Ár 2000, föstudaginn 4. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur, aðalmaður í nefndinni og Ásgeir Magnússon, hæstaréttarlögmaður, skipaður varamaður ad hoc.
Fyrir var tekið mál nr. 24/1999; endurupptaka stjórnsýslukæru B frá 8. og 23. apríl 1997.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi, dags. 23. apríl 1997, kærði Sigurður Georgsson hrl. f.h. B til umhverfisráðherra þá ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur að hafna kröfu hans um að nefndin hlutaðist til um að settir yrðu upp að nýju veggstubbar milli gangs og setustofu á 1. hæð að Efstaleiti 12, Reykjavík, og að barinnréttingar og smáskápar á gangi fyrir framan íbúð kæranda yrðu fjarlægðir. Af hálfu ráðuneytisins var þessum kröfum kæranda vísað frá og var kæranda tilkynnt sú niðurstaða með bréfi, dags. 14. júlí 1997, og eru röksemdir ráðuneytisins fyrir frávísun málsins raktar í bréfinu.
Kærandi vildi ekki una þessum málalokum. Sneri lögmaður hans sér til umboðsmanns Alþingis hinn 26. nóvember 1997 og kvartaði yfir framangreindri afgreiðslu ráðuneytisins á kærumálinu. Tók umboðsmaður kvörtun þessa til gaumgæfilegrar athugunar og skilaði ítarlegu áliti um kvörtunina hinn 30. desember 1998. Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að frávísun ráðuneytisins á stjórnsýslukæru B frá 8. og 23. apríl 1997 hefði verið ólögmæt. Einnig taldi umboðsmaður að meðferð ráðuneytisins á fyrra erindi B, frá 23. september 1996, hefði verið verulega áfátt, bæði um form og efni. Í niðurlagi álits síns beinir umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það hlutist til um að mál kæranda verði endurupptekið af þar til bæru stjórnvaldi, verði eftir því leitað, en ekki er í álitinu tekin afstaða til þess hvort ráðuneytinu eða úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála beri að fjalla um málið ef til endurupptöku þess komi.
Með vísun til álits umboðsmanns Alþingis óskaði kærandi þess, með bréfi til umhverfisráðuneytisins hinn 1. febrúar 1999, að málið yrði endurupptekið. Ráðuneytið framsendi erindi kæranda til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 22. febrúar 1999, enda taldi ráðuneytið að nefndinni bæri að fjalla um málið. Skjöl málsins bárust nefndinni nokkru síðar. Úrskurðarnefndin féllst á þau sjónarmið ráðuneytisins að henni bæri að fjalla um erindi kæranda og var lögmanni hans tilkynnt sú afstaða með bréfi, dags. 29. apríl 1999. Jafnframt var lögmanninum gefinn kostur á að skila greinargerð í málinu og gera grein fyrir kröfum kæranda og málsástæðum.
Með bréfi, dags. 11. maí 1999, setti lögmaður kæranda fram kröfur hans í málinu. Er þess þar krafist „að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála taki til efnislegrar meðferðar þá kröfu B að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hlutist til um að reistir verði á ný veggbútar í sameiginlegu rými hússins að Efstaleiti 10, 12 og 14. Þá er þess jafnframt krafist að nefndin leggi fyrir byggingarfulltrúa í Reykjavík að hann sjái til þess að barborð og læstir smáskápar í hinu sameiginlega rými verið fjarlægðir.”
Málavextir: Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 8. desember 1994, kærði Sigurður Georgsson, hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd B, þá ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. nóvember 1994 að leyfa uppsetningu veggja og hurða við setustofu í húsinu nr. 12 við Efstaleiti, en setustofa þessi er í nágrenni við íbúð B. Þá var þess farið á leit við ráðuneytið að það legði fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að nefndin hlutaðist til um að umhverfi íbúðar B yrði komið í það horf sem samþykkt teikning sagði til um þegar B keypti íbúðina á árinu 1985. Var þess sérstaklega óskað að ráðuneytið tæki afstöðu til þess að settur hefði verið upp bar og vínskápar í sameign hússins án þess að tilskilinna leyfa hefði verið aflað.
Með úrskurði umhverfisráðuneytisins, dags. 1. mars 1995, var framangreint leyfi byggingarnefndar til uppsetningar á veggjum og hurðum fellt úr gildi, en ekki var tekin afstaða til þess hluta kærunnar er sneri að tilvist barinnréttinga. Í forsendum úrskurðarins segir um þetta atriði:
„Í framangreindri ákvörðun byggingarnefndar er ekki sérstaklega fjallað um bar- eða afgreiðsluborð og læsta smáskápa, enda hefur ekki verið sótt um leyfi fyrir þeim framkvæmdum til byggingarnefndar. Ráðuneytið getur því ekki, sbr. 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga, tekið afstöðu til þessara innréttinga að öðru leyti en því að það fellst ekki á þann skilning kæranda að þær séu á gangvegi sem hann eigi meira tilkall til en aðrir íbúar hússins.”
Hinn 27. mars 1995 endurupptók umhverfisráðuneytið mál þetta að kröfu húsfélagsins Efstaleiti 10, 12 og 14. Staðfesti ráðuneytið fyrri niðurstöðu sína í málinu með úrskurði, dags. 21. júlí 1995. Leitaði húsfélagið þá til dómstóla í því skyni að fá úrskurðina ógilta. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 2. júlí 1996 var kröfum húsfélagsins um ógildingu hafnað. Var málinu áfýjað til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og héraðsdómur með dómi uppkveðnum hinn 23. október 1997 (Hrd. 1997:2918).
Í framhaldi af úrskurðum þessum mun húsfélagið að Efstaleiti 10, 12 og 14 hafa látið fjarlægja þá veggi og hurðir, sem sett höfðu verið upp samkvæmt hinu ógilta byggingarleyfi, og mat byggingarfulltrúinn í Reykjavík þá breytingu nægjanlega með tilliti til úrskurðar umhverfisráðuneytisins.
Með bréfi, dags. 17. janúar 1996, fór lögmaður B þess á leit við byggingarfulltrúann í Reykjavík að embætti hans hlutaðist til um að veggbútum, er verið höfðu til staðar í húsnæðinu, áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust, yrði aftur komið fyrir á upphaflegum stað. Í bréfinu kemur fram það viðhorf að í úrskurði ráðuneytisins felist að koma verði hinu umdeilda rými í upprunalegt horf og því hafi húsfélagið ekki farið að úrskurðinum í öllu, svo sem haldið sé fram í úttekt byggingarfulltrúans. Erindi þessu var hafnað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. janúar 1996, með vísan til þess að með úrskurði ráðuneytisins hafi eingöngu verið lagt fyrir byggingarnefnd að hlutast til um að skilrúm yrðu fjarlægð, að gættum reglum um brunavarnir.
Með bréfi, dags. 12. febrúar 1996, sem ítrekað var 11. júní 1996, óskaði lögmaður B eftir endurupptöku ákvörðunar byggingarfulltrúa. Þeirri beiðni var hafnað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. ágúst 1996. Eftir nokkur frekari bréfaskipti milli lögmannsins og byggingaryfirvalda í Reykjavík ritaði lögmaðurinn umhverfisráðuneytinu bréf, dags. 23. september 1996. Þar var þess krafist, að ráðuneytið hlutaðist til um að byggingarnefnd Reykjavíkur framfylgdi fyrirmælum í áðurnefndum úrskurði ráðuneytisins. Er í erindinu ítarlega rakið það orðalag í fyrrgreindum úrskurði og aðrir málavextir sem lögmaðurinn taldi eiga að leiða til þess að byggingarfulltrúa væri skylt að ljá atbeina sinn til þess að framangreindir veggbútar yrðu reistir að nýju.
Ráðuneytið svaraði erindi þessu með svohljóðandi bréfi, dags. 13. nóvember 1996:
„Ráðuneytið vísar til bréfs yðar til ráðuneytisins, dags. 23. september 1996, þar sem þér krefjist þess fyrir hönd B, Efstaleiti 12, Reykjavík, að ráðuneytið hlutist til um að byggingarnefnd Reykjavíkur framfylgi í hvívetna fyrirmælum í úrskurðum ráðuneytisins, dags. 1. mars og 21. júlí 1995.
Ráðuneytið hefur ekki beinar lagaheimildir til að krefjast fullnustu á úrskurðunum né dóminum, en hefur ritað byggingarfulltrúa bréf þess efnis að framfylgt verði þeim fyrirmælum sem fram koma í úrskurðunum og dóminum (sjá afrit). Ef byggingarfulltrúi verður ekki við tilgreindum fyrirmælum ráðuneytisins verður ekki annað séð en að eini möguleiki umbjóðanda yðar sé að krefjast fullnustu dómsins með atbeina sýslumanns samkvæmt 11. kafla laga nr. 90/1989 um aðför.”
Jafnhliða þessu ritaði ráðuneytið byggingarfulltrúanum í Reykjavík bréf með því orðalagi að ráðuneytið „legði áherslu á” að byggingarfulltrúi framfylgdi fyrirmælum þeim, sem fram kæmu í úrskurðum ráðuneytisins og dómi héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfesti niðurstöðu úrskurðanna að efni til.
Með bréfi, dags. 30. janúar 1997, fór lögmaður B á ný þess á leit við byggingarfulltrúann í Reykjavík, að hann hlutaðist til um að umræddir veggbútar yrðu að nýju settir upp. Jafnframt var gerð sú krafa, að byggingarfulltrúi hlutaðist til um að fjarlægt yrði barborð ásamt læstum smáskápum, sem ekki væri gert ráð fyrir á gildandi uppdrætti að húsinu.
Erindi þessu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa hinn 17. mars 1997. Var kröfu varðandi uppsetningu veggbúta enn hafnað með vísan til fyrri afstöðu byggingarfulltrúa. Þeirri kröfu, er laut að barinnréttingu, var hafnað með þeim rökum að fyrirkomulag slíkra innréttinga félli utan valdsviðs byggingarnefndar og byggingarfulltrúa. Ofangreind niðurstaða var kærð af hálfu lögmanns B til umhverfisráðuneytisins með bréfi, dags. 8. apríl 1997. Sú kæra var dregin til baka með bréfi lögmannsins, dags. 23. apríl 1997, og jafnframt lögð fram ný kæra í hennar stað, dags. sama dag. Í síðarnefndri kæru segir m.a.:
„Kæra umbjóðanda míns til umhverfisráðuneytisins [frá 8. desember 1994] sem fyrr er nefnd, var í raun tvíþætt. Annars vegar var kærð ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur sem fyrr er greind, og felld var úr gildi. Hins vegar var eftirgreint kæruefni: „Ennfremur er þess krafist að ráðuneytið leggi fyrir byggingarnefnd að nefndin hlutist til um að umhverfi íbúðar umbjóðanda míns verði komið í það horf sem samþykkt teikning sagði til um þegar umbjóðandi minn keypti íbúðina 1985.
Kröfur sínar rökstyður umbjóðandi minn með því að hann hafi mátt gera ráð fyrir að samþykktum teikningum af nánasta umhverfi íbúðar hans í sameign yrði ekki breytt gegn vilja hans, honum til ama og baga, sbr. 11. og 14. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sbr. l. br. 47/1990. […]
Úrskurðir ráðuneytisins, sem fyrr er getið náðu ekki til þessa tiltekna kæruefnis þannig að fram komi í úrskurðarorði. Kann það að vera vegna þess að byggingarnefnd Reykjavíkur hafði ekki formlega áður fjallað um þetta tiltekna kæruefni.
Með bréfi dags. 17. janúar 1996 var þetta kæruefni þ.e. að setja upp veggstubba sem aðskilur gang og setustofu og að barinnréttingar og smáskápar á gangi fyrir framan íbúð umbjóðanda míns, verði fjarlægðir og ganginum komið í það horf sem gildandi uppdráttur gerir ráð fyrir, sent bygginganefnd Reykjavíkur til úrlausnar. Með svarbréfi byggingafulltrúans í Reykjavík dags. 23. janúar 1996 var kæruefni umbjóðanda míns hafnað á forsendum sem umbjóðandi minn telur rangar. Endanleg synjun bygginganefndar Reykjavíkur á að fjalla um umkvörtunarefni kæranda barst loks að undangengnum bréfaskiptum 17. mars sl.
Samþykktir aðaluppdrættir gera ráð fyrir smáverslun (kiosk) þar sem nú hefur verið reistur stærðar bar ásamt smáskápum til geymslu áfengis. Hvort tveggja, uppsetning þessara innréttinga svo og sú starfsemi sem tiltekinn hópur manna stundar á þessu svæði, brýtur alvarlega í bága við rétt umbjóðanda míns til sams konar aðgengis að sinni íbúð og aðrir íbúar njóta.
Þess er því krafist að umhverfisráðuneytið leggi fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að sjá til þess að umræddar innréttingar verði fjarlægðar og næsta nágrenni íbúðar umbjóðanda míns komið í það horf sem samþykktar teikningar kveða á um. […]”
Umhverfisráðuneytið vísaði erindi þessu frá hinn 14. júlí 1997 með svohljóðandi rökstuðningi:
„Vísað er til kærubréfa yðar, dags. 8. og 23. apríl sl. sem ítrekuð voru með bréfi yðar 2. júní sl. Ráðuneytið skilur kærubréf yðar frá 23. apríl sl. með aðstoð fylgigagna svo að þér séuð, á grundvelli þess að byggingarnefnd hafi ekki uppfyllt kröfur sem fólust í úrskurðum ráðuneytisins frá 1. mars og 21. júlí 1995, að krefjast þess að ráðuneytið leggi fyrir byggingarnefnd að setja upp veggstubba sem áður aðskildu gang og setustofu í Efstaleiti 10-14 og að fjarlægja barinnréttingar og smáskápa á gangi fyrir framan íbúð umbjóðanda yðar, B, en kröfu um það hafi byggingarfulltrúi endanlega hafnað með bréfi dags. 17. mars sl.
Af framangreindu tilefni er yður tjáð eftirfarandi:
Með úrskurði ráðuneytisins uppkveðnum 1.3.1995 var að kröfu yðar felld úr gildi ákvörðun byggingarnefndar frá 10.11.1994, um að samþykkja umsókn frá húsfélagi Breiðabliks og Páli Ásgeiri Tryggvasyni um leyfi til að setja upp veggi og hurðir við setustofu í húsinu nr. 12 á lóðinni nr. 10-14 við Efstaleiti og lagt fyrir nefndina að hlutast til um að skilrúmin verði fjarlægð.
Í niðurstöðu úrskurðarins er tekið fram að í framangreindri ákvörðun byggingarnefndar hafi ekki verið fjallað sérstaklega um bar- eða afgreiðsluborð og læsta smáskápa, enda ekki verið sótt um leyfi fyrir þeim framkvæmdum til byggingarnefndar og ráðuneytið geti því ekki, sbr. 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga, tekið afstöðu til þeirra innréttinga að öðru leyti en því að það fallist ekki á þann skilning kæranda að þær séu á gangvegi sem hann eigi meira tilkall til en aðrir íbúar hússins.
Yður hefði verið opin leið þegar eftir uppkvaðningu úrskurðarins að gera kröfu til byggingarnefndar um að bar- eða afgreiðsluborðið og læstu smáskáparnir yrði fjarlægt t.d. á þeim forsendum að þessar innréttingar hefðu verið settar upp án leyfis eða andstætt samþykktum uppdráttum og kæra þá viðbrögð byggingarnefndar við þeirri kröfu, ef þau hefðu ekki verið umbjóðanda yðar í vil, til ráðuneytisins sem hefði þá tekið á málinu efnislega.
Nú eru hins vegar kærufrestir til ráðuneytisins samkvæmt [8.] mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna umræddra innréttinga liðnir og verður því ekki skorið úr um réttmæti þeirra nema hjá dómstólum.
Með því að ráðuneytið hefur ekki eftir lögmæltum kæruleiðum tekið afstöðu til hvort veggstubbar sem áður skildu að setustofu og gang í húsinu nr. 12 við Efstaleiti skuli settir upp að nýju og til þess hvort uppsetning bar- eða afgreiðsluborðs og læstra smáskápa bryti í bága við ákvæði laga og reglugerða brestur það lagaheimild til að verða við kröfum yðar.”
Eins og áður er getið kvartaði lögmaður kæranda til umboðsmanns Alþingis vegna framangreindrar afstöðu ráðuneytisins. Mælist umboðsmaður til þess að málið verið endurupptekið ef eftir því verði leitað og hefur úrskurðarnefndin, að ósk kæranda, tekið málið til meðferðar í samræmi við niðurstöðu álits umboðsmanns Alþingis.
Málsrök kæranda: Í bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. maí 1999, rekur lögmaður kæranda málsástæður og lagarök kæranda. Kveður hann kröfur kæranda á því reistar að hann eigi skýlausan rétt til þess að húsnæðið, sem um ræði, sé í samræmi við samþykktar teikningar. Leyfi hafi ekki verið veitt til þess að fjarlægja veggbútana og heldur ekki til uppsetningar barborðsins og smáskápanna. Kærandi hafi, frá því hann flutti í húsið, verið andvígur umræddum breytingum og andmælt þeim, enda bitni þær umfram aðra á aðgengi hans og fjölskyldu hans að íbúð hans. Kærandi hafi fyrst kvartað til umhverfisráðuneytisins um þessi atriði með formlegum hætti með bréfi 8. desember 1994. Þá hafi hitt megindeilumálið, um ólögmæt skilrúm í umræddu rými, verið komið á þann rekspöl að ekki hafi verið talið rétt að auka þessum atriðum við þann málatilbúnað.
Kærandi vísar og til gagna málsins og álits umboðsmanns Alþingis máli sínu til stuðnings.
Málsrök húsfélagsins Breiðabliks: Með vísun til 13. greinar stjórnsýslulaga nr. 73/1993 hefur stjórn húsfélagins Breiðabliks verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum félagsins í málinu. Í greinargerð Ólafs Axelssonar hrl., f.h. húsfélagsins, dags. 23. desember 1999, er þess krafist að hafnað verði kröfum kæranda í málinu. Jafnframt gerir húsfélagið þá kröfu fyrir nefndinni að hún úrskurði að íbúð B, merkt 0104, verði staðsett í húsi nr. 14 við Efstaleiti. Að lokum er sett fram sú krafa að Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, aðalmaður í úrskurðarnefndinni, taki ekki þátt í meðferð málsins, þar sem hún hafi komið að því þegar það kom til úrskurðar hjá umhverfisráðuneytinu á sínum tíma.
Í greinargerð húsfélagsins er rakin forsaga málsins og málavextir frá sjónarhóli félagsins. Þykir ekki ástæða til þess að endurtaka það sem þar kemur fram enda hefur málavöxtum í aðalatriðum þegar verið lýst.
Aðalkrafa húsfélagsins, um að kröfum B fyrir nefndinni verð hafnað, er í greinargerðinni studd eftirfarandi rökum:
Hvað varðar kröfu kæranda um að veggbútar í sameiginlegu rými hússins verði reistir á ný er bent á að dómur Hæstaréttar hafi eingöngu snúist um skyldu til að fjarlægja hliðarveggi. Hafi þar engin afstaða verið tekin til þessara veggbúta, enda hafi ekkert verið fjallað um þá í málinu. Uppsetning eða niðurrif veggbúta, eins og þeirra sem hér um ræði, sé að mati húsfélagsins ekki háð byggingarleyfi. Um sé að ræða innréttingu í sameign sem eingöngu varðar íbúa hússins innbyrðis en ekki byggingaryfirvöld. Virðist byggingarnefnd Reykjavíkur sömu skoðunar. Brottnám þessara skilrúma hafi verið samþykkt á lögmætum fundi í húsfélaginu með 90% greiddra atkvæða. Þar hafi verið samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta „allar lagfæringar og breytingar á húsinu, sem hússtjórnin hafði látið framkvæma”. Á þessum tíma hafi gilt lög nr. 59/1976 um fjölbýlishús. Ljóst megi vera að samþykki aukins meirihluta íbúa hafi verið meira en fullnægjandi til að taka bindandi ákvörðun í efni sem þessu.
Hvað varðar kröfu kæranda um að barborð og smáskápar verði fjarlægðir er tekið fram í greinargerðinni að á samþykktum teikningum hafi verið gert ráð fyrir verslun með tilheyrandi innréttingum, þ.e. hillum og afgreiðsluborði, á þeim stað þar sem umræddu barborði og smáskápum hafi verið komið fyrir. Þar sem talið hafi verið að enginn grundvöllur væri fyrir rekstri verslunar á staðnum hafi verið komið þar fyrir samskonar innréttingum, þ.e. veggskáp og borði, en í öðrum tilgangi. Það megi fullyrða að innréttingarnar sem slíkar séu í samræmi við gildandi teikningar enda þótt notkunin á þeim hafi orðið önnur, þ.e. læstur geymsluskápur fyrir hverja íbúð og framreiðsluborð. Ástæða sé til að taka fram, að gefnu tilefni, að umrætt borð sé ekki barborð í skilningi þess orðs heldur framreiðsluborð.
Borðstofan, setustofan og rýmið þar á milli séu til afnota fyrir alla íbúa hússins. Sameiginleg borðhöld og spilakvöld séu haldin þarna reglulega yfir vetrarmánuðina. Þá noti íbúarnir einnig þessi húsakynni stöku sinnum undir einkasamkvæmi. Sé þetta allt í samræmi við þær húsreglur sem hafa gilt og í fullu samræmi við þann tilgang sem lagt hafi verið upp með við byggingu hússins. Krafa kæranda í þessum efnum eigi ekki við rök að styðjast og gengur reyndar gegn þeim tilgangi sem þetta sameiginlega rými hafi verið ætlað fyrir. Samþykkt hafi verið með yfirgnæfandi meirihluta á lögmætum húsfundi að þessar innréttingar yrðu settar upp. Þær hafi því aldrei getað brotið gegn þágildandi byggingarlöggjöf, lögum nr. 54/1978, né hinni síðari, lögum nr. 73/1997, (séu í samræmi við gildandi teikningar), né lögum um fjölbýlishús nr. 59/1976 eða fjöleignarhússlögum nr. 26/1994 (samþykktar af auknum meirihluta), enda þjóni innréttingarnar þeirri notkun, sem þetta sameiginlega húsnæði hafi verið ætlað til.
Kröfu húsfélagsins, um að úrskurðað verði að íbúð B nr. 0104 verði staðsett í húsi nr. 14 við Efstaleiti, kveður lögmaður félagsins vera setta fram vegna þess að húsfélagið sé þeirrar skoðunar að ágreiningsmálin við B eigi fyrst og fremst rót sína að rekja til þeirrar afstöðu hans að íbúðin tilheyri húsi nr. 12 en ekki nr.14. Telur lögmaðurinn að íbúðin hafi í raun átt að tilheyra húsinu nr. 14 og vitnar til gagna, sem hann telur styðja þá staðhæfingu.
Andmæli kæranda: Með tilliti til kröfugerðar húsfélagsins í málinu var kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum við sjónarmiðum og kröfum félagsins í málinu. Af hálfu kæranda er bent á að þeirri kröfu, að íbúð hans eigi að tilheyra húsinu nr. 14 við Efstaleiti, hafi þegar verið hafnað af dómstólum. Mál þetta sé endurupptökumál sem varði ágreining kæranda og byggingarfulltrúans í Reykjavík og sé vandséð að þörf hafi verið enn einnar greinargerðar húsfélagsins um ágreiningsefnið, enda hafi sjónarmið félagsins áður komið fram og verið hrakin. Við úrlausn málsins beri að líta til álits umboðsmanns Alþingis sem sé kæranda í hag.
Málsrök byggingarnefndar Reykjavíkur og byggingarfulltrúa: Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur og byggingarfulltrúans í Reykjavík er vísað til umsagna og bréfaskrifta vegna fyrri mála um þau álitaefni sem hér eru til úrlausnar. Er áréttað að aldrei hafi verið samþykktar teikningar er sýni veggbúta þá sem teknir voru niður og kærandi gerir kröfu til að settir verði upp að nýju. Það sé því algerlega út í hött að embætti byggingarfulltrúa krefjist uppsetningar þeirra. Þá er á það bent að á samþykktum aðaluppdráttum af húsinu séu sýndar í grunnmynd innréttingar í verslun og eldhúsi. Engar kröfur hafi verið um það í byggingarreglugerð nr. 177/1992 að fram væru lagðar snið- eða útlitsmyndir slíkra innréttinga og hafi það því ekki verið á valdsviði byggingaryfirvalda að hlutast til um fyrirkomulag einstakra naglfastra innréttinga, svo sem verslunarinnréttinga, eldhúsinnréttinga og fataskápa. Af þessum sökum beri byggingarfulltrúa engin skylda til að hafa afskipti af afgreiðsluborði og smáskápum þeim sem kærandi gerir kröfu til að verði fjarlægðir. Hvernig íbúar nýti umræddar innréttingar hljóti að vera mál húsfélagsins og geti byggingarfulltrúi engin afskipt haft af notkun húsnæðisins eða einstakra hluta þess. Því beri að hafna kröfum kæranda að því leyti sem þær snúa að byggingaryfirvöldum.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 10. janúar síðastliðinn. Auk nefndarmanna voru mættir framkvæmdastjóri nefndarinnar, byggingarfulltrúinn í Reykjavík og lögmenn kæranda og húsfélagsins Breiðabliks. Þá voru viðstaddir nokkrir íbúar hússins nr. 10-12-14 við Efstaleiti. Nefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi og gerðu aðilar grein fyrir sjónarmiðum sínum og veittu nefndinni ýmsar upplýsingar um staðreyndir málsins.
Gagnaöflun: Úrskurðarnefndin hefur aflað allra teikninga af hinu umdeilda svæði á 1. hæð að Efstaleiti 12 sem áritaðar hafa verið um samþykki byggingarnefndar Reykjavíkur og hefur lögmönnum málsaðila verið gefinn kostur á að kynna sér þessi nýju gögn.
Skipun varamanns: Að kröfu húsfélagsins Breiðabliks hefur Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur, aðalmaður í úrskurðarnefndinni, vikið sæti í málinu. Vegna tengsla við fyrirsvarsmann húsfélagsins Breiðabliks lýsti fastur varamaður hennar, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, héraðsdómslögmaður, sig vanhæfan til setu í nefndinni við meðferð málsins. Með bréfi, dags. 12. janúar 2000, skipaði umhverfisráðherra Ásgeir Magnússon, hæstaréttarlögmann, varamann ad hoc til þess að taka sæti Hólmfríðar Snæbjörnsdóttur í nefndinni og hefur hann frá þeim tíma tekið þátt í meðferð málsins.
Niðurstaða: Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 30 desember 1998 er ekki tekin afstaða til þess álitaefnis hvort umhverfisráðherra eða úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála beri að fjalla um endurupptöku málsins. Beinir umboðsmaður þeim tilmælum til umhverfis-ráðuneytisins að það sjái til þess að málið verði endurupptekið af þar til bærum aðila, komi fram ósk um það frá kæranda.
Eftir að beiðni um endurupptöku barst ráðuneytinu var málið framsent úrskurðarnefndinni til meðferðar. Tók úrskurðarnefndin til athugunar það álitaefni um lagaskil, sem vikið er að í áliti umboðsmanns Alþingis, en ekki er í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 tekin afstaða til þess hver skuli úrskurða sem æðra stjórnvald eftir gildistöku laganna um ákvarðanir byggingarnefnda, sem teknar voru fyrir það tímamark, eða um það hvert skuli beina óskum um endurupptöku mála, sem úrskurðuð voru af ráðuneytinu fyrir gildistöku laganna.
Í framkvæmd urðu lagaskilin með þeim hætti að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála tók til meðferðar kærur sem bárust eftir gildistöku laganna, hinn 1. janúar 1998, en ráðuneytið lauk meðferð þeirra kærumála sem þá voru þar til meðferðar. Þótti þessi framkvæmd best samrýmast ákvæðum laganna um kæruheimildir, sem kveða á um að skjóta megi tilgreindum ákvörðunum byggingarnefnda og sveitarstjórna til úrskurðarnefndarinnar án nokkurs fyrirvara um að máli skipti hvenær hin kærða ákvörðun kunni að hafa verið tekin. Við gildistöku laganna voru jafnframt felld úr gildi ákvæði eldri byggingarlaga um rétt til málskots til umhverfisráðherra og varð það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að eftir gildistöku laga nr. 73/1997 hefðu ekki verið í gildi heimildir til þess að skjóta ákvörðunum byggingarnefnda eða sveitarstjórna um byggingar- og skipulagsmál til ráðherra, að minnsta kosti ekki þeim ákvörðunum sem berum orðum hefðu verið felldar undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar við gildistöku laganna. Í ljósi þessa taldi úrskurðarnefndin sér skylt að taka afstöðu til beiðni kæranda um endurupptöku kærumáls hans og féllst nefndin á beiðni hans um endurupptöku málsins.
Úrskurðarnefndin er sammála því áliti umboðsmanns Alþingis að frávísun umhverfisráðherra á erindi kæranda frá 8. og 23. apríl 1997 hafi verið ólögmæt. Ber því að taka erindi kæranda til efnisúrlausnar í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis.
Kröfur kæranda í málinu, eins og þær eru settar fram í bréfi lögmanns hans til nefndarinnar, dags. 11. maí 1999, lúta að því að lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að hann hlutist til um að tilteknar breytingar verði gerðar á sameiginlegu rými á 1. hæð hússins nr. 10, 12 og 14 við Efstaleiti. Kröfurnar eru tvíþættar. Er þess annars vegar krafist að reistir verði á ný veggbútar, sem áður skildu að miðrými (gang) og blómaskála, og hins vegar að fjarlægt verði barborð og læstir smáskápar, sem komið hefur verið fyrir í hinu sameiginlega rými.
Veggbútar þeir, sem fyrri liður kröfugerðar kæranda tekur til, voru settir upp að tilhlutan hússtjórnar. Voru veggeiningar þessar timburrammar með tvöföldu gleri og rimlagardínum á milli glerjanna, sömu gerðar og veggir þeir, sem aðskilja blómaskála frá göngum og miðrými sameignarinnar. Einingar þessar lokuðu súlubilum á mörkum gangvegar og blómaskála, andspænis eldhúsi og borðstofu, og skildu blómaskálann frá gangveginum þannig að aðeins var opið inn í skálann um eitt súlubil.
Veggeiningar þessar voru teknar niður samhliða því að settir voru upp veggir og dyr þvert á gangveg um miðsvæði rýmisins, austan og vestan blómaskálans. Var miðrýmið ásamt blómaskála, verslunarkróki og borðstofu eftir þetta sýnt á samþykktri teikningu sem eitt samfellt og aflokað rými. Þurfti kærandi að ganga í gegn um þetta rými til þess að komast að og frá íbúð sinni frá inngangi hússins nr. 12, sem íbúðin tilheyrir. Eins og að framan er rakið var leyfi það sem byggingarnefnd Reykjavíkur hafði veitt fyrir uppsetningu þessara skilveggja fellt úr gildi með úrskurðum umhverfisráðherra hinn 1. mars og 21. júlí 1995 og var sú niðurstaða endanlega staðfest með dómi Hæstaréttar hinn 23. október 1997.
Í samræmi við úrskurði umhverfisráðherra lét húsfélagið fjarlægja þá veggi og hurðir sem sett höfðu verið upp samkvæmt hinu ógilta byggingarleyfi. Hins vegar voru veggbútar þeir, sem áður höfðu að mestu skilið að blómaskála og gangveg um miðrými hins sameiginlega svæðis, ekki settir upp að nýju. Gerði kærandi ítrekaðar tilraunir til þess að fá veggi þessa setta upp aftur og krafðist þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hlutaðist til um þá framkvæmd, en erindum hans um það var ítrekað hafnað. Virðist kærandi hafa túlkað úrskurði umhverfisráðherra um ógildingu samþykktar byggingarnefndar fyrir áðurnefndum skilveggjum á þann veg að færa bæri húsnæðið til þess horfs, sem það hefði verið í fyrir uppsetningu þeirra, en á þá túlkun var ekki fallist af hálfu byggingarfulltrúa. Óskaði kærandi atbeina ráðuneytisins í málinu og krafðist þess að ráðuneytið hlutaðist til um það að byggingarnefnd Reykjavíkur framfylgdi fyrirmælum í áðurnefndum úrskurði. Leiddi sú málaleitan ekki til niðurstöðu um þennan þátt málsins.
Veggbútar þeir, sem kærandi gerir kröfu til að verði settir upp að nýju, voru á sínum tíma reistir, án þess að til þess væri aflað leyfis byggingarnefndar. Eru veggbútar þessir, eins og þeim var fyrir komið, hvergi sýndir á samþykktum teikningum af umræddu húsrými, en á teikningunum eru sýndir þeir veggir, sem afmarka eiga blómaskálann frá öðru sameiginlegu rými. Fyrirkomulag veggjanna, eins og það er nú, er að mestu í samræmi við samþykktar teikningar. Þó hefur ekki verið komið fyrir blómakerjum, sem sýnd eru á teikningum við austur- og vesturenda blómaskálans og falla eiga að skilveggjum blómaskálans og annars rýmis. Þá hefur ekki verið settur upp stuttur veggbútur sem sýndur er á teikningum frá gluggapósti að súlu nærri austurenda blómaskálans, en veggbútur þessi hefur aldrei verið settur upp og verða kröfur kæranda ekki skildar svo að í þeim felist krafa um uppsetningu á þeim veggbút. Ekki verður annað séð en að samþykkt fyrirkomulag veggja þeirra, sem afmarka eiga blómaskálann frá öðru rými, hafi verið óbreytt frá því fyrstu teikningar voru samþykktar af húsinu hinn 26. ágúst 1982, en óverulegar breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi blómakerja á breytingateikningu, samþykktri 14. nóvember 1985.
Samkvæmt 1. mgr. 22. greinar byggingarlaga nr. 54/1978, með síðari breytingum, bar byggingarfulltrúa m.a. að annast eftirlit með því að hús og önnur mannvirki væru byggð í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglur. Jafnframt var byggingarfulltrúa, samkvæmt ákvæðum 26. og 27. greinar laganna, fengið nokkurt vald til þess að hlutast til um úrbætur, væri viðhaldi eða frágangi húss eða annars mannvirkis ábótavant. Með hliðsjón af ákvæðum þessum verður að telja að byggingarfulltrúanum í Reykjavík hafi verið óskylt að ljá því atbeina sinn að veggir sem aldrei höfðu verið samþykktir af byggingarnefnd og ekki voru sýndir á samþykktum teikningum yrðu settir upp, enda þótt þeir hefðu áður verið settir upp án tilskilinna leyfa. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að hlutast til um uppsetningu umræddra veggbúta.
Á þeim stað þar sem komið hefur verið fyrir „barborði” (afgreiðsluborði) og læstum smáskápum hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir lítilli verslun. Hefur afgreiðsluborð verið sýnt á samþykktum teikningum allt frá árinu 1985, á þeim stað sem svonefnt „barborð” er nú og innrétting þar sem nú eru smáskápar. Fyrir gildistöku byggingarreglugerðar nr. 441/1998 verður ekki séð að skylt hafi verið að gera séruppdrætti af naglföstum innréttingum, slíkum sem hér um ræðir. Umræddar innréttingar fara því ekki í bága við samþykkta uppdrætti af hinu sameiginlega rými. Þá samrýmist afgreiðsluborðið að fullu skilgreindri notkun rýmisins sem verslunarrýmis. Þykir ekki vera næg ástæða til þess að leggja fyrir byggingarfulltrúa að fjarlægja umræddar innréttingar þótt smáskáparnir séu læstir og ætlaðir til einkanota, enda felst ekki í því fyrirkomulagi verulegt frávik frá því sem ætla mátti um nýtingu hins sameiginlega rýmis á þessum stað.
Við mat á rétti kæranda til að fá innréttingar þessar fjarlægðar verður að líta til þess að á þessum stað í húsinu var gert ráð fyrir lítilli verslun samkvæmt þeim teikningum sem fyrir lágu þegar hann festi kaup á íbúð sinni. Þá lá jafnframt fyrir að á aðra hönd væri sameiginleg setustofa en á hina höndina eldhús og borðstofa, auk verslunarinnar, þegar gengið væri að og frá íbúð kæranda. Mátti kæranda vera ljóst að þeirri sameiginlegu starfsemi, sem þarna var fyrirhuguð, kynnu að fylgja nokkur óþægindi umfram það sem að jafnaði er á sameiginlegum göngum fjölbýlishúsa. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hann láti fjarlægja umræddar innréttingar.
Úrskurðarnefndin tekur fram að í niðurstöðu hennar er einungis tekin afstaða til þess hvort byggingarfulltrúa beri að ljá atbeina sinn til þeirra athafna sem krafist er í málinu. Nefndin hefur hins vegar enga afstöðu tekið til þess hvort húsfélaginu Breiðabliki kunni að vera skylt, á grundvelli fyrri samþykkta og að fengnu leyfi byggingarnefndar, að láta setja upp að nýju veggbúta þá sem teknir voru niður samhliða uppsetningu skilveggja, sem síðar reyndist hafa verið ólögmætt að reisa. Þá er því og ósvarað hvort notkun verslunarrýmis til annars en það er ætlað, fari í bága við rétt kæranda og ófrávíkjanlegar reglur um réttindi og skyldur eigenda eignarhluta í fjöleignarhúsum. Er það ekki á valdsviði nefndarinnar að skera úr réttarágreiningi aðila að þessu leyti.
Kröfu húsfélagsins Breiðabliks um að nefndin úrskurði að íbúð kæranda skuli tilheyra húsinu nr. 14 í stað nr. 12 við Efstaleiti ber að vísa frá úrskurðarnefndinni. Engin kæranleg ákvörðun lægra stjórnvalds liggur fyrir um kröfuna. Þá er krafan ekki meðal þeirra álitaefna, sem fyrri ákvarðanir umhverfisráðherra tóku til og getur hún því ekki komið til álita í endurupptökumáli þessu.
Dráttur hefur orðið á uppkvaðninu úrskurðar í máli þessu. Stafar þessi dráttur af önnum í úrskurðarnefndinni og töfum sem urðu vegna fjarveru forsvarsmanna húsfélagsins um tíma. Þá var nokkrum tíma varið til sáttaumleitana, sem ekki báru árangur.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að hann hlutist til um að reistir verði á ný veggbútar í sameiginlegu rými hússins að Efstaleiti 10, 12 og 14 og að hann sjái til þess að barborð og læstir smáskápar í sameiginlegu rými í húsinu verið fjarlægðir.
Kröfu húsfélagsins Breiðabliks um að nefndin úrskurði að íbúð kæranda skuli tilheyra húsinu nr. 14, í stað nr. 12, við Efstaleiti er vísað frá úrskurðarnefndinni.