Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2014 Brautarholt

Árið 2014, fimmtudaginn 7. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 31/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2014, sem barst nefndinni 16. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. Húsfélags Ásholts 2-42 vegna eigenda 66 eignarhluta nefndrar fasteignar,, samþykkt borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 7 við Brautarholt. 

Gera kærendur þá kröfu að samþykkt borgarráðs verði felld úr gildi en einnig er farið fram á að yfirvofandi framkvæmdir á nefndri lóð verði stöðvaðar til bráðabirgða með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Málsatvik og rök: Á árinu 1987 var samþykkt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Laugavegi, Mjölnisholti, Brautarholti og Ásholti. Þar var skipulagssvæðinu skipt upp í tvo hluta, þ.e. nyrðri hluta sem tekur til lóðarinnar Ásholts 2-42 og syðri hluta sem er lóðin Brautarholt 7. Gert var ráð fyrir bæði íbúðum og atvinnustarfsemi á hvoru svæði fyrir sig. Uppbygging á nyrðri hluta svæðisins gekk eftir en ekki hefur átt sér stað uppbygging á syðri hlutanum. Hinn 20. febrúar 2014 samþykkti borgarráð nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Brautarholt 7, sem tók gildi 28. mars s.á. með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að á lóðinni megi reisa 100 íbúðir fyrir nemendur með þjónustustarfsemi á hluta jarðhæðar.

Skírskota kærendur til þess að deiliskipulag lóðarinnar hafi verið auglýst á grundvelli áðurgildandi aðalskipulags og uppfylli því ekki kröfur þess aðalskipulags um bílastæði, en skv. 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 beri að auglýsa aðalskipulagsbreytingu áður eða samhliða deiliskipulagsbreytingu. Hafi kærendur mátt gera ráð fyrir að uppbygging á reitnum yrði í samræmi við þær skipulagssamþykktir sem giltu þegar hús kærenda voru byggð en skv. eldri skipulags- og byggingarreglugerðum var kveðið um að lágmarksfjöldi bílastæða skyldi vera eitt á hverja íbúð. Ekki hafi verið farið eftir samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs þar sem lagt hafi verið til að raunhæf áætlun yrði gerð til að bregðast við bílastæðamálum á svæðinu. Með efni hins kærða deiliskipulags sé brotið gegn meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Reykjavíkurborg bendir á að núverandi aðalskipulag hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 26. febrúar 2014 en deiliskipulag fyrir Brautarholt 7 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 1. apríl s.á. Deiliskipulagið sé í fullu samræmi við hið nýja aðalskipulag Reykjavíkurborgar og þurfti því ekki að endurauglýsa það eða auglýsa aðalskipulagið samhliða umræddu deiliskipulagi. Hvorki í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 né byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð lágmarkskrafa um fjölda bílastæða á hverja íbúð.  Við skipulagsgerðina hafi verið litið til samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs varðandi bílastæðamál á svæðinu en ennþá sé unnið að áætlun um þau mál vegna Brautarholts 7. Staðan verði metin þegar íbúum hafi fjölgað og gerðar ráðstafanir í ljósi reynslunnar. Málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við skipulagslög, reglugerðir og stjórnsýslulög, þ.á.m. meðalhófs- og jafnræðisreglu þeirra laga. Við ákvörðun um fjölda bílastæða hafi verið tekið mið af stefnu gildandi aðalskipuilags í þeim efnum og því að svæðið sé í nágrenni við samgögnumiðstöð. Hafi það verið ein af ástæðum þess að ákveðið hafi verið að staðsetja stúdentaíbúðir á þeim stað.

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því.  Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda
Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13. 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.
Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem kunna að verða heimilaðar á grundvelli hins kærða deiliskipulags.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.

______________________________
Ómar Stefánsson