Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3/2015 Vatnsendakriki

Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2015, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 um að aukin vatnsvinnsla Orkuveitu Reykjavíkur í Vatnsendakrikum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hafnarfjarðarbær þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 um að aukin vatnsvinnsla Orkuveitu Reykjavíkur í Vatnsendakrikum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þess er krafist að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að ákveða að aukin vatnsvinnsla í Vatnsendakrikum verði háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 20. febrúar 2015.

Málavextir: Í júní 2014 sendi Orkuveita Reykjavíkur fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar vegna fyrirhugaðrar aukinnar vinnslugetu og vatnsvinnslu úr 190 lítrum á sekúndu (l/s) í 300 l/s, á vatnstökusvæði Orkuveitunnar í Vatnsendakrikum. Þar var tekið fram að framkvæmdaraðili hygðist virkja þrjár borholur af fimm í Vatnsendakrikum, sem boraðar hefðu verið á árunum 1989 til 1993, en einungis tvær þeirra hefðu verið í vinnslu. Vatnsvinnsla framkvæmdaraðila á svæðinu hefði verið um 190 l/s árið 2013 og hygðist hann auka vatnstöku sína í skrefum í allt að 300 l/s að meðaltali fram til ársins 2030. Líkanreikningar hefðu verið framkvæmdir og við aukna vatnstöku úr 400 l/s í 700 l/s yrðu áhrif á grunnvatnshæð greinileg á stórum hluta Heiðmerkur mikinn hluta keyrslutíma líkansins. Utan Vatnsendakrika yrðu áhrifin mest á vatnstökusvæði Vatnsveitu Hafnarfjarðar við Kaldárbotna. Ytri mörk 1 m niðurdráttaráhrifa teygi sig til Kaldárbotna en vinnsluaukningin valdi 0,5 m niðurdrætti í Kaldárbotnum um 40% keyrslutíma líkansins.

Með bréfum, dags. 30. júní 2014, leitaði Skipulagsstofnun umsagna Hafnarfjarðarbæjar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Kópavogsbæjar, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Reykjavíkurborgar. Einnig barst athugasemd frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Í svörum Kópavogsbæjar, dags. 8. júlí 2014, og Veðurstofu Íslands, dags. 7. s.m., kemur fram að þeir aðilar telji framkvæmdina ekki matsskylda. Aðrir umsagnaraðilar töldu framkvæmdina vera háða mati á umhverfisáhrifum. Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 30. október 2014, bárust svör Orkuveitu Reykjavíkur við athugasemdum umsagnaraðila.

Samhliða umsókn Orkuveitunnar um aukna vinnslu í Vatnsendakrikum var umsókn Vatnsveitu Kópavogs til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Sú umsókn fól í sér að auka vatnstöku í Vatnsendakrikum úr 210 l/s í 350 l/s.

Í ákvörðunum Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 kom fram að samanlögð vatnsvinnsla framkvæmdaraðilanna tveggja í Vatnsendakrikum færi úr 400 l/s í 650 l/s. Varð niðurstaða stofnunarinnar sú að hvorki aukin vatnsvinnsla Orkuveitu Reykjavíkur né Vatnsveitu Kópavogs í Vatnsendakrikum væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hvorug framkvæmdanna væri því háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun Skipulagsstofnunar er lýtur að Orkuveitu Reykjavíkur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Orkustofnun og Umhverfisstofnun hafi í umsögnum sínum talið að viðkomandi framkvæmdir skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Hið sama komi fram í athugasemd Skógræktarfélags Reykjavíkur. Færi umsagnaraðilar rök fyrir þeirri niðurstöðu eins og fram komi a.m.k. að hluta í ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar komi fram að stofnunin telji að tilkynntar framkvæmdir Vatnsveitu Kópavogs og Orkuveitu Reykjavíkur eigi að skoðast sitt í hvoru lagi og að hvort málið um sig falli undir 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þó fallist stofnunin á að við ákvarðanatöku sína í málinu beri henni að byggja m.a. á þeim forsendum að fyrirhuguð framkvæmd geti haft sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum. Því sé tiltekið að ákvörðunin byggi á þeim sammögnunaráhrifum sem áformuð heildarvatnsupptaka Vatnsveitu Kópavogs og Orkuveitu Reykjavíkur hafi í för með sér.

Í töflu á áttundu blaðsíðu í hinni kærðu ákvörðun sé sýnd núverandi vinnsla, sem sé 12,61 milljón m3 á ári, en eftir stækkun verði hún 20,5 milljón m3 á ári. Í 13. tl. 1. viðauka laga nr. 106/2000 komi hins vegar fram að ef sett sé upp kerfi til að vinna grunnvatn og árlegt magn vatns sem unnið verði eða veitt á sé 10 milljón m3 eða meira, skuli framkvæmdir vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Ef þessar framkvæmdir þurfi ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum þá þyrfti ekki heldur að fara með síðari sambærilega vinnsluaukningu samkvæmt 1. viðauka laganna í mat ef hún næði ekki 10 milljón m3 á ári. Meginatriði og tilgangur nefnds 13. tl. sé  að vernda þann grundvöll lífs sem vatnið sé og þessa auðlind sem Ísland eigi. Hljóti allur vafi um það hvort framkvæmd falli undir 1. viðauka laga nr. 106/2000 að vera metinn til hagsbóta fyrir auðlindina sjálfa.

Skipti hér ekki máli hvort verið sé að vinna þetta í tveimur eða fleiri þáttum eða af fleiri en einum aðila. Annars væri mjög auðvelt að komast undan nefndu ákvæði. Ekki geti skipt öllu máli í þessu samhengi að áður hafi verið mikil vinnsla án þess að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram og hér sé aðeins um litla viðbót að ræða. Lög um mat á umhverfisáhrifum séu frá árinu 2000. Hafi þau verið sett með vísan til tilskipunar 85/337/EBE. Eins og fram komi í athugasemdum með frumvarpinu hafi þau komið í stað laga nr. 63/1993 sem hefðu ekki reynst gallalaus. Þar komi einnig fram að tilskipunin byggi á þeim meginreglum sem mótast hafi á síðustu áratugum, þ.e. varúðarreglunni, mengunarbótareglunni, reglunni um verndarsjónarmið og reglunni um að mengun sé upprætt við upptök. Niðurstaðan hafi verið sú að leggja til að meginreglur þessar yrðu ekki settar í frumvarpið sjálft þar sem efni og orðalag þeirra væri um margt óljóst og enn í mótun. Hins vegar sé fjallað um meginreglur þessar í 73. gr. EES-samningsins og beri því að hafa þær í huga við framkvæmd laganna.

Ekki verði séð að Skipulagsstofnun hafi haft þetta í huga þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Sé eðlilegt, þegar vatnstaka sé orðin tvöföld á við það sem 13. tl. 1. viðauka laganna noti sem viðmið, að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Þó ekki væri nema til að gæta varúðarsjónarmiða.

Rétt sé einnig að vísa til texta í sjálfri ákvörðuninni á áttundu blaðsíðu hennar. Þar segi skýrt að Skipulagsstofnun telji augljóst að aukin vatnstaka í Vatnsendakrikum muni hafa í för með sér neikvæð áhrif á vatnsból Hafnarfjarðar í Kaldárbotnum. Afleiðingarnar séu m.a. þær að Hafnarfjarðarbær, sem lengi hafi búið við sjálfrennandi vatn, þurfi að dæla oftar en hafi verið þar sem gert sé ráð fyrir 0,5 m lækkun grunnvatnsborðs um 50% tímans eftir að fullri stækkun hafi verið náð, en niðurdrátturinn gæti orðið allt að 1 m.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að umsagnaraðilum beri ekki saman um hvort framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif eða ekki. Stofnunin leggi áherslu á að álits umsagnaraðila sé almennt aflað sem hluta af rannsókn máls með það að markmiði að það sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunarvaldið um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum hvíli hins vegar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þá sé brýnt að átta sig á því að þegar Skipulagsstofnun leiti umsagna leyfisveitenda og fagstofnana, sé ekki farið með efni umsagnanna líkt og um atkvæðagreiðslu sé að ræða. Skipulagsstofnun rýni þau efnisatriði sem umsagnaraðilar reifi og gefi framkvæmdaraðila kost á að bregðast við þeim og leiði málið svo til lykta með hliðsjón af upphaflegum gögnum þess sem og umsögnum og viðbrögðum við þeim.

Í umsögnunum hafi það verið einkum þrjú atriði sem umsagnaraðilar hafi talið mestu ráða um að framkvæmdirnar skyldu háðar mati. Fyrst beri að telja að samanlögð fyrirhuguð vatnstaka Vatnsveitu Kópavogs og Orkuveitu Reykjavíkur yrði það mikil að þar með væri mörkum 1. viðauka laga nr. 106/2000 náð og bæri því að meta áhrifin. Annað atriðið hafi verið að báðar vatnsvinnslurnar ætti að meta sameiginlega eins og heimilt sé skv. 5. gr. laganna. Þriðja atriðið hafi verið að aukin vatnstaka myndi gera það að verkum að oftar þyrfti að dæla upp vatni hjá Vatnsveitu Hafnarfjarðar.

Eins og fram komi í ákvörðunum Skipulagsstofnunar vegna málanna beggja hafi stofnunin farið fram á við framkvæmdaraðila að í greinargerðum þeirra yrði fjallað um samlegð framkvæmdanna og málsmeðferð færi fram á sama tíma þannig að umsagnaraðilar gætu m.a. fjallað um þær út frá samlegðaráhrifum. Þá skýri Skipulagsstofnun í ákvörðunum sínum ástæðu þess að stofnunin hafi litið svo að um væri að ræða tvær aðskildar framkvæmdir sem hvor um sig félli undir a. lið 13. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þar komi einnig fram að taka beri mið af sammögnunaráhrifum framkvæmdanna, sbr. ii. 2. tl. 3. viðauka laganna.

Fyrirhuguð framkvæmd Orkuveitu Reykjavíkur, ásamt fyrirhugaðri framkvæmd Vatnsveitu Kópavogs, hafi verið tilkynnt til stofnunarinnar á grundvelli a. liðar 13. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Töluliðurinn taki til framkvæmda sem feli í sér breytingar eða viðbætur við framkvæmdir samkvæmt 1. eða 2. viðauka laganna sem hafi þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða séu í framkvæmd og kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Með lögum nr. 138/2014 hafi orðið breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir sem falli undir lögin séu nú tilgreindar í viðauka eitt og flokkaðar í A, B eða C flokk. Flokkur A taki til framkvæmda sem áður hafi verið í viðauka 1 og flokkur B til framkvæmda sem áður hafi verið í viðauka 2. Það sé nýmæli í breyttum lögum, er varði fyrrnefndan a. lið 13. tl. 2. viðauka, að nú séu fyrirhugaðar breytingar eða viðbætur fyrri framkvæmda tengdar við viðmið sem framkvæmdum séu settar í A flokki, sbr. tl. 13.01. Þar segi að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf fari yfir þau viðmið sem flokkur A setur. Það feli í sér að ef fyrirhugað væri að auka vatnsvinnslu um 10 milljón m3 á ári eða meira sé slík breyting matsskyld.

Aukning á vinnslu á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sé 3,47 milljón m3 á ári, eða 110 l/s, og Vatnsveitu Kópavogs um 4,4 milljón m3 á ári, eða 140 l/s. Samtals séu þetta 7,87 milljón m3 á ári, eða 250 l/s. Því sé ljóst að hvort sem litið sé á vinnsluaukningu hvors fyrirtækis fyrir sig eða heildarvinnsluaukningu sé hún innan viðmiða vegna matsskyldra framkvæmda af þessu tagi.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er tekið undir sjónarmið og rök Skipulagsstofnunar sem komi fram í umsögn hennar. Telji hann ekkert það koma fram í kæru sem breyta ætti hinni kærðu niðurstöðu. Sameiginlegt nýtingarleyfi vegna vatnstöku í Vatnsendakrikum hafi verið gefið út til handa framkvæmdaraðila og Kópavogsbæ. Leyfið sé skilyrt vegna hagsmuna Hafnfirðinga og þess sérstaklega gætt að ekki verði gengið á réttindi og hagsmuni þeirra. Athygli sé vakin á því að í samræmi við skilyrði nýtingarleyfis hafi verið unnin sameiginleg vöktunaráætlun Kópavogsbæjar og framkvæmdaraðila sem Orkustofnun telji fullnægjandi og samræmist skilyrðum nýtingarleyfis. Í ljósi framangreinds eigi ekki að fallast á kröfu kæranda um að fram fari mat á umhverfisáhrifum á vatnsvinnslu úr Vatnsendakrikum.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 um að aukin vatnstaka Orkuveitu Reykjavíkur í Vatnsendakrikum um 110 l/s, úr 190 l/s í 300 l/s, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að ákvörðunin verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Af gögnum málsins er ljóst að aukin vinnsla vatns í Vatnsendakrikum getur haft áhrif á vatnsvinnslu bæjarins í Kaldárbotnum sem er í landi í hans eigu.

Um mat á umhverfisáhrifum gilda lög nr. 106/2000. Samkvæmt 14. gr. þeirra, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta m.a. ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum voru fyrstu lög sinnar tegundar á Íslandi og var tekið fram í ákvæði II til bráðabirgða að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Tóku lögin ekki til vinnslu eða áveitu vatns. Lög nr. 106/2000 tóku gildi 6. júní 2000 og í 1. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða er kveðið á um að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum væru þær hafnar fyrir árslok 2002. Við gildistöku laganna urðu kerfi til að vinna grunnvatn ávallt háð mati á umhverfisáhrifum, ef árlegt magn vatns sem unnið væri eða veitt á væri 10 milljón m3 eða meira, sbr. 13. tl. í 1. viðauka laganna. Í 2. viðauka laganna kom fram að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. 1. eða 2. viðauka, sem þegar hefðu verið leyfðar, framkvæmdar eða væru í framkvæmd og kynnu að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, skyldi meta í hverju tilviki fyrir sig hvort þæt væru háðar mati á umhverfisáhrifum með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar. Voru þessi lagaákvæði óbreytt við töku hinnar kærðu ákvörðunar 10. desember 2014 og fram að gildistöku breytingalaga nr. 138/2014 hinn 31. s.m.

Fyrir liggur í gögnum málsins að Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið vatn í Vatnsendakrikum frá árinu 1996 og mun sú vinnsla hafa numið um 90 l/s fram til ársins 1998 og hafði Orkuveitan ígildi nýtingarleyfis fyrir henni. Frá gildistöku laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu 18. júní 1998 hafa þau lög gilt um leyfisveitingar vegna vatnsvinnslu. Áður voru nýtingarleyfi gefin út af ráðherra en nú af Orkustofnun, sbr. breytingalög nr. 10/2012. Vinnslugeta Orkuveitunnar mun hafa verið aukin á svæðinu á árinu 2000 með virkjun nýrrar holu og vatnstaka þá verið aukin í um það bil 150 l/s, en árið 2013 var vatnstakan um 190 l/s. Hefur nefnd vatnstaka Orkuveitunnar ekki sætt meðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Frá árinu 2006 hefur Vatnsveita Kópavogs einnig unnið vatn í Vatnsendakrikum, en með ákvörðun sinni frá 25. júní 2003 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að gerð vatnsveitu þar og dæling á um 6,6 milljónum m3 af vatni á ári skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar var tekið fram að framkvæmd Orkuveitunnar væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. og a. lið 13. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000 svo sem áður hefur verið rakið. Skipulagsstofnun vakti athygli á því að samhliða tilkynningu Orkuveitunnar um aukna vinnslu í Vatnsendakrikum hefði verið til meðferðar samskonar tilkynning frá Vatnsveitu Kópavogs, en samanlagt myndi vatnsvinnsla beggja aðila í Vatnsendakrikum aukast úr 400 l/s í 650 l/s. Tiltók stofnunin að við veitingu umsagna og ákvörðunartöku yrði að taka mið af sammögnunaráhrifum framkvæmdanna beggja, sbr. tl. 1. ii. í 3. viðauka nefndra laga. Hins vegar tók Skipulagsstofnun ekki undir sjónarmið tilgreindra umsagnaraðila þess efnis að vinnslugeta framkvæmdaraðilanna yrði samanlagt það mikil að strax í upphafi ætti að líta á svo á að um væri að ræða framkvæmdir sem hvor um sig félli undir 1. viðauka laganna. Taldi stofnunin ótvírætt að málin féllu hvort um sig undir 2. viðauka laganna og væru þau því tilkynningaskyld á grundvelli 6. gr. þeirra.

Þær forsendur sem Skipulagsstofnun lagði til grundvallar um fyrri og fyrirhugaða vinnslu vatns í Vatnsendakrikum komu fram í niðurstöðukafla hennar í eftirfarandi töflu:

 

Núverandi

vinnsla

Heildarvinnsla

eftir stækkun

Vinnslu­aukning

 

 

l/s

millj.

m³/ári

 

l/s

millj.

m³/ári

 

l/s

millj. m³/ári

Vatnsveita Kópavogs

210

6,62

350

11,04

140

4,40

Orkuveita Reykjavíkur

190

5,99

300

9,46

110

3,47

Samtals

400

12,61

650

20,50

250

7,87

 
Tók stofnunin fram að samanburðurinn væri byggður á greinargerðum framkvæmdaraðilanna.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar áréttar Skipulagsstofnun að hvort sem litið sé á vinnsluaukningu hvors framkvæmdaraðila fyrir sig eða heildarvinnsluaukningu sé hún innan viðmiða vegna matsskyldra framkvæmda af þessu tagi. Aukning á vinnslu á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sé 3,47 milljón m3 á ári og Vatnsveitu Kópavogs um 4,4 milljón m3 á ári og samtals sé þetta aukning um 7,87 milljón m3 á ári.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau m.a. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Eins og áður segir hefur löggjafinn í 13. tl. 1. viðauka laganna sett tölulegt viðmið vegna vatnsvinnslu og er kerfi til að vinna grunnvatn fortakslaust matsskylt ef árlegt magn vatns sem unnið er nemur 10 milljón m3 eða meira. Samkvæmt þeim forsendum sem áður hafa verið raktar og Skipulagsstofnun lagði til grundvallar við töku hinnar kærðu ákvörðunar var ljóst að jafnvel þótt vinnsla Orkuveitu Reykjavíkur yrði undanskilin, vegna lagaskilaákvæða þeirra sem að framan greinir, myndi aukin vatnsvinnsla hvors framkvæmdaraðila um sig gera það að verkum að með þeirri vinnslu Vatnsveitu Kópavogs á um 6,6 milljónum m3 af vatni á ári, sem áður hafði verið undanskilin mati á umhverfisáhrifum, yrði farið yfir nefnt viðmið þess magns vatnsvinnslu sem matsskyld er. Að hafinni vinnslu beggja framkvæmdaraðila yrði samanlegt magn vatnstöku tæplega helmingi meira en matsskylt er. Að teknu tilliti til fyrri vinnslu Orkuveitu Reykjavíkur að auki er um ríflega tvöfalt magn vatnsvinnslu að ræða miðað við þau tölulegu viðmið sem lögð eru til grundvallar matsskyldu.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekki beri einungis að líta til stakra framkvæmda að þessu leyti, heldur verði jafnframt að huga að samhengi þeirra við framkvæmdir sem þegar hafa átt sér stað og fyrirhugaðar eru á sama svæði, óháð því hvort um einn eða fleiri framkvæmdaraðila er að ræða. Sú aðferð að hluta niður framkvæmdir er til þess fallinn að fara á svig við þau markmið laga nr. 106/2000 sem áður eru rakin. Var því ekki tækt að fara með málið sem tilkynningarskylda framkvæmd skv. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 um að aukin vatnsvinnsla í Vatnsendakrikum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                          Þorsteinn Þorsteinsson