Ár 2002, föstudaginn 28. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 25/2002, kæra eiganda Reykjafoldar 1, Reykjavík á álagningu skipulagsgjalds vegna byggingar bílskúrs að Reykjafold 1.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til Tollstjórans í Reykjavík, dags. 5. maí 2002, fer K, Reykjafold 1, Reykjavík fram á niðurfellingu skipulagsgjalds af bílskúr að Reykjafold 1. Erindi þetta framsendi tollstjóri til Fasteignamats ríkisins, sem framsendi erindið til úrskurðarnefndar skipulags og byggingarmála með bréfi dags. 6. júní 2002 með vísan til þess að úrskurðarnefndin fari með úrskurðarvald í ágreiningsmálum um álagningu og innheimtu skipulagsgjalds samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald.
Málavextir: Kærandi er eigandi fasteignarinnar nr. 1 við Reykjafold í Reykjavík. Af málsgögnum verður ráðið að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir húsi kæranda ásamt bílskúr snemma árs 1984 en að byggingu bílskúrsins hafi þá verið slegið á frest. Byggingarleyfi fyrir skúrnum var endurnýjað með afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 12. september 1996, en ekki virðist hafa verið byrjað á byggingu skúrsins fyrr en haustið 1997 og er úttekt á undirstöðum hans dagsett 26. september 1997. Ekki liggur fyrir hvenær byggingu skúrsins var að fullu lokið en brunabótavirðing hans er dagsett 15. júní 2001 og er skúrinn þá metinn sem sjálfstæður matshluti. Skipulagsgjald að fjárhæð kr. 7.032,- var lagt á vegna skúrsins og var kæranda sendur reikningur fyrir gjaldinu, dags. 26. mars 2002. Kærandi vildi ekki una álagningu gjaldsins og óskaði hann þess við innheimtumann þess, Tollstjórann í Reykjavík, að það yrði fellt niður svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi styður kröfu sína um niðurfellingu hins umdeilda skipulagsgjalds eftirgreindum rökum:
Í fyrsta lagi byggir kærandi á því að ekki hafi verið um neinn kostnað Skipulagsstofnunar eða sveitarfélags að ræða vegna byggingar bílskúrsins. Hann sé staðsettur og byggður samkvæmt skipulagi sem í gildi hafi verið hinn 22. mars 1984, en þá hafi tilskilin byggingarleyfis- og gatnagerðargjöld verið greidd af honum. Aðeins hafi því þurft að endurnýja byggingarleyfið og greiða fyrir úttektir til þess að hefja mætti framkvæmdir við bygginguna.
Í öðru lagi byggir kærandi á því að byggingarleyfi fyrir skúrnum hafi verið endurnýjað hinn 12. september 1996 en þá hafi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 ekki verið í gildi. Þau lög hafi tekið gildi hinn 1. janúar 1998, en þrátt fyrir það sé vísað til þeirra sem forsendu fyrir innheimtu skipulagsgjaldsins. Ekki sé grundvöllur fyrir gjaldtökunni þar sem lög þau er hún styðjist við hafi ekki verið í gildi þegar framkvæmdirnar hafi verið samþykktar, en búið hafi verið að leggja á þau gjöld sem þágildandi lög og reglugerðir hafi kveðið á um.
Í þriðja lagi bendir kærandi á að bílskúrinn verði alltaf hluti af fasteigninni nr. 1 við Reykjafold. Ákvæði 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eigi ekki við um skúrinn, sem byggður hafi verið 12 árum síðar en íbúðarhúsið á lóðinni, þar sem hvorki sé um nýreist hús né viðbyggingu við eldra hús að ræða. Ef telja ætti bílskurinn nýreist hús þyrfti hann að vera sjálfstæð fasteign sem skilja mætti frá húsinu, en það sé óheimilt samkvæmt lóðarsamningi. Væri skúrinn hins vegar talinn viðbygging félli ekki á hann skipulagsgjald vegna þess að virðingarverð hans sé innan við 1/5 af virðingarverði hússins.
Málsrök Fasteignamats ríkisins og innheimtumanns: Af hálfu Fasteignamats ríkisins er því haldið fram að álagning skipulagsgjaldsins sé ekki á verksviði þess heldur beri því einungis á láta í té þau gögn sem lögð séu til grundvallar við álagningu gjaldsins. Þessi gögn beri skv. 35. gr. laga nr. 73/1997 að senda innheimtumanni svo sem gert hafi verið í hinu kærða tilviki. Af hálfu innheimtumanns er álagning og innheimta gjaldsins rökstudd með tilvísun til réttarheimilda, sem prentaðar eru á bakhlið reiknings fyrir gjaldinu.
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs. Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni.
Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald. Er í 7. gr. þeirrar reglugerðar kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma um álagningu og innheimtu gjaldsins. Verður erindi kæranda samkvæmt þessu tekið til efnisúrlausnsar í nefndinni.
Ekki verður fallist á það með kæranda að fella beri skipulagsgjald af bílskúrsbyggingu hans niður með vísan til þess að byggingin hafi ekki haft í för með sér kostnað fyrir Skipulagsstofnun eða sveitarfélagið þar sem hann hafi verið byggður eftir gildandi skipulagi og tilskilin byggingarleyfis- og gatnagerðargjöld verið greidd af honum á árinu 1984 við upphaflega samþykkt byggingarleyfis hússins. Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana. Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér ótvíræða lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Gjaldið er þá fyrst lagt á þegar brunabótamat liggur fyrir og er það á engan hátt tengt byggingarleyfis- eða gatnagerðargjöldum eða innifalið í þeim. Gjöld sem kærandi kann að hafa greitt á árinu 1984, eða síðar, vegna byggingar umrædds bílskúrs leysa hann því ekki undan þeirri skyldu að greiða skipulagsgjald af skúrnum teljist það réttilega álagt.
Ekki verður fallist á að gjaldskylda kæranda verði ekki reist á ákvæði 35. gr. laga nr. 73/1997 vegna sjónarmiða um lagaskil. Umrætt gjald verður þá fyrst lagt á þegar brunabótamat liggur fyrir, sem í hinu kærða tilviki var 15. júní 2001. Verður og ráðið af málsgögnun að byggingu bílskúrsins hafi ekki verið lokið hinn 1. janúar 1998 er lög nr. 73/1997 tóku gildi. Eiga ákvæði þeirra því við í málinu og er réttilega til þeirra vitnað á reikningi innheimtumanns fyrir gjaldinu.
Umræddur bílskúr er sjálfstæð húsbygging í lagaskilningi og sjálfstæður matshluti. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu fasteigna eru húseignir sem skylt er að virða til brunabóta „…hús eða hlutar húss, sem ætluð eru til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota og eru varanlega skeytt við land.“ Skúrinn bar því að virða til brunabóta og bar að því búnu að leggja skipulagsgjald á hann sem nýbyggingu. Skiptir í þessu sambandi ekki máli þótt langt sé um liðið frá bygginu húss þess sem skúrinn tilheyrir. Verður ekki heldur talið að skipulagsgjald af bílskúrnum hafa verið innheimt með skipulagsgjaldi sem áður hefur verið greitt af húsinu, enda reiknast gjaldið einungis af þeim byggingum sem reistar hafa verið og virtar til brunabóta á hverjum tíma.
Engar athugasemdir hafa komið fram í máli þessu um gjaldstofn eða fjárhæð hins umdeilda gjalds og verður því lagt til grundvallar að álagning þess sé tölulega rétt.
Samkvæmt því sem að framan er rakið verður kröfu kæranda hafnað og skal álagning hins umdeilda skipulagsgjalds standa óröskuð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um niðurfellingu skipulagsgjalds af bílskúr að Reykjafold 1 í Reykjavík og skal hin umdeilda álagning standa óröskuð.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir