Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2005 Norðurbakki

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2005, kæra vegna byggingarframkvæmda samkvæmt deiliskipulagi fyrir Norðurbakka, Hafnarfirði, sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. mars 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. Hansen ehf., Vesturgötu 4, Hafnarfirði, byggingarframkvæmdir samkvæmt deiliskipulagi fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á greindri deiliskipulagsákvörðun.

Málavextir:  Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015.  Fólst breytingin í því að meginhluta hafnarsvæðis á Norðurbakka var breytt í íbúðarsvæði en svæði næst miðbæ var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Bryggja og hafnarkantur í suðurjaðri svæðisins voru áfram skilgreind sem hafnarsvæði.  Miðsvæði norðan Vesturgötu og vestan Merkurgötu var breytt í íbúðarsvæði en miðsvæði sunnan Vesturgötu og vestan Fjarðargötu var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Samhliða þeirri breytingu var unnið að deiliskipulagi fyrir Norðurbakka þar sem m.a. var gert ráð fyrir fjölbýlishúsum á lóðunum að Vesturgötu 1 og 3 sem liggja sunnan Vesturgötu á móts við fasteign kæranda sem nýtt er undir veitingarekstur.  Á kynningartíma deilskipulagstillögunnar komu fram athugasemdir, þar á meðal frá kæranda.  Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna hinn 8. febrúar 2005 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí 2005.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu fara of nærri fasteign hans að Vesturgötu 4, þar sem fram fari veitingastarfsemi.  Íbúðarhúsnæði og vínveitingastarfsemi eigi illa saman og hætta sé á hagsmunaárekstrum.  Þá séu öll bílastæði við veitingarstað kæranda lögð af.

Fyrirhugaðar breytingar hafi ekki verið grenndarkynntar og kærandi ekki átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að þótt hann eigi beinna hagsmuna að gæta og athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ.  Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi því verið ábótavant samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og andmælaréttar kæranda ekki gætt samkvæmt. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa ekki borist athugasemdir eða sjónarmið vegna kærumáls þessa en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að bæjaryfirvöld telji að breytt landnotkun og íbúðarbyggð sú sem hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir gangi ekki gegn hagsmunum kæranda.  Samkvæmt skipulaginu verði t.d. heimilt að hafa þjónustustarfsemi á fyrstu hæðum bygginga í næsta nágrenni við kæranda.  Skipulaginu sé ætlað að þétta byggð í miðbæ Hafnarfjarðar og koma til móts við óskir fólks sem vilji búa nálægt þjónustu og miðbæjarlífi.

Niðurstaða:  Hin kærða skipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga sem almenn skipulagsbreyting og kom því ekki til grenndarkynningar samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, sem kemur í stað almennrar auglýsingar þegar um óverulega breytingu á skipulagi er að ræða.  Kærandi kom á framfæri athugasemdum við deiliskipulagstillöguna í bréfi til skipulagsyfirvalda bæjarins, dags. 6. desember 2004, og var athugasemdum hans svarað eftir að kæra hans í máli þessu barst en fyrir gildistöku skipulagsins.  Verður málsmeðferð deiliskipulagsins því ekki talin haldin ágöllum að þessu leyti.

Eins og fram er komið tók gildi breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar í janúar 2005 þar sem gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svonefndum Norðurbakka, m.a. gegnt fasteign kæranda við Vesturgötu í Hafnarfirði.  Sætir sú ákvörðun ekki endurskoðun hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem aðalskipulagsbreytingin var staðfest af ráðherra.  Hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði í samræmi við núgildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar og getur sú staðreynd ekki haft áhrif á gildi deiliskipulagsins.  Þá verður ekki séð af gögnum um fyrra skipulag svæðisins að bílastæði hafi fylgt fasteign kæranda að Vesturgötu 4 sem af séu lögð með hinni kærðu ákvörðun.

Að öllu þessu virtu verður ekki talið að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum kæranda með þeim hætti að ógildingu varði eða að aðrir þeir annmarkar séu fyrir hendi sem leitt gætu til slíkrar niðurstöðu.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 8. febrúar 2005 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði.

 

     ___________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

              ________________________               _________________________ 
                      Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson