Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24/1998 Mjölnisholt

Ár 1998, miðvikudaginn 23. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/1998, kæra eigenda og umráðamanna eignarhluta í Mjölnisholti 14, Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 31. október 1996 um að veita leyfi til að innrétta gistiheimili á 3. hæð í húsinu.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 15. júní 1998, sem móttekið var af nefndinni hinn 3. júlí sl., kæra Offsetfjölritun hf., M og Eldaskálinn, eigendur og umráðamenn eignarhluta í Mjölnisholti 14, Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 31. október 1996 um að samþykkja breytingar á húsnæði á 3. hæð hússins og heimila að innrétta þar gistiheimili.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 7. nóvember 1996.  Af kærunni verður ráðið að kært sé með vísun til kæruheimildar  4. mgr. 39. gr. l. 73/1997. Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn R um samþykki fyrir rekstri gistiheimilis að Mjölnisholti 14 verði hafnað.

Málavextir: 
Með umsókn um byggingarleyfi dags. 22. maí 1996 sótti R um leyfi til að nýta húsnæði á 3. hæð að Mjölnisholti 14 sem gistiheimili og setja brunastiga á norðurhlið hússins.  Samkvæmt teikningu var um að ræða austurenda 3. hæðar og kemur fram í umsókninni að umrætt húsnæði hafi um alllangt skeið verið nýtt sem gistiaðstaða.  Umsókninni fylgdi samþykki annarra eigenda eignarhluta í húsinu fyrir uppsetningu brunastiga.  Er tekið fram í samþykki eigenda að teikningar af stiganum fylgi bréfi þeirra.  Umsókn þessi var samþykkt á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 31. október 1996 og staðfest í borgarstjórn hinn 7. nóvember 1996.

Í maí 1997 leituðu ótilgreindir eigendur eignarhluta í Mjölnisholti 14 til Húseigendafélagsins með kvörtun vegna reksturs gististaðar á 3. hæð hússins.  Vegna þessarar kvörtunar ritaði Húseigendafélagið bréf til Lögreglustjórans í Reykjavík dags. 12. maí 1997 þar sem farið er fram á það f. h. þeirra aðila sem að kvörtuninni stóðu að upplýst verði hvort talið sé að um brot á ákvæðum laga nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði hafi verið að ræða og hvort gripið hafi verið til aðgerða vegna málsins eða hvort aðgerðir séu fyrirhugaðar.  Afrit af bréfi þessu var sent R.  Hinn 13. maí 1997 ritaði R bréf til byggingarfulltrúans í Reykjavík þar sem m. a. kemur fram að hún hafi skilað inn samþykktum teikningum til lögreglustjóraembættisins með umsókn um starfsleyfi.  Afrit af bréfi þessu var sent til lögreglustjóraembættisins og til Húseigendafélagsins.

Kærendur halda því fram að þeim hafi fyrst orðið kunnugt um tilvist hinnar kærðu ákvörðunar við heimsókn fulltrúa Eldvarnaeftirlits Reykjavíkur hinn 4. júní 1998.  Hafi þeim í framhaldi af eftirgrennslan um málið hjá byggingarfulltrúa verið bent á að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar.

Niðurstaða: 
Hin kærða ákvörðun í máli þessu var tekin á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 31. október 1996. Kærendur kvörtuðu yfir rekstri gistiheimilis í húsinu að Mjölnisholti 14 við Húseigendafélagið í maí 1997 og verður ekki annað ráðið af bréfi Húseigendafélagsins dags. 12. maí 1997 en að kvörtunin hafi verið á því byggð að ekki væri leyfi fyrir rekstri gistiheimilis í húsinu skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði.  Í bréfi R til byggingarfulltrúa dags. 13. júní 1997, sem Húseigendafélaginu var sent afrit af, kemur fram að R byggi á samþykktum teikningum við umsókn um starfsleyfi.  Samkvæmt þessu telur úrskurðarnefndin að við þá athugun sem Húseigendafélagið gerði á málinu fyrir kærendur í maí og júní 1997 hafi orðið ljóst að stuðst var við byggingarleyfi.  Verður að ætla að kærendum hafi mátt vera kunnugt um þær staðreyndir sem athugun Húseigendafélagsins hafði leitt í ljós, m. a. að byggingarleyfi hefði verið gefið út.  Var kærendum í lófa lagið að kynna sér hver afstaða byggingarnefndar væri til nýtingar umrædds húsnæðis sem gistiheimilis svo og hvaða leyfi byggingaryfirvöld hefðu veitt fyrir slíkri nýtingu.  Áttu kærendur þess kost að kæra ákvörðun byggingarnefndar til umhverfisráðherra með stoð í 8. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 með síðari breytingum.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærendur geti ekki nú krafist úrlausnar um gildi hinnar kærðu ákvörðunar rúmu ári eftir að þeim mátti vera kunnugt um að byggingarleyfi hefði verið veitt.  Ber því með vísun til 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sbr. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  Vegna þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til þess að rekja umsagnir eða málsrök um efni máls en í máli þessu var leitað umsagna Skipulagsstofnunar og byggingarnefndar Reykjavíkur auk þess sem greinargerð var skilað í málinu af hálfu R.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um að ógilt verði samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 31. október 1996 fyrir breytingum á austurenda 3. hæðar að Mjölnisholti 14, Reykjavík er vísað frá úrskurðarnefndinni.