Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24/2002 Skipulagsgjald

Ár 2002, fimmtudaginn 18. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2002, erindi R fasteignasala f.h. eigenda íbúðar 00-02 að Skúlagötu 20, Reykjavík um niðurfellingu skipulagsgjalds.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til Fasteignamats ríkisins fer R fasteignasali fram á það f.h. A og Þ, eigenda íbúðar 00-02 að Skúlagötu 20, Reykjavík að innheimtu skipulagsgjalds á íbúð þeirra verði beint að fyrri eiganda.  Erindi þetta framsendi Fasteignamat ríkisins til úrskurðarnefndar skipulags og byggingarmála með bréfi, dags. 6. júní 2002, með vísan til þess að úrskurðarnefndin fari með úrskurðarvald í ágreiningsmálum um álagningu og innheimtu skipulagsgjalds samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald.  Verður að skilja framangreint erindi svo að krafist sé niðurfellingar kröfu um skipulagsgjald af framangreindri íbúð á hendur núverandi eigendum en að gjaldið verði þessi í stað lagt á fyrri eiganda íbúðarinnar.

Málavextir:  A og Þ eru eigendur að íbúð 00-02 að Skúlagötu 20 í Reykjavík en íbúðina munu þau hafa keypt hinn 17. október 2001.  Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins er byggingarár eignarinnar 1997 og telst byggingunni þá að fullu lokið.  Fyrir liggur og að fyrsta virðing eignarinnar til brunabótamats að beiðni eiganda hafi ekki farið fram.  Við endurmat brunabóta- og fasteignamats, sem fram fór á árinu 2001, kom í ljós að brunabótamat eigna skorti í einhverjum tilvikum.  Voru allar eignir byggðar 1995 eða síðar, sem þannig var ástatt um, virtar til brunabóta samhliða endurskoðun fasteignamats þeirra.  Voru upplýsingar um fjárhæð brunabótamats umræddra eigna sendar ríkisbókhaldi í lok marsmánaðar 2002.  Voru eigendum þeirra sendir gjaldaseðlar vegna álagðs skipulagsgjalds í byrjun apríl 2002.

Málshefjendur vildu ekki sætta sig við að á þá félli skipulagsgjald af nokkurra ára gamalli fasteign og beindu framangreindu erindi til Fasteignamats ríkisins með beiðni um að kröfu um skipulagsgjald af íbúð þeirra yrði beint að fyrri eiganda.

Málsrök:  Málshefjandi styður erindi sitt þeim rökum að skipulagsgjald hafi átt að leggjast á eignina nýja en ekki nú þegar hún sé 5-6 ára gömul.  Af þessum sökum hafi núverandi eigendur ekki mátt vænta þess að verða krafðir um umrætt gjald heldur hafi borið að beina kröfunni að fyrri eiganda.

Af hálfu Fasteignamats ríkisins er því haldið fram að álagning skipulagsgjaldsins sé ekki á verksviði þess heldur beri því einungis að láta í té þau gögn sem lögð séu til grundvallar við álagningu gjaldsins.  Þessi gögn beri skv. 35. gr. laga nr. 73/1997 að senda innheimtumanni svo sem gert hafi verið í hinu kærða tilviki.  Af hálfu innheimtumanns er álagning og innheimta gjaldsins rökstudd með tilvísun til réttarheimilda, sem prentaðar eru á bakhlið reiknings fyrir gjaldinu.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.  Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni.

Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald.  Er í 7. gr. þeirrar reglugerðar kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma um álagningu og innheimtu gjaldsins.  Verður erindi málshefjenda samkvæmt þessu tekið til efnisúrlausnar í nefndinni. 

Ekki verður fallist á það með málshefjendum að fella beri skipulagsgjald af íbúð þeirra niður gagnvart þeim og beina innheimtu gjaldsins þess í stað að fyrri eiganda.  Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér ótvíræða lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 737/1997 fellur skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hefur farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins hefur tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.  Gjaldinu fylgir lögveð í þeirri fasteign sem það er lagt á og verður að telja að rétt sé að beina innheimtu þess að þinglesnum eiganda fasteignar miðað við það tímamark þegar gjaldið fellur í gjalddaga, enda þótt dráttur kunni að hafa orðið á að eigandi nýrrar eignar sinnti þeirri skyldu sem á honum hvílir um að óska brunavirðingar, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna bruntryggingu húseigna og samsvarandi ákvæði í 2. mgr. 6. gr. eldri reglugerðar um sama efni nr. 484/1994. 

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu kann að vera að málshefjendur eigi endurkröfu fyrir gjaldinu á hendur fyrri eiganda þegar svo stendur á sem í máli þessu.  Ræðst það af samningi aðila og reglum og venjum í fasteignakaupum.  Ágreiningur um það hvort seljanda beri að endurgreiða málshefjendum umrætt gjald er hins vegar einkaréttarlegs eðlis og fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að skera úr um hann.

Engar athugasemdir hafa komið fram í máli þessu um gjaldstofn eða fjárhæð hins umdeilda gjalds og verður því lagt til grundvallar að álagning þess sé tölulega rétt.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður kröfu málshefjenda hafnað og skal álagning hins umdeilda skipulagsgjalds standa óröskuð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu eigenda íbúðar 00-02 að Skúlagötu 20, Reykjavík um að innheimtu skipulagsgjalds af íbúðinni verði beint að fyrri eiganda og skal álagning gjaldsins standa óröskuð.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                             Ingibjörg Ingvadóttir