Ár 2004, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 25/2004, kæra eigenda og ábúenda jarðarinnar Múlakots II, Rangárþingi eystra, á samþykkt sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 14. ágúst 2003, um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Múlakots I.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi, dags. 15. apríl 2004, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir Atli Björn Þorbjörnsson hdl., f.h. G og S, eigenda og ábúenda Múlakots II, Rangárþingi eystra, samþykkt sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 14. ágúst 2003, um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Múlakots I.
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra hinn 14. ágúst 2003 var samþykkt deiliskipulag frístundabyggðar í landi jarðarinnar Múlakots. Tillaga að skipulaginu hafði verið auglýst og kynnt að fenginni heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða laga nr. 73/1997. Kærendur settu á kynningartímanum fram athugasemdir við tillöguna og var þeim athugasemdum svarað. Í kjölfar samþykktar á hinu kærða deiliskipulagi sendi sveitarstjórnin það til afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Var ákvörðunin loks birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. janúar 2004.
Málsrök kærenda: Kærendur halda því fram að þeir hafi lítið frétt af afdrifum deiliskipulagsins fyrr en hinn 25. mars 2004, en þann dag hafi þeim orðið kunnugt um að sveitarfélagið hafi látið samþykktina frá 14. ágúst 2003 standa og auglýst staðfestingu deiliskipulagsins í Stjórnartíðindum hinn 30. janúar 2004. Telja kærendur að athugasemdir þær sem þeir hafi sett fram hafi ekki fengið þá umfjöllun sem tilefni hafi verið til og að þær athugasemdir og skilyrði sem sveitarstjórnin hafi sett fyrir samþykkt tillögunnar komi í raun ekki fram í deiliskipulaginu eins og það hafi verið auglýst.
Kærendur telja að ekki hafi verið forsendur til að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið vegna þess að enn sé ekki til staðar aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Telja kærendur það ófært, m.a. vegna þess hve viðurhlutamikla breytingu á svæðinu deiliskipulagið feli í sér.
Kærendur telja einnig að ekki hafi verið forsendur til að samþykkja hið kærða deiliskipulag vegna frárennslis- og veitumála og að skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki hugað nægjanlega vel að því hvernig leysa ætti þau mál í ljósi þess gríðarlega fjölda bygginga sem fyrirhugað sé að reisa á svæðinu og þess mannfjölda sem fyrirsjáanlegt sé að muni koma þar saman.
Kærendur halda því og fram að deiliskipulagið hafi í för með sér skipulags slys, því með því að setja niður u.þ.b. 1000 manna frístundabyggð í hjarta sveitarinnar sé hið fallega yfirbragð Fljótshlíðarinnar eyðilagt. Telja kærendur það til þess fallið að rýra eignir þeirra og annarra nágranna, sem felist í minni möguleikum kærenda og eigenda annarra jarða á svæðinu til landbúnaðarafnota jarðanna eða skipulagningar hófsamrar orlofsbyggðar á þeim.
Kærendur styðja kröfur sínar í þessu máli m.a. við þau rök að með umræddu deiliskipulagi hafi réttur einstaklinga og hagur heildarinnar verið fyrir borð borinn, sem sé andstætt 1. gr. laga nr. 73/1997. Þá telja kærendur að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til ábendinga þeirra og sé það einnig andstætt markmiði áðurnefndra laga um áhrif íbúa á skipulag umhverfis síns.
Kærendur ítreka að þeim hafi ekki verið kunnugt um að deiliskipulagið hafi hlotið staðfestingu og verið auglýst fyrr en þann 25. mars 2004. Telja kærendur sig því vera innan fresta skv. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 og benda einnig í því sambandi á 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega 2. mgr., sem og 2. mgr. 28. gr. sömu laga.
Niðurstaða: Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til skoðunar hvort kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hinn 16. apríl 2004. Um kærufrest í málinu gildir ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997, sbr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því aðila er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á þeirri samþykkt, sem hann hyggst kæra.
Í tilviki því er hér um ræðir sætti hin kærða ákvörðun birtingu í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Um slíkar birtingar gilda ákvæði laga nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, en í 2. málsl. 7. gr. þeirra laga segir: „Birt fyrirmæli skulu binda alla frá og með 1. degi þess mánaðar, er liðnir eru 3 almanaksmánuðir hið skemmsta frá útgáfudegi þess blaðs Stjórnartíðinda, er fyrirmælin voru birt, nema þau geymi aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.“
Í auglýsingu þeirri er birt var hinn 30. janúar 2004 um gildistöku hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar var kveðið á um að deiliskipulagið öðlaðist þegar gildi. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 64/1943 miðast réttaráhrif ákvörðunarinnar við það tímamark og markar það m.a. upphaf kærufrests, sbr. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af því ákvæði verður ráðið að upphaf kærufrests skuli miða við opinbera birtingu sé mælt fyrir um hana að lögum. Var kærufrestur því löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og ber því, samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa kærunni frá, enda verður ekki fallist á að afsakanlegt hafi verið að kæran barst of seint þegar til þess er litið að kærendur höfðu látið hina umdeildu skipulagsákvörðun til sín taka og var í lófa lagið að fylgjast með framvindu málsins.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir