Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2007 Hveramýri

Ár 2008, fimmtudaginn 30. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 30/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 7. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í Hveramýri í landi Garðs í Hrunamannahreppi.  Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa hreppsins frá 14. mars 2006 um að veita stöðuleyfi fyrir tveimur sumarhúsum í Hveramýri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. apríl 2007, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kæra K og B, Hvammi, Hrunamannahreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar frá 7. mars 2007 að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í Hveramýri í landi Garðs í Hrunamannahreppi. 

Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa hreppsins frá 14. mars 2006 um að veita stöðuleyfi fyrir tveimur sumarhúsum í Hveramýri.  Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps hinn 14. febrúar 2006 var samþykkt að auglýsa breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins er fól m.a. í sér að landnotkun á um 6 ha svæði, Hveramýri, yrði breytt úr landbúnaðarsvæði í frístundabyggð.  Aðkoma að umræddu svæði frá þjóðvegi hafði verið um veg sem liggur um land Hvamms. 

Tillagan var auglýst og bárust athugasemdir m.a. frá kærendum máls þessa.  Bentu þeir á að landspildu þessari hefði verið skipt úr jörðinni Hvammi á fimmta áratug síðustu aldar.  Skýrt hefði verið tekið fram þegar landið hefði verið tekið á leigu árið 1946 að það væri leigt til „…garðyrkju og venjulegs búreksturs og [..] leiguliða heimilt að reisa á því gróðurhús, fénaðarhús og önnur mannvirki er að starfi hans lýtur“.  Í tengslum við starfsemi garðyrkjustöðvarinnar hafi leigutaka verið heimil umferð eftir vegi um land Hvamms að landi sínu í Hveramýri.  Teldu kærendur sér ekki skylt að taka við þeirri umferðaraukningu sem yrði við breytta nýtingu landsins.  Sveitarstjórn tók tillöguna fyrir á fundi sínum hinn 27. júní 2006 og samþykkti eftirfarandi umsögn um fyrrgreinda athugasemd:  „Í stað þess að fella út svæði fyrir frístundabyggð á landspildunni Hveramýri mun sveitarstjórn beina því til eigenda svæðisins að leita lausna á aðkomu að svæðinu, annað hvort með samkomulagi við eigendur Hvamms I eða með nýjum vegi á öðrum stað og ekki verða gefin út byggingarleyfi fyrir frístundahús fyrr en viðeigandi lausn hefur fundist sem eigendur Hvamms I og landspildunnar Hveramýri geta sætt sig við.  Svæðið verður því skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð í aðalskipulagi.“  Var aðalskipulagsbreyting þessi endanlega samþykkt í sveitarstjórn hinn 16. ágúst 2006 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. október sama ár. 

Hinn 13. september 2006 var samþykkt á fundi skipulagsnefndar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í Hveramýri og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 4. október s.á. 

Í deiliskipulagstillögunni fólst að á um 6 ha svæði um 500 m austan við bæinn Hvamm yrði gert ráð fyrir sjö lóðum á bilinu 2.990-7.393 fermetrar að stærð þar sem heimilt yrði að reisa allt að 180 fermetra frístundahús, allt að tvær hæðir, með 6 m mænishæð.  Var samkvæmt tillögunni gert ráð fyrir að aðkoma að svæðinu yrði um veg í landi kærenda.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum við auglýsta tillögu þar sem fyrri afstaða þeirra til aðkomu að svæðinu var m.a. ítrekuð. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 8. febrúar 2007 var tillagan lögð fram að nýju ásamt minnisblaði lögmanna um innkomna athugasemd og var tillagan samþykkt.  Jafnframt var skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdinni í samræmi við framlagt minnisblað.  Staðfesti sveitarstjórn Hrunamannahrepps greinda afgreiðslu á fundi sínum hinn 7. mars 2007 og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. maí 2007. 

Hinn 14. mars 2006 mun byggingarfulltrúi Hrunamannahrepps hafa veitt stöðuleyfi fyrir sumarhúsi að Hveramýri. 

Hafa kærendur skotið greindri deiliskipulagsákvörðun, sem og ákvörðun um stöðuleyfi, til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er bent á að þeir hafi mótmælt tillögu að deiliskipulagi en þeir hafi ekkert frétt af meðferð málsins fyrr en með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 20. mars 2007.  Af því bréfi megi helst ráða að tillaga að deiliskipulagi hafi verið samþykkt.  Það segi þó hvergi berum orðum og ekki sé að finna efnislegan rökstuðning í bréfinu en staðhæft að farið hafi verið eftir skipulags- og byggingarlögum við afgreiðslu málsins.  Þá megi af því ráða að umferðarréttur eigenda Hveramýrar í gegnum land Hvamms sé óháður notkun, þ.e.a.s. að skilyrði aðalskipulagsins skipti engu máli.  Samþykkt deiliskipulags í þessa veru sé andstæð ákvæði 4.11.2 í skipulagsreglugerð og valdi eigendum Hvamms verulegu ónæði. 

Veitt hafi verið tímabundið stöðuleyfi fyrir tveimur sumarhúsum í Hveramýri en samkvæmt gr. 4.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sé ekki gert ráð fyrir því að veitt sé stöðuleyfi fyrir sumarhúsi eða öðrum mannvirkjum sem standa eigi áfram eftir að stöðuleyfistímabili ljúki.  Stöðuleyfið hafi hvorki verið samþykkt af byggingarnefnd né hreppsnefnd og þá sé liðið meira en eitt ár frá því að leyfið hafi verið veitt og það því ekki lengur í gildi.  Hafi hið svonefnda stöðuleyfi enga lagaheimild. 

Málsrök Hrunamannahrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að áður en tillaga um deiliskipulag hafi verið lögð fyrir í skipulagsnefnd hafi eigandi Hveramýrar lagt fram samning er sýnt hafi fram á að eigendum landsins væri heimil aðkoma að því, óháð nýtingu þess.  Þessi gögn hafi ekki legið fyrir þegar breyting á aðalskipulagi hafi verið samþykkt í sveitarstjórn.  Í ljósi þessa hafi verið ákveðið að halda áfram með málið þó svo að ekki lægi fyrir samkomulag eigenda landsins og Hvamms um lausn á því.  Ekki verði séð hvernig samþykkt deiliskipulagsins sé andstæð ákvæðum 4.11.2 í skipulagsreglugerð enda komi ekki efnislega fram í kæru með hvaða hætti svo sé og vísar sveitarfélagið til fyrrgreinda gagna sem landeigandi svæðisins hafi lagt fram. 

Óskað hafi verið eftir stöðuleyfi fyrir sumarhúsi á Hveramýri meðan beðið væri eftir fullnaðarafgreiðslu á deiliskipulagi svæðisins og hafi byggingarfulltrúi með bréfi, dags. 14. mars 2006, heimilað flutning á sumarhúsi frá Selfossi og veitt því stöðuleyfi meðan gengið væri frá skipulagsmálum.  Hafi leyfið ekki verið lagt fyrir byggingarnefnd enda hafi byggingarfulltrúi heimild til að afgreiða slík mál án hennar samþykkis.

Málsrök eigenda Hverarmýrar:  Eigendum landspildunnar Hverarmýrar, sem hið umdeilda deiliskipulag tekur til, var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í kærumáli þessu.  Mótmæla þeir kröfum kærenda í málinu.  Hvað stöðuleyfi varðar taka þeir fram að leyfi hafi verið veitt fyrir einu húsi hinn 14. mars 2006 og hafi það verið flutt á staðinn í framhaldi af því.  Húsið hafi verið þarna á bráðabirgðaundirstöðum og ekki fest á nokkurn hátt.  Hafi ekkert verið unnið við húsið fyrr en eftir að deiliskipulagið hafi tekið gildi og teikningar verið samþykktar.

Varðandi umferðarrétt að landspildunni vísa eigendur til fyrirliggjandi samnings frá 13. ágúst 1983 og minnisblaðs frá Lögmönnum Suðurlandi þar sem fram komi að réttur til aðkomu að spildunni sé talinn óháður notkun hennar.

———————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Kærendur styðja ógildingarköfu sína á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun þeim rökum að hún fari í bága við gildandi aðalskipulag enda sé hún andstæð gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Auk þess verði grenndaráhrif gagnvart þeim vegna umferðar að hinu skipulagða sumarhúsasvæði óásættanleg. 

Í gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að í svæðisskipulagi og á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum svæðum fyrir frístundabyggð utan þéttbýlisstaða.  Þá segir m.a. í ákvæðinu að gera skuli grein fyrir tengslum slíkra svæða við samgöngur, þjónustu og opin svæði.  Jafnframt segir m.a. í gr. 4.16.2 sömu reglugerðar að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir þjóðvegum og almennum vegum.  Einnig skuli gera grein fyrir gömlum þjóðbrautum og göngu-, hjólreiða- eða reiðstígum, þegar til staðar eða fyrirhuguðum. 

Frístundasvæði það sem hið kærða deiliskipulag tekur til var fært inn á sveitarfélagsuppdrátt aðalskipulags með breytingu sem samþykkt var í sveitarstjórn Hrunamannahrepps 16. ágúst 2006.  Ekki er þar gerð grein fyrir tengingu svæðisins við samgöngur og ekki er heldur á uppdrætti aðalskipulags sýndur vegur sá sem fyrir var að landi Hveramýrar og ætlunin mun hafa verið að nýta fyrir umferð að og frá deiliskipulagssvæðinu.  Var þó full þörf á að gera grein fyrir vegtengingu við svæðið þar sem fyrir lá að ágreiningur var með hagsmunaaðilum um þetta atriði.  Verður að telja, eins og hér stendur á, að hið umdeilda deiliskipulag eigi sér ekki fullnægjandi stoð í aðalskipulagi hvað varðar aðkomu að svæðinu og fullnægi því ekki skilyrði 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem kveðið er á um að deiliskipulag skuli gert á grundvelli aðalskipulags. 

Á uppdrætti hins kærða deilskipulags sýnist ekki vera gerð með skýrum hætti grein fyrir afmörkun skipulagssvæðis og sætti sá ágalli aðfinnslum af hálfu Skipulagsstofnunar við afgreiðslu hennar á deiliskipulagstillögunni.  Af samanburði við aðalskipulagsuppdrátt og af skýringum á deiliskipulagsuppdrætti verður þó ráðið að deiliskipulagið taki til svæðis sem sýnt er í stækkaðri mynd í mælikvarða 1:1400 á uppdrætti deiliskipulagsins þar sem jafnframt er vísað til hnitaskrár um afmörkun svæðisins.  Í skilmálum sem fram koma á deiliskipulagsuppdrætti kemur fram að aðkoma að lóðum sé frá þjóðvegi nr. 30.  Á uppdrættinum er sýndur vegur sem liggur að deiliskipulagssvæðinu en hann er allur utan þess og sama á að hluta til við um vegtengingar við einstakar lóðir, sé við það miðað að punktar í tilgreindri hnitaská séu ákvarðandi um afmörkun svæðisins.  Telur úrskurðarnefndin að hinu umdeilda skipulagi sé svo áfátt, bæði hvað framsetningu og samræmi við aðalskipulag varðar, að leiða eigi til ógildingar og verður það því fellt úr gildi. 

Af hálfu kærenda er jafnframt kært stöðuleyfi sem þeir halda fram að veitt hafi verið fyrir staðsetningu tveggja sumarhúsa í Hveramýri.  Upplýst hefur verið af hálfu byggingaryfirvalda Hrunamannahrepps að einungis hafi verið veitt stöðuleyfi fyrir einu húsi á umræddum stað og hafi það leyfi verið veitt hinn 14. mars 2006.  Fyrir liggur að kærendum var kunnugt um hús það sem umdeilt stöðuleyfi tekur til þegar á árinu 2006, en í bréfi þeirra til skipulagsfulltrúa, dags. 19. maí það ár, og í bréfi lögmanns þeirra til hans, dags. 28. nóvember sama ár, koma fram athugasemdir kærenda varðandi sumarhús á svæðinu.  Bar kærendum þá að kynna sér hvernig háttað væri leyfisveitingu vegna þessara mannvirkja og var kærufrestur vegna umrædds stöðuleyfis því löngu liðinn er kærendur skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar hinn 16. apríl 2007.  Verður þessum lið kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 7. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í Hveramýri í landi Garðs í Hrunamannahreppi er felld úr gildi.

Kröfu kærenda um ógildingu stöðuleyfis frá 14. mars 2006 fyrir flutningshúsi er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________       _______________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson