Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2004 Hafnarbraut

Ár 2004, þriðjudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2004, kæra íbúa að Hólsgötu 2, Neskaupstað á ákvörðun umhverfismálanefndar Fjarðabyggðar frá 25. febrúar 2004 um útgáfu byggingarleyfis vegna breytingar á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2004, sem barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir B, Hólsgötu 2, Neskaupstað þá ákvörðun umhverfisnefndar Fjarðarbyggðar frá 25. febrúar 2004 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar hinn 4. mars 2004. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsið að Hafnarbraut 2, Neskaupstað var byggt árið 1950 af Kaupfélaginu Fram og nýtt sem verslunar- og þjónustuhúsnæði fyrir rekstur kaupfélagsins en einnig sem íbúðarhúsnæði þar sem að í hluta hússins var íbúð fjölskyldu kaupfélagsstjórans.  Á því svæði sem húsið stendur er ekki fyrir hendi deiliskipulag.  Í húsinu er starfrækt matvöruverslun og bakarí.

Hinn 5. júlí 2000 samþykkti umhverfisnefnd umsókn frá núverandi eiganda um að hluti hússins yrði nýttur sem gistiheimili en rekstri kaupfélagsins hafði þá verið hætt fyrir nokkru.  Hinn 15. desember 2003 samþykkti einnig nefndin beiðni eiganda þess efnis að breyta annarri, þriðju og fjórðu hæð hússins í íbúðir.  Vegna þessarar afgreiðslu komu fram athugasemdir frá nokkrum íbúum við Hólsgötu um að ekki hefði farið fram grenndarkynning vegna framkvæmdanna og á fundi umhverfisnefndar hinn 28. janúar 2004 voru framkvæmdir stöðvaðar og ákveðið að íbúum yrði kynnt breytingin. 

Í grenndarkynningarbréfi til þeirra er málið varðaði kom fram að breytingin fælist í því að byggt yrði stigahús við norðurvegg hússins sem og aðgangssvalir út frá stigahúsinu.  Settur yrði inngangur á vesturhlið hússins og byggðar svalir á suðurhlið þess.  Þá yrðu þakkvistir fjarlægðir, portveggir á norður- og suðurhlið hækkaðir í útveggjahæð og flatt þak sett á húsið.  Mænir hússins myndi ekki hækka.  Bílastæði yrðu að hluta til á lóð hússins en einnig á plani sunnan Hafnarbrautar. 

Grenndarkynningunni lauk hinn 24. febrúar 2004 og barst athugasemd frá kæranda.  Umhverfisnefnd tók athugasemdina til afgreiðslu á fundi sínum hinn 25. febrúar 2004 og hinn 8. mars 2004 var kæranda ritað bréf vegna afgreiðslu nefndarinnar og samþykktar bæjarstjórnar á henni. 

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að núverandi aðkoma hússins nr. 2 við Hafnarbraut sé með öllu óásættanleg með tilliti til slysahættu en mikil bílaumferð sé þar í kring vegnastarfsemi í húsinu.  Engin gangstétt sé fyrir framan húsið og þessi mikla bílaumferð hafi í för með sér mengun. 

Kærandi bendir á að ef fjölga eigi bílastæðum norðan Hafnarbrautar 2 um allt að helming þýði það samsvarandi mengun og umferð með enn aukinni slysahættu.  Aðstæður allar séu óheppilegar, gatan þröng og umferð mikil.  Þá bendir kærandi á að hugmyndir íbúa við Hólsgötu hafi verið þær að gera götuna að einstefnugötu. 

Kærandi gerir athugasemd við að framkvæmdir séu hafnar án þess að fullgildur byggingarmeistari sé ábyrgur fyrir framkvæmdunum sem og að burðarþoli hússins sé ábótavant. 

Sjónarmið Fjarðarbyggðar:  Af hálfu Fjarðarbyggðar er á það bent að eftir ítarlegar umræður í umhverfisnefnd hafi nefndin fallist á erindið með hliðsjón af 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Í upphafi hafi ekki þótt ástæða til að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina m.a. vegna þess að hæð hússins hafi ekki breyst og þegar hafi verið rekin gistiaðstaða í húsinu með aðgengi frá Hólagötu.  Þá hafi legið fyrir að brauðgerðarverslunin legðist af og einnig myndi listmunageymsla flytjast úr húsinu en aðgengi að þeim hafi einnig verið frá Hólsgötu.  Þá hafi legið fyrir lausn á bílastæðum vegna íbúðanna sem að miklu hluta verði sunnan Hafnarbrautar. 

Fjarðarbyggð bendir loks á að fullnægt sé kröfum um hönnuði, byggingarstjóra og meistara. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun umhverfisnefndar Fjarðarbyggðar þess efnis að veita heimild til breytinga á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað.  Fólu breytingarnar í sér að rými sem nýtt hafði verið sem verslunar- og þjónusturými var breytt í íbúðir.  Byggir kærandi annars vegar á því að málsmeðferð hafi verið ábótavant og hins vegar að með hinni kærðu ákvörðun aukist bílaumferð í grennd við húsið. 

Eins og að framan er rakið setti kærandi fram athugasemdir eftir að byggingarleyfisumsóknin hafði verið grenndarkynnt.  Voru athugasemdir hans teknar til afgreiðslu á fundi umhverfisnefndar hinn 25. febrúar 2004 og þeim svarað með bréfi byggingarfulltrúa til hans, dags. 8. mars sama ár. 

Í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga segir að telji einhver rétti sínum hallað með samþykki byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé honum heimilt, innan mánaðar frá því að honum er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar, að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Var kærufrestur því liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 5. maí 2004.  Hins vegar skorti á að í framangreindu bréfi byggingarfulltrúa til kæranda væri getið um kæruheimild, kærustjórnvald eða kærufrest svo sem áskilið er í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þykir af þessum sökum afsakanlegt þótt kæran hafi borist að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnisúrlausnar með stoð í 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ekki verður fallist á að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt.  Svo sem rakið hefur verið hér að framan stendur hús það sem hér um ræðir á ódeiliskipulögðu svæði en byggingarleyfishafa var veitt hið kærða byggingarleyfi í kjölfar grenndarkynningar.  Kærandi setti fram athugasemdir sem bæjaryfirvöld svöruðu og telst sú málsmeðferð í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Af hálfu kæranda er einnig á því byggt að breytt notkun hússins nr. 2 við Hafnarbraut hafi í för með sér aukna bílaumferð.  Hvað þetta atriði varðar verður að líta til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Neskaupstaðar 1979-1999, sem ekki hefur verið endurnýjað, stendur hús það sem um ræðir á miðbæjarsvæði þar sem margvísleg atvinnustarfsemi er heimiluð í bland við íbúðarbyggð.  Mega íbúar á slíkum svæðum jafnan búast við að starfsemi á svæðinu kunni að hafa í för með sér bílaumferð í þeim mæli sem um ræðir í máli þessu og verður því ákvörðun umhverfismálanefndar ekki hnekkt af þessum sökum.  Engar aðrar málsástæður hafa komið fram er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfum kæranda um ógildingu hennar því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað, samkvæmt ákvörðun umhverfismálanefndar Fjarðabyggðar frá 25. febrúar 2004, er hafnað. 

________________________________
Ásgeir Magnússon

_____________________________              _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir