Ár 2007, miðvikudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 26/2006, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 15. mars 2006 um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 3-9 við Grensásveg í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. apríl 2006, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Svavar Þorvarðsson forstöðumaður, f.h. Fasteigna ríkissjóðs, Borgartúni 7, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 15. mars 2006 um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 3-9 við Gensásveg í Reykjavík. Fundagerð skipulagsráðs var lögð fram á fundi borgarráðs hinn 16. mars 2006.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða synjun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 13. janúar 2006 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 3-9 við Grensásveg ásamt samþykki eigenda að Grensásvegi 3-9, dags. 5. janúar 2006. Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Grensásvegi 3, 5, 7, 9 og 11.
Fól tillagan í sér að aðkoma að lóðum frá Grensásvegi yrði breytt þannig að inn- og útakstur á lóð nr. 3 yrði aflagður og þess í stað gert ráð fyrir inn- og útakstri á móts við mörk húsanna að Gresásvegi 7 og 9.
Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 15. mars 2006 og lagt fram athugasemdarbréf 11 eigenda og leigjenda að Grensásvegi 3-9 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. mars 2006. Skipulagráð synjaði erindinu með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að eigendur fjögurra eigna af fimm, og 87,6% miðað við eignarhluta, að Grensásvegi 3 séu samþykkir tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 3-9 við Grensásveg. Eigendur fjögurra eigna af fimm, og 86,9% miðað við eignarhluta, að Grensásvegi 5 séu samþykkir tillögunni. Eigendur fimm eigna af níu, og 50,4% miðað við eignarhluta, að Grensásvegi 7 séu samþykkir tillögunni. Eigandi Grensásvegar 9 sé samþykkur tillögunni. Af þessu leiði að 89,7% miðað við eignarhluta séu samþykkir tillögunni. Vitneskja sé um að eigendur að Grensásvegi 3 og 5 hafi verið að andmæla gildandi deiliskipulagi varðandi útakstur í Skeifuna, en ekki tillögu að breyttu skipulagi. Þannig séu 6,7% miðað við eignarhluta og þrír eigendur að andmæla breytingartillögunni, en tíu eigendur, eða 76,9% miðað við fjölda og 93,3% miðað við eignarhluta, sem séu henni samþykkir. Ekki verði af gögnum málsins ráðið að rök andmælenda hafi verið könnuð. Þá sé eftirtektarvert að sama eign hafi fleiri en eitt andmælaatkvæði miðað við fjölda.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að þrátt fyrir að ekki sé að finna ákvæði í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sem beinlínis setji því skorður að hægt sé að verða við beiðni um breytingar á deiliskipulagi, þrátt fyrir að samþykki allra meðlóðarhafa sé ekki fyrir hendi, sé litið svo á að ekki sé ástæða til að verða við slíkum óskum skorti samþykki allra meðlóðarhafa fyrir tillögum um breytingar. Reykjavíkurborg líti svo á að stafi umsókn um breytingar á deiliskipulagi frá lóðarhöfum verði að liggja fyrir samþykki allra, þ.e. að umsóknin fullnægi ákvæðum laga um fjöleignarhús. Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að þar sem allir lóðarhafar hafi ekki verið sammála tillögunni hafi ekki verið hægt að fallast á erindið að svo komnu, en ef samþykki allra lægi fyrir væri hægt að leggja málið fyrir skipulagsráð til samþykktar. Á það sé bent að lóðin sé sameign þeirra aðila sem fasteignir eigi á lóðinni, sbr. 5. tl. 8. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, og deiliskipulagstillagan geri ráð fyrir verulegum breytingum á lóðinni er varði aðkomuleiðir að henni.
Í 6. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús sé tekið fram að samþykki allra eigenda sameignar þurfi sé um endurbætur að ræða sem hafi í för með sér verulegar breytingar á sameign. Einnig sé tekið fram í 8. tl. 41. gr. að ákvarðanir er varði skiptingu bílastæða verði ekki teknar nema að fengnu samþykki allra sameigenda. Þegar ofangreint sé virt sé ljóst að ekki hafi verið heimilt að verða við erindi kærenda vegna samþykkisskorts meðlóðarhafa enda ljóst að deiliskipulagstillagan geri ráð fyrir verulegum breytingum á aðkomuleiðum auk þess sem verið sé að breyta bílastæðum á lóðinni. Skipti engu máli varðandi álitaefnið hvort rök þeirra sem mótmæltu breytingartillögunni hafi verið könnuð sérstaklega eður ei, en vísað sé til þeirra athugasemda sem borist hafi við grenndarkynningu tillögunnar.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun skipulagráðs á beiðni eiganda fasteignarinnar að Grensásvegi 9 um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 3-9 við Grensásveg. Er synjunin byggð á umsögn skipulagsfulltrúa þess efnis að ekki séu allir lóðarhafar sammála um breytinguna og því sé ekki hægt að fallist á erindið að svo komnu.
Ekki verður séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að fá skipulagi umræddrar lóðar breytt á þann hátt sem um var sótt. Bar skipulagsyfirvöldum að taka hlutlæga afstöðu til erindis kæranda og var m.a. þeim rétt að líta til afstöðu annarra lóðarhafa, en sumir þeirra voru mótfallnir umræddri breytingu. Verður ekki annað séð en að áskilnaður um samþykki allra lóðarhafa hafi verið lögmætur, enda fær sá áskilnaður nokkra stoð í ákvæðum í 41. gr. fjöleignarhúsalaga um ákvörðunartöku um breytta hagnýtingu sameignar. Var hin kærða ákvörðun studd málefnalegum rökum og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 15. mars 2006 um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 3-9 við Grensásveg í Reykjavík.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________ _______________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson