu ákvörðun. Í kærunni er málsástæðum kærenda lýst ítarlega en ekki þykir þurfa að rekja þær í einstökum atriðum á þessu stigi máls. Nægir að árétta að kærendur færa fram allmargar ástæður, sem þeir telja að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að þar sem ákvörðunin sé að þeirra mati bersýnilega haldin ógildingarannmörkum beri að stöðva framkvæmdir sem unnið er að á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.
Málsrök byggingarnefndar: Í stuttri greinargerð byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda segir, að ekki verði séð að neitt nýtt komi fram í kæru lögmanns eigenda fasteignarinnar á lóðinni nr. 12 við Skildinganes, sem breytt geti ákvörðun byggingarnefndar um að veita leyfi fyrir umræddum framkvæmdum og því sé ástæðulaust að stöðva framkvæmdir við verkið, sem unnar séu samkvæmt byggingarleyfi, sem veitt hafi verið í samræmi við skipulag, sbr. umsögn skipulags- og umferðarnefndar.
Andmæli byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa hafa komið fram andmæli við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Kemur þar m.a. fram að stoðveggir sitt hvoru megin innkeyrslu að bílskýlinu hafi þegar verið steyptir og að litla þýðingu hefði því að stöðva framkvæmdir við verkið. Þær framkvæmdir, sem enn sé ólokið, séu að mestu neðanjarðar og skaði ekki kærendur á neinn hátt, en stöðvun framkvæmda myndi skaða hagsmuni byggingarleyfishafa. Framkvæmdirnar séu í samræmi við staðfest byggingarleyfi frá Reykjavíkurborg og kærendur rökstyðji ekki kæru sína með neinni beinni tilvísun í lagagreinar, bein ákvæði byggingarreglugerðar né skipulagsskilmála. Því beri að hafna kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið hafa stoðveggir meðfram innkeyrslu að hinu umdeilda bílskýli þegar verið steyptir og eru þær framkvæmdir, sem ólokið er, að mestu undir yfirborði aðliggjandi lóðar. Yrði fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis myndi það hafa í för með sér að loka þyrfti opi því á kjallaravegg þar sem fyrirhugað er að aka inn í bílskýlið. Yrði og að fylla að húsinu þar sem innkeyrsla að bílskýlinu á að vera og jafna yfirborð lóðar. Framkvæmdir við innkeyrslu og bílskýli geta því engin áhrif haft á efnisniðurstöðu málsins og myndu að mestu verða afmáðar ef fallist yrði á ógildingu byggingarleyfisins. Þykir því ekki ástæða til þess að skylda byggingarleyfishafa, með úrskurði, til þess að stöðva framkvæmdir meðan kærumálið er til meðferðar í úrskurðarnefndinni en framkvæmdir við verkið eru á þeim tíma alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa.
Með vísan til framanritaðs er kröfu kærenda um stöðvun umræddra framkvæmda hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu eigenda Skildinganess 12 í Reykjavík um að framkvæmdir við bílskýli og tilheyrandi innkeyrslu að Skildinganesi 10 verði stöðvaðar meðan kærumál um byggingarleyfi fyrir umræddum mannvirkjum er til meðferðar í úrskurðarnefndinni.