Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 33/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. apríl 2020 um að hafna erindi kæranda um að breyta skráningu á sumarhúsi í íbúðarhús.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. maí 2020, er barst nefndinni 6. s.m., kærir eigandi sumarhúss að Kerhrauni C103/104 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. apríl 2020 að hafna erindi kæranda um að breyta skráningu nefnds sumarhúss í íbúðarhús. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að ný ákvörðun verði tekin þar sem kæranda verði heimilað að breyta sumarhúsinu í íbúðarhús. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi sveitarfélagsins.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 16. júní 2020.
Málavextir: Kærandi sendi Grímsnes- og Grafningshreppi erindi, dags. 3. desember 2018, þar sem óskað var eftir því að breytt yrði skráningu á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhrauni C103/104 í íbúðarhús. Sveitarstjórn tók erindið fyrir á fundi 19. s.m. og hafnaði því með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð. Kæranda var tilkynnt um synjunina með bréfi, dags. 20. s.m. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. janúar 2019, sem með úrskurði uppkveðnum 7. febrúar 2020 vísaði málinu frá þar sem umsókn kæranda hefði ekki fengið lögboðna afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps tók umrædda umsókn kæranda fyrir á fundi 22. apríl 2020 þar sem umsókninni var synjað með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð í landi Klausturhóla samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið 17. nóvember 1999.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 2. október 2013 hafi sambærilegt erindi og hér um ræði verið samþykkt, þar sem samþykkt hafi verið breytt notkun Snæfoksstaða 99 og 100 úr sumarbústað í einbýlishús. Hið sama eigi við um Vaðstíg 1, 3 og 5, en samþykkt hafi verið að breyta landnotkun lóðanna úr frístundabyggð í íbúðarbyggð á fundi sveitarstjórnar 22. apríl 2020. Ráða megi af fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps við afgreiðslu þess erindis er sneri að Snæfoksstöðum að sveitarstjórn telji það óverulega breytingu á aðalskipulagi að breyta sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð. Framangreindar umsóknir hafi verið algjörlega sambærilegar umsókn kæranda en hafi ekki verið afgreiddar með sama hætti. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, enda skuli allir vera jafnir fyrir lögum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
Hinar tilvitnuðu lóðir sem kærandi hafi samþykkt sambærilegar breytingar á og kærandi hafi óskað eftir, hafi allar verið skráðar frístundalóðir fyrir breytingar. Það sé því ómálefnalegt að fara ekki eins með umsókn kæranda. Rangt sé farið með þegar sveitarstjórn segist ekki hafa heimilað breytta notkun einstakra lóða. Það hafi verið gert bæði í máli Vaðstígslóðanna sem og Snæfoksstaðalóða. Þá sé það eftir á skýring að benda á að breyting Snæfoksstaðalóðanna hafi verið samþykktar þar sem þær séu nálægt landbúnaðarbyggð. Ekkert komi fram um þetta í aðalskipulagsbreytingunni frá 8. febrúar 2018. Þá sé rétt að benda á að lóð kæranda sé einnig í grennd við landbúnaðarsvæði Seyðishóla.
Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess aðallega krafist að kæru í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað.
Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi sveitarstjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 29. gr. og 38. gr. sömu laga sé kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt því heyri það undir hana að samþykkja aðalskipulag sem og deiliskipulag, sbr. 20. og 40.- 42. gr. laganna, og gildi hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 36. og 43. gr., sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2013 í máli nr. 439/2012.
Beiðni kæranda feli í sér að breyta þarf aðalskipulagi. Samkvæmt framangreindum ákvæðum eigi sá sem óski eftir slíkri breytingu ekki heimtingu á henni, heldur sé sveitarfélögum falið að taka slíkar ákvarðanir, allt eftir skipulagi sveitarfélagsins hverju sinni. Endanleg ákvörðun um aðal- og deiliskipulagsbreytingu sé ávallt í höndum sveitarstjórnar sem taki endanlega skipulagsákvörðun. Í framangreindu felist að sveitarfélagið líti enn þannig á að beiðni kæranda feli ekki einungis í sér breytingu á skráningu hússins, heldur einnig óverulega breytingu á aðalskipulagi, þar sem lóð kæranda sé í skipulagðri frístundabyggð.
Líkt og áður segi sé lóð kæranda í skipulagðri frístundabyggð og feli erindi hans í sér óverulega breytingu á aðalskipulagi, svo hægt sé að fallast á breytta skráningu hússins. Málefni varðandi aðalskipulag eigi ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar og beri því að vísa kæru þessari frá nefndinni. Vísist í þeim efnum til 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga, þar sem fram komi að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingar á aðalskipulagi séu háðar samþykki sveitarstjórnar og Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga. Hin kærða ákvörðun hafi falið í sér synjun um breytingu aðalskipulags, en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga hafi úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að endurskoða slíka ákvörðun. Beri því að vísa málinu frá nefndinni.
Sé litið svo á að erindið hafi átt undir byggingarfulltrúa sé bent á að erindi kæranda hafi nú verið tekið fyrir bæði hjá sveitarstjórn sem og hjá byggingarfulltrúa. Hafi erindið því hlotið fullnægjandi meðferð samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 10/2019. Í báðum tilfellum hafi erindi kæranda verið hafnað. Fyrir liggi að lóð kæranda sé staðsett í skipulagðri frístundabyggð Kerhrauns í landi Klausturhóla. Að baki synjun á erindi kæranda séu því bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið. Lóð kæranda sé staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipulagða frístundabyggð. Skipulagssvæðið sé í heild um 107 hektarar og telji 130 frístundalóðir á svæðum A, B og C. Sveitarstjórn hafi ekki heimilað breytta landnotkun stakrar lóðar við slíkar aðstæður. Til þess þyrfti bæði aðal- og deiliskipulagsbreytingu.
Vegna tilvísunar kæranda til lóða 99 og 100 að Snæfoksstöðum (Rauðhólahverfi) þá séu aðstæður þar allt aðrar en í tilviki frístundabyggðarinnar við Kerhraun. Samþykkt hafi verið að breyta landnotkun þessara tveggja lóða úr frístundabyggð í landbúnaðarsvæði til samræmis við aðliggjandi svæði. Fyrir liggi að lóðirnar séu staðsettar við landbúnaðarsvæði og sé um að ræða tvær austustu lóðirnar í enda skipulagðrar frístundabyggðar sem hafi eingöngu talið sjö lóðir. Lóðir 99 og 100, sem séu stærstu lóðirnar, verði þá hluti af aðliggjandi landbúnaðarsvæði. Þá sé þar mjög stutt í aðalveg og gott að þjónusta með tilliti til fastrar búsetu.
Varðandi lóðir við Vaðstíg þá sé á það bent að þær lóðir séu á bæjarhlaðinu á Kringlu. Um sé að ræða þrjár lóðir sem stofnaðar hafi verið af landeiganda og síðar gerðar að íbúðarhúsalóðum. Líkt og í tilfelli Snæfoksstaða séu landbúnaðarlönd allt í kring um lóðirnar og liggi sami vegur um þær og heim að bænum Kringlu.
Ljóst sé samkvæmt framangreindu að aðstæður séu allt aðrar að Snæfoksstöðum og Kringlu en í tilviki frístundabyggðarinnar við Kerhraun og lóðarinnar að Kerhrauni C103/104. Sé því ekki fallist á að ómálefnaleg rök hafi ráðið ákvörðun sveitarfélagsins eða að ekki hafi verið gætt að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Niðurstaða: Í fyrra málinu sem rekið var fyrir úrskurðarnefndinni vegna afgreiðslu umsóknar kæranda um breytta skráningu sumarhúss hans var lagt til grundvallar að um væri að ræða byggingarleyfisumsókn enda óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Var málinu vísað frá nefndinni með úrskurði, uppkveðnum 7. febrúar 2020, í máli nr. 10/2019, þar sem umsóknin hafði ekki fengið lögboðna afgreiðslu byggingarfulltrúa. Í máli þessu er deilt um lögmæti afgreiðslu byggingarfulltrúa á sömu umsókn kæranda.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Því er það ekki innan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda. Þá er ekki fyrir hendi heimild í lögum fyrir úrskurðarnefndina til að ákvarða greiðslu málskostnaður til handa aðilum máls og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda.
Samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga skal byggingarleyfisskyld mannvirkjagerð vera í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði og skv. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga er eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar Kerhrauns í landi Klausturhóla, sem samþykkt var 17. nóvember 1999. Samkvæmt grein 2.2.1. í deiliskipulagi þessu eru aðalforsendur þess að mynda sumarbústaðahverfi sem falli sem best að umhverfinu. Samkvæmt grein 2.2.2. er gert ráð fyrir að landnotkun svæðisins sé sumarbústaðasvæði, útivistarsvæði, vernduð svæði og óbyggð svæði. Í grein 2.2.2.1. um sumarbústaðasvæði segir: „Kerhraun, svæði C, skipulagt undir sumarbústaðalóðir liggur á norðausturhluta jarðarinnar, meðfram Hæðarendalæk að norðan og landamerkjum að austan. Að suðaustan og sunnan afmarkast svæðið af Seyðishólum.“ Í grein 2.2.5.1. kemur og fram að á hverri lóð sé heimilt að reisa einn sumarbústað. Aðrar byggingar, svo sem geymsluskúrar, verði ekki leyfðar. Þó sé heimilt að hafa útigeymslu sambyggða bústað. Að lokum er tekið fram í grein 2.3.4. skipulagsins um húsagerðir að hús skuli einungis ætluð til samfelldrar dvalar að sumri til en á öðrum árstímum til styttri dvalar, t.d. yfir helgi.
Deiliskipulagi þessu hefur verið breytt fjórum sinnum. Þrjár breytinganna snúa einvörðungu að sameiningu lóða eða breytingu á lóðamörkum. Með fjórðu breytingunni, dags. 5. maí 2010, var framangreindri grein 2.2.5.1. breytt. Eftir breytingu segir þar að heimilt sé að reisa eitt hús á hverri lóð og að auki sé heimilt að reisa geymslu- eða gestahús, allt að 40 m2. Þá var framangreind grein 2.3.4. felld úr skipulaginu. Eftir stendur þó að samkvæmt grein 2.2.2. er enn gert ráð fyrir að landnotkun svæðisins sé sumarbústaðasvæði, útivistarsvæði, vernduð svæði og óbyggð svæði. Engin heimild er í deiliskipulaginu til að leyfa þar íbúðarbyggð. Var byggingarfulltrúa því rétt að synja erindi kæranda.
Kærandi hefur vísað til jafnræðisreglna 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og í þeim efnum vísað til afgreiðslu sveitarfélagsins varðandi lóðir við Snæfoksstaði og Vaðstíg. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki um sambærileg tilvik að ræða enda hafði bæði aðal- og deiliskipulagi verið breytt áður en umræddar landnotkunarbreytingar voru samþykktar af sveitarfélaginu. Verður því ekki fallist á að ekki hafi verið gætt að jafnræðissjónarmiðum. Kærandi getur eftir sem áður sótt um aðal- og deiliskipulagsbreytingu, kjósi hann að gera það.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. apríl 2020 um að hafna erindi hans um að breyta skráningu á sumarhúsi í íbúðarhús.