Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2022 Illagil

Árið 2022, þriðjudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 16. febrúar 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 152,7 m2 sumarbústað og 30 m2 baðhús á sumarbústaðarlandinu Illagili 17, Grímsnes- og Grafningshreppi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Illagils 17, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 16. febrúar 2022 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir sumarbústað 152,7 m2 að flatarmáli og 30 m2 baðhús á sumarbústaðarlandinu Illagili 17, Grímsnes- og Grafnings­hreppi. Er þess krafist að byggingarleyfisumsóknin verði samþykkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. 8. apríl 2022.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. 16. febrúar 2022 var tekin fyrir umsókn um heimild til að byggja 153,7 m2 sumarbústað og 30 m2 baðhús á sumarbústaðalandinu Illagili 17 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í umsókninni kom fram að húsið yrði timburhús, útveggir yrðu óeinangraðir 202 mm þykkir bjálkar. Húsið yrði reist á steinsteyptum sökklum og steinsteyptri plötu ofan á 100 mm þykkri plasteinangrun. Þak yrði einangrað með 245 mm steinullareinangrun og húsið hitað með gólfhita og lagna­stokkum. Umsókninni var synjað þar sem útveggir hússins uppfylltu ekki ákvæði um leyfilegt hámark U-gildis, sbr. gr. 13.2.2. og 13.3.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að húsin Illagil 17 og 19 verði byggð úr 202 mm þykkum bjálkum, ofan á steypta sökkla og botnplötu. Þak sé hefðbundið einangrað þak­virki. Sökklar og botnplata séu einangruð á hefðbundinn hátt, þ.e. sökklar séu einangraðir með 75 mm þykkri EPS polystyrene og botnplata einangruð með 100 mm þykkri EPS polystyrene einangrun, hvoru tveggja með lambdagildi λ=0,035W/m2°C. Gólfhiti verði ísteyptur í botn­plötu. Veggir séu úr 202 mm þykkum samlímdum grenivið sem sé með eiginþyngd 403 kg/m3. Lambdagildi bjálkanna, samkvæmt upplýsingum frá Austral Plywoods sé λ=0,1154W/m2°C. Um léttan við sé að ræða, en því léttari sem viðurinn sé, því hærri sé einangrunargildið. Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda húsanna noti þeir lambdagildi λ=0,12W/m2°C almennt fyrir bjálkahús sem framleidd séu þar í landi óháð hráefni, sem séu aðallega fura og greni, þannig að upplýsingarnar frá Austral Plywoods séu mjög sannfærandi út frá þeim létta við sem notaður sé í mannvirkin. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun sé einangrunargildi timburs með rúmþyngd á bilinu 400 til 450 kg/m3 λ=0,13W/m2°C. Lóðréttar og láréttar kuldabrýr mannvirkisins séu reiknaðar í samræmi við töflu 3 í orku­ramma Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Gluggar og hurðir sem settar verði í byggingarnar séu hágæðavara frá Finnlandi og sé uppgefið lambdagildi þeirra λ=0,8W/m2°C. Þakvirki sé byggt upp úr sperrum klæddum timbri með hefðbundinni einangrun á milli sperra sem sé áætluð 230 mm.

Við útreikning einangrunargildis, sett upp í forrit Húsnæðis og mannvirkjastofnunar, fáist sú niðurstaða miðað við áður gefnar forsendur að kröfur um einangrunargildi umrædds húss sé 301 W/K. Rauntap í gegnum hjúp og botnplötu sé 226 W/K. Tap í gegnum kuldabrýr sé 44,5 W/K og sé heildarvarmatap því 226+44,5=270,5 W/K, sem sé minna en 301 W/K. Umrætt hús sé því með 89,9% af leyfilegu varmaflæði, þ.e. 11,3% betra en kröfur byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 kveði á um. Varmatap í gegnum útveggi, þ.e. veggi, glugga og hurðir sé skv. sömu reikningum 0,6 W/m2°C sem sé umtalsvert minna en leyfilegt hámark skv. töflu 13.01 í byggingarreglugerð, sem sé 0,85 W/m2°C. Ekki allir byggingarhlutir uppfylli kröfu byggingarreglugerðar um leyfilegt hámark U-gilda. Veggir séu með U-gildi reiknað annars vegar 0,50 W/m2°C, λ=0,1154 W/m2°C, eftir upplýsingum frá Austral Plywoods og hins vegar 0,54 W/m2°C, λ=0,12W/m2°C, eftir upplýsingum frá framleiðanda um almenna notkun þeirra óháð efnisgerð. Eftir sem áður sé vegið meðaltal orkutaps útveggja á bilinu frá 0,57 W/m2°C fyrir λ=0,1154 W/m2°C til 0,60 W/m2°C fyrir λ=0,12 W/m2°C. Bæði gildin séu vel fyrir neðan leyfilegt hámark fyrir vegið meðaltal útveggja sem sé 0,85 W/m2°C.

Niðurstaðan sé því sú að þrátt fyrir að byggingarhlutinn útveggir uppfylli ekki kröfur byggingar­reglugerðar um hámarks U-gildi þá vegi aðrir byggingarhlutir viðkomandi útveggja vel upp á móti því, þar sem meðaltals U-gildi útveggja sé umtalsvert lægra en leyfilegt hámark U-gildis. Húsin uppfylli því fyllilega kröfur byggingarreglugerðar fyrir ný mannvirki með hitastigi Ti≥18°C. Heildar leiðnitap bygginganna leyfi þar að auki að þær megi setja upp á svæðum þar sem orkukostnaður vegna húshitunar sé hár, sbr. gr. 13.3.2. byggingarreglugerðar.

Málsrök Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita: Af hálfu Umhverfis- og tæknisviðs Upp­sveita er bent á að við afgreiðslu umsóknar kærenda hafi verið vísað til gr. 13.2.2. og 13.3.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í töflu 13.01 í gr. 13.3.2. komi fram að leyfilegt hámark U-gildis útveggjar skuli ekki vera hærra en 0,40 W/m2°C. Einnig komi fram að á svæðum þar sem orkukostnaður vegna húshitunar sé hár á íslenskan mælikvarða sé mælt með að leiðnitap sé a.m.k. 10% lægra en fram komi í töflu 13.02.

Leyfilegt hámark U-gildis útveggjar með viðbótareinangrun annarra byggingarhluta geti skv. gr. 13.3.1. verið að hámarki 0,48 W/m2°C þegar búið sé að bæta 20% við U-gildið sem gefið sé í töflu 13.01. Samkvæmt útreikningi hönnuðar sé reiknað U-gildi fyrir útvegg á bilinu 0,50-0,54 W/m2°C ef notuð séu þau λ-gildi sem hönnuður gefi sér og sé það meira en hámarks U-gildið 0,48 W/m2°C. Þar sem útveggir uppfylli ekki lágmarkskröfur um einangrun einstakra byggingarhluta hafi umsókninni verið synjað.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur byggi á því að túlkun Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita brjóti gegn meðalhófs- og jafnræðisreglu. Í gr. 13.3.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 komi fram að U-gildi skuli almennt ekki vera hærra en fram komi í töflu 13.01. Í síðustu línu töflunnar sé fjallað um leyfilegt hámark U-gildis útveggja, þ.e. vegið meðaltal veggja, glugga og hurða, sem eðlilegt sé að skýra þannig að veggur sem sé undir tilgreindu meðaltali sé innan marka byggingarreglugerðar. Annar háttur við skýringu reglugerðarinnar þyrfti að byggja á skýrum túlkunarreglum og rökstuddur með málefnalegum hætti, enda sé sérstaklega vísað til þess sem almenns gildi. Orðalagið beri ekki með sér að reglan sé ófrávíkjanleg heldur sé um viðmiðunarákvæði að ræða.

Hugsunin á bak við viðkomandi kafla reglugerðar nr. 112/2012 sé að hámarks meðalgildi kólnunargildis útveggja sé jafnt og eða minna en 0,85 W/m2°C. Til að mynda mætti byggja hús þar sem allir útveggir séu einvörðungu úr gleri, svo fremi sem meðaltal einangrunargildis útveggja viðkomandi húss sé minna en eða jafnt og 0,85 W/m2°C og myndi þá erindið vera samþykkt.

Kærendum hafi verið synjað um byggingarleyfi fyrir hús með meðaltalseinangrunargildi útveggja á bilinu frá 0,57 til 0,60 W/m2°C en það sé á bilinu 67% til 70% af leyfilegu hámarki meðaltalsvarmatapi útveggja. Hús úr nákvæmlega sömu bjálkum frá sama framleiðanda hafi verið samþykkt og reist í Suðurnesjabæ árið 2017 skv. upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands og af kortavef bæjarins. Í því húsi sé einangrunargildi bjálkanna gefið upp sem 0,49 W/m2°C, sem sé ankannalegt þar sem um nákvæmlega sama efni sé að ræða.

Sé skilningur Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita réttur sé í raun alfarið að bannað að byggja óeinangruð bjálkahús úr þykkum bjálkum á Íslandi sem þó sé heimilt alls staðar í Evrópu og í Vesturheimi. Viðkomandi hús sé finnskt bjálkahús af mjög vandaðri gerð og sé framleitt af finnska framleiðandanum PLUSPUU. Framleiðandinn sé til húsa í Helsinki og sé meðlimur í Green building council of Finland. Viðkomandi hús séu viðurkennd í Finnlandi og í allri Skandinavíu sem heilsárshús og hafi verið samþykkt hérlendis á síðustu árum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds-ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda-mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðar-nefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur að jafnaði ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að umsókn hans um byggingarleyfi verði samþykkt heldur einvörðungu tekin afstaða til þess hvort fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Ágreiningur máls þessa snýst um hvort synjun byggingarfulltrúa á umsókn um byggingarleyfi fyrir finnsku bjálkahúsi hafi verið lögmæt. Í synjun byggingarfulltrúa var vísað til gr. 13.2.2. og 13.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í 2. mgr. gr. 13.2.2. í reglugerðinni kemur fram að fyrir íbúðarhúsnæði og annað fullhitað húsnæði þar sem fólk dvelst, þ.e. lofthiti ≥ 18°C, gildi kröfur í töflum 13.01 og 13.02. Í gr. 13.3.2. reglugerðarinnar er kveðið á um að í nýjum mannvirkjum og viðbyggingum skuli leyfilegt hámark U-gilda einstakra byggingarhluta vera skv. töflu 13.01. Tafla 13.02 fjallar um viðhald og/eða endurbyggingu byggingarhluta og á því ekki við í máli þessu. Í töflu 13.01 er fjallað um leyft hámark U-gildis og kemur þar fram að hámark útveggja fyrir hitastig ≥ 18°C skuli vera 0,40 W/m2K. Þá kemur fram að vegið meðaltal útveggja, þ.e. veggfletir, gluggar og hurðir, skuli vera að hámarki 0,85 W/m2K.

 Óumdeilt er að útveggir hins umdeilda bjálkahúss séu yfir leyfðu hámarki fyrir útveggi, sem er líkt og áður segir 0,40 W/m2 á hverja gráðu K (W/m2K). U-gildi útveggja hins umdeilda húss er á bilinu 0,50–0,54 W/m2K. Vegið meðaltal U-gildis útveggja hins umdeilda húss er á bilinu 0,57–0,60 W/m2K, en það er undir leyfilegu hámarki vegins meðaltals útveggja skv. töflu 13.01, sem er 0,85 W/m2K.

 Í gr. 13.3.1. í reglugerð nr. 112/2012 kemur fram að almennt gildi að við útreikning heildar­leiðnitaps nýbygginga skuli U-gildi byggingarhluta ekki vera hærra en fram komi í töflu 13.01. Heimilt sé þó að U-gildi einstakra byggingarhluta í nýbyggingum sé allt að 20% hærra en fram komi í töflu 13.01, en þá því aðeins að einangrunarþykktir annarra byggingarhluta séu auknar tilsvarandi þannig að heildarleiðnitap mannvirkis haldist óbreytt þrátt fyrir slíka skerðingu einangrunar einstakra byggingarhluta. Verður að túlka grein þessa svo að einstakir byggingar-hlutar geti ekki haft meira en 20% hærra leiðnitap en fram kemur í töflu 13.01. Leyfilegt hámark U-gildis útveggja verður þannig 0,48 W/m2K, að teknu tilliti til undantekningarreglu gr. 13.3.1. reglugerðar nr. 112/2012.

 Hið umdeilda bjálkahús er líkt og áður segir hefur U-gildi veggja á bilinu 0,50–0,54 W/m2K og er því yfir leyfilegu hámarki sem mælt er fyrir um í töflu 13.01. Verður því að líta svo á að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að synja kærendum um byggingarleyfi í máli þessu. Ef aðeins ætti að horfa til vegins meðaltals útveggja, þ.e. veggflatar, glugga og hurða, væri með öllu óþarft að telja sérstaklega upp leyfilegt hámark U-gildis einstakra byggingarhluta. Ber því að líta svo á að uppfylla þurfi bæði kröfur um hámarks U-gildi útveggja sem og hámarks U-gildi vegins meðaltals útveggja.

 Að öllu framangreindu virtu stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Umhverfis- og tækni­sviðs Uppsveita bs. frá 16. febrúar 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 152,7 m2 sumarbústað og 30 m2 baðhús á sumarbústaðarlandinu Illagili 17, Grímsnes- og Grafnings­hreppi.