Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/1998 Laugavegur

Ár 1998, föstudaginn 25. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 30/1998; kæra vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1998 um að veita leyfi til að byggja verslunar-, þjónustu- og íbúðarhús úr steinsteypu á lóðinni nr. 53b í Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 4. ágúst 1998, sem barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra eigendur/íbúar að Laugavegi 53a og Hverfisgötu 70, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1998, sem staðfest var á fundi borgarráðs í umboði borgarstjórnar hinn 14. júlí 1998, um að veita leyfi til byggingar verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúss á lóðinni nr. 53b við Laugaveg í Reykjavík.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá krefjast kærendur þess að framkvæmdir verði stöðvaðar strax og byggingarleyfi hafi verið veitt. Kæruheimild er skv. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 en krafa kærenda um stöðvun framkvæmda er gerð með stoð í 5. mgr. 8. gr. sömu laga.

Málavextir:  Einungis verða hér raktir málavextir að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn um kröfu kærenda um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.

Tillögur að uppbyggingu á lóðinni nr. 53b við Laugaveg munu fyrst hafa komið til umfjöllunar hjá byggingaryfirvöldum í ársbyrjun 1997.  Var fjallað um þessar tillögur á árinu 1997 og þær m. a. kynntar nágrönnum.  Sættu tillögurnar nokkrum breytingum og voru gerðar breytingar á teikningum af því tilefni.  Hinn 12. janúar 1998 var samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur að kynna nágrönnum framlagða tillögu samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Tillögur að uppbyggingu á lóðinni voru síðan samþykktar í skipulags- og umferðarnefnd og urðu þessar tillögur grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar byggingarnefndar.  Þegar kærendur skutu málinu til úrskurðarnefndar hafði byggingarleyfi ekki verið gefið út og framkvæmdir því ekki hafnar.  Af þessu tilefni óskaði úrskurðarnefndin þess að byggingarfulltrúi upplýsti nefndina um það hvenær framkvæmdir við bygginguna mættu hefjast.  Hafa nefndinni nú borist upplýsingar um að framkvæmdir séu hafnar en vegna mistaka í póstafgreiðslu, sem staðfest hafa verið af Íslandspósti hf., varð byggingaraðilanum ekki kunnugt um framkomna kæru eða tilmæli byggingarfulltrúa um að tilkynna sérstaklega um fyrirhugaðar framkvæmdir fyrr en hinn 18. þessa mánaðar. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér hvað líði framkvæmdum á byggingarstað.  Hefur verið unnið að því að hreinsa ofan af klöpp og fleyga fyrir sökklum.  Vinna við uppslátt er ekki hafin.  Framundan er frágangur lagna í grunn, sökkulgerð og frágangur botnplötu sem verður malbikuð.  Þá er ólokið frágangi aðstöðu sem Reykjavíkurborg hefur á lóðinni fyrir hitastýringu snjóbræðslulagna á Laugavegi.

Niðurstaða:  Framkvæmdir þær sem nú eru hafnar að Laugavegi 53b eru unnar samkvæmt formlega gildu byggingarleyfi sem ekki hefur verið hnekkt.  Bíður það efnisúrlausnar nefndarinnar að taka afstöðu til gildis leyfisins.  Að mati úrskurðarnefndar eiga kærendur ekki ríka hagsmuni því tengda að fá stöðvaðar þær framkvæmdir sem unnið kann að verða að fram til þess er efnisúrskurður gengur í málinu.  Framkvæmdir þessar felast aðallega í frágangi lagna í grunn, sökkla og botnplötu, sem jafnframt verður bílastæði.  Telur úrskurðarnefndin að að hluta til myndu framkvæmdir þessar nýtast jafnvel þótt fallist yrði á kröfur kærenda um að hið umdeilda byggingarleyfi verði fellt úr gildi enda verður ekki hjá því komist að ganga með einhverjum hætti frá grunni fyrirhugaðrar byggingar hver sem niðurstaða málsins verður.

Samkvæmt framansögðu hafnar úrskurðarnefndin kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda að Laugavegi 53b.  Hins vegar er áréttað að með bráðabirgðaúrskurði þessum er engin afstaða tekin til aðalefnis málsins og eru framkvæmdir sem unnar eru meðan málið er til úrlausnar hjá nefndinni alfarið á ábyrgð byggingarleyfishafa.  Er það og á hans færi að meta og ákveða að hvaða marki hann kýs að halda áfram framkvæmdum meðan ekki hefur verið úrskurðað um kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis þess sem framkvæmdirnar styðjast við.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir sem hafnar eru á byggingarstað að Laugavegi 53b í Reykjavík verði stöðvaðar meðan beðið er úrskurðar um aðalefni kærumáls þessa.