Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2010 Fannafold

Ár 2010, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. júní 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu á lóðinni að Fannafold 31 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. maí 2010, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra L og J, Fannafold 29, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. júní 2003 að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu á lóðinni að Fannafold 31.  Borgarstjórn staðfesti þá ákvörðun á fundi sínum hinn 16. júní 2003.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 3. júní 2003 var samþykkt byggingarleyfi fyrir bílgeymslu á lóðinni nr. 31 við Fannafold.  Fundargerð þess fundar var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 4. júní 2003 og staðfesti borgarstjórn nefnda afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 16. júní sama ár.  Mun bílgeymslan hafa verið reist á árunum 2004 til 2005.

Kærendur benda á að umrædd bílgeymsla, sem standi um einum metra frá mörkum lóðar kærenda og byggingarleyfishafa, sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag hverfisins og hefði því borið að grenndarkynna leyfisumsóknina.  Byggingin valdi skuggavarpi og skerði útsýni gagnvart fasteign kærenda, langt umfram það sem við hefði mátt búast en breidd, lengd og hæð bílgeymslunnar eigi sér ekki hliðstæðu í hverfinu.

Niðurstaða:  Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að aðila var eða mátti vera kunnugt um hana, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til efnismeðferðar.  Kæra verður þó ekki tekin til efnismeðferðar ef ár er liðið frá upphafi kærufrests, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Hin kærða ákvörðun um veitingu byggingarleyfis var tekin og staðfest í júní 2003 og mun framkvæmdum við umdeilda bílgeymslu hafa verið lokið á árinu 2005.  Með vísan til nefndrar 28. gr. stjórnsýslulaga verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Hildigunnur Haraldsdóttir