Ár 2007, fimmtudaginn 1. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 27/2007, málaleitan sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að skorið verði úr um leyfisskyldu gatnagerðarframkvæmda á vegum einkaaðila.
Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. apríl 2007, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, fer sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar þess á leit við úrskurðarnefndina að skorið verði úr því álitaefni hvort gatnagerðarframkvæmdir á vegum einkaaðila séu háðar byggingarleyfi samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. nefndra laga.
Málsatvik og rök: Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar vísar til þess að á undanförnum árum hafi færst í vöxt að einkaaðilar hafi sótt um leyfi til að skipuleggja íbúðarbyggð á landi sínu. Í tillögu að Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025, sem sé til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun, sé gert ráð fyrir því að íbúðarbyggð geti risið á nokkrum jörðum þar sem búrekstur hafi verið aflagður. Landeigendur muni þá sjálfir kosta deiliskipulagsgerð og annast gatnagerð og meginhluta lagna en skilmálar fyrrnefndrar aðalskipulagstillögu hafi að geyma verklagsreglur um slíka deiliskipulagsgerð.
Sveitarstjórn telji nauðsynlegt að fenginni reynslu að hafa virkt eftirlit með umræddum framkvæmdum og hafi hún gert ráð fyrir að ákvæði þess efnis verði bundið í útgáfu framkvæmdaleyfis áður en vinna við gatnagerð og lagnir hefjist. Hafi sú ákvörðun byggst á því að vafi geti leikið á um að eftirlit með gatnagerð einkaaðila tilheyrði eftirlitsskyldu byggingarfulltrúa.
Leitað hafi verið álits lögfræðinga um leyfis- og eftirlitsskyldu greindra framkvæmda sem hafi talið að framkvæmdirnar væru leyfis- og eftirlitsskyldar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 40. og 41. gr. laganna.
Með vísan til 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sé þess farið á leit við úrskurðarnefndina að hún taki afstöðu til þess hvort gatnagerðarframkvæmdir á vegum einkaaðila, og það sem þeim tilheyri, séu byggingarleyfisskyldar eða framkvæmdaleyfisskyldar og háðar eftirliti byggingarnefndar og byggingarfulltrúa. Þá sé farið fram á að afstaða sé tekin til þess hvort heimilt sé að leggja á sérstakt leyfisgjald til að standa undir slíku eftirliti, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að svo megi verða, og hvort byggja megi á fyrirfram ákveðinni gjaldskrá eða greiðslu samkvæmt tímamælingu þess eftirlitsaðila sem sveitarstjórn réði til verksins og loks hvort unnt sé að veita slíku gjaldi lögveðsrétt.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt þeim lögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í 5. mgr. nefndrar 8. gr. kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það ákvæði í samræmi við 26. gr. stjórnsýslulaga þar sem gert er ráð fyrir að einungis stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á mál séu kæranlegar til æðra stjórnvalds. Er meginreglan því sú að einungis ágreiningur um lokaákvörðun á umræddu réttarsviði verður skotið til úrskurðarnefndarinnar.
Undantekningar frá nefndri meginreglu er að finna í 8. mgr. 27. gr. og 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í greindri 8. mgr. 27. gr. segir svo: „Umsækjandi um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn er heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál leiki vafi á því hvort framkvæmdir eru háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.“ Þá er lokamálsliður 3. mgr. 36. gr. svohljóðandi: „Leiki vafi á því hvort mannvirki er háð byggingarleyfi skal leita niðurstöðu úrskurðarnefndar, sbr. 8. gr.“
Af orðalagi greindra undantekningarákvæða verður ráðið að einungis vafamálum um leyfisskyldu tiltekinna afmarkaðra framkvæmda eða mannvirkja verða borin undir úrskurðarnefndina en hún verði ekki krafin álits almenns eðlis í þessu efni. Er þessi lögskýring jafnframt í samræmi við áðurgreint hlutverk nefndarinnar sem úrskurðaraðila á æðra stjórnsýslustigi og eðli máls.
Það styður og þessa niðurstöðu að Skipulagsstofnun er m.a. falið að veita ráðgjöf um skipulags- og byggingarmál og að láta í té umsagnir um ágreiningsmál á sviði skipulags- og byggingarmála, sbr. b- og e-lið 1. mgr. 4. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður að telja að erindi málshefjanda falli fremur undir verksvið Skipulagsstofnunar en úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Með vísan til framangreindra raka, og þar sem ekki er fyrir hendi lagastoð fyrir því að bera undir úrskurðarnefndina álitaefni varðandi gjaldtöku vegna framkvæmda- og byggingarleyfa, verður umræddu erindi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson