Árið 2020, þriðjudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 24/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. mars 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja hæð og ris á hús á lóð nr. 6B við Brekkustíg og setja nýjar svalir og útistiga á bakhlið þess.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. mars 2020, er barst nefndinni 31. s.m., kæra tilgreindir íbúar að Brekkustíg 6A og Brekkustíg 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. mars 2020 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja hæð og ris á hús á lóð nr. 6B við Brekkustíg og setja nýjar svalir og útistiga á bakhlið þess. Eftir breytingarnar verða þrjár íbúðir í húsinu. Gerð er krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að aðalinngangi hússins verði breytt þannig að hann verði ekki á bakhlið þess í sameiginlegum bakgarði íbúa við Brekkustíg, Framnesveg og Öldugötu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. apríl 2020.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 9. apríl 2019 var tekin fyrir umsókn, dags. 29. mars s.á., um leyfi til að byggja hæð og ris auk svala og útistiga á bakhlið einbýlishúss á lóð nr. 6B við Brekkustíg. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa sem ákvað á fundi sínum 12. apríl 2019 að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Var svo gert og bárust athugasemdir á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Umhverfis- og skipulagsráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 3. júlí 2019 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 25. júní s.á., þar sem athugasemdum var svarað. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. mars 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 12. s.m.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í efnislegum athugasemdum íbúa vorið 2019 hafi verið lögð rík áhersla á að með því að gera ráð fyrir aðalinngangi hússins á bakhlið þess félli það ekki að anda hverfisins og bakgarðaskipulagi. Einnig hafi verið bent á að umfangsmikill stigi utan á bakhlið hússins gæti valdið miklu ónæði fyrir nágranna og byrgt útsýni úr gluggum á neðri hæðum hússins að Brekkustíg 8. Í þeirri tillögu að nýbyggingu sem hafi verið samþykkt hafi ekkert tillit verið tekið til athugasemda kærenda við grenndarkynningu umsóknarinnar.
Í samþykktri teikningu að nýbyggingu hafi alls ekki tekist að leysa á ásættanlegan hátt þau vandamál sem umræddur stigi í bakgarðinum hafi í för með sér vegna nálægðar við aðliggjandi hús. Bakgarðar liggi saman frá húsum sem standi við Öldugötu, Brekkustíg og Framnesveg. Aðalinngangur hússins sé því alls ekki í takti við rótgróið umhverfi. Ástæða sé til að vekja athygli á því að í engu húsanna í nágrenni við Brekkustíg 6B sé aðalinngangur frá garðinum. Það sé mikilvægt að hafa í huga þar sem svefnherbergi í íbúðunum í næsta nágrenni við Brekkustíg 6B snúi að garðinum. Megi fastlega gera ráð fyrir margvíslegu ónæði vegna eðlilegs umgangs um aðalinngang hússins á öllum tímum sólarhringsins. Sé ljóst að þessi aðalinngangur hússins muni hafa í för með sér margvísleg vandræði fyrir nágranna og líklega fela í sér rýrnun á markaðsverði íbúðanna. Þetta eigi sérstaklega við um Brekkustíg 8 bæði vegna þess ónæðis sem nálægðin skapi auk þess sem stigagangurinn skyggi á glugga og takmarki þannig útsýni.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að breidd stigans á uppdráttum sem sendir hefðu verið í grenndarkynningu hafi verið 2,8 m, þ.e. 1,2 m + 1,2 m með 0,4 m milli trappa. Breidd trappanna, þ.e. 1,2 m, sé mæld milli handriða/handlista. Í endanlegri útfærslu hafi stiginn mjókkað í heild úr 2,8 m í 2,7 m. Þyki ljóst að vart sé hægt að komast af með minni stiga. Enn fremur sé útfærslan bæði létt og gagnsæ til að létta ásýndina, en handrið séu úr gleri. Þrepin séu steinsteypt þannig að hávaði sé sem minnstur og þ.a.l. tiltölulega lítið ónæði af notkun stigans. Samþykktir uppdrættir taki ágætlega mið af nærliggjandi byggð, en samskonar hús standi við Brekkustíg 4A. Hafi kærendur ekki sýnt fram á að ónæði af notkun stigans verði meira en gangi og gerist í þéttri miðborgarbyggð, en bent sé á að fasteignaeigendur geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í næsta nágrenni sem kunni að hafa einhver áhrif á hagsmuni þeirra.
Hvað varði varakröfu kærenda, þá verði hún ekki skilin öðruvísi en svo að kærendur séu að fara fram á að úrskurðarnefndin kveði á um skyldu til tiltekinna aðgerða með úrskurði. Slíkt sé úrskurðarnefndin ekki bær til að kveða á um og beri því að vísa varakröfunni frá nefndinni.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir meðal annars á að umgangur um bakinnganga sé almenn við Brekkustíg og fylgi því skipulagi sem hafi verið frá upphafi. Staðreyndin sé sú að nærliggjandi hús sem liggi að Brekkustíg hafi innganga frá lóðum baka til og því sé reynt að villa um með röngum fullyrðingum. Samkvæmt samþykktri teikningu snúi meirihluti svefnherbergja Brekkustígs nr. 8 út að Öldugötu og Brekkustíg, en ekki inn í bakgarðinn. Málatilbúningur kærenda um ónæði, byggi að mestu á tilfinningum og fullyrðingum sem slegið sé fram svo sem um að væntanlegur svefntími þess fólks sem muni búa að Brekkustíg 6B verði óeðlilegur og með öðrum hætti en almennt gerist meðal annarra íbúa í Reykjavík.
Byggingaráformin við Brekkustíg 6B séu hófleg og í samræmi við stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar. Áformin falli vel að götumynd Brekkustígs.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 9. júlí 2020.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir hæð og risi ásamt nýjum svölum og útistiga á bakhlið hússins á lóð nr. 6B við Brekkustíg. Eftir breytingarnar verða þrjár íbúðir í húsinu. Ekki er í gildi deiliskipulag er tekur til lóðarinnar Brekkustígs 6B.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að aðalinngangi hússins að Brekkustíg 6B verði breytt þannig að hann verði ekki á bakhlið þess frá sameiginlegum bakgarði íbúa við Brekkustíg, Framnesveg og Öldugötu.
Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og komu kærendur að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði og hún samþykkt auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina í kjölfar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 12. mars 2020.
Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 tilheyrir lóðin að Brekkustíg 6B fastmótaðri byggð, á svæði merktu ÍB-1, Gamli Vesturbærinn. Um svæðið segir að þar sé gróið íbúðahverfi sem hafi verið fullbyggt að mestu fyrir 1950. Byggðin sé heilsteypt sem njóti verndar að hluta vegna byggðamynsturs. Samkvæmt aðalskipulaginu má í fastmótaðri byggð gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Er fyrirhuguð uppbygging á lóðinni í samræmi við þau almennu markmið aðalskipulagsins að skapa heildstæðari og þéttari borgarbyggð. Í ljósi þessa verður ekki annað séð en að umrætt leyfi sé í samræmi við aðalskipulag, markmið þess og landnotkun.
Birt stærð hússins á lóðinni Brekkustíg 6B er 49,7 m² og brúttóflatarmál þess er 109,2 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Á samþykktum aðaluppdráttum er gert ráð fyrir að brúttóflatarmál byggingarinnar verði 245,2 m². Um töluverða stækkun er að ræða og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir stækkun 1,66. Á svæðinu ríkir nokkuð ósamræmi hvað varðar nýtingarhlutfall einstakra lóða. Þannig má nefna til samanburðar að nýtingarhlutfall lóðarinnar Brekkustígs 8 er 3,32 og Brekkustígs 6 er 1,26. Þá er nýtingarhlutfall lóðarinnar Brekkustígs 4A um 1,5 og Brekkustígs 6A er 1,19. Er því ekki hægt að líta svo á að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki samræmi við þéttleika byggðar, sé litið til nýtingarhlutfalls nágrannalóða. Til þess er að líta að á upphaflegum teikningum fyrir húsnæðið að Brekkustíg 6B frá 1926 var þá þegar gert ráð fyrir aðalinngangi í húsið baka til. Þá er innganga að finna á bakhlið nærliggjandi húsa við Brekkustíg. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að byggðamynstur eða yfirbragð byggðar breytist með fyrirhuguðum breytingum á húsnæði Brekkustígs 6B.
Samkvæmt framangreindu liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð byggingarleyfis-umsóknarinnar hafi verið lögum samkvæmt, enda er hin leyfða byggingarframkvæmd í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna hina umþrættu umsókn. Þá var málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við ákvæði laganna, sbr. og viðauka 1.1. og 2.3. við samþykkt nr. 1020/2019 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Kærendur halda því fram að með hinu kærða byggingarleyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra, meðal annars með því að útistigi verði reistur á bakhlið hússins að Brekkustíg 6B. Umgangur um hann muni valda miklu ónæði fyrir nágranna og muni stiginn byrgja útsýni frá gluggum á neðri hæðum hússins að Brekkustíg 8. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum mun umræddur stigi ná upp að gólfi annarrar hæðar hússins, en á milli annarrar og þriðju hæðar verður stigi innanhúss. Á nærliggjandi húsum má finna svipað fyrirkomulag. Útistiginn verður úr steinsteypu en vísað hefur verið til þess að reynt verði að milda ásýnd hans, útfærslan verði létt og gagnsæ, enda verði handrið úr gleri. Þá var komið til móts við kærendur og umfang stigans minnkað eins og hægt var að teknu tilliti til krafna byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þótt ljóst sé að umferð gangandi fólks og innsýn í einhver rými í húsi kærenda muni aukast með fyrirhuguðum breytingum, verður með hliðsjón af framangreindu ekki séð að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kærenda að því marki að ógildingu varði eða knýja hefði þurft á um deiliskipulagsgerð. Eru enda hinar leyfðu framkvæmdir ekki umfram það sem almennt má búast við í þéttbýli.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. mars 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja hæð og ris á hús á lóð nr. 6B við Brekkustíg og setja nýjar svalir og útistiga á bakhlið þess.