Árið 2012, fimmtudaginn 18. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 33/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að veita leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. apríl 2012, er barst nefndinni 26. s.m., kærir S, eigandi eignarhluta í húsinu að Skútuvogi 12 K, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 að samþykkja umsókn um leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog og gera breytingu á brunavörnum hússins. Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Málavextir: Matshluti 030102 að Skútuvogi 12 J-K mun hafa verið notaður fyrir vörulager heildverslunar, en lóðin er skráð sem viðskipta/þjónustulóð í fasteignaskrá Þjóðskrár. Er lóðin á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 24. janúar 2012 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í rými 0102, matshluta 03, og gera breytingar á brunavörnum í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog. Erindinu var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Umsóknin var næst tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. febrúar s.á. og afgreidd með svohljóðandi bókun: „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010. Áskilið samþykki heilbrigðiseftirlits. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“ Með tölvubréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 8. mars 2012, kom fram að kærandi hefði haft spurnir af því að fyrrgreint leyfi hefði verið veitt án samráðs við aðra eigendur hússins og var óskað nánari upplýsinga. Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína með bréfi, dags. 12. apríl s.á., og fór m.a. fram á að upplýst yrði með rökstuddum hætti hvers vegna ekki hefði verið haft samráð við aðra eigendur hússins áður en ákvörðun var tekin. Barst kæranda svar frá skipulags- og byggingarsviði með tölvubréfi hinn 16. s.m., ásamt upplýsingum um kærurétt. Skaut kærandi eftir það fyrrgreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar eins og áður er getið.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hún sé eigandi rýmis sem staðsett sé fyrir ofan samþykkt hjólbarðaverkstæði og hafi eiginmaður hennar haft þar vinnuaðstöðu síðastliðin níu ár. Hafi ekkert samráð verið haft við hana eða aðra eigendur að húseigninni vegna umræddrar leyfisveitingar. Telji kærandi að starfsemi sú er heimiluð hafi verið í húsinu muni valda verulegum óþægindum, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða og lyktar, auk eldhættu. Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið á rétt sameigenda umrædds fjöleignarhúss og verðgildi eignar kæranda rýrt verulega.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Í greinargerð Reykjavíkurborgar, er barst úrskurðarnefndinni hinn 14. júní 2012, er tekið fram að ekki hafi verið þörf á samþykki meðeigenda fyrir umræddri starfsemi, sem sé í samræmi við skipulag svæðisins. Um atvinnuhúsnæði sé að ræða á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur, en á athafnasvæðum sé gert ráð fyrir verkstæðum, vörugeymslum og iðnaði sem ekki hafi í för með sér mengun. Almennt sé ekki gert ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum, nema íbúðum sem tengdar séu starfsemi á svæðinu. Engin lagaskylda hafi því hvílt á skipulagsyfirvöldum til að hafa samráð við kæranda. Sé húsnæði tekið til íbúðarnota á skilgreindum athafnasvæðum megi íbúar alltaf búast við að starfsemi á svæðinu geti haft í för með sér einhver óþægindi, s.s. vegna umferðar, lyktar og hávaða.
Málsrök byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er áréttað að gerðar hafi verið umfangsmiklar úrbætur á umræddu húsnæði til að fullnægja kröfum um eldvarnir og hafi eftir það verið veitt byggingarleyfi og starfsleyfi fyrir þeirri stafsemi sem um sé að ræða. Áður hafi verið lager fyrir heildverslun í húsnæðinu og hafi töluvert af gámum fylgt þeirri starfsemi.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í máli þessu er af hálfu borgaryfirvalda vísað til gildandi aðalskipulags og virðist lagt til grundvallar að ekki sé í gildi deiliskipulag að umræddu svæði.
Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó er heimilt að undangenginni grenndarkynningu skv. 44. gr. laganna að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag enda sé fyrirhuguð framkvæmd í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Segir jafnframt í ákvæðinu að skipulagsnefnd sé heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt sé fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.
Eins og atvikum er hér háttað verður að telja að heimilt hafi verið að falla frá grenndarkynningu enda verður ekki séð að umdeild breyting á notkun húsnæðis á skilgreindu athafnasvæði hafi verið til þess fallin að raska hagsmunum nágranna. Er þá við það miðað að kærandi og aðrir sameigendur byggingarleyfishafa að fasteigninni að Skútuvogi 12 teljist ekki nágrannar í skilningi 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, enda ræðst réttarstaða þeirra af ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 þar sem kveðið er á um réttindi þeirra og skyldur varðandi fjöleignarhúsið.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. tilvitnaðra laga um fjöleignarhús eru breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, háðar samþykki allra eigenda hússins. Samkvæmt ákvæðinu er ekki þörf á samþykki sameigenda fyrir breytingu á hagnýtingu séreignarhluta sé breytingin í samræmi við það sem verið hafi eða gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Eins og áður hefur verið rakið er húsið að Skútuvogi 12 á skilgreindu athafnasvæði og samræmist rekstur dekkjaverkstæðis slíkri landnotkun. Að því gættu verður að telja að notkunin samræmist því sem ráð hafi verið gert fyrir í upphafi og ekki hafi því verið skylt að afla samþykkis sameigenda í húsinu vegna umræddrar breytingar, enda snertir hún aðeins notkun séreignarhluta en varðar ekki sameiginlegt rými í húsinu. Var byggingarfulltrúa því rétt að veita hið umdeilda byggingarleyfi og verður kröfu kæranda um ógildingu þess þar af leiðandi hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum anna hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að samþykkja leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog í Reykjavík.
______________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson