Ár 2004, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 24/2003, kæra Hegra ehf., vegna Borgartúns 23 og Bústaðar ehf., vegna Borgartúns 29, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. janúar 2003 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar átta hæða skrifstofuhúss ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún í Reykjavík.
Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. apríl 2003, er barst nefndinni sama dag, kæra Hegri ehf., vegna Borgartúns 23 og Bústaður ehf., vegna Borgartúns 29, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. janúar 2003 um að gefa út byggingarleyfi til að reisa átta hæða steinsteypt skrifstofuhús ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún í Reykjavík.
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarstjórn hinn 30. janúar 2003.
Málavextir: Árið 1993 var samþykkt af borgaryfirvöldum deiliskipulag fyrir götureit sem afmarkast af Sæbraut til norðurs, Kringlumýrarbraut til austurs, Borgartúni til suðurs og Höfðatúni til vesturs. Samkvæmt deiliskipulaginu var nýtingarhlutfall lóða almennt 0,7. Frá þeim tíma hefur starfsemi á svæðinu breyst verulega og hafa risið þar nýbyggingar fyrir skrifstofur og ýmis konar þjónustu í stað eldri bygginga, þar sem m.a. var miðstöð fyrir vöruflutninga, rekstur vörubílastöðvar og önnur áþekk starfsemi. Hafa frá árinu 1998 verið gerðar átta breytingar á deiliskipulagi svæðisins vegna breyttrar nýtingar þess. Taka þessar breytingar til allra lóða á reitnum nema lóðar móttökuhúss Reykjavíkurborgar, Höfða, og lóða kærenda, en síðasta breytingin tekur til lóðanna nr. 25-27 og 31. Breytingar þessar hafa lotið að því að breyta byggingarmagni og fyrirkomulagi bygginga á lóðunum og hefur nýtingarhlutfall fyrir einstakar lóðir á svæðinu verið hækkað, að sögn borgaryfirvalda í samræmi við stefnumörkun Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um bætta nýtingu athafnahverfa.
Í byrjun árs 2002 var lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 25 – 27 og nr. 31 við Borgartún þar sem gert var ráð fyrir aðkomu að lóðinni nr. 25 – 27 um lóðina nr. 31 auk aðkomunnar yfir lóðirnar nr. 23 og 29. Þá gerði tillagan ráð fyrir að á lóðinni nr. 25 – 27 og á baklóð nr. 33 yrði heimilt að byggja sjö hæða hús með inndreginni áttundu hæð auk kjallara. Nýtingarhlufall ofanjarðar yrði 0,9 en með kjallara, þar með töldum bílakjallara, 1,1. Á fundi hinn 23. janúar 2002 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að auglýsa tillöguna og staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 29. janúar 2002.
Allmargar athugasemdir bárust frá nágrönnum, þar á meðal kærendum. Lutu þær að ýmsum atriðum er varða aðkomu að umræddum lóðum, sem eru baklóðir með aðkomu um framlóðir, m.a. á mörkum lóða kærenda. Auk þess voru athugasemdir gerðar við stærð, hæð og fyrirkomulag bygginga á lóðunum, hækkað nýtingarhlutfall, aukna umferð, skert útsýni, hæðarsetningu o.fl. Einnig barst athugasemd frá eigendum lóðarinnar nr. 31 við Borgartún vegna umferðarkvaðarinnar. Sú athugasemd var afturkölluð með bréfi, dags. 30. apríl 2002, með þeim fyrirvara að skipulags- og byggingarnefnd féllist á takmarkaðri aðkomu en deiliskipulagstillagan gerði ráð fyrir.
Tillagan var í kjölfarið lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd hinn 5. júní 2002 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar og umsögn verkfræðistofu umhverfis- og tæknisviðs um umferðarmálin. Var tillagan samþykkt með svohljóðandi bókun: „Auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 01.06.02 og verkfræðistofu dags. 03.06.02 með þeim breytingum sem þar koma fram. Vísað til borgarráðs.”
Borgarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 14. júní 2002 og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. ágúst 2002. Var sú ákvörðun borgaryfirvalda kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Hinn 14. janúar 2003 gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út byggingarleyfi vegna átta hæða steinsteypts húss ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún. Húsið er 6.600 m², þar af byggingar ofanjarðar 5.850 m². Bílastæði við húsið eru 149, þar af a.m.k. 20 stæði í bílakjallara. Í apríl 2003 kröfðust kærendur þess að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar. Þeirri kröfu hafnaði úrskurðarnefndin með úrskurði uppkveðnum hinn 15. maí s.l.
Framangreindri ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu byggingarleyfis á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar.
Málsrök kærenda: Kærendur styðja kröfu sína um ógildingu byggingarleyfis þeim rökum að krafist hafi verið ógildingar skipulagsákvörðunar þeirrar sem leyfið eigi sér stoð í. Verði fallist á kröfur kærenda um ógildingu skipulagsákvörðunarinnar verði byggingarleyfið einnig fellt úr gildi. Á hinni kærðu skipulagsákvörðun séu ýmsir ágallar, sem leiða eigi til ógildingar hennar. Það hafi m.a. skort á að fullnægjandi samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila við skipulagsgerðina en að auki fari deiliskipulagið efnislega með ýmsum hætti í bága við hagsmuni kærenda, langt umfram það sem lögmætt geti talist.
Kærendur halda því fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um veitingu byggingarleyfisins fyrr en 1. apríl 2003. Frá áramótum 2002 – 2003 hafi þeir spurst fyrir um útgáfu þess á skrifstofu byggingarfulltrúa en fengið þau svör að það lægi ekki fyrir. Þeim hafi því verið veitt röng svör hjá embætti byggingarfullrúa.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er aðallega krafist frávísunar kæru á hinu umdeilda byggingarleyfi þar sem sé hún of seint fram komin.
Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna er þess krafist að hafnað verði kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfisins. Kæra þeirra vegna byggingarleyfisins sé alfarið á því byggð að deiliskipulagið muni sæta ógildingu og sé ekki studd öðrum sjálfstæðum málsástæðum.
Byggingaryfirvöld benda á að komið hafi verið til móts við sjónarmið kærenda í ýmsum efnum varðandi skipulagsgerðina og séu engar málsástæður kærenda þess eðlis að þær geti leitt til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar.
Byggingaryfirvöld halda því fram að misskilnings gæti hjá kærendum þess efnis að rangar upplýsingar hafi verið veittar hjá embætti byggingarfulltrúa vegna útgáfu byggingarleyfisins. Misskilningur kærenda liggi í því að þrátt fyrir að umsóknin hafi verið samþykkt í janúar 2003 hafi skilyrði til útgáfu leyfisins og leyfi til að hefja framkvæmdir, skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, ekki verið uppfyllt fyrr en hinn 1. apríl 2003. Þann dag hafi byggingarstjóri undirritað yfirlýsingu skv. 3. mgr. 44. gr. og tilkynnt iðnmeistara. Gjöld vegna framkvæmdarinnar skv. 2. tl. 1. mgr. 44. gr. hafi verið greidd hinn 31. mars 2003.
Niðurstaða: Ekki verður fallist á að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni á þeirri forsendu að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst nefndinni, enda verður ekki séð af gögnum málsins að kærendum hafi mátt ljóst vera fyrr en framkvæmdir hófust á lóðinni, eða í byrjun apríl 2003, að byggingarleyfi hafi verið veitt.
Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að leyfið byggist á deiliskipulagi sem kært hafi verið til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.
Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulags þess sem hið umdeilda byggingarleyfi á stoð í. Af því leiðir að ekki eru efni til að ógilda byggingarleyfið af ástæðum er varða skipulagsforsendur þess.
Miðað við ákvarðaða landnotkun svæðisins í gildandi aðal- og deiliskipulagi verður ekki fallist á að framkvæmdin gangi um of gegn hagsmunum kærenda enda verður að líta til þess að umræddar eignir eru á verslunar- og þjónustusvæði og þykir því hugsanleg röskun á hagsmunum þeirra svo óveruleg að ekki leiði til ógildingar hins umdeilda byggingarleyfis. Þá verður og ekki séð af gögnum málsins að byggingarleyfið sé haldið þeim annmörkum er leiða ættu sjálfstætt til ógildingar þess.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. janúar 2003 um að veita byggingarleyfi til að reisa átta hæða steinsteypt skrifstofuhús ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún í Reykjavík.
________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir.