Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

33/2013 Afskráning byggingarstjóra

Árið 2013, þriðjudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 33/2013, kæra á afgreiðslu starfsmanns embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. mars 2013 vegna afskráningar byggingarstjóra að framkvæmdum við Ármúla 6 og Laugaveg 178 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2013, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir S afgreiðslu starfsmanns embættis byggingarfulltrúa frá 25. mars 2013 á erindi kæranda, dags. sama dag, vegna afskráningar hans sem byggingarstjóra að framkvæmdum við Ármúla 6 og Laugaveg 178.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Í október 2012 fór kærandi fram það á við embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík að hann yrði afskráður sem byggingarstjóri að tilteknum framkvæmdum við Álagranda 2A, Höfðatún 2, Ármúla 6 og Laugaveg 178.  Í svarbréfi embættisins var á það bent að væri framkvæmdum lokið skyldi fara fram lokaúttekt á þeim samkvæmt byggingarreglugerð og viðeigandi yfirlýsingum skilað.  Þá kom fram í bréfinu að skoðun hefði leitt í ljós að verkin væru á misjöfnu byggingarstigi, svo sem nánar var tiltekið.  Urðu nokkur bréfaskifti milli kæranda og starfsmanna embættisins í framhaldi af þessu, en hinn 19. október 2012 staðfesti starfsmaður embættisins afskráningu kæranda vegna framkvæmda að Álagranda 2A og Höfðatúns 2. 

Hinn 13. mars 2013 óskaði kærandi á ný eftir staðfestingu á því að hann teldist ekki lengur byggingarstjóri vegna framkvæmda við Ármúla 6 og Laugaveg 178 og ítrekaði kærandi það erindi sitt 19. og 25. s.m.  Með svarbréfi frá starfsmanni embættis byggingarfulltrúa hinn 25. mars 2013 var tilgreint að eins og ítrekað hefði verið þá skyldi verkstaða vera skráð við byggingarstjóraskipti og stöðuúttekt gerð af byggingarfulltrúa.  Greiða skyldi sérstaklega fyrir slíka úttekt.  Tilkynnt hefði verið um afsögn á verkum við Ármúla 6 og Laugaveg 178 og tekið fram að þeim væri lokið.  Samkvæmt skráningarkerfi byggingarfulltrúa hefðu engar áfangaúttektir farið fram á framkvæmdum að Laugavegi 178 og ein áfangaúttekt að Ármúla 6. 

Kærandi vísar til gr. 4.7.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem fram komi að byggingarstjóri geti með tilkynningu til leyfisveitanda einhliða hætt sem skráður byggingarstjóri.  Eiganda beri að sjá til þess að framkvæmdir séu stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri með gilt starfsleyfi hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu.  Skuli leyfisveitandi gera úttekt á stöðu framkvæmda þar sem fráfarandi byggingarstjóri, ef þess sé kostur, og hinn nýi byggingarstjóri undirrita úttektina.  Sé hvergi tiltekið í reglugerðinni að fráfarandi byggingarstjóri skuli hafa forgöngu um að gera úttekt á stöðu framkvæmda.  Þá sé ekki hægt að hafna því að byggingarstjóri fari einhliða frá verki með þeim rökum að t.d. áfangaúttektir hafi ekki verið gerðar eða að greiða þurfi fyrir úttekt. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá.  Að öðrum kosti verði kröfu kæranda hafnað.  Ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun skv. 1. gr. laga nr. 130/2011, sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verði ekki fallist á frávísun málsins sé á því byggt að ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 eigi ekki við hér heldur byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem í gildi hafi verið þegar skráning byggingarstjóra á þeim verkum sem talin séu upp í kæru hafi farið fram.  Um afskráningu byggingarstjóra hafi verið fjallað í 36. gr. reglugerðarinnar og hafi ávallt verið litið svo á, í samræmi við ákvæðið, að úttekt vegna byggingarstjóraskipta, og þar með byggingarstjóraskipti, færu ekki fram nema stöðuúttektar vegna byggingarstjóraskipta væri óskað af hálfu byggingarstjóra, greitt væri fyrir úttektina og að úttektarbeiðandi væri þá jafnframt viðstaddur. 

Niðurstaða:   Tilefni kærumáls þessa er tölvupóstur starfsmanns embættis byggingarfulltrúa þar sem gerð er grein fyrir afstöðu embættisins til verklags við afskráningu byggingarstjóra í tilefni af tilkynningu kæranda um að hann hafi hætt sem byggingarstjóri að tilteknum framkvæmdum og óski staðfestingar embættisins á því. 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 úrskurðar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindaréttar, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessum sviði.  Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður þó ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Með hliðsjón af framangreindu liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumálinu af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________   _______________________
        Ásgeir Magnússon          Þorsteinn Þorsteinsson