Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2006 Brekka

Ár 2007, miðvikudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2006, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2005 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Brekku í Biskupstungum, Bláskógabyggð. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2006, er barst nefndinni samdægurs, kærir P, eigandi jarðarinnar Brekkuskógar í Biskupstungum, Bláskógabyggð, samþykkt sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2005 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Brekku. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 23. júní 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Brekku í Biskupstungum á Brekkuheiði og við Vallá á 38 ha svæði og voru lóðirnar 4.750 til 5.500 m² að stærð.  Gerði tillagan ráð fyrir 54 frístundalóðum, 9 við Vallárveg og 45 við Brekkuheiði.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Svæðið er skilgreint sem frístundasvæði í aðalskipulagi Biskupstungnahrepps.  Nefndin mælist til þess að ákvæði verði í skilmálum um að trjágróður á lóðum verði birki eða aðrar innlendar tegundir og að þannig verði tekið tillit til hverfisverndarákvæða aðalskipulags um verndun birkiskógarins.  Gönguleiðir þurfa að vera til staðar frá orlofssvæði BHM á milli lóða.  Vegna mikils þéttleika byggðarinnar mælist nefndin til þess að fjórar lóðir vestan Brekkuheiðar verði felldar út, t.d. á móts við bústaði BHM og að það svæði verði skilgreint sem opið svæði fyrir útivist. Sýna þarf stæði fyrir spennustöð Rarik.   Skipulagsnefnd samþykkir að heimila auglýsingu tillögunnar skv. 25. grein skipulags- og byggingarlaga með fyrirvara um að komið verði til móts við tilmæli nefndarinnar.  Nefndin beinir því til landeigenda að leita umsagnar heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Fornleifarverndar ríkisins á auglýsingartíma.  Leita þarf eftir samþykki BHM og annara landeigenda vegna aðkomu Vallárvegar og skal það liggja fyrir áður en deiliskipulagið verður samþykkt.“  Á fundi byggðarráðs hinn 9. ágúst 2005 var eftirfarandi fært til bókar:  „Á 16. fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu, sem haldinn var 23. júní 2005, var lagt fram til auglýsingar deiliskipulag frístundabyggðar í landi Brekku Biskupstungum. Skipulagsnefnd setti ýmsa fyrirvara og var með tilmæli til landeigenda um breytingu á skipulaginu áður en það færi í auglýsingu.  Eftir að landeigendur höfðu haft samband við skrifstofu sveitarfélagsins leggur byggðaráð til að svæðið fari í auglýsingu án þess að  lóðum verði fækkað, og án þess að svæði fyrir spennustöð Rarik verði sýnd á uppdrætti, en gert er ráð fyrir henni á milli lóða 20 og 116.  Einnig kom fram hjá landeigendum að aðkomuvegur að Vallárvegi liggi um þeirra land og þurfi því ekki samþykki annarra landeigenda á svæðinu.  Aðra fyrirvara sem skipulagsnefndin setti verða landeigendur að uppfylla.“  Hinn 26. ágúst 2005 gaf skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu út auglýsingu þar sem sagði að samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 væri óskað eftir athugasemdum vegna fyrrgreindar deiliskipulagstillögu og að hver sá er ekki gerði athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests teldist samþykkur henni.  Sagði ennfremur að tillagan lægi frammi á skrifstofu embættis hans á Laugarvatni frá 1. september 2005 til 13. október sama ár.  Birtist auglýsing þessi hinn 1. september 2005 í Glugganum og Lögbirtingarblaðinu.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 5. september 2005 var fundargerð byggðarráðs frá 9. ágúst 2005 samþykkt samhljóða. 

Sveitarstjórn barst ein athugasemd vegna auglýsingar á hinu kærða deiliskipulagi. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 8. nóvember 2005 var eftirfarandi fært til bókar:  „Tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar í Brekkuskógi í landi Brekku.  Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 26. september 2005, og einnig bréf frá Fornleifavernd ríkisins, dags. 27. september 2005.  Lögð fram tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar í Brekkuskógi í landi Brekku. Svæðið liggur austan við orlofshúsabyggð BHM.  Tillagan gerir ráð fyrir 54 frístundalóðum,  9 við Vallárveg og 45 við Brekkuheiði. Skipulagssvæðið er alls 38 ha og eru lóðir 4.750 til 5.500 m² að stærð.  Tillagan var í kynningu frá 1. september til 29. september 2005.  Frestur til að skila inn athugasemdum var til 13.október.  Ein athugasemd barst, frá stjórn Orlofssjóðs BHM.  Í athugasemd kemur eftirfarandi fram:  Mótmælt er þéttleika fyrirhugaðrar frístundabyggðar og að ekki sé gert ráð fyrir opnum svæðum.  Þar sem að landið hallar allt að orlofssvæði BHM er farið fram á að rotþrær liggi ekki nær lóðarmörkum en 50 metrar.  Farið er fram á að byggingarreitir verði ekki nær lóðarmörkum að landi BHM en 30 metrar.  Farið er fram á að lóðir verði stækkaðar þar sem að bústaðir séu leyfilegir allt að  100 m² að flatarmáli.  Fullyrt er að enginn metnaður sé í tillögunni til þess að byggðin falli sem best að umhverfinu.  Umsagnir heilbrigðiseftirlits og Fornleifaverndar liggja fyrir og innihald þeirra gefur ekki tilefni til breytinga á tillögunni.  Sveitarstjórn samþykkir að koma til móts við athugasemdir með eftirfarandi hætti:  Að affall af rotþróm verði lagt í sameiginlega stofnlögn sem uppfyllir öll skilyrði Heilbrigðiseftirlits um frágang frárennslis.  Að ákvæði verði sett í skilmála um að litanotkun á þökum skuli vera í skala dökkra jarðlita.  Að ákvæði verði sett í skilmála um að notast skuli við ljósbúnað sem beini ljósinu niður til jarðar.  Að legu göngustíga skuli sýna með áberandi hætti á uppdrætti.  Að ákvæði verði sett í skilmála um að trjárækt á svæðinu sé bundin við innlendar trjátegundir. Óheimilt verði að planta öspum og hávöxnum barrtrjám.   Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi deiliskipulag með áorðnum breytingum, skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og felur skipulagsfulltrúa að svara framkomnum athugasemdum í takt við afgreiðslu sveitarstjórnar.“

Hinn 23. nóvember 2005 ritaði kærandi máls þessa bréf til sveitarstjórnar þar sem hann mótmælti deiliskipulaginu og benti á að honum hefði hvorki verið sent erindi varðandi framangreint né að leitað hefði verið eftir leyfi hans til afnota af vegi hans er liggi að hinu deiliskipulagða svæði.  Skipulagsfulltrúi ritaði kæranda bréf, dags. 9. desember 2005, þar sem framangreindu var svarað.    

Skipulagsstofnun tilkynnti í bréfi, dags. 1. desember 2005, að stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu gildistökuauglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og birtist hún þar hinn 9. desember 2005. 

Framangreindri samþykkt sveitarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir frístundabyggð á jörðinni Brekku og að aðkoma að þessari byggð sé fyrirhuguð um veg sem liggi um jörðina Brekkuskóg sem sé í hans eigu.  Leigutakar kæranda, eða lóðarhafar í landi Brekkuskógar, geti ekki sætt sig við stóraukna umferð um svæðið enda um einkaveg kæranda að ræða.  Ekki hafi verið sótt um leyfi til kæranda fyrir afnotum af umræddum vegi. 

Telur kærandi að skipulagsyfirvöld hafi hvorki tekið tillit til eignarréttar hans að vegi þeim er um ræði né grannréttar lóðaleiguhafa og því beri að fella ákvörðun um samþykki deiliskipulagsins úr gildi.  

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu Bláskógabyggðar er vísað til þess að engar athugasemdir hafi borist frá kæranda er tillaga að hinu kærða deiliskipulagi hafi verið auglýst, bæði í Glugganum og Lögbirtingarblaði.  Með bréfi kæranda til sveitarstjórnar, dags. 23. nóvember 2005, hafi hann fyrst komið á framfæri athugasemdum sínum vegna þessa.  Í tilefni af bréfi kæranda hafi skipulagsfulltrúi ritað honum bréf, dags. 9. desember 2005, þar sem ítrekað hafi verið að hefði kærandi einhver þau gögn er sannað gætu að þinglýstar eignarheimildir væru ekki réttar væri sjálfsagt að skoða það.  Kærandi hefði ekki sýnt ný gögn er varpað gætu öðru ljósi á eignarheimildir umrædds lands þar sem aðkomuvegur liggi að nýju skipulagssvæði.     

Niðurstaða:  Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Eins og að framan er rakið var samþykkt tillaga að deiliskipulagi í skipulagsnefnd, hún auglýst, samþykkt í sveitarstjórn og að lokum birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Öll framangreind málsmeðferð virðist hafa átt sér stað án þess að kæranda máls þessa hafi verið kynnt ætlan sveitarstjórnar sérstaklega og því án þess að gætt hafi verið ákvæðis 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem segir að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið.  Kærandi máls þess er eigandi aðliggjandi jarðar og verður því að teljast eiga hagsmuna að gæta varðandi skipulagsáform sveitarstjórnar í næsta nágrenni fasteignar hans. 

Kærandi kom ekki á framfæri athugasemdum til sveitarstjórnar vegna hinnar auglýstu tillögu innan tilsettra tímamarka í auglýsingu, enda fullyrðir hann að hún hafi farið framhjá honum.  Aftur á móti ritaði kærandi sveitarstjórn bréf, dags. 23. nóvember 2005, sem skipulagsstjóri svaraði sama dag og deiliskipulagið öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.  Þar sem sveitarstjórn tók við erindi kæranda og hlutaðist til um að því væri svarað, þrátt fyrir að hann hefði ekki komið athugasemdum sínum á framfæri innan tilskilins frests, verður að telja, eins og hér stendur sérstaklega á, að kærandi hafi getað borið málið undir úrskurðarnefndina.  Skortur á lögboðnu samráði verður hins vegar ekki talinn svo verulegur ágalli á málsmeðferð skipulagstillögunnar að leiða eigi til ógildingar hins kærða deiliskipulags. 

Í málinu liggur fyrir að undanfari hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var sá að unnin var tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Brekku sem skipulagsnefnd samþykkti á fundi hinn 23. júní 2005 að auglýsa með tilteknum fyrirvörum.  Á fundi byggðarráðs hinn 9. ágúst 2005 var fjallað um afgreiðslu skipulagsnefndar m.a. með eftirfarandi hætti:  „ … leggur byggðaráð til að svæðið fari í auglýsingu … “  Auglýsing skipulagsfulltrúa um tillöguna er dagsett hinn 25. ágúst 2005 og birtist hinn 1. september s.á., en fundargerð byggðarráðs var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 5. september 2005.

Þegar litið er til þess að sveitarstjórn tekur ákvörðun um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kann framangreind málmeðferð að orka tvímælis.  Hins vegar liggur fyrir að á fundi sveitarstjórnar hinn 12. júlí 2005 hafði byggðarráði verið falin tímabundið  fullnaðarafgreiðsla byggingar- og skipulagsmála sveitarfélagsins og hafði byggðarráð það umboð er það fjallaði um umdeilda skipulagstillögu á fundi sínum hinn 9. ágúst s.á.  Má í því ljósi fallast á að í bókun ráðsins hafi í raun falist fullnaðarákvörðun um auglýsingu skipulagstillögunnar og þykir ónákvæmt orðalag bókunarinnar ekki gefa tilefni til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé aðkoma að svæði því er um ræði um veg sem sé í hans eigu og geti hann ekki unað því enda muni umferð um veginn stóraukast.  Ágreiningur er með málsaðilum um eignarhald umrædds vegar og er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að skera úr um þann ágreining.  Það stendur þó ekki í vegi fyrir því að nefndin taki afstöðu til hinnar kærðu skipulagsákvörðunar enda raskar skipulagið sem slíkt ekki lögvörðum eignarréttindum kæranda.  Verður og til þess að líta að svæði það sem hið umdeilda skipulag tekur til hefur verið skilgreint sem sumarhúsasvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins og mátti kærandi því vænta þess að það yrði tekið til deiliskipulags í samræmi við þá skilgreiningu.  Verður því ekki fallist á að hið umdeilda deiliskipulag hafi í för með sér slík grenndaráhrif eða slíkt ónæði að ógildingu varði.  Er þá einnig haft í huga að hafi kærandi sannanlega orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við gildistöku skipulagsins er honum tryggður réttur til skaðabóta samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2005 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Brekku í Biskupstungum, Bláskógabyggð. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________            _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson