Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2001 Fellasmári

Ár 2003, fimmtudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2001, kæra eiganda Fellasmára 7, Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir skjólveggjum á lóðamörkum Fellasmára 5 og 7 en gefa lóðahöfum kost á að ná samkomulagi um þá fyrir 1. júlí 2001.  Að öðrum kosti beri kæranda að fjarlægja skjólveggina.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júní 2001, sem barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. D, og K, eigenda Fellasmára 7, Kópavogi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir skjólgirðingu á lóðamörkum Fellasmára 5 og 7 en gefa lóðahöfum kost á að ná samkomulagi um þá fyrir 1. júlí 2001.  Að öðrum kosti skuli kærandi fjarlægja skjólveggina.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001.

Annar kæranda, K er nú látin og D orðin ein aðili að kæru málsins.  Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2001, setti Jón Sigurðsson hdl. fram athugasemdir við ofangreinda kæru f.h. eigenda Fellasmára 5.  Krafðist hann þess að málinu yrði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Jafnframt var gerð krafa um að úrskurðarnefndin geri kæranda að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir.  Úrskurðarnefndin felldi úrskurð hinn 31. janúar 2003 þar sem frávísunarkröfu var hafnað og kröfu um að eigendum Fellasmára 7 yrði með úrskurði gert að fjarlægja girðingu á lóðamörkum Fellasmára 5 og 7 var vísað frá úrskurðarnefndinni.

Málavextir:  Fasteignirnar Fellasmári 5 og Fellasmári 7 eru hluti fjögurra húsa raðhúsalengju.  Eigendur fasteignarinnar að Fellasmára 7 munu hafa reist skjólgirðingu úr timbri á lóðamörkum sínum sumarið 2000.  Bæjaryfirvöldum í Kópavogi barst bréf, dags. 17. ágúst 2000, þar sem eigendur Fellasmára 5 töldu rétti sínum hallað vegna hæðar greindrar skjólgirðingar á lóðamörkum fasteignanna.  Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 1. september 2000 og því vísað til umsagnar byggingarfulltrúa og skipulagsstjóra.  Í umsögn þeirra til bæjarráðs, dags. 26. september 2000, var lagt til að málsaðilum yrði kynnt ákvæði 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um girðingar lóða.  Bæjarráð samþykkti umsögnina á fundi hinn 28. september 2000.  Eigendur Fellasmára 5 mótmæltu framkvæmdunum í bréfi til eigenda Fellasmára 7, dags. 23. október 2000 og í bréfi til byggingarnefndar Kópavogs, dags. 3. nóvember 2000.  Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 15. nóvember 2000 og byggingarfulltrúa falið að afla lögfræðiálits um málið.  Málið var enn tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 27. desember þar sem umsögn bæjarlögmanns lá fyrir og var formanni nefndarinnar falið að ræða við málsaðila.  Á fundi hinn 24. janúar 2001 ályktaði byggingarnefnd að umræddir skjólveggir væru byggingarleyfisskyldir samkvæmt 67. gr. byggingarreglugerðar en féllu ekki undir 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem girðingin færi ekki í bága við gildandi skipulagsskilmála í hverfinu.  Var eigendum Fellasmára 7 gefinn frestur til 6. febrúar 2001 til að sækja um byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum og afla samþykkis nágranna fyrir skjólgirðingunni en að öðrum kosti yrði þeim gert að fjarlægja hann.

Byggingarleyfisumsókn fyrir framkvæmdunum, dags. 6. febrúar 2001, var tekin fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 14. febrúar 2001 og var málinu vísað til skipulagsnefndar til grenndarkynningar.  Skipulagsnefnd afgreiddi málið frá sér að lokinni grenndarkynningu hinn 17. apríl 2001 á þann veg að ekki var mælt með samþykkt umsóknarinnar vegna eindreginna mótmæla eigenda að Fellasmára 5. Málið var síðan afgreitt á fundi byggingarnefndar hinn 9. maí 2001, að lokinni skoðun á vettvangi með málsaðilum og var niðurstaða nefndarinnar sú að hún sá sér ekki fært að samþykkja umsóknina en gaf eigendum að Fellasmára 7 kost á því að ná samkomulagi við eigendur Fellasmára 5 um tilhögun skjólveggja á lóðamörkum til 1. júlí 2001.  Kæranda var að öðrum kosti gert að fjarlægja skjólgirðinguna.  Þessi afgreiðsla byggingarnefndar var staðfest í bæjarstjórn Kópavogs hinn 22. maí 2001.

Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 10. maí 2001, og var afgreiðslu málsins skotið til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Í málinu gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 verði hnekkt og lagt verði fyrir nefndina að veita hið umdeilda byggingarleyfi en ella að málinu verði vísað frá byggingarnefndinni eða henni verið gert að úrskurða um ágreining lóðahafa um frágang á lóðamörkum. 

Kærandi telur vinnubrögð byggingaryfirvalda í Kópavogi í máli þessu  gagnrýnisverð.  Í lögfræðiáliti bæjarlögmanns frá 22. desember 2000 komi fram að um allan Kópavog séu skjólveggir, sem reistir hafi verið án þess að ákvæða 67. gr. byggingarreglugerðar hafi verið gætt, en oftast hafi legið fyrir samkomulag aðila.  Af álitinu megi ráða að byggingarnefnd eigi tvo kosti:  Að taka á öllum sambærilegum málum á jafnræðisgrundvelli eða að benda þeim á, sem telja rétti sínum hallað, að leita leiðréttingar sinna mála á einkaréttarlegum grundvelli.  Eðlilegast hefði verið, með hliðsjón af greindu áliti bæjarlögmanns, að byggingarnefnd hefði vísað málinu frá, eða gert sömu kröfur um byggingarleyfi í þeim tilvikum sem eins væri ástatt um og í tilviki kæranda.   Þess í stað hafi byggingarnefnd ákveðið að gefa kæranda kost á því að sækja um byggingarleyfi fyrir þegar reistum skjólvegg án þess að sömu kröfur væru gerðar til annarra sem án byggingarleyfa hafi reist sambærilega skjólveggi.  Hin kærða ákvörðun feli því í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga gagnvart kæranda.  Enga þýðingu hafi haft að veita kæranda kost á því að sækja um byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum í ljósi þess að byggingaryfirvöld hafi gert samþykki nágranna að skilyrði fyrir veitingu leyfisins og fyrir hafi legið að það fengist ekki af hálfu eigenda Fellasmára 5.  Hafi því frá upphafi verið ljóst hver niðurstaðan yrði.

Hvergi í meðferð málsins, hvorki hjá skipulagsnefnd né byggingarnefnd, virðist hafa verið lagt mat á ástæður eigenda Fellasmára 5 fyrir andstöðu þeirra við skjólgirðinguna.  Fyrir liggi að þeir hafi samþykkt gerð skjólveggja á lóðamörkum Fellasmára 3 og 5 án þess að fyrir þeirri framkvæmd væri byggingarleyfi eða þess krafist að slíks leyfis yrði aflað.

Kærandi vísar til þess að fyrir hafi legið munnlegt samþykki eigenda Fellasmára 5 fyrir skjólveggjum og að kröfu þeirra hafi girðingin verið lækkuð.  Hvorki skipulagsnefnd né byggingarnefnd hafi fjallað um þessa málsástæðu kæranda en ljóst sé að munnlegt samkomulag jafngildi skriflegu.  Ekki sé viðunandi í málum af þessu tagi að annar aðilinn synji eftirá fyrir samþykki sitt.  Yfirvöldum, sem um málið fjalli, beri að reyna að grafast fyrir um það hvort staðhæfingar um munnlegt samkomulag séu réttar.  Mótbárur eigenda Fellasmára 5 vegna skjólgirðingarinnar séu órökstuddar og hafi byggingarnefnd brugðist rannsóknarskyldu sem á henni hvíli samkvæmt stjórnsýslulögum við meðferð málsins.  Jafnvel þótt mótbárurnar hefðu átt við rök að styðjast liggi engu að síður fyrir að um allt land hafa byggingarnefndir leyft framkvæmdir þrátt fyrir andstöðu nágranna varðandi útsýni og verðmætarýrnun eigna.  Hvergi í skipulags- og byggingarlögum séu fyrirmæli um að hafna beri umsókn um byggingarleyfi þótt nágrannar mótmæli því að leyfi sé veitt.  Óskiljanlegt sé í ljósi aðstæðna að byggingarleyfisumsókn kæranda skyldi hafnað á þeirri forsendu einni að eigendur Fellasmára 5 vildu ekki samþykkja hana. 

1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar, er kveði á um samþykki lóðahafa fyrir girðingum á lóðamörkum, eigi sér ekki stoð í skipulags- og byggingarlögum.  Í 2. mgr. 37. gr. laganna segi aðeins að í byggingarreglugerð skuli vera ákvæði um þær lágmarkskröfur sem gerðar séu varðandi frágang lóða.  Orki tvímælis að unnt sé með reglugerð að setja jafn fortakslaust ákvæði og fram komi í 1. mgr. 67. gr. reglugerðarinnar um samþykki beggja lóðahafa.  Í máli þessu blasi við að eigendur nágrannalóðar kæranda séu með ómálefnalegum hætti að leggja stein í götu þeirra varðandi byggingu skjólgarðs.  Fyrir liggi yfirlýsingar flestra ef ekki allra annarra íbúa í götunni um að umdeildar framkvæmdir kæranda séu götuprýði og til mikillar fyrirmyndar.  Engu að síður sé þessi órökstudda afstaða látin ráða niðurstöðu málsins, m.a. með vísan til 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar.

Misræmis gæti í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun.  Vísað sé til 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar um að girðing á lóðamörkum sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Jafnframt sé skírskotað til skipulags- og byggingarskilmála fyrir lóðina frá 1991 og til lóðarleigusamnings frá 29. apríl 1997 vegna lóðarinnar, þar sem segi að lóðarhafi skuli hafa samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum og hlíta úrskurði byggingarnefndar um ágreining sem upp kunni að koma.  Bendir kærandi á að samþykki og samráð sé sitt hvor hluturinn.  Í eldri byggingarreglugerð nr. 177/1992 hafi verið ákvæði um girðingar lóða í gr. 5.11 þar sem samþykki lóðahafa hafi ekki verið gert að skilyrði fyrir gerð og frágangi girðinga heldur hafi samþykki byggingarnefndar verið nægjanlegt.  Sambærileg ákvæði hafi verið í byggingarreglugerð nr. 292/1979.  Draga megi í efa að heimilt sé að byggja á ákvæðum 67. gr. byggingarreglugerðar þegar fyrir liggi að lóðarsamningur og skipulagsskilmálar setji önnur og vægari skilyrði fyrir frágangi á lóðarmörkum þar sem rætt sé um samráð.  Eðlilegast hefði verið að útkljá mál þetta með úrskurði byggingarnefndar í samræmi við skipulags- og byggingarskilmála er gildi um viðkomandi lóðir og þá tekið mið af málefnalegum rökum málsaðila.

Kærandi telji með hliðsjón af öllu þessu að ógilda beri hina kærðu ákvörðun og á grundvelli jafnræðissjónarmiða beri að leggja fyrir byggingarnefnd að veita umbeðið byggingarleyfi eða vísa málinu frá byggingarnefndinni.  Að öðrum kosti beri byggingarnefnd að úrskurða um ágreining aðila í samræmi við skipulags- og byggingarskilmála sem fyrir umræddar lóðir gildi og bendir kærandi á að umdeild skjólgirðing fari ekki yfir 1,80 metra og sé því ekki byggingarleyfisskyld af þeim sökum.

Málsrök byggingarnefndar:  Byggingarnefnd Kópavogs vísar til þess að fyrir liggi að ekki sé sátt milli eigenda Fellasmára 5 og Fellasmára 7 um skjólvegg á lóðamörkum fasteignanna.  Við hina kærðu ákvörðun hafi byggingaryfirvöld litið til eftirfarandi atriða:

Í gr. 67.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 komi m.a. fram að girðing á lóðamörkum sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir umrædda lóð, sem samþykktir hafi verið í skipulagsnefnd 5. nóvember 1991 og í bæjarstjórn 12. nóvember sama ár, komi fram í gr. 3.2 að hafa skuli samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum og hlíta beri úrskurði byggingarnefndar um ágreining sem upp kunni að koma.  Þá sé í 15. gr. lóðarleigusamnings fyrir Fellasmára 7 frá 29. apríl 1997 kveðið á um samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum í samræmi við byggingarskilmála.  Kærandi leiði rétt sinn af upphaflegum lóðarleigusamningi um lóð sína að Fellasmára 7 svo sem fram komi í afsali fyrir umræddri fasteign til kæranda, dags. 1. október 1998, þar sem m.a. segi að afsalshafi taki við lóðaleiguréttindum.

Að virtu greindu ákvæði byggingarreglugerðar og ákvæðum skipulags- og byggingarskilmála hafi byggingarnefnd ekki talið sér fært að veita leyfi fyrir umdeildum skjólvegg, sem þegar hafi verið reistur, en veitt kæranda frest til þess að freista þess að ná sátt um greinda girðingu, en fjarlægja hana ella.

Andmæli eigenda Fellasmára 5:  Á það er bent að kærandi hafi lagt út í byggingu skjólveggja á lóðarmörkum Fellasmára 5 og 7 án þess að hafa nokkurt samráð við andmælendur eða leita samþykkis þeirra fyrir framkvæmdunum.  Hæð girðingarinnar sé 1,83 metrar en 1,92 metrar með svonefndum höttum, að sunnanverðu.  Í febrúarmánuði sl. hafi komið í ljós að umræddir skjólveggir væru farnir að skaga inn á lóð andmælenda og hafi þetta verið staðfest við skoðun byggingarfulltrúa.

Ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 taki til deilumáls þessa.  Samkvæmt ákvæði 67. gr. byggingarreglugerðar skuli leita samþykkis byggingarnefndar á gerð og frágangi girðingar ef hún er hærri en 1,80 metra eða nær lóðarmörkum en sem svarar hæð hennar, mælt frá jarðvegshæð við girðinguna eða frá hæð lóðar á lóðamörkum ef hún er meiri.  Þá komi jafnframt fram í greininni að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Fyrir liggi að kærandi hafi ekki aflað sér byggingarleyfis fyrir umdeildum framkvæmdum, þær hafi hvorki verið kynntar andmælendum né samkomulag gert um þær en framkvæmdunum hafi verið mótmælt frá upphafi, m.a. með formlegum erindum til bæjaryfirvalda.  Þar sem samþykki aðliggjandi lóðarhafa skorti fyrir skjólgirðingunni og hún sé yfir 1,80 metrum og nær lóðarmörkum en nemi hæð hennar liggi fyrir að kærandi hafi brotið gegn áðurnefndu ákvæði reglugerðar.  Umdeild framkvæmd fari ennfremur gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga, þar sem einnig sé kveðið á um samþykki nágranna, en raðhús teljist fjöleignarhús skv. skilgreiningu laganna.

Andmælendur taki og undir það sem fram komi í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar þar sem vísað sé til áskilnaðar skipulags- og byggingarskilmála og lóðarleigusamnings fyrir lóðina að Fellasmára 7 um samráð lóðarhafa um frágang á sameiginlegum lóðarmörkum.  Vegna skorts á samráði við gerð skjólveggja á lóðamörkum hafi umrædd ákvæði ekki verið virt en hafa verði í huga að byggingarskilmálar taki mið af reglum byggingarreglugerðar á hverjum tíma.

Vísað sé á bug að einhverja þýðingu hafi við úrlausn málsins hvort og hvernig bæjaryfirvöld í Kópavogi eða annars staðar kunni að hafa beitt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða byggingarreglugerðar í öðrum málum.  Tilvísun kæranda til jafnræðisreglunnar hafi sömuleiðis enga þýðingu í þessu sambandi.  Viðurkennt sé í stjórnsýslurétti að jafnræðisreglan veiti aðilum ekki tilkall til neins sem ekki samrýmist lögum.  Kærandi eigi heldur ekki rétt á því að stjórnvald haldi áfram að sýna af sér athafnaleysi, þótt það hafi hugsanlega látið hjá líða að beita tiltekinni réttarreglu gagnvart öðrum aðila, en engin staðfest dæmi séu þó lögð fram af hálfu kæranda um þá réttarframkvæmd.  Um þetta atriði megi hafa hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 29. janúar 1999 í máli nr. 41/1998 vegna skúrbyggingar í Fífuhjalla, Kópavogi.  Í málsrökum byggingarnefndar og byggingarleyfishafa í því máli hafi m.a. verið lögð áhersla á að mannvirkið væri leiktæki sem sjá mætti víða í Kópavogi sem annars staðar og ekki hefði verið amast við.  Í niðurstöðu úrskurðarnefndar sé tekið fram að engu breyti þótt bent hafi verið á að fjölmörg dæmi væru um sambærileg smáhýsi á lóðum í þéttbýli og yrði ekki litið til þeirrar staðreyndar við úrlausn málsins.

Við mat á hinni kærðu ákvörðun verði að hafa í huga að byggingarnefnd Kópavogs hafi við meðferð málsins gengið lengra en skylt hafi verið í að gæta hagsmuna kæranda, m.a. með ívilnun á byggingarreglum með því að veita kæranda eftirá heimild til þess að sækja um byggingarleyfi.  Ekkert í skipulags- og byggingarlögum né byggingarreglugerð mæli fyrir um slíkt eftir að mannvirki sé risið með ólögmætum hætti.  Byggingarnefnd Kópavogs hafi því, þvert á fullyrðingar kæranda, gætt meira að réttarstöðu kæranda en almennt gerist í slíkum málum.

Eigendur Fellasmára 5 vísa til þess að við kaup þeirra á umræddri fasteign hafi þau verið í góðri trú um að ekki yrði hróflað við útliti raðhúsalengjunnar með óleyfisframkvæmd án nokkurs samráðs við nágranna.  Við hönnun umræddra fasteigna hafi hvorki verið gert ráð fyrir skjólveggjum né upphækkun lóða sem sé til þess fallið að rýra útsýni og birtu eins og nú sé raunin.

Vegna ummæla kæranda um skjólveggi að Fellasmára 3 bendi andmælendur á að um algjörlega ósambærilegt tilvik sé að ræða.  Skjólveggur sá sem eigandi Fellasmára 3 hafi reist standi mun lengra frá lóðamörkum en nemi hæð girðingarinnar og sé hún því ekki háð samþykki nágranna.

Fullyrðingu kæranda að andmælendur hafi með ómálefnalegum hætti verið að leggja stein í götu nágranna sinna varðandi byggingu skjólgarðs sé mótmælt.  Allan þann tíma, sem meðferð máls þessa hafi tekið, hafi þeir byggt mál sitt á lögum og reglum sem um umrædda skjólveggi og byggingu þeirra gilda og auk þess sem reifuð hafi verið við byggingaryfirvöld þau sjónarmið sem búi að baki andstöðu þeirra við umdeilda framkvæmd, s.s. um skuggavarp af völdum skjólveggjanna, skerðingu útsýnis, snjósöfnun o.s.frv.

Eigendur að Fellasmára 5 gera með vísan til þessara raka kröfu um að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.

Vettvangsganga:  Nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar fóru á vettvang hinn 6. mars 2003.  Viðstaddir voru kærandi og annar eigenda Fellasmára 5.  Fulltrúi bæjaryfirvalda var ekki mættur en gert hafði verið viðvart um vettvangsgönguna.  Nefndarmenn kynntu sér aðstæður á staðnum.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á umsókn kæranda frá 6. febrúar 2001 um leyfi fyrir skjólgirðingu á lóðamörkum Fellasmára 5 og 7.  Jafnframt var kæranda gefinn frestur til 1. júlí 2001 til að afla samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar fyrir girðingunni en kærandi skyldi fjarlægja girðinguna að öðrum kosti. 

Um girðingar á lóðamörkum fasteigna gildir ákvæði 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Í gr. 67.1 er kveðið á um að girðingar sem hærri séu en 1,8 metrar eða nær lóðamörkum en nemur hæð girðingar séu byggingarleyfisskyldar.  Jafnframt er það skilyrði sett að girðing á lóðamörkum sé háð samþykki beggja lóðarhafa.

Kærandi telur áhöld um að greint reglugerðarákvæði eigi lagastoð.  Úrskurðarnefndin er, sem stjórnvald, ekki bær til þess að kveða upp úr um stjórnskipulegt gildi reglna sem stafa frá æðstu handhöfum framkvæmdavalds heldur á slíkt álitaefni undir lögsögu dómstóla.  Þá verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að eldri reglugerðarákvæði eða ákvæði í byggingar- eða skipulagsskilmálum fyrir umræddar lóðir byggi út 67. gr. núgildandi byggingarreglugerðar.  Umrædd reglugerð er dagsett hinn 9. júlí 1998 og var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. júlí sama ár.  Í 214. gr. reglugerðarinnar kemur fram að hún taki þegar gildi og jafnframt falli úr gildi eldri byggingarreglugerð nr. 177/1992 og ákvæði annarra reglugerða og samþykkta er brjóti í bága við reglugerðina.  Engir fyrirvarar eru gerðir í þessu efni aðrir en varðandi reglugerð um reynslusveitarfélög.  Fyrir liggur að umdeild skjólgirðing var reist eftir gildistöku núgildandi byggingarreglugerðar eða sumarið 2000 og verður því 67. gr. hennar lögð til grundvallar í máli þessu.

Hin umdeilda skjólgirðing, sem reist var af hálfu eigenda fasteignarinnar að Fellasmára 7, er á lóðamörkum þeirrar fasteignar og fasteignarinnar að Fellasmára 5.  Samkvæmt greindri 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er hún því háð leyfi byggingarnefndar og samþykki eigenda fasteignarinnar að Fellasmára 5.  Ósannað verður að telja að samþykki eigenda Fellasmára 5 hafi legið fyrir hinum umdeildu framkvæmdum gegn andmælum þeirra.  Af því sem fram er komið í málinu verður ekki séð að byggingarnefnd hafi, fyrir sitt leyti, lagst gegn því að umdeild skjólgirðing yrði leyfð en ástæðan fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi verið sú að samþykki eigenda Fellasmára 5 hafi skort.  Verður og af málsframvindu ráðið að byggingaryfirvöld hafi ljáð atbeina sinn til þess að aðilar næðu sáttum um umdeilda girðingu á lóðamörkum.

Ekki verður fallist á að málsmeðferð bæjaryfirvalda hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu eða rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Byggingaryfirvöld brugðust við kvörtun eigenda að Fellasmára 5 og gáfu kæranda kost á því að sækja um byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu framkvæmd og ekkert liggur fyrir um að málsmeðferð þessa máls hafi verið á annan veg en annarra mála af sama toga sem komið hafi til kasta bæjaryfirvalda.  Fortakslaust orðalag gr. 67.1 í byggingarreglugerð, um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar fyrir girðingu á lóðamörkum, gerir það að verkum að byggingaryfirvöldum er ekki unnt að veita leyfi sitt fyrir slíkum girðingum án þess að slíkt samþykki liggi fyrir, nema með stoð í deiliskipulagsákvörðun samkvæmt gr. 67.2.  Ekki er gerð krafa um að málefnaleg rök búi að baki synjun á samþykki lóðahafa í greindu ákvæði og voru af þeim sökum ekki efni til af hálfu bæjaryfirvalda að meta hvort málefnaleg rök lægju að baki andstöðu eigenda Fellasmára 5 við umdeilda framkvæmd.

Að öllu þessu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hinni kærðu ákvörðun verði ekki hnekkt.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001.

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________      _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Óðinn Elísson